Mun fleiri karlar en konur fara í ófrjósemisaðgerðir hér á landi á hverju ári. Samkvæmt nýjustu tölum frá Landlæknisembættinu fóru fjórum sinnum fleiri karlar í ófrjósemisaðgerð árið 2014 heldur en konur; eða 463 karlar og 121 kona.
Þetta er mikil breyting frá því sem áður var. Sé litið á þróun síðustu áratuga þá fóru margfalt fleiri konur í ófrjósemisaðgerðir heldur en karlar. Árið 1983 lögðust 651 kona undir hnífinn og einungis 28 karlar. Sjö árum síðar, 1990, voru hlutföllin svipuð; 543 konur og 28 karlar, sami fjöldi og 1983.
Það var svo upp úr aldamótum sem kynjahlutföllin tóku að jafnast. Árið 2005 fóru nær jafn margar konur og karlar í aðgerðina, 280 konur og 285 karlar.
Í góðærinu hélt þessi þróun áfram og varð skýrari eftir efnahagshrunið 2008. Fjöldi karla sem fór í ófrjósemisaðgerðir fór stígvaxandi og sífellt færri konur fóru í aðgerðina.
Opnari umræða meðal karla jók fjöldann
Þorsteinn Gíslason, þvagfæraskurðlæknir á Landspítalanum og Læknastöðinni Glæsibæ, segir fjölgun ófrjósemisaðgerða meðal karla, sem er oft kölluð „herraklipping”, skýrast af opnari umræðu og minnkandi fordómum.
„Menn höfðu miklar ranghugmyndir um þessar aðgerðir, til dæmis varðandi kynlíf. Þeir eru ófeimnari að ræða þetta núna sín á milli og eru almennt fróðari um þetta,” segir hann.
Engar breytingar hafa orðið á eðli aðgerðanna á síðustu 30 árum að sögn Þorsteins, þó að tæknilega séu þær enn öruggari og fljótlegri í dag en áður.
„En það er enn jafn erfitt að snúa ófrjósemisaðgerðinni til baka og áður,” segir hann. „Þegar maður ræðir við menn í þessum hugleiðingum er mikilvægt að gera þeim grein fyrir því að það er erfitt að snúa þessu við, en það er hægt. Maður þarf að vera mjög ákveðinn í þessu og makinn að sama skapi. Þetta er síðasta stigið í getnaðarvörn.”
Ófrjósemisaðgerðir eru algengastar hjá báðum kynjum þegar fólk er á aldursbilinu 35 til 44 ára.
Neyðarpillan breytti miklu
Kostnaður við ófrjósemisaðgerðir hjá körlum er að sögn Þorsteins í kring um 39 þúsund krónur, sem Tryggingastofnun greiðir að fullu. Aðgerðin sjálf er mun einfaldari hjá körlum heldur en konum og er framkvæmd með deyfingu og þeir geta farið heim samdægurs.
Svæfing er nauðsynleg þegar kemur að konum og skorið er í gegn um kviðarholið. Eggjaleiðurum er lokað til að koma í veg fyrir að egg og sáðfrumur mætist. Konur hafa blæðingar eins og áður. Fækkun ófrjósemisaðgerða meðal kvenna má meðal annars rekja til tilkomu neyðargetnaðarvarnarpillunnar svonefndrar til landsins árið 1998, sem geta verið teknar eftir samfarir, sem og öflugs fræðslustarfs og opnari umræðu, samkvæmt Landlæknisembættinu.