Leicester City eru nú á barmi þess að vinna enska meistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þetta er stórmerkilegt í ljósi þess að fyrir tveimur árum síðan spilaði liðið í annarri deild og fyrir sjö árum síðan spiluðu þeir í þriðju deild. Fyrir tímabilið spáðu margir Leicester City falli úr úrvalsdeildinni en enn sem komið er hafa þeir einungis tapað tveimur leikjum og hafa fimm stiga forystu á toppi deildarinnar. Á meðan eru mörg af þeim sigursælu og fjársterku liðum sem hafa einokað meistaratitilinn seinustu áratugi í algjöru basli. Með sigri myndu Leicester City komast í hóp ólíklegustu deildarmeistara sögunnar.
10. Montpellier HSC – 2012
Velgegni hefur verið óvenju dreifð í frönsku deildinni Ligue 1 miðað við aðrar sambærilegar deildarkeppnir Evrópu. Engu að síður átti enginn von á því að smáliðið Montpellier við suðurströndina ynni titilinn tímabilið 2011-2012. Liðið hafði endað í 14. sæti árið áður og átti eftir að lenda í 9. sæti árið eftir. Það voru einnig einungis þrjú ár síðan liðið kom upp úr annarri deild. Þjálfarinn Rene Girard náði þó að búa til góða blöndu af reyndum kempum og ungum leikmönnum. Um sumarið styrkti Girard vörnina umtalsvert með kaupunum á Henri Bedimo og Vitorino Hilton. En það voru sóknarmennirnir tveir, Olivier Giroud og Younes Belhanda , sem reyndust drjúgastir fyrir liðið. Montpellier tryggðu sér sinn fyrsta titil á lokadegi mótsins með þriggja stiga forskoti á stórliðið Paris St. Germain. Giroud vann markakóngstitilinn með 21 marki og var um sumarið seldur til Arsenal.
9. Atlético Madrid – 2014
Atlético Madrid er ekki lítið lið heldur eitt af sigursælustu liðum Spánar með 10 deildartitla á bakinu. Sigur þeirra er því einungis óvæntur í ljósi yfirburðastöðu risanna tveggja, Barcelona og Real Madrid, á undanförnum árum. Sumarið 2013 eyddu bæði liðin gríðarlegum fjármunum í stórstjörnur á borð við Neymar og Gareth Bale. Barcelona leiddu stærstan hluta tímabilsins en Atlético voru aldrei langt undan. Á vormánuðum náðu Atlético forystunni og héldu henni allt til lokadags þar sem þeir tryggðu sér titilinn með jafntefli á Nou Camp. Bæði Real og Barcelona skoruðu umtalsvert fleiri mörk en Atlético sem reiddu sig frekar á varnarleikinn. Miðvörðurinn Diego Godin og markmaðurinn Thibaut Courtois skiptu þar mestu. Af öðrum lykilmönnum má nefna framherjann Diego Costa sem skoraði 27 mörk og miðjumanninn Koke. Titilinn er þó að miklu leyti hinum útsjónasama þjálfara liðsins, Diego Simeone, að þakka. Minnstu munaði að Atlético ynnu tvennuna þetta ár en þeir töpuðu úrslitaleik meistaradeildarinnar gegn erkifjendunum Real Madrid.
8. VfL Wolfsburg – 2009
Flest smærri lið sem ná árangri gera það með öguðum og þéttum varnarleik og vel nýttum sóknum. Wolfsburg unnu aftur á móti sinn eina titil með vægðarlausum sóknarbolta. Þeir hófu tímabilið í dæmigerðu miðjumoði á meðan annað ólíklegt lið, Hoffenheim, leiddi deildina. Wolfsburg náðu svo flugi á vormánuðum og unnu deildina með 2 stigum meira en fráfarandi meistarar Bayern München. Þeir voru ósigrandi á heimavelli sínum Volkswagen Arena þar sem þeir unnu alla leiki sína nema einn (jafntefli við Frankfurt). Á þeim velli lutu hinir voldugu Bayern München í gras 5-1. Wolfsburg voru með langbesta markahlutfallið og skoruðu flest mörk allra. Hið eitraða tvíeyki Grafite (28 mörk) og Edin Dzeko (26 mörk) var á þessum tíma án nokkurs vafa besta framherjapar heims. Þeir fengu góðan stuðning frá miðjumönnum á borð við Zvjezdan Misimovic, Josué og Christian Gentner. Miðjuna batt svo ítalski heimsmeistarinn Andrea Barzagli saman.
