Drottningarmaður dregur sig í hlé

danmork drottningarmaður henrik
Auglýsing

Eitt helsta umræðu­efni Dana nú um ára­mótin var sú ákvörðun Hin­riks drottn­ing­ar­manns að draga sig til baka, minnka við sig vinnu. Fara á eft­ir­laun eins og Mar­grét Þór­hildur Dana­drottn­ing orð­aði það þegar hún til­kynnti þetta í nýársávarpi sínu að kvöldi gaml­árs­dags. 

Mar­grét Þór­hildur hefur iðu­lega sagt að starf danska þjóð­höfð­ingj­ans sé lífs­tíð­ar­starf, þar sé ekk­ert sem heiti eft­ir­launa­ald­ur. Sjálf verður drottn­ingin 76 ára í apríl og hef­ur, eftir nokkra daga, verið þjóð­höfð­ingi lands­ins í 44 ár. Henri de Mon­peza, sem Danir nefna Hen­rik en við Íslend­ingar Hin­rik, er sex árum eldri en Mar­grét Þór­hild­ur, fæddur 11. júní 1934. Þau kynnt­ust í veislu í London árið 1964, Hin­rik var þá starfs­maður franska sendi­ráðs­ins þar í borg. 

Hann hafði tveimur árum fyrr lokið her­skyldu sinni og magister­prófi í frönskum bók­menntum og asískum tungu­mál­um. Hin­rik hafði mik­inn áhuga á listum og það hafði sessu­naut­ur­inn í fyrr­nefndri veislu líka og því eng­inn skortur á umræðu­efni. Hin­rik sagði síðar að sér hefði aðeins brugðið þegar sessu­naut­ur­inn sagð­ist vera prinsessa og rík­is­arfi Dan­merk­ur. Þau hitt­ust svo aftur skömmu síð­ar, líka í veislu, og „uppúr því hæfði Amor okkur með örvum sín­um“ sagði Hin­rik síðar í við­tali.  

Auglýsing

Hann er franskur  

Þegar sam­band rík­is­arfans og franska diplómatans spurð­ist út gerðu dönsku blöðin frétta­menn út af örk­inni til að afla upp­lýs­inga og margar greinar og myndir birt­ust í blöð­unum um þennan mann. D­anir voru mjög for­vitn­ir. Ekki verður með sanni sagt að all­ir hafi orðið yfir sig hrifnir af manns­efn­inu og það tók dönsku þjóð­ina reyndar mörg ár að taka Hin­rik í sátt. Þótt hann sé mik­ill tungu­mála­maður og tali meðal ann­ars bæði kín­versku og víetnömsku var hann mjög lengi að ná tökum á dönsk­unni og talar enn í dag með greini­legum frönskum hreim. Hann hefur síðar sagt að hann hefði átt að leggja meiri áherslu á dönsk­una í upp­hafi. Svo er hann Frakki, sögðu sum­ir, örugg­lega snobb, vill helst ost og rauð­vín og svo á hann það til að ganga í rauðum bux­um.  

Þau Mar­grét Þór­hildur og Hin­rik voru gefin saman í Hólms­ins kirkju í Kaup­manna­höfn 10. júní 1967. Hin­rik sem var eftir það kall­aður prins sagði í við­tölum að sér væri mjög vel ljóst hlut­skipti sitt sem maka rík­is­arfans og hann sætti sig fylli­lega við að ganga alltaf tveimur skrefum á eftir henni, eins og hann orð­aði það. Þau Mar­grét Þór­hildur og Hin­rik eign­uð­ust á næstu tveimur árum eftir að þau gengu í hjóna­band tvo syni, krón­prins­inn Frið­rik 1968 og Jóakim 1969.  

Mar­grét Þór­hildur varð þjóð­höfð­ingi Dana 14. jan­úar 1972, en faðir hennar Frið­rik IX lést kvöldið áður. Þessi breyt­ing varð til þess að þau hjónin höfðu í mörg horn að líta og Hin­rik hefur síðar sagt að hann sakni þess að hafa ekki getað varið meiri tíma med drengj­unum meðan þeir voru að vaxa úr grasi. Það reynir hann nú að bæta upp með barna­börn­unum og segir að sér líki afa­hlut­verkið vel, syn­irnir eiga fjögur börn hvor.

