Miðað við fréttaflutning seinustu mánaða mætti halda að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum væru handan við hornið en svo er alls ekki. Þetta langa ferli er í raun rétt að byrja. Á mánudaginn þann 1. febrúar halda bæði Demókrataflokkurinn og Repúblíkanaflokkurinn sitt fyrsta forval, í Iowa að venju. Þetta er án efa mikilvægasta forvalið af öllum og vert er á athuga af hverju það er og af hverju þetta litla landbúnaðarríki fékk þennan sess í bandarískum stjórnmálum.
Af hverju Iowa?
Um áratuga skeið hefur fyrsta prófkjörið hjá stóru flokkunum tveimur, Demókrataflokknum og Repúblíkanaflokknum, verið haldið í New Hampshire. Það stendur meira að segja í lögum ríkisins að halda verði prófkjör þar á undan öðrum ríkjum. Það hefur ekkert breyst því fyrsta prófkjörið (primary) verður haldið þann 9. febrúar næstkomandi og fyrstu fulltrúarnir kjörnir beint á landsþing flokkanna í sumar þar sem tilnefningarnar eru veittar. Í Iowa er aftur á móti haldin svokölluð samkunda (caucus) þar sem fulltrúar eru valdir á litlum fundum um allt ríkið.
Flokkarnir stóru fara ekki alveg eins að en fundargestum er gert skilt að hlusta á ræður frambjóðenda og taka þátt í umræðum áður en þeir fá að kjósa. Ferlið allt hefur verið gagnrýnt fyrir hversu opið og ólýðræðislegt það er og tímafrekt. Það getur tekið 2-3 klukkutíma að taka þátt í samkundu og margir hafa ekki þann tíma aflögu á mánudegi. Fulltrúarnir sem valdir eru á samkundunni eru líka ekki lagalega bundnir til að kjósa á ákveðinn hátt og þess vegna hefur Iowa fengið að vera á undan New Hampshire síðan 1972.
Varð fyrst fyrir slysni
Það gerðist hálfpartinn fyrir slysni að Iowa fékk sinn sess sem fyrsta forvalið árið 1972. Demókrataflokkurinn þar þurfti að flýta forvalinu vegna skipulagsvandræða og lenti það á undan New Hampshire. Fjórum árum síðar færðu Repúblíkanar í Iowa sig yfir á sama dag og Demókratarnir og hefur það verið þannig síðan.
Leiðtogar ýmsra annarra ríkja hafa verið ósáttir við þetta fyrirkomulag og oft hafa komið fram tillögur um að ríki skiptist á að hefja forvalstíðina. Það hefur þó ekki verið vilji fyrir því í höfuðstöðvum flokkanna.
Iowa er miðvesturríki, staðsett nánast í miðju Bandaríkjanna,samansett úr 99 sýslum. Íbúafjöldi ríkisins er rúmlega 3 milljónir sem eru tæplega 1% af íbúafjölda landsins. Ríkið er aftur á móti nokkuð stórt og dreifbýlt en þó búa um 600.000 manns í höfuðborginni Des Moines og nágrenni. Samfélagið er einnig nokkuð einsleitt, t.a.m. eru rúmlega 90% af íbúunum hvítt fólk af norður-evrópskum uppruna. Iowa er sögulega mikið landbúnaðarríki þar sem jarðvegurinn og loftslagið hentar sérlega vel fyrir ýmis konar kornrækt. Meira en 90% af landssvæði ríkisins er lagt undir landbúnað, sem er þekkt fyrir mikla maísræktun. Iowa er einnig þekkt fyrir framleiðslu og notkun á grænni orku, t.d. vindorku og etanóli. Þetta er viðkvæmt efni í ríkinu og frambjóðendur verða að vanda sig hvað þeir segja varðandi græna orkugjafa.
Prófsteinn á framboð
Árið 1972 stóð öldungardeildarþingmaðurinn Bruce McGovern frá Suður Dakóta sig vel í forvalinu í Iowa. Þetta gaf tóninn og hann náði óvænt tilnefningu Demókrataflokksins eftir baráttu við fyrrum varaforsetann Hubert Humphrey og fleiri. Það bjargaði honum þó ekki frá niðurlægjandi ósigri gegn Richard Nixon í forsetakosningunum um haustið. Sá frambjóðandi sem áttaði sig þó fyrstur á mikilvægi Iowa var Jimmy Carter fjórum árum síðar. Carter var hnetubóndi og fyrrum ríkisstjóri Georgíu og lítt þekktur á landsvísu. Árið 1976 var í fyrsta skipti haldið forval í öllum fylkjum Bandaríkjanna og Carter sá að sigur í Iowa myndi koma sér á kortið. Carter sendi mikið af starfsfólki og sjálfboðaliðum til ríkisins og vann að lokum stórsigur þar.
