Róttækar breytingar, umskipti, krefjandi og tímabær verkefni. Þetta verður erfitt og eflaust róstursamt ár; en það eru bjartir tímar framundan. Svona eru skilaboð ráðamanna frönsku þjóðarinnar fyrir árið 2016. Ásýnd og skipulag Parísar tekur miklum stakkaskiptum.
Neyðarástand enn í gildi
Blóðugustu ofbeldisverk síðan í seinni heimstyrjöldinni settu mark sitt á árið sem var að líða. Alls létust 147 manns í hryðjuverkaárásum, lýst var yfir neyðarástandi sem hafði ekki gerst síðan í Alsír-stríðinu á sjötta áratug síðustu aldar. Framundan eru róttækar stjórnarskrárbreytingar til þess að framlengja þau lög. Með því er nánast ekkert eftirlit haft með lögreglunni og leyniþjónustunni í að fylgjast með og handtaka almenna borgara.
Uppi eru hugmyndir að banna hreinlega opið, þráðlaust net og öllum gert skylt að nafngreina sig skilmerkilega á netinu til þess að koma í veg fyrir undirbúning hryðjuverka.
Það er svo megintakmark stjórnvalda á árinu að gera út af við DAESH samtökin með sameiginlegu heimsátaki. Það er hins vegar mikið álitamál hvort auknar ársásir í Sýrlandi og Írak, aukið eftirlit með almenningi skili sér í öruggari framtíð.
Stærri og öflugari París
Frakkar líta á París sem meira og annað en sína höfuðborg – hún er höfuðborg heims, vestrænnar menningar, frjálsrar hugsunar, lýðræðis. En samt er enginn sammála um hvernig París eigi að vera og líta út. Í þúsund ár hafa Parísarbúar rifist um skipulagsmál. Þegar Haussman tók París í gegn og bjó til fyrstu nútímaborgina kom þessi endanlega mynd á hana; þessi rjómaguli, sex hæða, art-nouveau stíll. Eftir það mátti engu breyta í París. Enginn má mála húsið sitt grænt eða breyta svölunum, laga gluggakarmana. Það er hreinlega bannað með lögum. Hún er eins og hún er. En París má samt ekki vera Róm, hún má ekki vera safn um sjálfa sig; breytast smátt og smátt í fornminjar. Hún verður að þróast stöðugt og endurnýjast. Þess vegna fékk Mitterand að byggja glerpýramídann sinn fyrir framan Louvre-safnið. Hann var tákn um framtíðina í fortíðinni. Eða fortíðina í framtíðinni. Sem er kannski hinn eiginlegi andi Parísar.
Um áramótin tók í gildi nýtt borgarskipulag. Borgarmörkin hafa verið stækkuð og víkkuð út og ná nú langt út fyrir Périphérique hringbrautina. París hefur stækkað! Úthverfin eru því orðin partur af borginni sem nær nú yfir 814 ferkílómetra og telur um sjö milljónir íbúa. Áform erum um að stækka lestarkerfið og efla almenningssamgöngur. Draga skal úr mengun með fjölgun hjóla- og göngustíga, á meðan bílagötum verður fækkað.
París ætlar sér að verða mesta hjólreiðaborg Evrópu innan nokkurra ára. Franskir atvinnurekendur eru hvattir til þess að verðlauna starfsmenn sérstaklega sem mæta á hjóli í vinnuna og greiða því fyrir hvern kílómetra sem það hjólar. Þannig geta starfsmenn aukið tekjur sínar og sömuleiðis bætt heilsuna, fyrirtækið sparar bílastæðakostnað og dregið er úr mengun í borginni. Allra hagur.
Landakortið breytist
Um áramótin tók í gildi ný stjórnskipan í Frakklandi. Héröð hafa verið sameinuð og þeim fækkað úr 22 í 13. Einfalda á stjórnkerfið og gera það hagkvæmara og skilvirkara. Umtalsverðar breytingar á skattkerfinu taka sömuleiðis gildi. Það skal verða einfaldara og sanngjarnara. Meira verður litið til tekna og beinnar afkomu fólks og fyrirtækja og dregið verður úr beinum nefskatti og ýmiskonar gjöldum. Hið nýja skattkerfið er sagt vera í takt við það breska: „pay as you earn“.
Airbnb skattskyld og plastpokar bannaðir
Deilihagkerfið, og allir þeir sem stunda viðskipti í gegnum Airbnb, Drivy og BlaBlacar og sambærilegar síður, er nú gert skylt að skila uppgjöri til skattstjóra. Þessi starfsemi verður því gerð skattskyld á árinu. Mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld að þessi starfsemi sé rekin á jafnréttisgrundvelli við aðra sambærilega starfsemi og greiði því samskonar opinber gjöld. Ríkissjóður býst auðvitað við stórauknum tekjum með þessum aðgerðum.
Í kjölfar árangursríkrar loftlagsráðstefnu í París verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til þess að draga úr mengun. Draga skal úr notkun plastpoka og hreinlega banna þá í matvöruverslunum. Matvæli eiga að vera pökkuð inn í efni sem hægt er að endurvinna. Á næsta ári, 2017, verður svo bannað að pakka ávöxtum og grænmeti í plast.
Horft til Kína
Frönsk stjórnvöld hafa gert hosur sínar grænar fyrir Kínverjum og gert mikið til þess að efla samskipti ríkjanna. Frakkar búast við auknum fjölda ferðamanna frá Kína og ráðgert er að kínverskir lögreglumenn muni áfram aðstoða lögregluna í París næstkomandi sumar til þess að bæta þjónustu við þennan mikilvæga ferðamannahóp. Kínverjar kaupa mikið af frönskum lúxus- og merkjavarningi og hafa gert mikilvægar fjárfestingar í Frakklandi. Þetta daður við Kínverja er ekki síst gert til þess að hrista efnahagslífið aftur í gang.
EM 2016
Mikil eftirvænting ríkir fyrir Evrópukeppni landsliða í fótbolta enda er búist við mörg hundruð þúsund ferðamönnum í kringum þann viðburð. Það er mikil áskorun fyrir Frakkland að halda þessa keppni í kjölfar hryðjuverkaárása og neyðarástands og tryggja öryggi allra gesta og keppenda næstkomandi sumar.
Franska landsliðið er síðan mikil ráðgáta. Það gæti unnið eða tapað öllum leikjum. Stundum er það brilljant – og stundum getur það ekki neitt. Það er ungt og spennandi; lykilmenn eins og Benzema eru farnir á brott eftir kynlífshneyksli og ýmis vandræði. Það kemur í ljós hvort að nýja kynslóðin endurtaki leikinn frá 1998 þegar Frakkar unnu HM á heimavelli.
Bráðum kemur betri tíð
Í ræðum og ritum virðist forystufólk Frakklands vera afar bjartsýnt þessi áramót þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífinu, atvinnuleysi, hryðjuverk og uppgang öfgaflokka. Það talar um unga og duglega þjóð, öflugt fjölmenningarsamfélag og hagvöxt. Gildi lýðveldisins, frelsi, jafnrétti og bræðralag standa enn traustum fótum í þjóðlífinu. Iðnaður, framleiðsla og ferðamennska er í vexti og atvinnuleysi fer þrátt fyrir allt minnkandi. Frakkland mun enn fremur leika lykilhlutverk í milliríkjadeilum, alþjóðasamningum og alþjóðlegu samstarfi á komandi ári.