Prins­gemal - drott­ing­ar­mað­ur   

Eftir að barna­börnin komu til sög­unnar var prinsa- og prinsessu­kraða­kið á Amali­en­borg orðið svo mikið að ákveðið var að Hin­rik prins fengi tit­il­inn prins­gemal, drottn­ing­ar­mað­ur. Ekstra blaðið sagði frá því fyrir nokkrum árum að drottn­ing­ar­mað­ur­inn hefði í við­tali við franskt blað lýst óánægju með að vera ekki titl­aður kóng­ur. Hin­rik hefur síðan stundum verið spurður um þetta og hefur þá svarað því til að það sé ein­kenni­legur siður (einsog hann kemst að orði) að kona sem gift er þjóð­höfð­ingja sé drottn­ing en maður sem giftur er þjóð­höfð­ingja sé ekki kall­aður kóng­ur. Þetta sé ekki jafn­rétt­i. 

Vín­bóndi

Þrátt fyrir skyldur og kvaðir sem fylgja eig­in­manni þjóð­höfð­inga hefur Hin­rik drottn­ing­ar­maður haft mörg önnur járn í eld­in­um.  

Árið 1974 keyptu drottn­ingin og hann vín­bú­garð­inn Chateau de Cayx skammt frá æsku­heim­ili Hin­riks í Suð­ur- Frakk­landi. Þegar hjónin eign­uð­ust búgarð­inn þótti vínið frá Cayx ekk­ert til að hrópa húrra fyrir en Hin­rik setti sér það mark­mið að fram­leiða gæða­vín og á síð­ustu árum hefur það unnið til fjölda verð­launa og við­ur­kenn­inga. Drottn­ingin hefur ekki komið nálægt fram­leiðsl­unni en iðu­lega dvalið þar á sumr­in. Á síð­asta ári ákvað Hin­rik að láta þrúgu­rækt­ina og fram­leiðsl­una í ann­arra hendur en þau hjónin eiga áfram búgarð­inn. Vínið frá Cayx mun eftir sem áður vera auð­kennt með kór­ónu og á flösku­mið­ana letrað „vin du prince de Dane­mark.“  

Hin­rik hefur allt frá æsku feng­ist við ljóða­gerð og sent frá sér átta ljóða­bæk­ur, sumar þeirra hefur hann sjálfur mynd­skreytt og einnig notið aðstoðar drottn­ing­ar, sem er afkasta­mik­ill mynd­list­ar­mað­ur. 

Árum saman sótti hann tíma í högg­mynda­gerð á Kon­ung­lega lista­há­skól­anum og eftir hann er til fjöld­inn allur af brons­verk­um.  Í hitteð­fyrra efndi AROS lista­safnið í Árósum til stórrar sýn­ingar á verkum drottn­ingar og Hin­riks.  Sýn­ing­in, sem tæp­lega 300 þús­und manns sáu vakti mikla athygli.

Drottn­ing­ar­mað­ur­inn er áhuga­samur um mat og mat­ar­gerð, hann hef­ur, einn og í sam­vinnu við aðra, skrifað þrjár mat­reiðslu­bæk­ur, og margoft komið fram í mat­ar­gerð­ar­þáttum í sjón­varpi. Þar nýtur kímni­gáfa hans sín vel, og öllum sem til þekkja ber saman um að hann sé mik­ill húmoristi. Ekki má gleyma því í þess­ari upp­taln­ingu að Hin­rik er mik­ill áhuga­maður um tón­list og prýði­legur píanó­leik­ari. Hann hefur og samið nokkur tón­verk. 

Eigin ákvörðun

Þegar Mar­grét Þór­hildur skýrði frá því að eig­in­mað­ur­inn færi nú á eft­ir­laun tók hún fram að þá ákvörðun hefði hann sjálfur tekið og hún virti hana að sjálf­sögðu. Drottn­ingin sagði jafn­framt að Hin­rik yrði sér áfram sú ómet­an­lega stoð og stytta sem hann hefði verið í ára­tugi og tæki áfram þátt í mörgum opin­berum athöfnum og heim­sókn­um. Hann væri semsé að minnka við sig en ekki að hætta.Kom á óvart   

Til­kynn­ing drottn­ingar vakti mikla athygli og hennar getið í fjöl­miðlum víða um heim. Dönsku blöðin fjöll­uðu ítar­lega um þessa ákvörðun Hin­riks og sér­fræð­ingar og áhuga­fólk um fjöl­skyld­una á Amali­en­borg hafa rætt málið í útvarpi. Allir virð­ast sam­mála um að ákvörðun Hin­riks sé skilj­an­leg, mað­ur­inn sé jú orð­inn nokkuð við ald­ur. Lögin um eft­ir­launa­aldur (67 ár) gildi ekki um kónga­fólkið og því verði það sjálft að meta og ákveða hvenær tími sé til kom­inn að hægja á. Mikla athygli vakti að Hin­rik tók ekki þátt í opin­berum hátíða­höldum vegna 75 ára afmælis Mar­grétar Þór­hildar í apríl síð­ast­liðn­um, hún til­kynnti að hann hefði fengið slæma inflú­ensu. Nokkrum dögum síðar sást hann hins­vegar í Fen­eyjum og danska Ekstra blaðið gat þess sér­stak­lega að hann hefði þar spíg­sporað í rauðum bux­um. 

