,Hann er lygari og hann er fáviti” sagði Trump og benti á mótframbjóðendur sína sitt hvoru megin við sig. Það var í þessum stíl sem kappræður repúblikana á fimmtudagskvöld í Texas fóru fram og má með sanni segja að heitustu umræður á Alþingi bliknuðu í samanburði. Á þriðjudag verður kosið í þrettán ríkjum í forvali flokkanna fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Tveir frambjóðendur repúblikana helltust úr lestinni í síðustu viku og nú eru fimm frambjóðendur eftir repúblikana megin en Bernie Sanders og Hillary Clinton bítast um útnefninguna hjá demókrötum. Aðeins hefur verið kosið í fjórum ríkjum enn sem komið er og því enn nokkuð óljóst hverjir munu leiða flokkana tvo í forsetakosningunum sem haldnar verða í nóvember á þessu ári.
Na,na,na,na,na,na..
Í Houston á fimmtudag mátti Trump þola að vera gagnrýndur af mikilli hörku af Marco Rubio, sem hann sjálfur hafði hjólað í af miklu offorsi í fyrri kappræðum. Trump hafði uppnefnt Rubio og kallaði hann ,,Robot” við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna, af því að honum þótti Rubio endurtaka sömu setningarnar aftur og aftur. Þetta virðist hafa komið illa við Rubio því í Houston náði hann fram hefndum þegar hann dró fram hverja gömlu synd Trumps af fætur annarri og slengdi þeim fram með drengslegum tilburðum: ,,Þú varst dæmdur fyrir að borga ólöglegum innflytjendum frá Póllandi laun þegar þú varst að byggja þessa Trump turna þína” lét Rubio hafa eftir sér og Trump var fljótur að svara ,,lygi”.
Eftir allar kappræður hjá flokkunum fara sjónvarpstöðvarnar gaumgæfulega yfir það sem frambjóðendur halda fram, til að kanna sannleiksgildi þess. Að þessu sinni kom í ljós að Rubio hafði réttilega verið að vitna í dóm sem féll um undirverktaka, sem höfðu unnið fyrir fyrirtæki Trumps og var hann dæmdur til sekta vegna þessa. Og áfram hélt Rubio: ,,Ég skil ekki Trump, þetta viðskiptastríð þitt við önnur lönd, þú framleiðir sjálfur bindi og boli í Kína, -hvernig ætlarðu að gera það þegar þú hefur farið í viðskiptastríð við þá, af hverju framleiðir þú þetta ekki til í Ameríku?” Svar Trump var fremur aumt, ,,Þú veist ekkert um viðskipti” sagði hann og rambaði svo eitthvað óskýrt um kostnað við gjaldeyri. Rubio svaraði sigri hrósandi; ,,Nei ég veit ekkert um að fara á hausinn fjórum sinnum”. ,,Þú ætlar svo auðvitað að nota ólöglegt vinnuafl frá Mexíkó til að byggja upp múrinn þinn á landamærum Mexíkó” hélt Rubio áfram og hló digurbarkalega, loks búinn að ná sér niður á ,,freka karlinum” með því að breytast í hann.
Án efa sukku sumir kjósendur djúpt í sófunum sínum yfir sjónvarpinu af skömm á meðan aðrir færðu sig fram á sófabrúnina og klöppuðu. Þessari orðahrinu lauk svo þegar Rubio benti á að Trump hefði aldrei tekist að byggja upp veldið sitt ef hann hefði ekki fengið 200 milljónir Bandaríkjadala í forgjöf sem hann erfði frá föður sínum, og ef þess hefði ekki notið við væri hann örugglega að selja gullúr á götuhornum á Manhattan. Sannleiksgreiningadeild CNN kvittaði upp á flestar ásakanir Rubio en lagði þó ekki í að spá fyrir um hvort milljónirnar sem Trump erfði hefðu bjargað honum frá úrasölunni.
Rubio sést í myndbandinu knúa fram svör frá Trump um plön hans um heilbrigðiskerfið.
