Warren Jeffs var um skeið á lista bandarísku alríkislögreglunnar yfir 10 hættulegustu glæpamennina á flótta. Þrátt fyrir það að hann hafi verið handsamaður árið 2006 og sitji nú bak við lás og slá er hann ekki síður hættulegur því að hann stýrir ennþá lífum þúsunda víðs vegar um Bandaríkin. FLDS er söfnuður sem myndi fylgja Warren Jeffs í gröfina án þess að hika.
Sættu sig ekki við einkvæni
Spámaðurinn Joseph Smith skrifaði og gaf út Mormónsbók árið 1830 og laðaði í kjölfarið að sér fjölda safnaðarmeðlima í trúarhreyfingu sem nefnd var Kirkja Jésú Krists og hinna seinni tíma dýrlinga. Í daglegu tali eru meðlimir kirkjunnar kallaðir mormónar og eru þeir í dag um 15 milljónir talsins. Smith stofnaði kirkjuna í New York fylki en flutti sig um set vestur á bóginn til Illinois. Þar ákvað hann að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 1844. Framboðið var mjög umdeilt þar sem hann boðaði m.a. fjölkvæni.
Smith var myrtur af reiðum múg þetta sama ár og hann hefur allar götur síðan verið einn helsti dýrlingur og píslarvottur mormónatrúar. Brigham Young tók við kirkjunni og flutti hinn litla og umdeilda söfnuð vestur yfir Klettafjöll til Utah þar sem hann festi sig í sessi. Undir lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. áttu mormónar þó í vök að verjast gagnvart bandarísku ríkisstjórninni vegna fjölkvænisins og kirkjuleiðtogarnir reyndu hægt og bítandi að uppræta það innan safnaðarins.
Fyrst með tilskipunum en að lokum með bannfæringu meðlima sem stunduðu það. Ekki sættu allir sig við þessa breytingu og fjöldi smárra aðskilnaðarsafnaða varð til, flestir einungis með nokkur hundruð eða þúsund meðlimi.
Fjölmennasti hópurinn kallaði sig Bókstafstrúarkirkju Jésú Krists og hinna seinni tíma dýrlinga, FLDS, sem klauf sig frá móðurkirkjunni árið 1954. Upphafsmaður FLDS var Leroy S. Johnson sem var þá kominn vel á sjötugsaldur en átti eftir að leiða hinn nýja söfnuð í rúmlega 30 ár. Hann var álitinn hinn nýji spámaður af safnaðarmeðlimum sem bjuggu flestir í tveim einangruðum smábæjum á mörkum Utah og Arizona. Smærri samfélög FLDS spruttu í Texas, Colorado, Suður Dakota, Oklahoma, Kanada og Mexíkó. Þegar best lét taldi söfnuðurinn um 15.000 manns.
Einangrað líf
FLDS meðlimir velja sér landfræðilega einangraða staði til að búa á, staði sem eru afmarkaðir af fjöllum, skógum eða ám. Þeir vilja sem minnst vita af umheiminum og fylgjast grannt með öllu utanaðkomandi fólki. Oft eru háir veggir reistir í kringum samfélögin. Vald spámannsins yfir safnaðarmeðlimum er algert og strangar reglur gilda um flesta hluti daglegs lífs. Hlutir á borð við sjónvörp, dagblöð og tölvur eru algerlega bannaðir og ekki má hafa samband við fólk utan samfélagsins, jafnvel þó það tengist fjölskylduböndum. Fólkið eyðir því mestum frítíma sínum í lestur trúarlegra rita. Fólkinu er einnig gert að klæða sig á ákveðinn hátt. Karlmenn skulu klæðast annað hvort jakkafötum eða þá gallabuxum og síðri hnepptri skyrtu. Konur klæðast pastellituðum „sléttukjólum” og með hárið bundið í fasta fléttu.