Eng­inn er spá­maður í sínu föð­ur­landi segir mál­tæk­ið.  Þetta á að nokkru leyti við Frakk­ann Henri de Mon­peza sem gerði Dan­mörku að sínu föð­ur­landi. Danir voru lengi að taka hann í sátt, það tók þá ára­tugi að sætta sig við að drottn­ing­ar­mað­ur­inn er ekki Dani, hann er á margan hátt öðru­vísi en makar margra ann­arra þjóð­höfð­inga. Iðu­lega hefur verið gert grín að hinum franska hreimi sem ein­kennir fram­burð Hin­riks. Einn við­mæl­enda dag­blaðs­ins Politi­ken sagði að Danir ættu kannski að líta sér nær í þeim efn­um, þeir væru nú ekki slíkir tungu­mála­snill­ing­ar. Og bætti svo við að það þyrfti að minnsta kosti ekki að texta það sem Hin­rik segði í sjón­varpi, það væri meira en hægt væri að segja um marga danska leik­ara, jafn­vel í vin­sælum sjón­varps­þátt­um.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Trump stígur í vænginn við Færeyinga
Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á aukinni samvinnu við Færeyinga. Þótt í orði kveðnu snúist sá áhugi ekki um hernaðarsamvinnu dylst engum hvað að baki býr.
Kjarninn 12. júlí 2020
Fé á leið til slátrunar.
Bændum á Íslandi heimilt að aflífa dýr utan sláturhúsa með ýmsum aðferðum
Yrði sláturhús á Íslandi óstarfhæft vegna hópsmits yrði fyrsti kosturinn sá að senda dýr til slátrunar í annað sláturhús. Ef aflífa þarf dýr utan sláturhúsa mega bændur beita til þess ýmsum aðferðum, m.a. gösun, höfuðhöggi og pinnabyssu.
Kjarninn 12. júlí 2020
Þriðjungsfjölgun í Siðmennt á rúmu einu og hálfu ári
Af trúfélögum bætti Stofnun múslima á Íslandi við sig hlutfallslega flestum meðlimum á síðustu mánuðum. Meðlimum þjóðkirkjunnar heldur áfram að fækka en hlutfallslega var mesta fækkunin hjá Zúistum.
Kjarninn 11. júlí 2020
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðis.
„Við þurfum fleiri ferðamenn“
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að fleiri ferðamenn komi til Íslands sem fyrst og vill breytingar á fyrirkomulagi skimana á Keflavíkurflugvelli.
Kjarninn 11. júlí 2020
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Frekju og yfirgangi Ísraels engin takmörk sett
Kjarninn 11. júlí 2020
Sjávarútvegurinn hefur bætt við sig störfum á meðan hart hefur verið í ári hjá ferðaþjónustunni.
Ferðaþjónustan skreppur saman en sjávarútvegurinn er í sókn
Rúmlega helmingi færri störfuðu í ferðaþjónustu á síðasta ársfjórðungi miðað við árið á undan. Störfum í sjávarútvegi hefur hins vegar fjölgað um helming.
Kjarninn 11. júlí 2020
„Þegar dætrum mínum var ógnað, náðu þeir mér“
Þegar Guðrún Jónsdóttir gekk inn í Kvennaathvarfið árið 1988 til að taka sína fyrstu vakt mætti henni kasólétt kona með glóðarauga. Hún hafði gengið inn í heim sem hafði fram til þessa verið henni gjörsamlega hulinn. „Ég grét í heilan sólarhring.“
Kjarninn 11. júlí 2020
Eldishús með Aviary Pro 10 varpkerfi frá Hellmann sambærilegt kerfum sem verða í notkun að Vallá.
Stjörnuegg vill fjölga fuglum í allt að 95 þúsund að Vallá
Fyrirtækið Stjörnuegg hf. áformar breytingar á eldishúsum sínum að Vallá á Kjalarnesi sem yrðu til þess að hægt væri að koma þar fyrir 95 þúsund fuglum í stað 50 þúsund nú. Slíkum fjölda fylgja um 3.500 tonn af hænsnaskít á ári.
Kjarninn 11. júlí 2020
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None