Segja má að Trump hafi fengið skerf af sínum eigin eineltistilburðum, sem hann hefur sjálfur ekki hikað við að beita. Þegar kappræðunum lauk tók Trump að verja sig á Twitter en tókst ekki betur en svo að honum tókst að hafa stafsetningarvillur í öllum tweetunum.
Sem Rubio nýtti sér til að gera enn frekari grín af honum morguninn eftir.
Enn er óljóst hvort þetta muni hafa áhrif á vinsældir Trumps en það er hins vegar deginum ljósara að hann á úr háum söðli að detta.
Upplausnin og óánægja býr til rými fyrir nýtt afl
Hér er nú ekki ólíklegt að fólk spyrji sig hvað í ósköpunum hafi orðið til þess að þessir menn séu það úrval sem kjósendum repúblikana býðst til að velja úr til að verða næsta forseti valdamesta lands heims. Greinarhöfundur spyr sig ítrekað að því sama. En kenningar í stjórnmálafræði hafa sýnt það að þegar það verður upplausn í samfélagi þá gefst færi til þess að stokka upp í fastmótuðum valdakerfum, eins og við þekkjum eftir hrunið á Íslandi þegar fjórflokkarnir hættu að vera einu flokkarnir sem fólk treysti upp til hópa að vera við völd.
Þó er alls engin upplausn ríki í Bandaríkjunum, efnahagurinn er góður og atvinnuleysi fremur lágt, en það má þó með sanni segja að síðasti áratugur hefur reynst repúblikönum erfiður. Eftir að hin gífurlega óvinsæla stjórn G.W. Bush lét af völdum og uppgangur Teboðsins tók yfir hluta flokksins hefur flokkurinn verið sundurleitur og ósamstíga. Sú tilhneigð að vilja sjá alveg óhefðbundinn leiðtoga eða einhvern sem kemur úr allt annari átt taka við eftir allt sem á undan hefur gengið virðist því sameina marga hópa innan repúblikana.
Hinir hófsömu standa þó utan þessa hóps, sem og elíta flokksins.
Það sem vekur furðu í forvalinu fyrir forsetakosningarnar er að framboð Bernie Sanders sem hefur boðað algjöra pólitíska byltingu hefur þó ekki náð meiri skriðþunga en svo að kjörsóknin í þeim ríkjum sem nú þegar hafa kosið hefur verið mun lægri en í tveim síðustu forsetaforvölum demókrata. Sem dæmi voru 31% færri sem kusu hjá demókrötum í þetta sinn en síðast í Nevada en þar vann Hillary með tæpum fimm prósentustiga mun. Aftur á móti hefur framboð Donald Trumps ítrekað slegið kjörsóknarmet í þeim ríkjum sem hafa kosið, en um hann er almennt sagt að hann muni aldrei fá meirihluta bandarísku þjóðarinnar til að kjósa hann, en Trump sigraði Nevada með ríflega tuttugu prósentustiga mun á næsta manni. Nú velta menn og konur fyrir sér hvort þetta gæti verið rangt.
Hvernig fólk er líklegt til að kjósa Trump?
Mikill tími fer hér vestra í að rýna í hvers vegna fólki þykir fýsilegt að kjósa mann eins og Trump. Við hefðbundna skoðun á kyni, aldri, tekjum, menntun og búsetu, er erfitt að benda á eitthvað eitt, en hann er þó líklegri til að ná til þeirra sem hafa litla menntun, lægri tekjur og er vinsælli hjá körlum en konum. En enginn af þessum hópum er eingöngu að kjósa Trump, né nægilega stór hluti svo hægt sé að tala um sterk einkenni kjósendahóps hans.
Fleiri kenningar hafa verið nefndar til að útskýra kjósendahópinn, sem hefur eða ætlar að kjósa Trump.
