Það er dýrast á Íslandi að búa í fjölbýli í miðborg Reykjavíkur, miðað við meðalfermetraverð. Í fyrra var það þar um 423 þúsund krónur og er miðborgin eina hverfi höfuðborgarsvæðisins þar sem fermetraverð fór yfir 400 þúsund krónur að meðaltali. Ódýrasta húsnæðið í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu er í Vöngunum í Hafnarfirði þar sem meðalfermetri kostar um 250 þúsund krónur. Það er því 70 prósent dýrara að búa í miðborg Reykjavíkur en í Vöngunum i í Hafnarfirði. Það er líka 57 prósent dýrara að búa þar en í t.d. Breiðholti, sem er hverfi í Reykjavík sem sótt hefur mikið í sig veðrið á undanförnum árum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár um þróun íbúðaverðs eftir hverfum og árum á höfuðborgarsvæðinu.
Þau tíðindi verða á milli ára að fermetraverð í Löndunum við Fossvog var orðið hærra í fyrra en á Melum og Högum í Vesturbæ Reykjavíkur. Nú er því næstdýrast að búa í Fossvogshverfinu á eftir miðborginni.
Og það verður sífellt dýrara að búa í miðborginni. Árið 2014 var það átta prósent dýrara en að búa í næstdýrasta hverfi höfuðborgarsvæðisins. Munurinn um síðustu áramót var kominn í ellefu prósent. Alls hefur fermetraverð í fjölbýli í miðborg Reykjavíkur hækkað um 25 prósent frá lokum árs 2013.
Munurinn á dýrasta og ódýrustu hverfunum á höfuðborgarsvæðinu fer þó minnkandi. Hann var 75 prósent í lok árs 2014 en var, líkt og áður sagði, um 70 prósent í lok síðasta árs.
65 prósent hækkun í miðborginni á fimm árum
Fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum. Frá lokum ársins 2010 hefur fermetraverð í miðborg Reykjavíkur, sem afmarkast af Hringbraut og Snorrabraut, farið úr 256.696 krónur í 422.556 krónur. Það er hækkun upp á 65 prósent á fimm árum. Fermetraverðið þar hækkaði um tólf prósent á síðasta ári.
Það er meiri hækkun en átti sér stað í Vesturbænum (9,4 prósent), á Granda (8,9 prósent), Hlíðunum (10,8 prósent), Háaleitisbraut (5,6 prósent), Vogahverfinu (4,1 prósent) og Heimunum (10,3 prósent). Þau hverfi sem tilheyra „gömlu Reykjavík“ sem hækkuðu meira en fasteignir í miðborginni eru fasteignir í Löndunum (16 prósent) og í Laugarneshverfinu (13,7 prósent).
Fasteignaverð í Breiðholti án Seljahverfis hækkaði einnig myndarlega í fyrra, eða um tólf prósent. Fermetraverð í Breiðholtinu er þó enn langt frá því að vera jafn hátt og í flestum hverfum „gömlu Reykjavíkur“. Það munar til að mynda 57 prósent á fermetraverði í Breiðholtinu og verðinu í miðborg Reykjavíkur.
Samhliða því að eftirspurn eftir stærri eignum hefur aukist, líkt og sést meðal annars á miklum hækkunum í Löndunum, þá hefur verð á fasteignum í Seljahverfi einnig hækkað skarpt. Það fór upp um 13,5 prósent í fyrra.
Húsahverfið hástökkvari ársins
Mesta hækkunin á síðasta ári varð þó í Húsahverfinu í Grafarvogi. Þar fór fermetraverðið upp um heil 25,4 prósent á milli ára eftir að hafa haldist frekar lágt um árabil þar á undan. Fermetraverð í hverfinu fór úr 239.887 krónum árið 2014 í 300.856 krónur í fyrra.
Hækkanir á fasteignaverði í Kópavogi eru nokkuð stabílar milli ára og í takt við meðaltalshækkanir. Dýrasta hverfi sveitarfélagsins er sem áður Salahverfið, þar sem fermetraverðið var 327.560 krónur í lok síðasta árs.
Fjórða dýrasta hverfi höfuðborgarsvæðisins, á eftir miðborg Reykjavíkur, Löndunum og Vesturbænum, er Sjálandshverfið í Garðabæ. Fermetraverðið þar er 375.808 krónur og hækkaði um 8,5 prósent í fyrra.
Ódýrasta hverfi höfuðborgarsvæðisins er hinsvegar Vangahverfið í Hafnarfirði. Þar er meðalfermetraverð 249.607 krónur eða 69,2 prósent lægra en í miðborg Reykjavíkur. Vangarnir taka botnsætið af Álfaskeiði í Hafnarfirði sem vermdi það árið áður. Sú staðreynd að hafa verið ódýrasta hverfi höfuðborgarsvæðisins virðist hafa aukið eftirspurn í Álfaskeiði mikið því verð á meðalfermetra hækkaði um heil 22 prósent í fyrra og er nú 262.291 krónur. Svipuð hækkun átti sér stað á fasteignum í Hraununum í Hafnarfirði þar sem meðalverð á fermetra hækkaði um 22,4 prósent. Í Bergunum þar í bæ hækkaði verðið síðan um 16,4 prósent.