1. Fjöldi einstaklinga á vinnumarkaði samkvæmt Hagstofu Íslands, það er frá sextán til 74 ára, er 236 þúsund einstaklingar. Heildaríbúi fjöldi á Íslandi er nú um 333 þúsund. Því eru um 103 þúsund einstaklingar utan þessa aldursbils sem skilgreinir vinnumarkaðinn. Til samanburðar má nefna að vinnumarkaðurinn á Oslóar svæðinu í Noregi, þar sem um 1,5 milljón einstaklinga býr, er um 660 þúsund manns.
2. Atvinnuþátttaka er 82,3 prósent sem þýðir að 194.200 manns eru á vinnumarkaði, en utan vinnumarkaðar á fyrrnefndu aldursbili eru 41.800 manns, 17.100 karlar og 24.700 konur.
3. Af þessum 194.200 einstaklingum sem teljast vera vinnuafl þjóðarinnar, þá eru 5.900 án atvinnu, en starfandi eru 188.300. Atvinnuleysi er nú 3,1 prósent, en því er spáð að það muni fara enn neðar í sumar, á háannatíma í ferðaþjónustunni.
4. Atvinnuleysi er meira meðal karla en kvenna. Nú eru 3.800 karlar án atvinnu en 2.100 konur. Atvinnuleysi hjá körlum er því 3,8 prósent en 2,3 prósent hjá konum.
5. Einstaklingum á vinnumarkaði fjölgaði um 7.300 í fyrra. Atvinnulausum fækkaði um 2.500 manns.
6. Greinilegt er að töluverður uppgangur er nú í atvinnulífinu, og má sjá merki um það í tölum Hagstofu Íslands. Þannig fjölgaði starfandi einstaklingum á vinnumarkaði um 5.700 á einungis fimm mánaða tímabili, frá september í fyrra til febrúar á þessu ári. Í september voru þeir 183.800 en á þessu ári voru þeir 189.500.
7. Á sama tímabili, frá september í fyrra til febrúar á þessu ári, fækkaði atvinnulausum um 2.100. Þeir voru 8.000 í september, en eru komnir niður í 5.900 nú.
8. Atvinnuleysi eftir hrun fjármálakerfisins fór hæst upp undir 9 prósent á árinu 2009 og það hélt hátt fram á árið 2010. Frá því tíma hefur það minnkað mikið, og stefnir í að töluverður fjöldi þurfi að koma til Íslands frá útlöndum á hverju ári til að halda í við hagvöxt og eftirspurn eftir vinnuafli.
9. Atvinnuleysi eftir hrunið var mun meira hjá körlum en konum. Skýringin var meðal annars sú, að stórar karlastéttir, þar á meðal iðnaðnarmenn, misstu verkefni þegar nær algjört frost var á fasteignamarkaði. Atvinnuleysi var 8,6 prósent hjá körlum árið 2009, en á sama tíma var það 5,9 prósent hjá konum.
10. Atvinnuleysi hefur sögulega verið lítið á undanförnum aldarfjórðungi, í samanburði við flest önnur ríki. Frá 1991 og fram að árinu 2008 hafði atvinnuleysi aldrei farið yfir sex prósent, og oftast verið á bilinu tvö til fjögur prósent. Árið 2007, sem í huga margra er einkennisár fyrir efnahagsbóluna á Íslandi sem sprakk með látum, þá mældist atvinnuleysi 2,3 prósent.