Danir eru miklir áhugamenn um mat. Þeir hafa gaman af að borða, tala mikið um mat, skoða mat og elda. Dagblöðin birta mataruppskriftir, viðtöl við áhugafólk um matargerð og umfjöllun um nýjungar á sviði matreiðslu. Fyrir skömmu voru kunngerðar niðurstöður yfirgripsmikillar könnunar á matarvenjum Dana, sem eru íhaldsmenn þegar matur er annars vegar.
Áhugafólk getur margoft í viku lesið, í dagblöðunum, um alls kyns tilboð og álit sérfræðinga á mismunandi víntegundum, ostum, lifrarkæfu, smurbrauði o.s.frv. Flestar matvöruverslanir, ekki allar þó, verja miklum fjármunum í að útbúa vikulega og dreifa í hús bæklingum sem sýna tilboðin og úrvalið. Slíkir bæklingar eru auðvitað líka á netinu og þeim fjölgar stöðugt sem nýta sér að gera innkaupin í heimilistölvunni og fá svo vörurnar sendar heim að dyrum. Kannanir sýna að umræður um mat og matargerð er sígilt umræðuefni í boðum, þar er bæði talað um matinn sem á borðum er þá stundina eða mat sem einhver bragðaði í gær. Í vikublöðunum, sem eru fjölmörg, eru ótal mataruppskriftir og fyrir þá sem vilja frekar sjá en lesa bjóða sjónvarpsstöðvarnar uppá margs konar þætti um matartilbúning. Þar er matargerðin ætíð sögð leikur einn og verkið heima í eldhúsi nánast hálfnað þegar maður hefur hengt á sig svuntuna. Rétt er að taka fram að þessi mikli mataráhugi Dana beinist ekki að fiskmeti, steikt rauðspretta er háborgin í þeim efnum í huga margra. Danir borða mjög lítinn fisk og það yrði ekki slegist um orðið í veislum þar sem ræða ætti um sjávarfang.
Pizza, Pasta, Sushi og allt hitt
Sú gríðarlega breyting, og aukning, sem orðið hefur á framboði alls kyns matvöru á allra síðustu árum hefur ekki farið fram hjá Dönum. Pizza, pasta, sushi, falafel, kebab og mörg fleiri orð voru fyrir tiltölulega fáum árum framandi í hugum flestra Dana en þannig er það ekki lengur. Þessar nýjungar eiga rætur sínar utan danskra landsteina, sumar sunnar úr álfunni, aðrar komnar mun lengra að. Það sem þarna var nefnt, og margt annað, flokkast undir svokallaðan skyndibita en neysla á slíkum mat hefur margfaldast á síðustu árum. Asi og hraði nútímans kallar iðulega á skyndilausnir, það á ekki hvað síst við um matartilbúning þegar heim er komið. Þá þarf iðulega að hafa hraðann á til að ljúka öllum þeim verkefnum sem kalla. Skyndibiti eða annað það sem þarfnast ekki flókins undirbúnings er því iðulega lausnin. Hægsuða er ekki til umræðu.
Matarvenjukönnunin mikla
Danska Umhverfis-og matvælaráðuneytið gekkst á síðasta ári fyrir mikilli rannsókn á matarvenjum dönsku þjóðarinnar. Tvö þúsund og fimm hundruð danskar fjölskyldur tóku þátt í þessu verkefni ráðuneytisins, héldu nákvæmt bókhald yfir máltíðirnar, hvað borðað var á hverjum degi í sex mánuði. Til að fá sem gleggsta mynd af matarvenjunum náði bókhaldið bæði til vetrar-og sumarmánaða.
Úrvalið kallar fram valkvíða
Þegar pistlaskrifari var að alast upp hafði orðið valkvíði ekki verið fundið upp. Marmelaði var appelsínumarmelaði, smjörlíki var annaðhvort Flórusmjörlíki eða Silfurskeifan, hveitið var Pillsburys og kexið frá Frón. Kartöflurnar Gullauga eða Rauðar, kaffið Braga eða Rio frá Kaaber. Þannig er þetta ekki lengur, núna eru að minnsta kosti tuttugu tegundir af marmelaði, annað eins af smjörlíki, fjórtán tegundir af hveiti taldi pistlaskrifari í stórmarkaðnum í hverfinu og níu mismunandi afbrigði af jarðeplum. Í kaffideildinni var um að velja tuttugu og eina tegund, fyrir utan skyndikaffi, annað eftir þessu. Þegar komið var í áleggskælinn vandaðist málið fyrir alvöru, þar voru næstum fimmtíu mismunandi gerðir af niðursneyddu brauðáleggi og ekki var úrvalið í ostahillunum minna. Ekki ein tegund af camembert, nei ellefu og annað eftir því. Úrvalið einskorðast ekki við matvörur, þegar komið er að þvottaefnishillunum tekur ekki betra við. Þar er ekki spurningin hvort kaupa skuli Vex, C 11 eða Spar! Ó nei, tuttugu og átta tegundir um að velja og eina kunnuglega nafnið Omo!