Þetta vatt svo upp á sig og Carter sigraði hvert ríkið á fætur öðru uns hann náði tilnefningu flokksins og vann svo hvíta húsið um haustið. Síðan þá hafa flestir gert sér grein fyrir mikilvægi Iowa í kosningalanghlaupinu og eytt töluvert meiri tíma og fjármunum í ríkinu en öðrum ríkjum af sömu stærðargráðu. Vanmat á áhrifum forvalsins hefur reynst frambjóðendum dýrt í gegnum tíðina. Árið 2004 tapaði Howard Dean, fyrrum ríkisstjóri Vermont, eftirminnilega í forvali Demókrata. Dean, sem var langfjársterkasti og sigurstranglegasti frambjóðandinn, ákvað að eyða kröftum sínum í öðrum fylkjum. Hann endaði þriðji í Iowa með einungis 18% atkvæða og allur vindur fór úr framboði hans. Í staðinn fékk hinn óvænti sigurvegari forvalsins, öldungardeildarmaðurinn John Kerry frá Massachusetts, mikinn meðbyr og vann að lokum tilnefninguna.
Mikilvægi þess að standa sig vel í forvalinu sést best ef rennt er yfir söguna. Síðan 1972 hefur enginn frambjóðandi í flokkunum tveimur náð tilnefningunni án þess að ná a.m.k. þriðja sæti í Iowa. Enginn Demókrati hefur náð tilnefningunni með undir 20% fylgi í Iowa ef undanskilið er árið 1992 þegar annar öldungardeildarþingmaður ríkisins Tom Harkin var í framboði. Sá frambjóðandi Repúblíkanaflokksins sem stóð sig verst í ríkinu var John McCain, öldungardeildarþingmaður frá Arizona, árið 2008 en fékk þó 13%. Iowa virkar því eins og sigti á frambjóðendur áður en forvalstímabilið hefst fyrir alvöru. Ef frambjóðendur fá ekki 15-20% fylgi þar eiga þeir litla sem enga möguleika á sigri. Því gefast margir upp skömmu eftir að niðurstöðurnar frá Iowa eru kunngjörðar.
Forvalið er einnig gott tækifæri fyrir frambjóðendur til að sanna sig fyrir kjósendum og flokksforystunni. Ef menn geta unnið Iowa, þá geta þeir unnið annars staðar líka. Hafa ber í huga að Iowa hefur undanfarna áratugi verið svokallað sveifluríki(swing state), þ.e. að styrkur flokkanna er nokkuð jafn. Frambjóðendur sem geta unnið sigra í slíkum fylkjum eru ómetanlegir fyrir flokksforystuna. Frambjóðendur fá einnig tækifæri til að sjá hvort að stefna þeirra sé að virka og skilaboðin að ná til kjósenda. Þeir geta því stillt sig af fyrir komandi átök.
Kröfuharðir kjósendur
Grasrótarstarf er mikilvægt í ríkinu en það er ekki nóg að hafa nóg af starfsfólki og sjálfboðaliðum. Það er heldur ekki nóg að auglýsa í sjónvarpi, útvarpi og á götuskiltum. Nærvera frambjóðenda er Iowa-búum ákaflega mikilvæg. Íbúarnir gera sér vel grein fyrir stöðu sinni og þeirri ábyrgð sem fylgir því að kjósa fyrstir. Þeir ræða mikið um stjórnmál við hvern sem er, jafnvel börnin sín, og eru þekktir fyrir að hafa opinn huga og að skipta um skoðun á seinustu stundu. Einn sjálfboðaliði repúblíkana í Des Moines segir: „Iowa-búar eru aldrei ánægðir. Það þarf meira en eina ræðu, eitt handaband eða einn fund til að sannfæra kjósendur í Iowa.“
Frambjóðendur eru t.d. eiginlega skyldugir til að mæta á ríkishátíðina (Iowa State Fair) og taka þátt í öllum þeim undarlegu hefðum sem þar hafa skapast svo sem að borða kornpylsur og svínakótilettur á priki og láta mynda sig með hinni frægu smjörkú. Um 100.000 manns sækja hátíðina árlega og frambjóðendur hamast því við að fanga athygli fólks. Nærvera í heimabyggð er einnig mikilvæg og þar sem Iowa er dreifbýlt ríki er það heilmikið verk að heimsækja hvern krók og kima. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir Repúblíkanana þar sem þeir hafa almennt meira fylgi í dreifbýli en í þéttbýli. Frambjóðandinn Rick Santorum varð stjarna í Iowa þegar hann heimsótti allar 99 sýslurnar á Dodge Ram 1500 pickup jeppa.
Hann uppskar árangur erfiðisins og vann nauman sigur í forvalinu. Mikil viðvera hjálpar og til eru dæmi þess að frambjóðendur hafi flutt til Iowa tveimur árum fyrir forval til að undirbúa jarðveginn, jafnvel með alla fjölskyldu sína með sér.
Fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á forvalinu í Iowa og hafa að töluverðu leyti skapað mikilvægi þess. Her fjölmiðlamanna dvelur í ríkinu vikum og mánuðum fyrir forval og frambjóðendur keppast við að hæna þá að sér. Ef frambjóðanda gengur illa í forvalinu er líklegt að fjölmiðlarnir yfirgefi hann. Fjölmiðlafólkið hefur þó ekki eingöngu áhuga á frambjóðendunum sjálfum. Þetta er tíminn þegar fréttamenn og stjórnmálaskýrendur ræða við venjulegt fólk um stjórnmál yfir kaffi og böku.
2016
Fyrsta lota einvígisins milli Hillary Clinton og Bernie Sanders um tilnefningu Demókrataflokksins hefst á mánudaginn og ljóst er að Sanders rær lífróður í ríkinu. Ef Sanders vinnur ekki í Iowa verður eftirleikurinn erfiður fyrir hann. Sanders hefur reitt sig töluvert á ungt fólk og þá sérstaklega háskólanema. Fylgi hans gæti því ráðist á því hversu vel þeir skila sér á samkundur út um allt ríkið. Hann er því nokkuð óheppinn að því leyti að háskólarnir eru einmitt í fullum gangi meðan á forvalinu stendur. Þegar Barack Obama sigraði Hillary Clinton eftirminnilega fyrir átta árum síðan voru háskólanemar í fríi og því dreifðir út um allt ríkið og skiluðu sér því vel á samkundur.
Sanders hefur byggt kosningabaráttu sína á jafnrétti og félagslegri samhjálp. Það gæti hjálpað honum í Iowa sem er ekki ríkt ríki. Hann fangaði athygli fólks þegar hann hughreysti konu í bænum Iowa Falls sem á við fátækt að stríða.
Clinton þekkir þennan slag vel og hún hefur ennþá sterkt net sjálfboðaliða í ríkinu sem studdi hana 2008. Hún hefur reynt að byggja baráttu sína á leiðtogafærni sinni, mýkt og með því að hlusta á kjósendur. Hún hefur líka beitt gömlu trixi Demókrataflokksins óspart, þ.e. að beita fyrir sig frægu fólki. Til dæmis kom söngkonan Katy Perry fram fyrir hennar hönd á kosningafundi í haust. Bill er líka aldrei langt undan enda vinsæll á kosningasamkomum sem þessum.
Kosningabarátta frambjóðenda Repúblíkanaflokksins í Iowa hefur verið nokkuð óhefðbundin. Tveir frambjóðendur, Donald Trump og Marco Rubio, hafa verið sakaðir um að sinna ríkinu ekki nægilega vel, þ.e. að hafa ekki næga persónulega viðveru þar. Báðir hafa þó haft töluvert fylgi. Trump hefur aftur á móti dælt mun meira fjármagni í kosningabaráttuna í Iowa en nokkur annar frambjóðandi enda með mun dýpri vasa. Hann hafði t.a.m. efni á því að gefa börnum þyrluferðir á ríkishátíðinni og hafa aðrir frambjóðendur gagnrýnt hann fyrir það.
Einn af sigurstranglegustu frambjóðendunum, Ted Cruz frá Texas, verður seint talinn mikill vinur grænna orkugjafa. Hann hefur barist hart gegn allri löggjöf sem greiðir götu etanóls-framleiðenda sem eru svo mikilvægir í Iowa. Vinsældir hans mætti því kannski skýra með þeirri miklu athygli sem hann hefur sýnt ríkinu. Cruz ætlar að fylgja fordæmi Ricks Santorum og heimsækja allar 99 sýslurnar. Cruz er líka sá frambjóðandi sem er hvað vinveittastur byssueigendum og mikill veiðimaður sjálfur. Þetta hjálpar honum í Iowa þar sem byssueign og menning er mikil. Í Iowa mega blindir ganga um með hríðskotariffla.
Tveir fyrrverandi sigurvegarar ríkisins taka aftur þátt nú en gengur illa að höfða til kjósenda og fjölmiðla, Santorum og Mike Huckabee. Huckabee, sem túraði um Iowa með Chuck Norris sér við hlið, var svo vinsæll fyrir átta árum síðan að minnstu munaði að hann væri skorinn á háls á rakarastofu vegna ágangs fréttamanna. Hófsömum Repúblíkönum hefur oft gengið illa í Iowa og sagt hefur verið að ríkið ýti Repbúlíkanaflokknum til hægri. Ríkið hefur aftur á móti verið kjörlendi fyrir félagslega íhaldssama frambjóðendur. Það kemur kannski ekki á óvart að frambjóðendur á borð við Jeb Bush og Chris Christie höfða ekki til Iowa-búa.