Dönsk samtök lögfræðinga sem gæta hagsmuna útlendinga hyggjast leita til dómstóla í Danmörku og, ef nauðsynlegt reynist, til Mannréttindadómstóls Evrópu, verði sýrlenskum manni neitað um að fá fjölskyldu sína til landsins. Maðurinn fékk fyrir tæpu ári síðan tímabundið landvistarleyfi og hyggst nú sækja um að fá fjölskyldu sína til Danmerkur. Núgildandi löggjöf miðast við eitt ár en verði frumvarp sem nú er til meðferðar í danska þinginu að lögum verður ekki hægt að sækja um slíkt leyfi fyrir fjölskylduna fyrr en eftir þrjú ár.
Umdeildustu ákvæðin
Ákvæðið um þriggja ára biðtíma er, ásamt ákvæðinu um eignaupptöku verðmæta, hið umdeildasta í nýrri innflytjendalöggjöf sem danska ríkisstjórnin kynnti fyrir skömmu. Frumvarpið er í 34 liðum og samkvæmt því verða hertar til muna reglur sem gilda og skilyrði sem hælisleitendur þurfa að uppfylla ætli þeir að setjast að í Danmörku. Ríkisstjórnin hefur ekki farið leynt með tilganginn sem er að draga úr aðdráttarafli Danmerkur sem nýs heimalands flóttafólks. Danski þjóðarflokkurinn, næst fjölmennasti flokkurinn á danska þinginu, og sem segja má að hafi líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér þótt hann standi utan stjórnar, hefur þrýst mjög á um hertar reglur og sumir þingmenn flokksins jafnvel talað um að loka landinu algjörlega fyrir flóttafólki. Skilríkjaskoðun var tekin upp á landamærum Þýskalands og Danmerkur 4. janúar síðastliðinn, sama dag og slík skoðun hófst, að frumkvæði Svía, á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur.
Ógætilegar yfirlýsingar ráðherra
Þegar danska ríkisstjórnin kynnti fyrirætlanir sínar vöktu yfirlýsingar Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála athygli fjölmiðla um allan heim. Ráðherrann sagði að lögreglu og tollvörðum yrði heimilt að taka af flóttafólki reiðufé umfram þrjú þúsund krónur danskar (tæpl. 60 þús. íslenskar) og það sem enn meiri athygli vakti: heimilt yrði að gera upptæka skartgripi sem fólk hefði með sér. Þegar spurt var hvort þessi heimild gilti til dæmis um giftingar-og trúlofunarhringa kvað ráðherrann já við. Þetta svar fór eins og eldur í sinu um víða veröld og sumir fjölmiðlar líktu þessu við aðfarir nasista í síðari heimsstyrjöld. Þegar ráðherrann og ríkisstjórnin áttuðu sig á viðbrögðunum var strax farið að draga í land. Ráðherrann tilkynnti að fólk gæti haldið hringum og öðru, sem teldist „innan eðlilegra marka” en enginn skyldi almennilega hvað átt var við með því orðalagi. Síðar var svo tilkynnt að fólk gæti, og mætti, halda öllum persónulegum eigum, svo fremi að ekki væri um að ræða eitthvað sem væri úr hófi fram (asnar klyfjaðir gulli voru nefndir sem óhóf) og peningaupphæð sem heimilt væri að hafa með sér til landsins mætti nema tíu þúsund dönskum krónum (ca 190 þús. ísl).
Útskýringar komu fyrir lítið
Þótt ráðherrar reyndu að útskýra sína hlið málsins og bentu á að í Danmörku væri fylgt sömu reglum og í Þýskalandi, Sviss og fleiri löndum (þær dönsku reyndar rýmri) hlustuðu fáir á það og gagnrýnin dundi á dönsku stjórninni úr öllum áttum. Eitt dönsku dagblaðanna orðaði það svo að Danmörk hefði þarna orðið að eins konar samnefnara fyrir þá óvild og andúð sem flóttafólk mætti víða í Evrópu.
Er þriggja ára reglan mannréttindabrot?
Þótt ákvæðin um haldlagningu eigna hafi vakið sterkustu viðbrögðin og fengið mesta umfjöllun í upphafi hefur athyglin í auknum mæli beinst að þriggja ára reglunni áðurnefndu um sameiningu fjölskyldna.