Ein þeirra er að kjósendahópurinn einkennist af því að velja frambjóðenda sem boðar aukið alræði (e. authoritarianism) um fram aðra. Mælingar sýna að það sé mælanlegur munur á þeim sem eru líklegri til að kjósa Trump og þeirra sem segjast vilja reisa miklar varnir til að tryggja röð og reglu og þá menningu sem ríkir. Þetta styður könnun þriggja stjórnmálafræðinga sem mælt hafa þessar kenndir kjósenda í nokkra áratugi og rímar mjög vel það sem Trump hefur boðað, t.d. með þeim mikla múr, sem hann ætlar að byggja við landamæri Mexikó til að draga úr straumi ólöglegra innflytjenda. Þessi hópur einkennist af því að vera tilbúnari en aðrir að fylgja sterkum leiðtoga og þau sjá heimsmyndina í sterkari litum en aðrir, og óttast mjög allar breytingar. Óttinn við hryðjuverk er mikill og því áhersla á sterkar varnir mikilvægar þessum hóp.
Þó svo framboð Sanders veki upp væntingar hjá mörgum kjósendum að nú sé loks kominn tími til að færa samfélagið til aukins jöfnuðar með róttækum aðgerðum, virðist að óánægjan með innherja frá Washington, ekki meiri en svo að Hillary Clinton virðist enn hafa yfirburði samkvæmt könnunum. Verulega hefur þó dregið úr forskoti hennar upp á síðkastið. Spekúlantar hér Vestra liggja nú yfir þessu flókna kerfi og reikna fram og til baka hvað þarf að gerst til að hver og einn kandidat geti unnið. Þessi vinsæla leikfimi sýnir manni að það er alls ekki fráleitt að Sanders geti unnið Hillary þó sambland af heppni og góðri kjörsókn er líklega sterkasta vopnið hans. Nate Silver tölfræðispekúlant hefur reiknað út hvaða ríki Sanders þarf til að sigra forvalið en eins og staðan lítur út núna er ólíklegt að honum takist að sigra.
Utanríkismálin
Í flestum ríkjum heims eru það sjaldnast skoðanir stjórnmálamanna um utanríkisstjórnmál sem ráða úrslitum í kosningum, þar vega innanríkismál oftast nær meira máli. Hins vegar hefur hernaðarbrölt Bandaríkjanna og sá gífurlegi fjöldi hermanna sem látið hefur lífið síðusta áratug í Írak setið í fólki, sem og óttinn við að átökin í Sýrlandi verði til þess að bandarískir hermenn verið sendir í átökin af meira mæli en nú er.
Vefurinn The Amerian Conservative, sem eins og nafnið gefur til kynna tilheyrir íhaldssamari gildum, hefur tekið saman afstöðu frambjóðendanna og gefið þeim einkunn. Það er áhugavert að skoða hvernig þessi hópur sér frambjóðendurnar því niðurstöðurnar eru fremur óvæntar. Góð einkunn þýðir að viðkomandi frambjóðandi mun sýna stillingu (e. restraint) en léleg einkunn táknar líkur á að vilja ráðast einhverstaðar inn eða blanda sér í átök af meiri mæli (e. interventionism) . Gefin er einkunn í sex flokkum, fjármögnun til hersins og svo afstaða til Rússlands, Íraksstríðsins, Líbíu, Sýrlands og Íran samningsins. Af öllum frambjóðendum fær Bernie Sanders hæstu einkunn vefsins eða B fyrir að vera líklegastur til að halda að sér höndum og nota diplómatíska leiðir til að leysa ágreiningsmál. Það að Sanders hafi kosið gegn Írak stríðinu eykur enn á trú hans hjá kjósendum sem hafa fengið sig full sadda af hernaðarbröltinu um heim allann.
Næst á eftir koma svo þeir Trump og Kasich með C í einkunn.
Helst er Trump ekki talinn líklegur til að halda úti hernaði í löndum eins og Sýrlandi þar sem ólíklegt er að lausn sé í sjónmáli, og er þannig líklegri til að draga úr hernaði en að auka hann.