7. FC Nantes – 1995
Nantes er eitt af sigursælustu liðum franskrar knattspyrnu en fyrir tímabilið 1994-1995 var liðið í kröggum og þurfti að selja marga af reyndustu leikmönnum sínum. Þjálfari liðsins Jean-Claude Suaudeau þurfti því að reiða sig á fámennan og ungan hóp sem innihélt leikmenn á borð við Patrice Loko, Christian Karembeu og Claude Makelele. Suaudeau bjóst við því að þurfa að berjast við að halda liðinu í efstu deild en annað kom á daginn. Leikmennirnir sprungu út og spiluðu mun hraðari og sókndjarfari knattspyrnu en önnur lið deildarinnar. Það bitnaði þó ekki á varnarleiknum og Nantes yfirspiluðu önnur lið á báðum endum vallarins. Þeir sigruðu deildina með 10 stiga mun og töpuðu einungis einum leik, gegn Strasbourg. Framherjarnir Patrice Loko og Nicolas Ouedec skoruðu samanlagt 40 mörk.
6. Hellas Verona FC – 1985
Í upphafi níunda áratugarins skók spillingarhneyksli ítalska knattspyrnu þar sem upp komst að leikmönnum hafði verið mútað. Árið 1985 var því ákveðið að stemma stigu við spillingu og úthluta dómurum leiki af handahófi en ekki af nefnd. Það ár komu Hellas frá Veróna öllum á óvart og unnu sinn eina titil. Liðinu hafði gengið ágætlega í bikarkeppnum og komist í úrslit bæði 1983 og 1984 en aldrei hafði þeim gengið mjög vel í deildarkeppninni. Hellas gerðu tvö lykilkaup sumarið 1984, á þýska varnarjálknum Hans-Peter Briegel og danska framherjanum Preben Elkjær. Sóknarleikurinn var góður og vörnin sú besta í deildinni. Þeir töpuðu einungis tvisvar á tímabilinu og sigruðu deildina með fjórum stigum og með langbestu markatöluna. Hellas báru t.a.m. sigurorð á ríkjandi meisturum Juventus bæði heima og að heiman. Ári seinna var dómaraúthlutun breytt aftur í sama horf og Juventus endurheimtu titilinn. Hellas enduðu þá í 10. sæti.
5. AZ Alkmaar – 2009
Fákeppni hefur einkennt hollensku deildina í rúma hálfa öld. Ajax, PSV Eindhoven og Feyenoord hafa unnið 52 af seinustu 56 deildartitlum og því heyrir það til tíðinda þegar önnur lið hreppa hnossið. AZ unnu ekki bara deildina árið 2009, heldur gerðu þeir það með tilþrifum og rufu þannig 28 ára samfellda sigurgöngu risanna þriggja. Það sem gerir titilinn enn merkilegri er að flestir leikmenn AZ voru svo til óþekktir. Þjálfari liðsins var Louis Van Gaal sem hafði unnið fjölda titla með Ajax og Barcelona þar sem lið hans voru þekkt fyrir blússandi sóknarbolta. Honum hafði ekki tekist að ná árangri hjá AZ með sínu hefðbundna leikskipulagi og því breytti hann taktík liðsins. AZ fóru að liggja aftar og beita frekar skyndisóknum. Breytingin skilaði sér og þrátt fyrir slæma byrjun á tímabilinu unnu þeir deildina með 11 stiga mun og þeir spiluðu 28 leiki í röð án þess að tapa. AZ náðu ekki að fylgja titlinum eftir en annað ólíklegt lið, Twente sem Steve McClaren stýrði, vann ári seinna.
4. Boavista FC – 2001
Síðan portúgalska deildin var stofnuð árið 1934 hafa stóru liðin þrjú (Benfica, Sporting og Porto) unnið alla deildartitlana nema tvo. Belenenses unnu árið 1946 og Boavista árið 2001. Boavista, sem er litla liðið í Óportó-borg, er fyrst og fremst þekkt sem bikarlið. Þeir hafa unnið bikarinn samtals 5 sinnum en sjaldnast gengið vel í deildarkeppni. Sumarið 2000 virtist engin breyting ætla að verða þar á enda eyddi liðið sáralitlum peningum í leikmannakaup. Jaime Pacheco þjálfari náði þó að þjappa liðinu rækilega saman. Boavista spiluðu þéttan varnarleik, þeir pressuðu lið stíft og kláruðu leiki snemma. Heimavöllurinn Estádio do Bessa reyndist þeim drjúgur þar sem þeir unnu alla leikina þar nema gegn Braga. Þeim gekk verr á útivelli, töpuðu þar t.a.m. 4-0 á lokadeginum gegn erkifjendunum Porto. Það skipti þó ekki máli, Boavista unnu deildina með einu stigi meir en Porto. Boavista höfðu engan afgerandi markaskorara en meðal lykilmanna má nefna miðjumennina Petit og Erwin Sanchez sem nú er þjálfari liðsins.
