Fleiri mexíkóskir innflytjendur hafa yfirgefið Bandaríkin á undanförnum árum en hafa sest þar að. Þetta sýnir rannsókn Pew rannsóknarstöðvarinnar í Bandaríkjunum frá því fyrir jól, en niðurstöðurnar eru þvert á það sem ætla mætti af umræðunni í kringum forsetakosningar í Bandaríkjunum. Ólöglegum innflytjendum frá Mexíkó fer jafnframt fækkandi.
Donald Trump nýtur mikilla vinsælda í framboði sínu til að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. Meðal þess sem hann hefur gert að aðalatriði í sinni kosningabaráttu eru innflytjendamál. Hann hefur lofað því að hann muni sem forseti láta byggja vegg á landamærunum við Mexíkó, og að Mexíkó muni borga fyrir slíka framkvæmd, til þess að stöðva flæði innflytjenda þaðan. Hann hefur sagt að stjórnvöld í Mexíkó sendi vísvitandi nauðgara, eiturlyfjasmyglara og almenna glæpamenn yfir landamærin til Bandaríkjanna, það sé uppistaðan í hópi mexíkóskra innflytjenda í landinu. Hann hefur lagt til að milljónir ólöglegra innflytjenda verði fluttir úr landi, en stærsti einstaki hópurinn meðal ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum er einmitt innflytjendur frá Mexíkó.
Í síðustu viku var svo fyrsta sjónvarpsauglýsingin hans sett í birtingu í Bandaríkjunum. Þar eru innflytjendamálin sannarlega í forgrunni, eins og sjá má hér að neðan.
Fleiri fara en koma
Mexíkóar eru stærsti innflytjendahópurinn í Bandaríkjunum, hvort sem litið er til ólöglegra innflytjenda eða skráðra. 28% allra innflytjenda í Bandaríkjunum árið 2013 voru fæddir í Mexíkó samkvæmt opinberum tölum og samkvæmt þeim tölulegu gögnum sem til eru er tæplega helmingur ólöglegra innflytjenda í landinu frá Mexíkó, eða 5,6 milljónir manna.
Frá því að kreppunni lauk um mitt ár 2009 hafa fleiri innflytjendur frá Mexíkó farið aftur til síns heima en hafa komið til Bandaríkjanna. Ein milljón Mexíkóa, þar á meðal börn sem fæddust í Bandaríkjunum, fór frá Bandaríkjunum og til Mexíkó á árunum 2009 til 2014, samkvæmt mexíkóskum gögnum. Á sama tímabili komu 870 þúsund mexíkóskir ríkisborgarar til Bandaríkjanna frá Mexíkó.
Ýmsar tilgátur eru uppi um ástæðurnar fyrir því. Bandaríska hagkerfið hefur ekki náð sér eins hratt á strik eftir kreppuna og það gæti hafa stuðlað að því að færri sjái sér hag í því að flytjast til Bandaríkjanna. Jafnframt getur það hafa haft þau áhrif að mexíkóskir innflytjendur hafi misst vinnuna og farið aftur heim. Þá hefur innflytjendalögum verið fylgt harðar eftir, sérstaklega á landamærunum við Mexíkó, og það hefur undanfarin tíu ár skilað sér í því að fleirum er vísað úr landi. Engu að síður fór stærsti hluti þeirra sem héldu aftur til Mexíkó síðustu fimm ár af sjálfsdáðum, samkvæmt mexíkóskum rannsóknum, og algengasta ástæðan var sögð fjölskyldusameining.
Ólöglegum innflytjendum fækkar
Ein ástæða er svo sú að ólöglegum innflytjendum frá Mexíkó hefur fækkað verulega á undanförnum árum, samkvæmt rannsóknum. Undanfarin fimm ár hefur fjöldi ólöglegra innflytjenda verið stöðugur, en fram til ársins 2007 jókst fjöldinn verulega og náði hápunkti í 12,2 milljónum manna. Í kreppunni fækkaði ólöglegum innflytjendum um milljón og síðan þá hefur fjöldinn verið nokkuð stöðugur. Mestu munaði um fækkun mexíkóskra innflytjenda.
Hefur hann aldrei komið að landamærunum?
Hugmyndin um að byggja vegg á landamærunum við Mexíkó hefur verið mikið rædd frá því að Trump setti hana fyrst fram. En í ríkjunum sem eiga landamæri að Mexíkó spyrja margir sig þeirrar spurningar hvort Trump, og aðrir sem hafa hoppað á vagninn hans, hafi nokkurn tímann komið þangað. Það er nefnilega nú þegar veggur á landamærunum, sem þekur um þriðjung landamæranna. Það er sá hluti þeirra sem er auðvelt að komast að gangandi eða á bíl.
Hluti landamæranna er hins vegar þannig að það væri mjög erfitt að byggja vegg. Þar eru meðal annars svæði sem eru á yfirráði frumbyggja, náttúruverndarsvæði, mjög ógreiðfær svæði og svo eru einfaldlega svæði sem eru bara ekki í eigu ríkisins. Það er ekki hægt að byggja girðingar á öllum landamærunum og þar fyrir utan bendir ekkert til þess að veggurinn sem þegar er til staðar hafi haft nokkur áhrif á flæði innflytjenda, að minnsta kosti að mati ýmissa sérfræðinga.