Einangrunin og hinn sérstaki klæðaburður minnir því um margt á Amish samfélögin í Miðvesturríkjunum. En FLDS eiga sér þó mun stærri skuggahliðar og mikið af því tengist fjölkvæninu. Karlmenn fá ekki að giftast nema með leyfi kirkjunnar og það leyfi fá þeir ekki nema þeir greiði vissa upphæð fyrir. Eftir því sem karlarnir eldast og greiða meira og meira til kirkjunnar fá þeir fleiri eiginkonur og þar af leiðandi fleiri börn. Konur og afkvæmi eru því eins konar gjaldmiðill innan samfélagsins. Konurnar hafa ekkert um það að segja hverjum þær giftast og eru oft giftar barnungar. Þetta kerfi veldur því vitaskuld að einungis fáir karlmenn fá að giftast. Því eru fjölmargir unglingspiltar reknir úr samfélaginu fyrir smávægileg brot. Þessir piltar hafa verið kallaðir “týndu drengirnir” þar sem þeir kunna ekkert að bjarga sér út í hinum stóra heimi utan FLDS samfélaganna. Fjölmargir þeirra hafa því leiðst út í eiturlyfjaneyslu og glæpi. Annað vandamál sem fylgir þessari samfélagsgerð er hin mikla skyldleikaræktun sem á sér stað vegna sifjaspells. Þetta hefur orsakað það að óvenju hátt hlutfall FLDS barna fæðast með þroskaskerðingu, flogaveiki og fleiri kvilla.
Aldursdreifingin í samfélaginu er einnig bjöguð. Um það bil tveir þriðju safnaðarmeðlima eru undir tvítugu. Kirkjan arðrænir líka safnaðarmeðlimi sína. Meðlimir FLDS eru krafðir um að gefa tíund tekna sinna til kirkjunnar en í raun er þrýst á að gefa mun stærri hlut. Kirkjan á því flest íbúðarhúsin sem eru auðvitað stór rétt eins og fjölskyldugerðin. Kirkjan sjálf er moldrík og stundar atvinnustarfsemi að ýmsu tagi svo sem landbúnað, byggingariðnað og framleiðslu vélarhluta. Safnaðarmeðlimir eru iðulega látnir gefa vinnu sína, jafnvel börnin. Það komst í fréttirnar árið 2012 að kirkjan hafði tekið börn úr skóla til að sinna pekanhnetutínslu myrkranna á milli og án launa.
Hinn eftilýsti spámaður
Þegar Leroy S. Johnson lést árið 1986 tók Rulon Jeffs við stjórnartaumunum í kirkjunni og stöðu spámanns. Hann stýrði kirkjunni allt til dauðadags árið 2002. Rulon átti um 20 eiginkonur og um 60 börn, þar á meðal arftaka sinn Warren Jeffs. Þegar Jeffs tók við forystunni giftist hann öllum eftirlifandi ekkjum föður síns til að tryggja völd sín innan safnaðarins. Alls á Waren Jeffs um 60 börn með 78 eiginkonum.
Allt frá unga aldri var Warren Jeffs haldinn mikilli barnagirnd og sem sonur spámannsins var hann í einstakri aðstöðu til að komast í kynni við börn. Talið er að hann hafi misnotað börn allt niður í 5 ára aldur og þar með talin sín eigin. Sem spámaður beitti hann valdi sínu óspart bæði fyrir sig sjálfan og nánustu samverkamenn. Yfirvöld í Utah höfðu haft vitneskju um hann um tíma en áttu erfitt með að hafa hendur í hári hans þar til árið 2006. Þá náðist að koma Jeffs á lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir 10 hættulegustu glæpmenn landsins á flótta. Skyndilega var andlit hans alls staðar en það tók engu að síður um hálft ár að finna hann. Jeffs var handtekinn í bíl rétt utan við Las Vegas við reglubundið umferðareftirlit. Jeffs var fluttur til Utah þar sem réttað var yfir honum fyrir þá sök að koma á giftingum milli fullorðinna karlmanna og stúlkubarna.
Hann var fundinn sekur í héraði en hæstiréttur fylkisins vísaði málinu aftur heim í hérað vegna formgalla. Ljóst var að dómarar í hæstarétti voru á bandi spámannsins og hann yrði aldrei dæmdur til fangelsisdóms í Utah. Hann var því framseldur til Texas þar sem hann átti á höfði sér tvær ákærur fyrir nauðgun á stúlkum undir lögaldri. Þar fékk hann lífstíðardóm auk 20 ára til viðbótar árið 2011. Handtaka og dómur Warren Jeffs olli straumhvörfum í FLDS samfélaginu. Fjöldi meðlima hefur síðan skroppið saman um þriðjung, niður í 10.000 meðlimi þar sem fólk hefur annað hvort sagt sig úr kirkjunni, flúið eða verið rekið úr henni. Þar á meðal fjögur af börnum Warrens. Tvö af þeim, nú uppkomin, hafa lýst kynferðismisnotkun sem faðir þeirra framdi gegn þeim. Flestir FLDS meðlimir halda þó enn tryggð við kirkjuna og Warren Jeffs sem þeir telja nú vera píslarvott.
