Flestir nýbakaðir foreldrar eyða talsverðum tíma í að velja nafn á afkvæmið þótt þess séu dæmi að stjórnsamar ömmur hafi þrifið hvítvoðunginn úr örmum foreldranna við skírnarfontinn þegar presturinn spyr um nafnið. Tilkynnt svo hátt og skýrt nafn barnsins, sem kannski var ekki það sem foreldrarnir höfðu ákveðið. Stundum hafa orðið eftirmál vegna slíkra atvika.
En það eru ekki einungis börn sem fá nöfn. Bílaframleiðendur gefa til dæmis bílum sínum nöfn, eða einkenna þá með tölustöfum, jafnvel tölu- og bókstöfum. Volkswagen er þannig ekki bara Volkswagen heldur getur hann líka verið Golf eða Passat svo dæmi sé tekið. Ef einhver skyldi láta sér til hugar koma að bílaframleiðendur ákveði í skyndingu hvaða nafn skuli gefið bílnum er það alrangt. Bakvið nafnið á nýrri bílgerð (týpu) liggur mikil undirbúningsvinna. Í viðtali í frönsku dagblaði fyrir skömmu, við kynningarstjóra hjá stórum bílaframleiðanda, kom fram að miklum tíma sé varið í að velja nafn þegar fyrirtækið setur nýjan bíl á markaðinn. Mikilvægt er að nafnið sé sem alþjóðlegast þannig að sem flestar þjóðir, burtséð frá tungumáli, geti tekið sér það í munn. Nafnið þarf líka að vera þannig að það festist í minni og fólk tengi það við ákveðna bíltegund. Áðurnefndur kynningarstjóri nefndi Toyota Corolla sem dæmi. „Þegar nafnið Corolla er nefnt vita allir hvað við er átt“ sagði kynningarstjórinn sem bætti því svo við að hann gæti ekki botnað í hvers vegna Toyota hefði valið að skipta þessu nafni út fyrir hið einkennilega heiti Auris „sem enginn veit hvernig á að bera fram“.
Getur bíll heitið Tivoli?
Orðið Tivoli eða Tívolí tengja langflestir í dag við skemmtigarðinn heimsþekkta í Kaupmannahöfn, sem var stofnaður 1843. Upphaflega hét skemmtigarðurinn Kjöbenhavns Tivoli og Vauxhall, stofnandinn skírði staðinn eftir Jardin de Tivoli í París (sem hafði nafnið frá ítalska bænum Tivoli, skammt frá Róm) og Vauxhall Gardens í London. Almenningur kallaði skemmtigarðinn frá upphafi Tivoli, Vauxhall nafnið (sem breskur bílaframleiðandi hefur notað um áratuga skeið) hvarf.
Fyrir nokkru fengu hugmyndasmiðir suður-kóreska bílaframleiðandans SsangYong (sem enginn veit hvernig á að bera fram) þá bráðsnjöllu hugmynd, að þeim þótti, að kalla nýjan smájeppa SsangYong Tivoli. Smájeppinn er seldur undir þessu nafni víða um heim. Forsvarsmenn Tívolís í Kaupmannahöfn voru ekki jafn upprifnir yfir nafninu á þessum smájeppa og vildu fá bann sett á notkun nafnsins. Það mál er nú til meðferðar hjá dönsku einkaleyfastofunni. Tivoli smájeppinn er hinsvegar til sölu víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Tívolí í Kaupmannahöfn reynir af fremsta megni að koma í veg fyrir að nafn skemmtigarðsins sé notað á alls kyns vörur, vann til dæmis fyrir skömmu mál gegn hreinlætistækjaframleiðandanum Geberit, sem vildi skíra nýja gerð salernissetu Tivoli. Að sögn fjölmiðlafulltrúa Tívolís koma árlega upp nokkur mál af þessu tagi, flest enda þau með samkomulagi.
Gingo var of líkt Twingo
Dæmi um misheppnaðar nafngiftir bílaframleiðenda eru mörg. Fyrir rúmum áratug kynnti ítalski bílaframleiðandinn Fiat nýjan smábíl og búið var að útbúa kynningarefni og litprentaða sölubæklinga. Gingo átti hann að heita þessi nýi bíll. Renault fyrirtækið franska var fljótt að bregðast við og krafðist þess að Fiat breytti nafninu, Gingo væri allt of líkt Twingo, bíl sem Renault hefur framleitt um árabil. Þetta mál endaði með því að Fiat dró upp gamalt nafn, nafn sem ekki hafði verið notað um nokkurra ára skeið, í stað Gingo fékk nýi bíllinn nafnið Panda.
Ford Focus er í hópi mest seldu bíla heims. Þessi vinsæli bíll er arftaki hins vinsæla Escort sem var framleiddur um rúmlega þrjátíu ára skeið. Þegar Ford fyrirtækið kynnti Focus árið 1998 vakti nafnið litla hrifningu útgefenda þýsks tímarits sem ber sama nafn. Á endanum náðist þó samkomulag: Ford mátti nota nafnið en greiddi mjög háa peningaupphæð (upphæðin aldrei gefin upp) til samtakanna Lækna án landamæra.
Þegar þýski bílaframleiðandinn Audi setti á markaðinn bíl sem bar heitið Q7 brást Nissan fyrirtækið við. Taldi sig eiga rétt á bókstafnum Q, sem notaður var á lúxusbílana Infiniti. Þjóðverjarnir höfðu betur í þessari deilu og einnig þegar Renault vildi kalla tiltekna bíltýpu Espace Qadra. Dómstóll úrkurðaði að Quadra nafnið væri of líkt Quattro nafni bílanna hjá Audi.
Árið 1995 setti Volvo á markaðinn nýja „línu“ eins og framleiðendur orða það gjarna. Ætlunin var að tvær nýjar gerðir myndu heita S4 og F4. Audi fyrirtækið setti sig upp á móti þessu, sagði að þetta líktist of mikið heitinu á tilteknum gerðum Audi bíla sem bera bókstafinn S.
Touran og Turan
Árið 2003 frétti eigandi Turan, lítils bílaverkstæðis í Hamborg, að Volkswagen ætlaði að setja á markaðinn nýja bílgerð, Touran. Verkstæðiseigandinn beið átekta uns byrjað var að kynna Touran bílinn, þá talaði hann við lögfræðing. Málið endaði þannig að Volkswagen gaf öllum starfsmönnum Touran nýjan bíl og borgaði verkstæðiseigandanum umtalsverða fjárhæð. Verkstæðiseigandinn vildi ekki upplýsa um upphæðina en sagði að hann gæti lagt frá sér skiptilykilinn og smurkönnuna.
Dauðagildra og táfýlusokkar
Það er margt að varast þegar skíra skal nýjan bíl. Ekki bara að forðast nöfn eða bókstafi sem þegar eru í notkun hjá öðrum framleiðendum, líka þarf að huga að merkingu orða á ýmsum tungumálum. Einn þekktur bílaframleiðandi, sem ekki verður nafngreindur hér, hafði ákveðið nafn tiltekinnar bílgerðar sem til stóð að framleiða fyrir Brasilíumarkað. Þegar betur var að gáð kom í ljós að nafnið sem framleiðandanum fannst smellpassa þýddi „Dauðagildra“ á portúgölsku. Ekki beint heppilegt nafn. Annar framleiðandi hafði ákveðið nafn sem hljómaði svo prýðilega. Þangað til í ljós kom að þetta hljómfagra nafn þýddi „Táfýlusokkar“ á tungumáli eins þeirra landa þar sem til stóð að selja bílinn. Nafninu var snarlega breytt.