Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væru tæplega 820 þúsund krónur í dag ef ekki hefði verið ákveðið að skerða þær verulega eftir hrun, og þær hefðu fylgt verðlagsþróun. Þess í stað nema greiðslurnar nú 370 þúsund krónum á mánuði að hámarki.
Flestir sem að fæðingarorlofsmálum koma eru sammála um að þessi skerðing hafi haft mikil áhrif, ekki síst á töku feðra á fæðingarorlofi. Þegar þakið var hæst árið 2008 voru umsóknir feðra um fæðingarorlof 90% af umsóknum mæðra. Árið 2014 var þetta hlutfall komið niður í 80%. Færri feður taka fæðingarorlof og þeir sem taka fæðingarorlof gera það í mun færri daga en þegar mest var. Árið 2008 var meðaldagafjöldinn í fæðingarorlofi feðra 103 dagar, en samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2015 var meðaldagafjöldinn kominn niður í 74 daga.
Greiðslurnar eiga að hækka aftur, upp í 600 þúsund krónur samkvæmt tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, sem skilaði af sér tillögum til Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra fyrir helgi. Hópurinn leggur einnig til að fyrstu 300 þúsund krónur tekna verði óskertar, en 80% af tekjum umfram það, og að hámarksgreiðslurnar breytist í samræmi við launavísitölu ár hvert. Hópurinn vill að þessar breytingar taki gildi um næstu áramót.
Kostnaðurinn við þessar breytingar er talsverður. Greiðslur Fæðingarorlofssjóðs voru 8,5 milljarðar í fyrra og gert er ráð fyrir að þær verði 8,8 milljarðar á þessu ári. Með því að hækka hámarksgreiðslurnar í 600 þúsund krónur fer kostnaður sjóðsins upp í um 10,7 milljarða á næsta ári og verður um 12,2 milljarðar á ári eftir það.
Varð illa úti í hrunsniðurskurði
Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði námu 535.700 krónum árið 2008. Á verðlagi dagsins í dag samsvarar það 818.179 krónum. Sjóðurinn var skorinn verulega niður af síðustu ríkisstjórn strax í kjölfar hrunsins, líkt og átti við um margt í kjölfar þeirra fordæmalausu aðstæðna sem þá komu upp. Strax var þó gagnrýnt að svo verulega væri skorið niður í þessum málaflokki, og varað við því að það myndi hafa alvarleg áhrif á kerfið.
Hámarksgreiðslurnar fóru niður í 400 þúsund strax árið 2009, niður í 350 þúsund um mitt ár 2009 og svo niður í 300 þúsund árið 2010. Upphæðin var óbreytt næstu tvö ár og var svo hækkuð í 350 þúsund krónur kosningaárið 2013. Núverandi ríkisstjórn hækkaði hámarkið í 370 þúsund krónur árið 2014 og það hámark hefur verið óbreytt síðan.
Horfum á kerfið hrynja
Reglulega er talað um það að fæðingarorlofslögin á Íslandi hafi verið byltingarkennd þegar þeim var komið á. Með þeim hafi verið stigið stórt skref í jafnréttisátt.
Kristín Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, hefur lengi sagt að þakið á Fæðingarorlofssjóði hafi staðið of lengi í stað. „Við horfum upp á einstakt kerfi, sem búið var að byggja hér upp, molna niður fyrir framan okkur,“ sagði hún við Morgunblaðið á dögunum. Nauðsynlegt sé að hækka þakið og hafa það í takt við launaþróun í landinu, vegna þess að það hafi áhrif á ákvörðun um barneignir hvort foreldrar hafi efni á að taka sér frí. Fæðingarorlofið tryggi að auki jafnari stöðu kynjanna bæði á vinnumarkaði og í umgengni foreldra við börn sín.