Þegar Barack Obama tók við sem forseti Bandaríkjanna, í nóvember 2008, var skuggi yfir bandarísku hagkerfi og djúp kreppa á fjármálamörkuðum. Hank Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst stöðu mála á þessum tíma, í bók sinni On The Brink, sem afar viðkvæmri. Raunveruleg hætta hefði verið á því að hjólin á fjármálamarkaði stöðvuðust alveg, með tilheyrandi tugprósenta atvinnuleysi og ringulreið. Aðstæðurnar úr Kreppunni miklu, í kringum 1930, hefðu getað teiknast upp með 30 prósent atvinnuleysi og allsherjaróvssu.
Skipti sköpum
Inngrip Seðlabanka Bandaríkjanna, með Ben Bernanke seðlabankastjóra í broddi fylkingar, skipti sköpum, en eftir að samþykkt Bandaríkjaþings lá fyrir, tókst að koma í veg fyrir stöðvun hjólanna á fjármálamarkaði með 700 milljarða Bandaríkjadala innspýtingu ríkisins. Þessi innspýting gaf stjórnvöldum tíma til þess að ná tökum á stöðunni, segir Bernanke í nýlega útkominni bók sinni, The Courage To Act.
En þó verstu sviðsmyndinni hafi verið afstýrt, var staðan grafalvarleg. Atvinnuleysi fór í tæplega tíu prósent í Bandaríkjunum fljótlega eftir að Obama tók við, stjórnvöld voru með mikla hagsmuni í bílaiðanði, eftir neyðarlánveitingar ríkisstjórnar George W. Bush, einnig í tryggingafélögum og á fjármálamarkaði. Stýra þurfti þessum málum í þann farveg að almannahagsmunir yrðu varðir. Á sama tíma þurfti að skapa aðstæður fyrir hagvöxt og viðspyrnu.
Þegar horft er yfir þetta rúmlega sjö ára tímabil, er ekki
hægt að segja annað en að Obama hafi náð miklum árangri í því að endurreisa
bandarískan efnahag. Hann lætur af embætti í nóvember þegar nýr forseti tekur við.
Eitt af því sem stendur upp úr til þessa, að mati margra
sem skrifa um forsetatíð Obama hér vestra, er að þetta endurreisnarstarf fór
fram samhliða miklum tæknibreytingum í heiminum, með tilkomu breyttra samskipta
fólks í gegnum samfélagsmiðla. Þetta eru djúpstæðari breytingar en margir gera
sér grein fyrir, og það má segja Obama það til hróss að hann, og hans nánasta
bakland í stjórnmálum, áttaði sig fljótt á þessari stöðu og tókst að búa til
talsamband við almenning með nokkuð áhrifamiklum hætti.
Ræktaði talsambandið
Þetta styrkti Obama sem leiðtoga á heimsvísu, og hjálpaði til við að efla tiltrú almennings á fyrsta svarta forseta Bandaríkjanna. Það eitt og sér markaði söguleg tíðindi í stjórnmálasögu Bandaríkjanna, og ekki síst þess vegna var mikilvægt að ná góðu talsambandi við fólkið í þessu fjölbreytta samfélagi sem Bandaríkin eru.
Nú þegar siglt er í inn í síðasta árið í embætti hefur stóra myndin í efnahagnum gjörbreyst til hins betra í Bandaríkjunum, frá því sem var í byrjun. Atvinnuleysi er komið niður fyrir fimm prósent, hagvöxtur er viðvarandi tvö til þrjú prósent á ári og fjöldi nýrra starfa í hverjum mánuði er nálægt sögulegu hámarki, 272 þúsund störf á landsvísu í desembermánuði.
Helsta viðurkenning á því að Obama hafi tekist að stýra þjóðarskútinni í rétta átt þykir vera sú staðreynd að Seðlabanki Bandaríkjanna er byrjaður að hækka stýrivexti. Á síðasta vaxtaákvörðunardegi ársins, 16. desember síðastliðinn, voru vextir hækkaðir úr 0,25 prósent í 0,5 prósent. Vöxtunum hafði verið haldið í 0,25 prósentum í meira en sjö ár, þar sem nauðsynlegt þurfti að vera með lágt vaxtastig til að örva hagkerfið. Nú er hins vegar það versta að baki, og tími áframhaldandi framþróunar í efnahagslífinu framundan. Á því byggir ákvörðunin um að hefja vaxtahækkunarferil, sem er stórmál fyrir heimsbúskapinn enda meira en 60 prósent af gjaldeyrisvaraforða heimsins í Bandaríkjadal.
