Ákvörðun um nýbyggingar á Alþingisreitnum er á forræði Alþingis en ekki forsætisráðuneytisins eða ríkisstjórnarinnar. Það er forsætisnefnd sem hefur tekið ákvarðanir um þessi mál fyrir hönd þingsins. Þetta staðfestir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við Kjarnann.
Nefndin hefur þegar tekið fyrstu skrefin í átt að byggingu skrifstofubyggingar á Alþingisreitnum svokallaða. Það er gert með því að láta vinna frumathugun vegna fyrirhugaðrar byggingar í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins. Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, staðfestir einnig í svari við fyrirspurn Kjarnans að slík frumathugun sé hafin.
Í frumathuguninni er ekkert kveðið á um að taka skuli tillit til teikninga Guðjóns Samúelssonar, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ítrekað lýst yfir að sé hans vilji. Í fjárlögum fyrir næsta ár er tekið fram að „við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreignum fullveldisárið 1918, sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins.“
Skýrt ferli í opinberum framkvæmdum - forsætisráðuneyti kemur hvergi nærri
Sérstök lög gilda um skipan opinberra framkvæmda á Íslandi, og nýbygging við Alþingi fellur undir þau lög. Samkvæmt þessum lögum „skiptast opinberar framkvæmdir í fjóra skýrt afmarkaða áfanga sem þarf að framkvæma og ljúka og leggja að því búnu fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir (SOF) og fjármálaráðuneyti til samþykktar áður en heimilt er að hefja undirbúning næsta áfanga,“ segir Halldóra í svari til Kjarnans um ferlið sem á sér stað.
Frumathugunin sem nú á sér stað er fyrsti áfanginn. Svo kemur áætlanagerð, verkleg framkvæmd og skilamat.
Forsætisráðuneytið kemur hvergi nærri þessu ferli, heldur er það fjármálaráðuneytið sem fer með framkvæmd laga og yfirstjórn opinberra framkvæmda. Fjármálaráðuneyti til ráðgjafar er svo fyrrnefnd samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, en í henni sitja formaður fjárlaganefndar Alþingis eða fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Ekkert verið rætt um að skilyrða við Guðjón Samúelsson
Sem fyrr segir kemur ekkert fram um það í frumathugunarvinnunni að taka eigi tillit til teikninga Guðjóns Samúelssonar. Einar segir í samtali við Kjarnann að slíkt myndi ekki koma til athugunar fyrr en á seinni stigum málsins.
Næsta skref að lokinni frumathugun væri að ráðast í hönnunarsamkeppni, og Einar segir að í allri vinnu forsætisnefndar hafi verið gert ráð fyrir því að slík keppni yrði haldin. Spurður um það hvort það hafi komið til álita að skilyrða slíka keppni með einhverjum hætti þannig að taka þyrfti tillit til teikninga Guðjóns segir Einar að forsætisnefnd hafi ekki rætt það.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fulltrúi flokksins í forsætisnefnd, sagði fyrir jólin að hann vissi ekki betur en að í forsætisnefnd sé „fullkomin samstaða“ um að hafa að engu skilyrðinguna um Guðjón Samúelsson, sem sett var inn í fjárlagafrumvarpið við þriðju umræðu.
„Það er bara algerlega á hreinu að í forsætisnefnd hefur aldrei verið einu sinni til umræðu að skilyrða þá hönnunarsamkeppni við eitthvað af þessu tagi enda ekki til siðs. Þar verða venjulegir skilmálar á ferð um að gæta að umhverfinu og aðstæðum á byggingarreitnum og annað ekki. Það verður ekki talað um næstum 100 ára gamlar skissur frá Guðjóni Samúelssyni í því sambandi, með fullri virðingu þó fyrir honum, enda voru þau áform barn síns tíma. Það hús átti að rísa á allt öðrum stað og tilheyrir næstum að segja annarri öld og bókstaflega líka,“ sagði hann.
„Skemmtilegt innlegg“ segir Bjarni, en ekki endanleg niðurstaða
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var einnig spurður um „áhugamál Sigmundar Davíðs“ í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir jólin, og um byggingar á lóð þingsins. „Bygging Alþingis er á forræði þingsins og það á margt eftir að gerast áður en það hús rís. Eigum við ekki að segja að þetta sé skemmtilegt innlegg í þá umræðu, að hafa þetta með til hliðsjónar hvort þessar teikningar geti orðið að gagni,“ sagði hann um málið. Hann sagði aðalmálið að reisa nýja byggingu. Forsætisráðherra hefði komið með athyglisvert innlegg og frumkvæði með teikningu Guðjóns, en „það hefur ekki verið gefið grænt ljós á að það verði endanleg niðurstaða.“
Tilefnið 100 ára afmæli fullveldis
Sú hugmynd að nota 100 ára gamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar við byggingu skrifstofuhúsnæðis fyrir Alþingi var fyrst viðruð opinberlega af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í vor. Þann 1. apríl greindi Fréttablaðið frá því að ríkisstjórnin hefði afgreitt þingsályktunartillögu um að byggð yrði viðbygging við Alþingi eftir hönnun Guðjóns að tillögu forsætisráðherrans. Tilefnið var hvernig minnast eigi aldarafmælis fullveldis Íslands, sem verður árið 2018.
Málið vakti strax gríðarlega athygli og héldu margir að um aprílgabb Fréttablaðsins væri að ræða. Svo var ekki.
Þingsályktunartillagan er þó ekki enn komin inn í þingið. Í fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson lagði fram í haust var gert ráð fyrir 100 milljóna króna framlagi í stofnkostnað vegna framkvæmda á Alþingisreit. Fyrir þriðju umræðu kom inn breytingartillaga frá meirihluta fjárlaganefndar þar sem lagt var til að framlagið yrði 75 milljónir og að teikningar Guðjóns yrðu hafðar til hliðsjónar. Fram að því hafði ekki verið rætt um slíka skilyrðingu.