Dönsku lögfræðingasamtökin um réttindi útlendinga telja að verði þriggja ára reglan að lögum, sé það brot á mannréttindum og á slíkt verði látið reyna fyrir dómstólum. Samtökin ætla, ef til þess kemur, að reka málið fyrir hönd sýrlenska flóttamannsins sem getið var í upphafi þessa pistils og dönsku mannréttindasamtökin ætla að styða Sýrlendinginn, bæði fyrir dönskum dómstólum og Mannréttindadómstól Evrópu gerist þess þörf Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála hefur sagt að Danmörk haldi sig innan þeirra marka sem landið hafi skuldbundið sig til á alþjóðavettvangi.
Ráðherrar á þönum
Í rauðabítið 5. janúar, daginn eftir að landamæreftirlitið var tekið upp, flaug Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála til Brussel. Erindi hennar var að útskýra fyrir ráðamönnum þar aðgerðir Dana, hvernig landamæragæslan færi fram og ástæður þess að Danir sæju sig knúna til að fara þessa leið. Ekki dugði ein ferð til Brussel til að útskýra málið og svara öllum þeim spurningum sem Evrópusambandið lagði fram og ráðherrann hefur síðan farið nokkrum sinnum til Brussel í sama tilgangi. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra hefur átt ótal símtöl við kollega sína víða um lönd og Kristian Jensen utanríkisráðherra hefur sömuleiðis verið á þönum að útskýra stefnu dönsku ríkisstjórnarinnar. Sl. fimmtudag (21.jan) sat hann fyrir svörum hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þar var ráðherrann spurður spjörunum úr um stefnu dönsku stjórnarinnar varðandi flóttafólk. Danska ríkisstjórnin hefur undanfarið sakað fjölmiðla, bæði danska og útlenda, um að fara offari í umfjöllun sinni um stefnu stjórnarinnar en yfirheyrslan í Genf sýndi danska utanríkisráðherranum að gagnrýnin og umfjöllun um flóttamannamálin er ekki samblástur fjölmiðlanna.
Á morgun (25.jan) fara Inger Stöjberg og Kristian Jensen einn ganginn enn til Brussel. Að þessu sinni er erindið að útskýra flóttamannastefnu stjórnarinnar fyrir einni af nefndum Evrópuþingsins, en þingið hafði samþykkt að óska eftir slíkum fundi. Danskir fjölmiðlar telja það merki um þann mótbyr sem danska ríkisstjórnin glímir við á alþjóðavettvangi að sendir skulu tveir ráðherrar á fund nefndarinnar.
Umfjöllun erlendra fjölmiðla kom á óvart
Að mati nokkurra sérfræðinga sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við undanfarna daga var danska stjórnin alls ekki viðbúin viðbrögðum erlendra fjölmiðla og stjórnmálamanna. Rasmus Boserup sérfræðingur hjá Stofnun alþjóðlegra fræða í Kaupmannahöfn sagði í viðtali við Kristeligt Dagblad að umfjöllun um auglýsingar sem Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála lét birta í líbönskum dagblöðum í september í fyrra hefðu gefið tóninn. Síðan hefur neikvæð umfjöllun í garð Dana aukist og minnir um sumt á Múhameðskrísuna svonefndu fyrir tíu árum, í framhaldi af birtingu Múhameðsteikninganna í Jótlandspóstinum. Ole Wæver prófessor í alþjóðastjórnmálum við Hafnarháskóla tekur í sama streng; „Þegar fjölmiðlar víða um heim fjalla um mál, jafnvel þótt rangt sé farið með þýðir lítt að ætla að leiðrétta. Á það hlustar enginn. Umfjöllun af þessu tagi skaðar Dani” Jakob Ellemann- Jensen, þingmaður Venstre og talsmaður flokksins um pólitísk málefni, tekur undir það að fréttir og frásagnir erlendra miðla skaði Danmörku: „Enginn spyr hvað sé satt og rétt.” Þingmaðurinn segir jafnframt að danska stjórnin hefði getað undirbúið kynningar á stefnu Danmerkur í málefnum flóttamanna mun betur en gert var: „Við í Venstre teljum að tíminn vinni með Dönum í þessum málum.” Áðurnefndur Ole Wæver dregur í efa að það mat þingmannsins reynist rétt.