Upplausnarástand
Jeffs sagði af sér formennsku í söfnuðinum árið 2007 og lýsti því meira að segja yfir að hann væri ekki sannur spámaður en ljóst er þó að hann stýrir söfnuðinum innan veggja fangelsins. Bróðir hanns, Lyle Jeffs, hittir hann reglulega og kemur skilaboðum áleiðis. Einnig hefur hann samband við í gegnum síma þar sem ræðum hans er oft útvarpað innan samfélaganna. Allt frá handtöku hefur Jeffs sýnt af sér ákaflega undarlega hegðun. Hann talar ekki við nema fáeinna útvalda, aldrei við fjölmiðla eða yfirvöld. Í réttarsalnum fór hann sjálfur með lokaorðin í vörn sinni. Hann sagði þó ekki stakt orð heldur starði á kviðdómendur í u.þ.b. 40 mínútur.
Hann hefur farið í mörg hungurverkföll innan fangelsisins og oft stendur hann grafkyrr tímunum saman og starir eða þylur upp eitthvað algerlega samhengislaust. Hann fylgist mikið með fréttum og þegar fregnir koma af alvarlegum áföllum eða náttúruhamförum miðlar hann því til safnaðarins sem frekari sönnun þess að heimsendir sé í nánd. Andlegri heilsu hans er því augljóslega virkilega ábótavant. Þessi sturlun hans kemur glöggt fram í FLDS samfélaginu þar sem Jeffs setur fleiri og fleiri undarlegar reglur sem dyggir safnaðarmeðlimir fylgja mótþróalaust.
Í október síðastliðnum lýsti Charlene Jeffs, fyrrum eiginkona Lyle sem nú er horfin úr söfnuðinum, nýrri reglu sem aðrir hafa staðfest að fyrirskipuð var af Warren. Nú mega eiginmenn ekki lengur eiga börn með konum sínum heldur einungis útvaldir „sæðisberar”, 15 menn sem handvaldir voru af Jeffs. Hún segir ennfremur: „Það er skylda eiginmanns að halda í hönd konu sinnar á meðan sæðisberinn „dreifir sæði sínu”. Eða á mannamáli, að eiginmaður verður að sitja í herberginu á meðan sæðisberinn, eða nokkrir, nauðga konu hans eða konum.” FLDS meðlimum hefur verið bannað kjósa til forseta Bandaríkjanna þar sem Jeffs hefur látið þau skilaboð ganga að hann sé hinn eiginlegi forseti. Þetta er börnum kennt í grunnskólum samfélagsins
Það sem hefur verið að gerast í samfélaginu síðan Jeffs var handsamaður er að það fólk sem hafði einhverjar efasemdir um kirkjuna er að flýja. Þetta er þvert á öll fjölskyldubönd og veldur því að fjölskyldur tvístrast þar sem samskipti við fólk utan safnaðarins eru bönnuð. Ef eiginmenn brjóta reglur kirkjunnar eiga þeir það á hættu að kona þeirra og börn verði gefin öðrum manni. Eftir standa því dyggustu og um fram allt hlýðnustu meðlimirnir sem myndu glaðir fylgja Warren Jeffs fram á grafarbakkann. Því veltur framtíð safnaðarmeðlima að miklu leyti á ótraustu andlegu ástandi hans sjálfs. Vel er hægt að ímynda sér álíka blóðbað og átti sér stað í bænum Jonestown í Guyana árið 1978 þegar tæplega 1000 meðlimir sértrúarsöfnuðs Jims Jones frömdu fjöldasjálfsmorð. Hér eru því þúsundir mannslífa í höndum vitfirrts og innilokaðs manns sem er algerlega óútreiknanlegur.