3. Ipswich Town FC – 1962
Árið 1957 komst litla liðið frá Austur-Anglíu upp úr þriðju deildinni. Þeir eyddu nokkrum árum í annarri deild uns þeir sigruðu hana árið 1961 og komust í fyrsta skipti í sögunni upp í efstu deild. Maðurinn sem stýrði liðinu upp var Alf Ramsey. Litlum peningum var eytt sumarið 1961 og margir bjuggust við að Ipswich myndu falla jafnharðan niður aftur. Þessar grunsemdir minnkuðu ekki með lélegri byrjun liðsins á tímabilinu. Tónninn var þó settur með 6-2 sigri á Burnley sem var á þeim tíma stórt lið. Leið Ipswich að titlinum var þó þyrnum stráð. Þeir unnu stóra sigra en töpuðu einnig illa, leikirnir við Manchester United fóru t.d. 4-1 og svo 0-5. Alls töpuðu þeir 10 leikjum á tímabilinu. Algjörir lykilmenn í liðinu voru framherjarnir Ray Crawford og Ted Phillips sem skoruðu samtals 61 af 93 mörkum liðsins. Ramsey var þó ekki hættur í kraftaverkabissnessnum. Hann tók við enska landsliðinu og gerði þá að heimsmeisturum árið 1966.
2. FC Kaiserslautern – 1998
Otto Rehhagel fer í sögubækurnar fyrir hið ótrúlega afrek að gera gríska landsliðið að Evrópumeisturum árið 2004. Það skyggir því miður á eitt mesta afrek í sögu þýskrar knattspyrnu. Rehhagel var rekinn frá Bayern München eftir stutta veru árið 1996 og tók þá við annarar deildar liðinu Kaiserslautern. Hann kom rauðu djöflunum upp í efstu deild árið 1997 og gerði þá svo að þýskum meisturum ári seinna. Þeir settu tóninn strax í fyrsta leik með 1-0 sigri á Bayern í München og hefnd Rehhagels var síðan fullkomnuð þegar þeir unnu þá aftur 2-0 í Kaiserslautern. Þeir komust á topp deildarinnar í 4. umferð og slepptu aldrei takinu. Mikilvægustu kaup Rehhagels sumarið eftir að þeir komu upp voru á svissneska varnarmannium Ciriaco Sforza sem hafði áður spilað með félaginu. Hann batt vörnina saman og var einn mikilvægasti leikmaður liðsins ásamt markahrókinum Olaf Marschall og Dananum Michael Schjönberg. Rehhagel fékk einnig hinn unga Michael Ballack til liðs við Kaiserslautern en hann spilaði takmarkað það tímabilið.
1. Nottingham Forest – 1978
Knattspyrnustjórinn Brian Clough tók við annarar deildar liðinu Nottingham Forest árið 1975 eftir að hafa stýrt Leeds United eftirminnilega í einungis 44 daga. Hann kom liðinu naumlega upp í efstu deild árið 1977 og fáir bjuggust við miklu af liðinu á komandi tímabili. Clough keypti þó tvo leikmenn sem áttu eftir að skipta sköpum, markmanninn Peter Shilton og sóknarmanninn Kenny Burns sem hann gerði að miðverði. Forest byrjuðu tímabilið með látum og vörnin var sú besta í deildinni. Þeir héldu dampi allt tímabilið og unnu m.a. Manchester United 4-0 á Old Trafford. Þeir unnu deildina örugglega með 8 stiga forskoti á fráfarandi meistara Liverpool og unnu deildarbikarinn í kaupbæti. Meðal annarra lykilmanna liðsins má nefna hinn unga framherja Tony Woodcock, varnarmanninn Viv Anderson og miðjumanninn Archie Gemmill. Sveinar Clough voru þó ekki hættir að koma á óvart því þeir unnu Evrópukeppni félagsliða árin 1979 og 1980.