Í dag er nákvæmlega eitt ár síðan Omar Abdel Hamid El- Hussein, tuttugu og tveggja ára Dani, sonur palenstínskra innflytjenda, kom að samkomuhúsinu Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn, um klukkan 15.30 síðdegis á laugardegi. Þar stóð yfir fundur um málfrelsi og meðal ræðumanna var sænski teiknarinn Lars Vilks, sem hafði teiknað umdeildar skopmyndir af Múhameð spámanni í hundslíki. Talið er fullvíst að tilgangur Omars Hussein, sem var vopnaður hríðskotariffli, hafi verið að ráða teiknarann af dögum.
Í anddyri
samkomuhússins, innan við stóra glugga, voru vopnaðir verðir og lögregluþjónar,
en fyrir utan húsið var sænski leikstjórinn Finn Nörgaard, sem hafði brugðið
sér út af fundinum. Óljóst er hvort orðaskipti áttu sér stað milli hans og
Omars Hussein sem hleypti af skoti, eða skotum sem urðu leikstjóranum að bana. Omar
Hussein særði jafnframt tvo lífverði og lögregluþjón en lagði síðan á flótta. Mikil
og fjölmenn leit hófst strax og var allt lögreglulið Norður-Sjálands kallað út
og herinn tók einnig þátt í leitinni. Fljótlega komst lögreglan að því Omar
Hussein, sem lögreglan þekkti til, hafði komið við í tveimur húsum á Norðurbrú
en svo virtist sem jörðin hefði síðan gleypt hann.
Spennuþrungið andrúmsloft
Lögreglan óttaðist að Omar Hussein myndi láta til skarar skríða annars staðar í borginni og stórt svæði í og við miðborg Kaupmannahafnar var nánast lokað og almenningur hvattur til að halda sig heima. Lögregla og hermenn voru hvarvetna á ferli í miðborginni og kröfðu þá sem voru á ferli um skilríki. Enginn vissi hvar Omar Hussein var niðurkominn. Leið svo fram yfir miðnætti.
Tilræðið í Krystalgade
Í samkomu-og bænahúsi gyðinga við Krystalgade, í gamla háskólahverfinu, var haldin veisla þetta laugardagskvöld. Þar voru um áttatíu manns, fullorðnir og börn. Tveir lögregluþjónar stóðu vörð innan við hliðið að húsinu og einn sjálfboðaliði, Dan Uzan 37 ára. Skömmu eftir miðnætti kom maður, sem virtist reikull í spori, eftir Krystalgade. Þegar hann nálgaðist samkomu- og bænahúsið dró hann upp byssu og skaut Dan Uzan til bana en lagði svo á flótta.
Þrátt fyrir aragrúa lögreglu- og hermanna í nágrenninu tókst manninum, sem síðar kom í ljós að var Omar Hussein, að komast undan. Ekki er með vissu vitað um ferðir hans fyrr en snemma á sunnudagsmorgninum. Þá kom hann að húsi, sem lögreglan fylgdist með, á Norðurbrú og þegar löregluþjónn kallaði til hans svaraði hann með skothríð en féll sjálfur fyrir skotum lögreglumanna.
Þaulskipulagt og undirbúið
Tilræðin í Kaupmannahöfn fyrir réttu ári voru í kjölfarið eitt helsta umfjöllunarefni danskra fjölmiðla vikum saman. Umfangsmikil lögreglurannsókn hófst þegar í stað og henni er ekki lokið. Fimm ungir menn sem lögreglan telur að hafi verið í vitorði með, og aðstoðað Omar Hussein með ýmsum hætti voru handteknir skömmu eftir að voðaverkin voru framin, fjórir þeirra sitja enn inni en þeim fimmta hefur verið sleppt. Fátt hefur enn sem komið er verið látið uppi um hvern þátt fjórmenningarnir eru taldir hafa átt í tilræðunum. Lögreglan telur augljóst að Omar Hussein hafi skipulagt og undirbúið tilræðin vandlega. Hann skipti um föt eftir tilræðið við Krudttønden en þar bar hann áberandi húfu, rauða á litinn.
Fólk, sem síðar kom í ljós að hafði séð hann skammt frá samkomu- og bænahúsinu við Krystalgade, sagði við yfirheyrslur að það hefði ekki grunað að þetta væri tilræðismaðurinn, fatnaðurinn var ekki sá sami og sést hafði á myndum úr eftirlitsmyndavélum og sjónvarpsstöðvar höfðu sýnt. Þá hefur komið fram að eftir tilræðið á Krudttønden fór Omar Hussein á netkaffihúsið PowerPlay á Nørrebrogade.
Þar lét hann „íslamska bræður sína” (eins og lögregla orðar það) hafa peninga sem hann var með. Sagði þeim að hann þyrfti ekki á þeim að halda því að hann væri á leið í Paradís. Sagði jafnframt að ef lögreglan kæmi skyldu þeir leggjast á gólfið, hann myndi „sjá um lögregluna”. Sérfræðingur í hryðjuverkarannsóknum telur að orð Omars Hussein um Paradís bendi til að honum hafi verið ljóst að líf hans væri brátt á enda. Árásin á samkomu- og bænahúsið í Krystalgade tengdist yfirlýstu hatri hans á gyðingum. Jafnframt hafði hann lýst yfir að hann vildi fara til Sýrlands og berjast með liðsmönnum íslamska ríkisins. Ekki er vitað til að hann hafði starfað með erlendum samtökum
Árið 2013 fékk Omar Hussein fangelsidóm fyrir að stinga mann með hnífi. Fangelsismálaráð, sem fylgist með föngum í dönskum fangelsum hafði greint lögreglunni frá öfgafullum viðhorfum hans til gyðinga. Auk áðurnefnds dóms hafði hann nokkrum sinnum komist í kast við lögin og hlotið dóma.
