Horft er til þess að hækka lífeyristökualdur úr 65 til 67 ára í 70 ár til að tryggja sjálfbærni í fyrirkomulagi lífeyrismála hér á landi. Þetta yrði gert í skrefum, samhliða öðrum breytingu, en vinna stendur nú yfir þar sem lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er til skoðunar. Efnahags- og fjármálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, auk heildarsamtaka á opinberum vinnumarkaði með aðkomu BSRB, BHM og KÍ, eiga í þessum viðræðum, en þær fara fram í samhengi við kjarasamninga, hins svokallaða SALEK-samkomulags.
Ekki ríkir einhugur um um hvernig breyta eigi lífeyriskerfinu, samkvæmt heimildum Kjarnans, en fyrir liggur að skerða þarf réttindi, frá því sem nú er, samkvæmt þeim tillögum sem stjórnvöld hafa lagt fram og ýta á í framkvæmd um næstu áramót. Stéttarfélög opinberra starfsmanna eru sammála um mikilvægi þess að koma lífeyriskerfinu í sjálfbæra stöðu, en breytingar megi ekki leiða til kjararýrnunar sem sé sársaukafull. Það sé ekki ásættanlegt, heldur þurfi að leiða fram ígrundaðar breytingar yfir langan tíma sem vernda réttindi en um leið stuðla að sjálfbærni kerfisins.
Mikill vandi
Í grein Jóns Ævars Pálmasonar stærðfræðings hjá Fjármálaeftirlitinu, í vefritinu Fjármálum, frá því nóvember, kemur fram að neikvæð tryggingarfræðileg staða lífeyrissjóða með ábyrgð launagreiðenda, sem í flestum tilfellum er hið opinbera, hafi numið 623 milljörðum króna. Hækkandi lífaldur þrýsti enn fremur á um að breytingar verði gerðar. Aðkallandi sé að bregðast við þessari stöðu, og þar komi helst til greina að hækka lífeyrisaldur, skerða réttindi og hækka iðgjöld, eða fara leið sem er blanda af þessum möguleikum.Breytingarnar sem unnið er að, snúa að samræmingu og jöfnun réttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Vilji stjórnvalda er sá að það verði að grundvallarreglu kerfisins að réttindi séu aldurstengd annars vegar og hins vegar að lífeyrisaldur verði hækkaður í áföngum til að tryggja sjálfbærni, eins og áður segir.
Vilji til breytinga og afnáms bakábyrgðar
Stéttarfélög opinberra starfsmanna hafa talað fyrir því að huga betur að því, en gert hefur verið verið, hvernig skerðing á réttindum verði bætt. Augljóslega þurfi að gera breytingar, en það megi ekki leiða til sársaukafullrar kjararýrnunar.
Þá stendur vilji hjá stjórnvöldum til að afnema bakábyrgð. Það þýðir að í stað fastra réttinda og breytilegs iðgjalds kemur fast iðgjald en breytileg réttindi. Réttindi myndu því ráðast af stöðu sjóðsins eins og nú er á almennum markaði. Ef reikniforsendur breytast þá verður breyting á réttindum. Þessi tillaga miðar að því að jafna lífeyrisréttindi milli opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði.
Nýr grunnur kerfisins
Eins og Jón Ævar kemur inn á í grein sinni í Fjármálumþá liggur fyrir að innleiðing nýrra taflna fyrir lífslíkur landsmanna, mun eiga sér stað á næstunni. Hún byggir meðal annars á mannfjöldaspám og mati á lífaldri. Í ljósi þess að þjóðin er að eldast, með tilheyrandi áhrifum á heilbrigðis- og lífeyriskerfinu, þá mun vafalítið koma til þess að laga þurfi stöðu lífeyrissjóða að þessum grundvallarbreytingum tryggingarfræðilegum útreikngum á stöðu lífeyrismála hér á landi.
Þetta er ríkur áhættuþáttur í lífeyriskerfinu, eins og rakið var ítarlega í erindi Steinunnar Guðjónsdóttur tryggingastærðfræðings, í apríl 2013.
Stéttarfélög opinberra starfsmanna, telja að meta þurfi hvernig best sé hægt að tryggja réttindi félagsmanna, en um leið vernda samkeppnishæf kjör, á grundvelli nýgerðra kjarasamninga.