Margvíslegir erfiðleikarnir
En þó hagtölur líti vel út um þessar mundir, og sýni árangur frá því Obama tók við stjórnartaumunum, þá hefur forsetatíð hans verið rússíbanareið. Erfiðleikar við að breyta heilbrigðiskerfinu, marka skýra utanríkisstefnu, ekki síst í málefnum landa fyrir botni Miðjarðarhafs – jafnvel þó Osama Bin Laden hafi verið drepinn – og koma mikilvægum málum í gegnum þingið, meðal annars fjárlögunum á hveru ári, hafa lýst um veikleikana í stjórn hans. Áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs Bandaríkjanna, sem hefur verið viðvarandi í áratugi, hefur einnig verið mikið til umfjöllunar í tíð Obama, enda þjóðarskuldir Bandaríkjanna orðnar ískyggilega háar, 18,7 trilljónir Bandaríkjadala.
Óttast ekki að heimstyrjöld sé að brjótast út
Obama sagði enga ástæðu til þess að óttast þriðju heimstyrjöldina, þó illa skipulagðir vígamenn á pallbílum væru að valda ófriði og beita ofbeldi. „En þeir eru ekki ógn við tilveru okkar sem þjóðar,“ sagði Obama.
Bandaríkjaher leiðir alþjóðlegt hernaðarsamstarf sem beitir sér gegn Ríki íslams með loftáárásum á þeirra helstu vígi í Sýrlandi og Írak og koma einnig að þjálfun íraskra landgönguliða. Obama hefur ýjað að því að senda sérsveitir á vettvang til þess að aðstoða sérsveitir Sýrlendinga og Kúrda við að ná yfirráðum í Raqqa á nýjan leik.
Eins veitir leyniþjónusta Bandaríkjanna samherjum sínum við að fylgjast með áformum öfgasinna um að fremja hryðjuverk í Líbíu, Sómalíu, Jemen, Afganistan og í evrópskum borgum. En Obama hefur sagt, að hann ætli ekki að feta í fótspor George W. Bush, og senda stór hóp hermanna í landhernað.
Mórölsk skilaboð
Í síðustu stefnuræðu sinni í gær vék hann að mórölskum skilaboðum sem hann hefur ítrekað nefnt á undanförnum mánuðum. Það er samstöðunni fyrir jafnrétti óháð litarhætti, trú og uppruna. „Það er horft til Bandaríkjanna sem fyrirmyndar,“ sagði Obama, og lagði áherslu á orð sín. Bandaríkin væru innflytjendaríki að grunni til, og virðing fyrir innflytjendum væri Bandaríkjamönnum í blóð borin.
Minntist hann á það, að ekki væri hægt að taka múslima fyrir sérstaklega og gera lítið úr þeim eða útiloka þá. Það væri ekki hægt frekar en að gera grín að barni fyrir hvernig það lítur út. Uppskar hann lófaklapp allra þingmanna, Demókrata jafnt sem Repúblikana. Augljóst var að hann beindi spjótum sínum að Donald Trump og þeim málflutningi sem hann staðið fyrir, meðal annars að reka múslima frá Bandaríkjunum og koma í veg fyrir að þeir geti komið til landsins.
Undanfarna mánuði hefur Obama lagt mikla áherslu á það í starfi sínu, að gera mál að umtalsefni sem hann telur að bandarísk stjórnvöld þurfi að taka fastari tökum, eftir að hann lætur af embætti.
Má þar nefna fangelsismál, og síðan byssuglæpi, en það síðarnefnda hefur verið honum mikið hjartans mál. Hann vinnur nú að því að hrinda í framkvæmd áætlun sinni um að herða reglur um bakgrunnsathuganir þeirra sem kaupa skotvopn og koma á virkum geðrannsóknum hjá þeim sem eiga byssur. Ástæðan fyrir þessu er augljós. Tölurnar yfir byssuglæpi eru ógnvekjandi í samanburði við önnur þróuð ríki, en á síðasta ári létust rúmlega 35 þúsund manns vegna byssuglæpa, eða sem nemur 95 á hverjum einasta degi. Það eru litlu fleiri en sem létust vegna bílslysa í Bandaríkjunum öllum, sem segir fólki eflaust mikla sögu. Líklegt verður að teljast að samfélagsleg umræða um byssuglæpi væri mikil á Ísland ef það myndu fimmtán til tuttugu manns deyja á hverju ári vegna þeirra.
Venjulegt fólk skipti máli
Obama sagði það vera kjarnann í lýðræðinu, þegar venjulegt fólk teldi sig geta komið hlutum til leiðar samfélaginu til góðs. Það væri einhvers virði. „Þetta eru grundvallaratriðin í lýðræðissamfélagi,“ sagði Obama, og lagði áherslu á að nauðsynlegt væri hlusta eftir þörfum fjölskyldna. „Ef fólk finnur fyrir því, að ef það er ábyrgt í sínum störfum, og fer eftir reglum samfélagsins, þá uppskeri það í samræmi við það. Þá erum við á réttri leið,“ sagði Obama.