Hér hefur ekki verið minnst á kjötúrvalið, við lauslega ágiskun virtist kjötborðið, borðin réttara sagt, vera um þrjátíu metra löng og úrvalið eftir því. Ekki heldur á allar þær tegundir og afbrigði hrísgrjóna sem blöstu við í hillunum og þeir sem halda að ekki séu til önnur hafragrjón en Ota sólgrjón eiga ýmislegt ólært.
Af framansögðu má ljóst vera að það þarf sterkar taugar og einbeittan vilja til að komast í gegnum slíkt „ferli” sem ein ferð í búðina getur verið.
Og hvað borða svo Danir
Danir eru fastheldnir og íhaldssamir, það gildir ekki bara um afstöðu þeirra til konungsfjölskyldunnar.
Í stórri könnun á neysluvenjum Dana sem gerð var fyrir fyrir rúmum þrjátíu árum, fyrir daga skyndiréttanna, nefndu flestir Danir súpu, steik (naut eða svín) og ís þegar spurt var um eftirlætisrétti og hvað oftast væri á kvöldverðarborðum, án þess að greint væri á milli vikudaga.
Umsjónarmenn nýju könnunarinnar, sem minnst var á í upphafi þessa pistils sögðust í viðtölum vera mjög spenntir að sjá útkomuna. Langt væri síðan fyrri könnun var gerð og margt benti til að niðurstöðurnar nú yrðu með allt öðrum hætti en þá. Í könnuninni nú er greint á milli vikudaga varðandi neysluna.
Helgarsteikin
Steikin, oftast nauta- eða svínasteik, ásamt viðbótinni steiktum kjúklingi, er enn í efsta sæti þegar spurt er um helgarmatinn, þrátt fyrir allar nýjungarnar. Súpa og ís eru hinsvegar ekki lengur fastur fylgifiskur helgarsteikarinnar, það að borða þríréttað á laugardagskvöldi heyrir semsé sögunni til.
Rúgbrauðið vinsælast
Í ljósi þess að Danir eru iðulega, og ekki að ástæðulausu, kallaðir rúgbrauðsþjóð hefðu flestir líklega talið að rúgbrauð með áleggi myndi blanda sér í „topp tíu slaginn”. En að rúgbrauðið skuli vera vinsælasti kvöldverður dönsku þjóðarinnar kom sannarlega á óvart. Fyrirfram töldu flestir að ítölsku flatbökurnar, pizzurnar, myndu hreppa þann titil. En nei, rúgbrauðið er númer eitt, pizzan númer tvö, súpa er í þriðja sæti kvöldverðarvinsældalistans, kjúklingur með kartöflum og grænmeti er númer fimm, kótelettur og snitsel númer sex. Pottréttur er í sjöunda sæti, pastaréttur í því áttunda, kjötbollan má sætta sig við níunda sætið og kálfa- eða nautasteik númer tíu.
Rúmlega helmingur landsmanna útbýr sjálfur kvöldmatinn, það að kaupa rúgbrauð og smyrja heima fellur í þennan flokk. Eldra fólk útbýr frekar mat heima en það yngra, en könnunin sýnir að hlutfall kvenna og karla sem búa ein og elda fyrir sig er mjög svipað. Hjá hjónum er það mun oftar konan sem stendur við eldavélina.
Rúgbrauðsfrumskógurinn
Í matarvenjukönnuninni var spurt hvort svarendur keyptu yfirleitt sömu tegundir, t.d. sama kaffið, sama ostinn o.s.frv. Margir svöruðu því til að það færi eftir tilboðum hverju sinni hvað keypt væri. Þarna var þó rúgbrauðið sér á parti, langflestir sögðust alltaf kaupa sömu tegundina, tilboð breyttu þar litlu. Ekki kom fram hvernig svarendur hefðu fundið hið eina sanna rúgbrauð en í hverfisstórmarkaði pistlaskrifara reyndust rúgbrauðstegundir við nýlega talningu vera tuttugu og ein.