Sala Landsbankans á 31,2 prósent hlut hans í Borgun hefur verið fyrirferðamesta frétt þessa árs á Íslandi. Ljóst er að þeir sem keyptu hlutinn hafa margfaldað virði fjárfestingar sinnar í ljósi þess að virði fyrirtækisins hefur reynst mun meira en áætlað var. Auk þess hefur bankinn legið undir ámæli fyrir að hafa selt hlut sinn í Landsbankanum bakvið luktar dyr til valins hóps bjóðenda.
Salan á Borgun hefur beint athyglinni að því hvernig Landsbankinn hefur áður haldið á sölu eigna á undanförnum árum. Og þar hefur ein „sala“ umfram aðrar verið nefnd, salan á eignaumsýslufélaginu Vestia til Framtakssjóðs Íslands.
Landsbankinn setur á fót eignaumsýslufélag
Eftir að Landsbankinn var endurreistur á nýrri kennitölu eftir hrunið sat hann, líkt og hinir endurreistu bankarnir, uppi með gríðarlegt magn af eignum sem þurfti að endurskipuleggja. Ákvörðunin um að láta endurreistu ríkisbankanna endurskipuleggja þessar eignir var pólitísk og því var enn meiri þrýstingur á bankana að framkvæma verkið með opnum og gegnsæjum hætti sem hafin væri yfir tortryggni. Þess utan voru enn ríkari skyldur á Landsbankanum að gera hlutina almennilega í ljósi þess að hann var að öllu leyti í eigu ríkisins, og eignir hans þar af leiðandi ríkiseignir. Það tók bankann þó ekki langan tíma að orka tvímælis.
Árið 2009 setti Landsbankinn á fót eignaumsýslufélagið Vestia til að halda á fyrirtækjum sem lentu í höndum á bankans. Ýmsir einkaaðilar höfðu sýnt umræddum eignum áhuga og reyndu að nýta tengsl innan bankans og stjórnsýslunnar til að komast einir í bjóðendastöður.
Vestia var ansi stór biti. Inni í félaginu voru sjö fyrirtæki sem samtals réðu yfir sex þúsund starfsmönnum. Um var að ræða alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic Group, með alls 30 dótturfélög og starfsemi í 14 löndum, Vodafone, Skýrr, EJS, HugAx, Húsasmiðjuna og Plastprent. Mikið púður var lagt í að tryggja að enginn „monkey-business“ yrði í endursölu á þessum eignum, líkt og það var orðað af viðmælanda innan stjórnsýslunnar, sem átti við að þeim ætti ekki að stýra upp í hendurnar á einhverjum útvöldum aðilum.
Steingrímur J. varð brjálaður
Í lok ágúst 2010 var skyndilega tilkynnt að Framtakssjóður Íslands, umbreytingarsjóður sem stofnaður hafði verið af 16 lífeyrissjóðum í desember 2009, hefði keypt Vestia. Fyrir pakkann greiddi Framtakssjóðurinn 19,5 milljarða króna auk þess sem Landsbankinn eignaðist 27,5 prósenta hlut í hinum ætlaða umbreytingarsjóði. Eignin var ekki sett í opið söluferli né yfir höfum auglýst til sölu.
Með þessum gerningi var íslenska ríkið, sem átti Landsbankann að mestu leyti, orðinn óbeint stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðsins. Það var aldrei meiningin að svo yrði. Með kaupunum á Vestia-eignunum var Framtakssjóðurinn einnig kominn almennilega af stað í starfsemi sinni. Áður var eina stóra fjárfestingin sem sjóðurinn hafði ráðist í kaup á 30 prósent af hlutafé Icelandair.
