Íslendingar munu geta leitað til Evrópu eftir heilbrigðisþjónustu frá og með fyrsta júní næstkomandi. Þá taka gildi breytingar á lögum um sjúkratryggingar í samræmi við EES-reglur sem kveða á um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, og um viðurkenningu á lyfseðlum milli landa.
Meginreglan verður sú að þeir sem eru sjúkratryggðir í einu EES-ríki geti sótt sér heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki og fengið endurgreiddan kostnað af þjónustunni eins og þjónustan hefði verið veitt innanlands.
Ráðherra ræður hvenær leita þarf samþykkis fyrirfram
Upphaflega stóð til að fólk þyrfti ekki að leita samþykkis hjá heilbrigðisyfirvöldum áður en farið væri til útlanda eftir þjónustu, en ákveðið var eftir athugasemdir úr heilbrigðiskerfinu að það yrði á valdi ráðherra að ákveða í hvaða tilfellum fyrirframsamþykkis verður krafist. Landlæknir hafði lýst yfir áhyggjum af því að hafa ekki samþykki fyrirfram eins og staðan er í íslensku heilbrigðiskerfi nú. Það sé mikilvægt að forgangsraða peningum í heilbrigðisþjónustu og með því að leyfa fólki óhindrað að fara erlendis skapi það hættu á að peningar verði settir í heilbrigðisþjónustu sem ekki sé þörf á að setja í forgang.
Hins vegar var ákveðið við meðferð málsins að heimila Sjúkratryggingum að neita endurgreiðslu kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum, ef hægt er að veita þjónustuna hér á landi innan tímamarka sem má réttlæta læknisfræðilega, það er miðað við heilsufarsástand sjúklinga og líklega framvindu veikinda þeirra. Þetta var gert vegna athugasemda frá Landlækni og Landspítalanum, sem bentu á að vegna fámennis á Íslandi væri hætti á því að framboð heilbrigðisþjónustu myndi minnka á Íslandi ef fólk færi í auknum mæli til útlanda til að fá þjónustu. Þá væri það líka nauðsynlegt að hafa ákveðinn lágmarksfjölda sjúklinga til að viðhalda fjárfestingum í tækjum, búnaði og mannskap í heilbrigðiskerfinu. Ef framboð á Íslandi minnkaði myndi það ógna öryggi sjúklinga á Íslandi.
Áhyggjur af landflótta sjúklingum
Flestir umsagnaraðilar um málið voru jákvæðir gagnvart því að Íslendingar geti sótt sér þjónustu erlendis með auðveldari hætti, en vildu tryggja að íslenskt heilbrigðiskerfi verði sett í forgang.
Landlæknisembættið hvatti í sinni umsögn um málið til þess að stjórnvöld myndu frekar setja fjármagn í að stytta biðlista eftir aðgerðum hér á landi en að veita fé til heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum. Það þurfi að kappkosta að standa vörð um og efla heilbrigðiskerfið á Íslandi, enda sé þar þekking, sérhæfing og þjálfun fyrir hendi til að veita Íslendingum þá þjónustu sem þeir þurfa.
Sjúkratryggingar Íslands bentu á það að stjórnvöld ættu að skoða magnsamninga sína við heilbrigðiskerfið, og einbeita sér að því að fækka á biðlistum sem séu orðnir mjög langir eftir sumum aðgerðum. Eitt dæmi um það eru augasteinsaðgerðir, sem fólk bíður mjög lengi eftir þrátt fyrir að læknar geti vel gert fleiri aðgerðir á ári. Hægt er að gera slíkar aðgerðir á einkastofum, en það væri „mjög sérstakt ef sjúklingar gætu leitað til útlanda og fengið endurgreiðslu á kostnaðinum en ekki ef þeir leituðu til lækna hér á landi.“
Landlæknir lagði einnig til að stjórnvöld veittu peningum í að stytta biðlista á Íslandi. „Heilbrigðiskerfið hefur gengið í gegnum erfiðleika sem tengjast efnahagshruninu og einnig verkföllum ýmissa heilbrigðisstétta sem stóðu yfir í heilt ár með hléum. Rekja má lengingu biðlista eftir ýmsum skurðaðgerðum m.a. til þessara þátta,“ segir landlæknisembættið, sem hefur sett viðmið um að biðtími eftir aðgerðum og annarri tiltekinni þjónustu eigi ekki að vera meira en 90 dagar. Hins vegar eru nú á biðlistum tæplega 5.000 manns sem hafi beðið lengur en 90 daga eftir aðgerðum. „Leiða má líkum að því að einhverjir þessara einstaklinga sem bíða munu kjósa að fara erlendis ef biðin er styttri þar.“
Sjúklingar vilja vera á Íslandi
Læknafélag Íslands tók í sama streng og Landlæknisembættið og vildi að settar verði forgangsreglur og íslensk heilbrigðisþjónusta efld til þess að draga úr líkum á því að sjúklingar þurfi að leita til annarra landa eftir heilbrigðisþjónustu. „Það getur verið sjúklingum mikilvægt að greitt sé fyrir aðgengi að öruggri hágæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, tryggja frjálst flæði sjúklinga innan EES og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu. LÍ telur þó að sjúklingum sé mikilvægast að eiga greiðan aðgang að slíkri þjónustu hér á landi. LÍ fullyrðir að það sé vilji flestra sjúklinga njóta öruggrar hágæðaheilbrigðisþjónustu á íslandi.“
Undir það tók landlæknir einnig, og vísaði í kannanir sem hafi verið gerðar meðal sjúklinga sem sýni fram á að þeir kjósi miklu frekar að fá þjónustu á Íslandi en annars staðar. Það sé líka óhagræði og fylgi aukinn kostnaður að þurfa að fara erlendis.