Það sem vekur eftirtekt er að Hillary fær lægri einkunn en Trump eða D í lokaeinkunn. Vefurinn tekur þó fram að hún styðji helst hernaðarítök í mannúðlegum tilgangi en það er auðvitað mjög umdeilanlegt hvort aukinn hernaður slíkum tilfellum bæti afdrif fólks t.d. í Sýrlandi eða ekki. Verk hennar sem utanríkisráðherra í stjórn Obama hefur einna mest áhrif á einkunnina. Cruz fær sömu einkunn og Hillary og er það sér í lagi er afstaða hans að ætla ,,teppaleggja” Sýrland með sprengjum ef hann yrði kjörinn sem hefur mestu áhrif á einkunnina hans. Hann er einnig fylgjandi því að styrkja herinn verulega fjárhagslega sem og vopna úkraínuher til að standa í hárinu á Rússum.
Þeir Rubio og Carson reka svo lestina og þykja þeir einna líklegastir til að ausa auknu fé í herinn og auka hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna verulega á öllum mögulegum vígstöðum. Allir frambjóðendur repúblikana nema Kasich, vilja láta rifta nýundirrituðum samningi við Írana um takmörkun kjarnavopna.
Línur skýrast á Súper – Þriðjudag
Hverjir verða svo frambjóðendur flokkanna að lokum kann að skýrast að einhverju leiti næsta þriðjudag þegar verður kosið í forvali flokkanna í þrettán ríkjum. Þar á meðal í stórum ríkjum eins og Texas sem telja mikið í samkeppnina um flest atkvæði eða kjörmenn eins og kerfið hér byggir upp á. Til að vinna útnefningu demókrata þarf frambjóðandi að fá 2,382 kjörmenn af þeim 4,763 sem eru í pottinum. Eins og staðan er í dag eru þau nánast með jafna tölu kjörmanna en það er fyrir utan svo kallaða súper kjörmenn sem tilheyra elítu flokksins og hafa flest allir lofað stuðningi sínum við Hillary. Þetta þýðir að Sanders þarf í raun að vinna meira en helming atkvæða til að yfirstíga þetta forskot Hillary, nú eða sannfæra elítuna að skipta um skoðun rétt fyrir landsfund flokksins þar sem öll atkvæði kjörmannana eru talin.
Þetta skrítna og flókna kerfi gerir það að verkum að svona forvöl geta orðið æsispennandi fram eftir vori, sérstaklega þegar mjótt er á munum. En málin skýrast þó betur og betur sérstaklega þegar stór ríki kjósa, sem hafa kjörmenn í samræmi við stærð sína. Hins vegar getur hasarinn orðið mjög mikill í síðustu ríkjunum ef enn er mjótt á munum þegar kosið er í þeim í byrjun sumars. En oft er því niðurstaðan orðin ansi skýr eftir súper þriðjudaginn, þegar verður kosið í þrettán ríkjum og kjósa báðir flokkar í Alabama, Arkansas, Georgíu, Massachusetts, Oklahoma, Tennessee, Texas, Vermont og Virginíu.
Í Colorado og Minnesota halda báðir flokkar svo kjörfundi (e. Caucus) en til viðbótar halda repúblikanar kjörfundi í Alaska og Wyoming og demókratar í American Samóa.