Ákvörðunin um kaupin á Vestia var tekin af æðstu stjórnendum Landsbankans og Framtakssjóðsins, þeim Steinþóri Pálssyni og Finnboga Jónssyni. Í bókinni Íslands ehf.- Auðmenn og áhrif eftir hrun, sem kom út í águst 2013, kemur fram að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi varið þennan gjörning opinberlega en bakvið luktar dyr varð hann gjörsamlega brjálaður yfir sameiningunni. Að hans mati fólst í henni klárt brot á reglum sem Landsbankinn hafði sjálfur sett sér um meðferð eigna sem lent höfðu í höndunum á bankanum eftir hrunið. Steingrími fannst þeir Steinþór og Finnbogi heldur ekki hafa vandað almennilega til verka. Í einkasamtölum hundskammaði hann þá báða og sagði þeim mjög skýrt að svona lagað skyldu þeir aldrei gera aftur.
Augljóslega var samruninn við Framtakssjóðinn góð leið fyrir Landsbankann til að koma eignum frá sér og losa þar með um þrýsting á bankann um að losa sig sem fyrst við fyrirtæki sem voru komin í faðm hans. Steingrímur lagði mikla áherslu á að þeir Finnbogi og Steinþór myndu ekki láta taka sig í bólinu þegar kæmi að því að fyrirtækin yrðu endurseld út úr Framtakssjóðnum. Allt yrði að vera opið og gagnsætt í þeim söluferlum.
Salan á Icelandic
Steingrímur varð því ekki ánægður þegar Framtakssjóðurinn tók upp einkaviðræður í upphafi árs 2011 við fjárfestingasjóðinn Triton um kaup á verksmiðjurekstri Icelandic, sem hafði fylgt frá Landsbankanum til sjóðsins þegar Vestia var selt. Á hliðarlínunni í þeim viðskiptum voru aðrir áhugasamir aðilar, meðal annars kanadíska fisksölufyrirtækið High Liner Foods, algjörlega brjálaðir yfir því að fá ekki að gera tilboð í reksturinn. Í umræðunni á þessum tíma var látið líta út fyrir að Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic, hefði haft sérstaka hagsmuni umfram aðra að Triton keypti Icelandic og að viðræður við fjárfestingasjóðinn hefðu verið tilkomnar vegna frændsemi hans við nafna sinn Jónsson, framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins.
Samsæriskenningin gekk út á það að bakhjarl Finnboga Baldvinssonar væri bróðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og eigandi Samherja. Samningsviðræðurnar áttu þannig að vera eitt stórt ráðabrugg til að gera þeim kleift að komast yfir Icelandic. Á meðal þess sem lagt var til í þessum viðræðum við Triton var að hluti starfsmanna Icelandic myndi fá að eignast í fyrirtækinu ef af sölunni yrði. Mörgum innan stjórnsýslunnar og viðskiptalífsins fannst óþefur af viðræðunum og töluðu um að gamla Ísland vaknaði alltaf þegar einhver héldi að hann gæti grætt mikið á skömmum tíma. Í byrjun febrúar 2011 var tilkynnt um að tilboði Triton hefði verið hafnað og að hluti af starfsemi Icelandic yrði seldur í opnu söluferli. Á bakvið tjöldin hafði gengið mikið á vikurnar á undan. Aftur blandaði Steingrímur J. Sigfússon sér í málið og sagði við Finnboga Jónsson að hann ætti að slíta samningaviðræðunum. Hvort þau skilaboð fjármálaráðherrans hafi ráðið úrslitum í því að hætt var við söluna liggur ekki fyrir.
Í nóvember 2011 var starfsemi Icelandic í Bandaríkjunum seld til High Liner Foods. Söluverðið var 26,9 milljarðar króna.
Sumarið 2014 seldi Landsbankinn 9,9 prósent hlut sinn í Framtakssjóði Íslands og bókfærði vegna þessa 4,8 milljarða króna hagnað. Landsbankinn á enn þann dag í dag 17,7 prósent hlut í Framtakssjóði Íslands, sem hefur losað um mikið af þeim eignum sem hann eignaðist á árunum eftir hrun. Í dag á sjóðurinn 100 prósent hlut í Icelandic Group, 38 prósent hlut í Invent Farma og allt hlutafé í IEI slhf., sem heldur utan um söluandvirði erlendra eigna Framtakssjóðsins. Á meðal þeirra eigna er söluandvirði vegna sölunar á starfsemi Icelandic í Bandaríkjunum árið 2011.