Hryðjuverk og ofstæki fá ekki að stjórna samfélaginu
Á fréttamannafundi sem Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra hélt á sunndagsmorgninum 15. febrúar lagði hún áherslu á að þeir hörmulegu atburðir sem átt hefðu sér stað og hefðu kostað tvo menn lífið, auk ógæfumannsins unga, myndu ekki breyta dönsku samfélagi. „Við látum ekki hryðjuverk og ofstæki stjórna okkar góða samfélagi. Við látum ekki kúga okkur með þeim hætti” sagði forsætisráðherrann.
Ódæðisverkin vöktu heimsathygli. Dönsku þjóðinni og aðstandendum þeirra sem létust bárust samúðarkveðjur hvaðanæva úr heiminum. Aðeins rúmur mánuður var liðinn frá hryðjuverkunum í París (þar létust sautján auk þriggja tilræðismanna) sem Al-Qaeda samtökin lýstu sig síðar ábyrg fyrir. Að mati lögreglunnar benti ekkert til að nein tengsl væru milli þeirra voðaverka og tilræðanna í Kaupmannahöfn.
Ýmislegt hefur breyst
Þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherrans fyrrverandi hefur ýmislegt breyst. Alls kyns eftirlit hefur stóraukist, í verslunum, bönkum og á járnbrautarstöðvum, svo fátt eitt sé nefnt. Þótt almennum borgurum þyki það (samkvæmt könnunum) ágætt, og finni til öryggis við að vita hvarvetna af stóraukinni öryggisgæslu, telja það flestir jafnframt miður að slíkt skuli vera nauðsynlegt. Eftirlitsmyndavélum, sem þó voru margar fyrir, hefur fjölgað og í miðborg Kaupmannahafnar fer varla nokkur maður hænufet öðruvísi en að hann sjáist að minnsta kosti á einni slíkri myndavél, oftast þó mörgum. Almenningur er líka, að sögn lögreglunnar, mun meira á verði gagnvart öllu því sem grunsamlegt má teljast, t.d. pokum og pinklum sem skildir hafa verið eftir „hist og her” eins og einn yfirmaður lögreglunnar komst að orði.
Lögreglan alltof fáliðuð
Mikið hefur mætt á dönsku lögreglunni á þeim tólf mánuðum sem liðnir eru frá tilræðunum. Aukið eftirlit af öllu tagi kallar á stóraukinn mannskap og strax varð ljóst að lögreglan í Kaupmannahöfn, sem hefur mátt sæta stórauknum niðurskurði á síðustu árum, réð ekki við þau verkefni sem henni voru ætluð. Lögreglulið frá öðrum landshlutum var fengið til aðstoðar, með ærnum tilkostnaði. Þótt lögregluþjónar hafi sinnt kallinu og „látið sig hafa það” eins og formaður félags þeirra orðaði það í viðtali í dagblaðinu Berlingske í gær gengur slíkt ekki til lengdar. „Menn þola einfaldlega ekki álagið enda hefur veikindadögum fjölgað," sagði hann. Sólarhrings öryggisgæsla er við samkomu- og bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn, við dvalar- og hjúkrunarheimili gyðinga, Gyðingasafnið á Hallarhólmanum í Kaupmannahöfn og víða annars staðar. Ofan á þetta hefur svo bæst landamæragæslan sem krefst mikils mannafla.
Mörgum spurningum ósvarað
Dönsku þjóðinni var mjög brugðið eftir atburðina í febrúar 2015. Spurt er: hvað er það sem verður til þess að ungt fólk grípur til slíkra örþrifaráða? Hefur danskt samfélag brugðist ungu fólki af erlendu bergi brotið sem svo leiðist út á ógæfubrautir? Er það skólakerfið sem stendur í vegi fyrir því að ungt fólk geti fótað sig? Eru það fordómar innfæddra Dana sem koma í veg fyrir að fjölmörg ungmenni af erlendum uppruna ná ekki að samlagast samfélaginu, fá ekki vinnu, detta út úr skóla og sjá enga framtíð. Spurningarnar eru margar og við þeim engin einhlít svör.
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra sagði fyrir nokkrum dögum á fréttamannafundi að ljóst væri að stjórnvöldum hefði að mestu leyti mistekist að sjá til þess að fólk sem hingað flytti frá öðrum löndum, og með annan bakgrunn, aðlagaðist samfélaginu. „Þessu verður að breyta,” sagði forsætisráðherrann. Margir stjórnmálamenn hafa tekið undir orð hans. Engin einföld lausn er til og atburðir undanfarinna mánaða þar sem flóttafólk flykkist til Evrópu eykur enn á vandann.