Hópur vopnaðra einstaklinga hefur frá því á laugardagskvöld hafist við í þjóðgarðsbyggingu á afskekktum stað í Oregon í Bandaríkjunum. Hópurinn kennir sig sjálfur við enska orðið militia, sem á íslensku gæti þýðst sem þjóðvarðalið eða varalið. Um hvað snýst málið og hvaða þýðingu hafa þjóðvarðalið í Bandaríkjunum?
Grunnurinn að málinu
Hópurinn tók bygginguna í Oregon yfir og hefur heitið því að hafast þar áfram við til að mótmæla framferði stjórnvalda gagnvart feðgum á svæðinu. Feðgarnir Dwight og Steven Hammond voru dæmdir í fangelsi fyrir íkveikju á landi hins opinbera árið 2001. Þeir voru dæmdir til stuttrar fangelsisvistar en svo dæmdir á ný til lengri vistar, og þeir gáfu sig fram við yfirvöld í gær til að sitja af sér dóminn. Þeir segjast reyndar saklausir og að þeir hafi kveikt eld til að stöðva útbreiðslu illgresis og koma í veg fyrir að skógareldar brytust út. Saksóknarar héldu því hins vegar fram að þeir hefðu verið að fela sönnunargögn um veiðiþjófnað.
Upphaflega var málinu mótmælt friðsamlega en í kjölfarið fór þessi litli hópur inn í bygginguna og tók hana yfir. Ammon Bundy, einn þeirra sem þarna hefst við, segir að stjórnvöld hafi brotið margvísleg réttindi feðganna. Þeir hafi fyrir það fyrsta ekki gert neitt af sér, og í öðru lagi hafi þeir þegar setið í fangelsi vegna málsins. Hópurinn telur líka að ríkið eigi að láta landið sem um ræðir í hendur einkaaðila á svæðinu, og þá komum við að stærra máli.
Hópar gegn stjórnvöldum
Hópar af þessu tagi eiga það nefnilega flestir sameiginlegt að vera mótfallnir stjórnvöldum og eitt meginþemað í svona hópum er ótti við að alríkisstjórnin skipti sér af því sem þeir telja óskoraðan rétt til að ganga með og eiga byssur. Þjóðvarðaliðin munu verjast stjórnvöldum ef til þess kemur. Sumir hópar telja sig ekki bundna af alríkislögum og margir eru mótfallnir mikilli skattheimtu. Hóparnir eru iðulega langt til hægri.
Hópar sem eru skilgreindir sem mótfallnir stjórnvöldum – anti-government – eru vel yfir þúsund talsins og hefur farið mjög fjölgandi undanfarin ár. Þar af eru nokkur hundruð hópar sem skilgreina sig sem þjóðvarðalið (militia), hópar sem eru vopnaðir skotvopnum og stunda hernaðaræfingar. Þessum hópum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Það hefur meðal annars verið tengt við kjör Baracks Obama sem forseta.
Hér að neðan má sjá myndband sem sýnir þjóðvarðalið í Mississippi að störfum.
Lögreglustjórinn í Harney-sýslu í Oregon hefur sagt að hópurinn sem tók bygginguna yfir hafi í raun það markmið að steypa stjórnvöldum í sýslunni og alríkisstjórninni af stóli „í von um að hrinda af stað hreyfingu um öll Bandaríkin,“ sagði hann.
Bundy og fjölskylda hans eru ekki ókunnug uppreisnum af þessu tagi. Árið 2014 náði faðir hans með vopnavaldi að koma í veg fyrir að stjórnvöld tækju frá honum búfénað, og fjölskyldan hlaut nokkra frægð fyrir vikið. Hann segir nú að það hafi verið guð sem sagði honum að fara til Oregon og verja feðgana tvo sem hann þekkir ekki. Það sé spurning um réttindi einstaklinga gegn stjórnvöldum. Fólkið hafi leyft stjórnvöldum að ganga of langt, fara út fyrir stjórnarskrána og seilast í völd inni í ríkjum og sýslum.
Obama að kynna aðgerðir í byssumálum
Aðgerðirnar í Oregon koma á sama tíma og Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti um það að hann hygðist fara framhjá þinginu og kynna hertari reglur um byssueign. Nánar verður kynnt hvað hann hyggst gera seinna í dag, en hann getur gripið til takmarkaðra aðgerða án aðkomu þingsins. Hann mun kynna aðgerðir til að útvíkka bakgrunnsskoðanir fyrir ákveðnar tegundir byssukaupa og meira verður lagt í að fylgja eftir byssulöggjöfinni á alríkisstiginu.
Forsetaframbjóðandinn og repúblikainn Donald Trump sagði í gær að „bráðum verður ekki hægt að fá byssur“ á meðan samtök sem berjast gegn byssuofbeldi fögnuðu aðgerðum Obama sem sögulegum.
Umsátrið í Oregon og aðgerðir Obama tengjast, þó ekki sé nema þeim hætti að báðir viðburðir undirstrika hversu ólíkar skoðanir á hlutverki alríkisstjórnvalda og á byssum fyrirfinnast í Bandaríkjunum, og hversu mikið þessi mál verða í sviðsljósinu á þessu kosningaári.