Staðan í könnunum fyrir þriðjudaginn mikla
Meðaltal nýjustu kannanna mikilvægustu kosningunum á þriðjudag af vefnum FiveThirtyEight http://projects.fivethirtyeight.com/election-2016/primary-forecast/virginia-republican/
Repúblikanar
Alabama: Trump 35,5%, Rubio 18,8% Cruz 8,1%, Carson 8,1%, Kasich 6,8%
Georgía: Trump 38,2%, Rubio 19,8%, Cruz 17,3%, Carson 7,9% og Kasich 7%
Massachusetts: Trump 43,6%, Rubio 18,5%, Kasich 16,8%, Cruzz 10,2% Carson 3,6%
Oklahoma: Trump 30,1%, Rubio 21%, Cruz 20,7%, Carson 6,1% og Kasich 4,6%
Texas: Cruz 34,5%, Trump 25,6%, Rubio 17,8%, Kasich 6,1%, Carson 5,3%
Virginia: Trump 40,1%, Rubio 23,7%, Cruz 14,1%, Carson 6,8% og Kasich 6,7%
Demókratar
Arkansas: Hillary 56,9%, Sanders 32,4%
Georgía: Hillary 64,7%, Sanders 25,4%
Massachusetts: Hillary 47,7%, Sanders 45,3%
Oklahoma: Hillary 45,6%, Sanders 43%
Tennessee: Hillary 57,9%, 32,9%
Texas: Hillary 60,8%, Sanders 31,8%
Vermont: Sanders 85,9%, Hillary 10,2%
Virginia: Hillary 56,9%, Sanders 33,8%
Samkvæmt könnunum lítur staðan þannig að líklegt er að Trump vinni í öllum ríkjunum nema í Texas en þar virðist Cruz vera nokkuð öruggur með tíu prósentustiga forskot í sínu heimaríki. En Texas telur mikið og því enn von fyrir Cruz eða Rubio að ná forskoti fram yfir Trump en það verður hinsvegar mjög erfitt.
Hjá Demókrötum benda kannanir til þess að Hillary sigri Texas örugglega og fái mikinn meirihluta þeirra 222 kjörmanna sem tilheyra ríkinu. Mjótt er á munum á þeim Sanders og Hillary í Oklahoma og Massachuset en öll hin ríkin virðast munu kjósa Hillary í meir mæli, fyrir utan Vermont, heimaríki Sanders sem hann mun sigra örugglega.
Eftir að hafa rýnt í kannanirnar verður maður samt að hafa í huga að kannanir hafa ekki reynst eins áræðinlegar upp á síðkastið og oftast áður, það er því ekkert í hendi. Það er svo allt eins líklegt að frambjóðendur keppist við að spila út skítabombum á hvorn annan um helgina til að hafa áhrif á kjósendur á þriðjudag.
Á föstudag kom svo óvænt útspil ríkisstjórans í New Jersey, Chris Christie sem nýverið dró framboð sitt til forseta til baka, þar sem hann lýsti yfir stuðningi við Trump. Christie hafði vegið hart að Trump í kappræðum og þótti fremur fjarri honum í skoðunum, ekki síst í innflytjendamálum. Á hinn bóginn mætti segja að þeim svipi til í stíl því Christie hefur líkt og Trump verið í hópi þeirra frambjóðenda sem hafa talað umbúðalaust eða það sem kaninn kallar ,,straight talk”. Allt bendir til þess að nú sé keppnin um hvern Trump velji sem varaforseta og útspil Christie hafi lyktað sterklega af þeirri óskhyggju.
Nú verður áhugavert að sjá hvort Jeb Bush, sem hætti framboði í síðustu viku lýsi einnig stuðningi við einhvern þeirra sem eftir eru. Talið er að hinir örlátu styrktaraðilar Bush af Wall Street muni færa sig yfir til Rubio, en margir bíða þó eftir að flokks elítan gefi skýrari vísbendingu um hvert best sé að beina fjármunum. Hver slíkir fjármunir rata skiptir gríðalegu miklu máli fyrir frambjóðendur því ekki beinlínis um neitt klink að ræða og sagan sýnir að þeir sem eyða mestum fjármunum auka líkur sína til að vinna verulega, nema náttúrlega þeir heiti Bush, það vörumerki virðist búið að vera.
Á aðfaranótt miðvikudags munu niðurstöður forvalanna fara að týnast inn, þá verður mikilvægt fyrir eldheitasta áhugafólk um framtíðarleiðtoga hins ,,Frjálsa heims” að vera búið að poppa og koma sér vel fyrir framan sjónvarpið - og auðvitað að vera með góða afsökun fyrir því að mæta í vinnuna á hádegi daginn eftir!