Gríðarleg aukning varð í framtaksfjárfestingu í tækni- og
nýsköpunargeirunum á Íslandi á síðasta ári. Alls nam ný fjármögnun fyrirtækja sem
tilheyra þeim geirum, og eru oft kölluð „eitthvað annað", 194 milljónum dala, um 25,2 milljörðum króna. Til samanburðar
nam fjárfesting í þeim 11,5 milljónum dala, um 1,5 milljörðum króna, árið 2014.
Hún tæplega 17faldaðist því í fyrra. Árið 2014 áttu sér stað alls sjö
fjárfestingar í þessum geirum en í fyrra voru þær 17 talsins. Þetta kemur fram
í úttekt sem vefurinn The Nordic Web, sem sérhæfir sig í umfjöllun um nýsköpunarfyrirtækja
á Norðurlöndum, hefur gert.
Vert er að taka fram að þarna er einungis verið að tala um framtaksfjármagn og eigið fé sem fjárfestar hafa lagt íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum til, ekki lánsfé sem þau hafa náð sér í. Samhliða þessari miklu fjárfestingu í nýsköpun hefur störfum fjölgað mikið og tekjur aukist hratt.
Nánast jafn há upphæð og í Finnlandi
Í úttekt Nordic Web er fjallað um 17 fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum. Þorri þeirra átti sér stað á síðari hluta ársins 2015, eða tólf talsins. Þar af duttu átta inn á síðasta ársfjórðungi ársins. Heildarupphæðin sem íslensku fyrirtækin náðu að krækja í þykir ótrúlega há, alls 194 milljónir dala, eða um 25,2 milljarðar króna. Það er ekki langt frá heildarfjárfestingu í finnskum fyrirtækjum í tækni- og nýsköpun á árinu 2015. Hún nam 197,5 milljónum dala, eða um 25,7 milljörðum króna. Því fengu nýsköpunarfyrirtæki í Finnlandi „einungis“ um hálfum milljarði króna meira en íslensk í fjárfestingu í fyrra. Það kemur verulega á óvart þar sem sprota- og nýsköpunarumhverfið í Finnlandi þykir eitt það þroskaðasta á Norðurlöndunum, en það íslenska hefur lengi verið talið eftirbátur hinna.
Fimm fjárfestinganna eru í fyrirtækjum sem framleiða efni fyrir sýndarveruleika eða tölvuleiki.
Munar mest um þrjár fjárfestingar
Mest munar um þrjár fjárfestingar. Sú fyrsta er hlutafjáraukning Verne Global, sem rekur gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ, í janúar 2015. Verne Global náði þar í 98 milljónir dala, tæpa þrettán milljarða króna. SÍA II, framtakssjóður í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka, kom þá ásamt hópi íslenskra lífeyrissjóða, nýr inn í hlutahafahóp félagsins. Stærstu hluthafar Verne Global hafa til þessa verið Wellcome Trust, Novator Partners, félag að hluta í eigu Björgóls Thors Björgólfssonar, og General Catalyst, en félögin tóku öll þátt í hlutafjáraukningunni að þessu sinni. Verne Global tók því til sín tæpan helming allrar fjárfestingar í tækni – og nýsköpun á Íslandi í fyrra.
Í fyrrasumar fjárfesti kínverska félagið Gelly Group ætli að fjárfesta í íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International fyrir sex milljarða króna.
Þriðja stóra fjárfestingin var síðan 30 milljón dala, um fjórir milljarðar króna, fjárfesting eins stærsta framtakssjóðs heims, New Enterprise Associates (NEA), í CCP í nóvember. Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, tók einnig þátt í þeirri fjárfestingu.
Á meðal annarra fyrirtækja sem náðu í háar fjárhæðir voru Plain Vanilla, Arctic Trucks, ARK Technology og Sólfar.
Hundruð nýrra starfa og tekjur aukist um tugmilljarða
Fjallað er um nýsköpun og tækni í markaðspunktum Arion banka í dag. Þar segir að vöxtur upplýsingatækni, vísindarannsókna og þróunarstarfs, sem allt fellur undir nýsköpun, er mun hraðari en í öðrum geirum á undanförnum árum. Í virðisaukaskattskyldrar veltu var hlutfall þeirra 2,3 prósent frá janúar og út október í fyrra. Árið 2009 var hlutfall þessarra liða í þeirri veltu 1,6 prósent. Í greiningu Arion banka segir: „Virðisaukaskattsvelta gefur hugmynd um efnahagsumsvif, og því hagvöxt, en af því má ráða að nýsköpun og tækni hafi átt sinn þátt í efnahagsbatanum síðustu ár, þó að hann hafi verið fremur lítill í stóra samhenginu.“
Nýsköpunarfyrirtækjum hefur einnig fjölgað mikið á undanförnum árum. Þeim fjölgaði til að mynda um 55 á Íslandi milli áranna 2012 og 2014. Starfsmönnum þeirra fjölgaði um 400 og tekjur jukust um tæpa 22 milljarða króna. Virðisaukinn jókst minna, en Arion banki segir að það komi ekki á óvart ef fjöldi fyrirtækja í þessum atvinnugreinum var í miklum vexti og með hlutfallslega litlar eða engar tekjur