Vaxandi óánægju gætir innan verkalýðshreyfingarinnar með stöðu Helga Magnússonar, varaformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, vegna þeirra hagsmuna sem hann hefur sem sjálfstæður fjárfestir annars vegar, og síðan sem fulltrúi lífeyrissjóðanna hins vegar, í stjórnum fyrirtækja. Skipað verður í nýja stjórn sjóðsins fyrir 1. febrúar næstkomandi. Stjórnina skipa í dag, auk Helga, þau Ásta Rut Jónasdóttir, formaður stjórnar, Anna G. Sverrisdóttir, Birgir S. Bjarnason, Birgir Már Guðmundsson, Fríður Birna Stefánsdóttir, Margrét Sif Hafsteinsdóttir og Páll Örn Líndal.
Skýrsla dregur fram stöðuna
Spjótin beinast ekki síst að Helga þar sem staða hans þykir alveg sér á báti, þegar kemur að fjárfestingum stjórnarmanna lífeyrissjóða landsins. Skýrsla sem Talnakönnun vann fyrir Samtök sparifjárfeigenda á síðasta ári, og skilað var 30. október í fyrra, hefur meðal annars verið nýtt sem grunngagn í rökræðum um þessi mál innan verkalýðshreyfingarinnar, samkvæmt heimildum Kjarnans, og einnig hjá hagsmunasamtökum atvinnurekenda, það er Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands.
Auglýst eftir áhugasömum
Samkvæmt reglum VR tilnefnir stjórn VR tvo aðalmenn en trúnaðarráð félagsins tilnefnir tvo aðalmenn og fjóra varamenn. Auglýst var eftir umsóknum áhugasamra um stjórnarsetu seint á síðasta ári og stendur nú yfir vinna við að greina þær umsóknir.
Atvinnurekendur tilnefna jafnmarga stjórnarmenn samkvæmt eftirfarandi: Félag atvinnurekenda tilnefnir einn, Kaupmannasamtök Íslands tilnefna einn, Samtök iðnaðarins tilnefna einn að fengnu áliti Samtaka atvinnulífsins, og Samtök atvinnulífsins tilnefna einn að fengnu áliti Viðskiptaráðs Íslands. Jafnmargir varamenn eru svo tilnefndir af atvinnurekendum á sama hátt.
Helgi segist fylgja settum reglum
Í skýrslunni kemur fram það sem fyrir liggur opinberlega, að Helgi Magnússon á eignarhluti í Marel og N1, að markaðsvirði nokkur hundruð milljóna króna. Nokkrar sveiflur hafa verið á markaði að undanförnu, og hafa flest félög sem skráð eru á markað lækkað nokkuð skarpt í upphafi ársins, en heildarávöxtun á markaðnum í fyrra var um 43 prósent.
Helgi situr í stjórnum fyrrnefndra fyrirtækja, samhliða stjórnarsetu í Lífeyrissjóði verslunarmanna. Hann hefur sjálfur svarað því til, að VR hafi sín sjónarmið en að félagið stjórni ekki hvernig aðrir sem tilnefna stjórnarmenn hagi sínum áherslum.
Þá segist Helgi fylgja öllum settum á reglum, er varði innherja, og því sé ekkert óeðlilegt við hans þátttöku á markaði. Hann fjárfesti aðeins innan þess glugga sem hann hafi til að fjárfesta, sem sé eftir að uppgjör séu birt.
Helgi hefur til þessa notið trausts Samtaka iðnaðnarins, og verið stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna árum saman á grundvelli þess.
Unnið úr gögnum Creditinfo
Í skýrslunni er farið ítarlega yfir stöðu mála hjá öðrum stjórnarmönnum, og einnig hvaða einstaklingar eru stærstu eigendur hlutabréfa á markaði. Markmið skýrslunnar var að kortleggja hlutafjáreign lífeyrissjóðanna og einnig þátttöku stjórnarmanna á hlutabréfamarkaði. Verkinu stjórnaði Benedikt Jóhannesson, en auk hans unnu þeir Arnór Ingi Finnbjörnsson og Ragnar Jóhannesson að skýrslunni, að því er fram kemur í inngangi hennar.
Grunnupplýsingar í skýrslunni koma frá fyrirtækinu Creditinfo og gagnagrunni þess.
Stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) ályktaði formlega á þann veg, 13. janúar síðastliðinn, að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verslunarmanna ættu ekki að sitja í stjórnum fyrirtækja samhliða eða fjárfesta sjálfur í hlutafé félaganna.
Gera kröfu um að aðrir fylgi VR
„Okkur ber að standa vörð um Lífeyrissjóð verzlunarmanna, trúverðugleika hans og traust. Til að það sé hægt verður að tryggja að þeir sem skipa stjórn sjóðsins gæti fyrst og fremst hagsmuna sjóðsins sjálfs og sjóðfélaga. Það er að mati stjórnar VR óásættanlegt að stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sitji í stjórnum eða eigi hlut í fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í,“ segir í ályktun stjórnar VR. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hefur ítrekað, eftir að ályktun stjórnarinnar lá fyrir, að sú staða sem sé uppi, er varði Helga Magnússon, sé ekki í takt við þær kröfur sem VR geri og það sé von félagsins, að aðrir sem tilnefni í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna geri sömu kröfur.
Tæplega 50 þúsund sjóðfélagar eru í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, og voru heildareignir sjóðsins um 5,1 prósent umfram heildarskuldbindingar í árslok 2014. Eignir sjóðsins eru 29 prósent í erlendum verðbréfum, 29 prósent í ríkistryggðum skuldabréfum, 19 prósent í innlendum hlutabréfum, tvö prósent í bankainnistæðum, 7 prósent í sjóðfélagalánum, 6 prósent í fyrirtækjaskuldabréfum og 8 prósent í skuldabréfum sveitarfélaga, banka og annarra aðila.