19:52 - Segjum þetta gott í bili
Jæja. Þökkum fyrir annan daginn af beinni lýsingu atburða hér á Kjarnanum. Sjáum svo til hvort morgundagurinn verður þess eðlis að við höfum beina lýsingu áfram.
19:30 - Einar K. segir fund sinn með forsetanum góðan
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir fund sinn með forseta Íslands hafa verið góðan. „Þetta var fyrst og fremst upplýsingafundur. Það var engin niðurstaða eða neitt slíkt,“ sagði hann í samtali við Sunnu Valgerðardóttur, blaðamann Kjarnans, fyrir stundu.
19:20 - Ólafur Ragnar svarar Sigmundi Davíð
„Það var ljóst í samræðum okkar að einn megintilgangur þess að koma í flýti hingað var að fá slíkt fyrirheit sem hann gæti síðan notað sem vopn í viðræðum við formann Sjálfstæðisflokksins,“ sagði forseti Íslands um Sigmund Davíð Gunnlaugsson í fréttum RÚV nú í kvöld. Hann sagði ekki við hæfi að hann elti ólar við frásögn Sigmundar en það hafi ekki verið neinn misskilningur þeirra á milli um það sem fram fór á fundinum.
19:01 - Beint frá mótmælunum
Hér má fylgjast með mótmælunum í beinni útsendingu.
LIVE on #Periscope: Protests in Iceland https://t.co/g0dSC2AF1V
— jói (@JHNNKRSTFR) April 5, 2016
VALHÖLL pic.twitter.com/nNxq0FtzW9
— Hermigervill (@hermigervill) April 5, 2016
Valhöll í þessum töluðu #cashljós #panamapapers pic.twitter.com/DiP6SleoZb
— Klara Benjamins (@benjaminsdotti) April 5, 2016
18:58 - Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vissu ekki af tillögunni um Sigurð Inga
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vissi ekki af ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að stíga til hliðar og leggja til að Sigurður Ingi Jóhanesson yrði forsætisráðherra í hans stað. Sigurður Ingi tilkynnti um þessa tillögu Framsóknarflokksins þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á leið á Bessastaði að hitta forseta Íslands. Lesið meira um það hér.
18:50 - Mótmælendur stefna að Valhöll
Mótmælin á Austurvelli voru færð að Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu fyrir um það bil hálftíma síðan. Svo var ákveðið að fylkja liði í Valhöll, þar sem Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa verið að funda. Mótmælendur eru á leið þangað gangandi núna.
18:14 - Fólk streymir enn á Austurvöll
Það eru ekki eins margir að mótmæla og í gær, en fólki fer fjölgandi á Austurvelli að sögn lögreglu. Þrír fjórðu hlutar af Austurvelli eru þaktir mótmælendum og enn streymir fólk að, segir á mbl.is.
18:07 - Einar K. veit ekki af hverju hann er kominn á Bessastaði
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis er kominn á Bessastaði til fundar við forseta Íslands. Hann veit ekki hvert tilefni fundarins er eða hvað verður rætt, sagði hann við fjölmiðla áður en hann fór á fundinn.
18:02 - Framsóknarmenn segjast styðja Sigmund Davíð áfram
Þingflokkur Framsóknarflokksins styður Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins og fráfarandi forsætisráðherra, eftir atburði dagsins. Þingflokkurinn lýsir ánægju með „þá virðingarverðu afstöðu formannsins sem felst í því að hann skuli vera reiðubúinn að stíga þetta skref til að gera ríkisstjórninni kleift að vinna áfram að þeim mikilvægu verkefnum sem nú liggja fyrir.” Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum.
17:37 - Sigmundur Davíð ætlar að vera þingmaður áfram
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hyggst sitja áfram á þingi. Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir við mbl.is að það sé almennur stuðningur við tillöguna um að hann víki sem forsætisráðherra fyrir Sigurði Inga.
17:30 - Þrjú prósent treystu Sigurði Inga best
Þrjú prósent aðspurðra sögðust bera mest traust til Sigurðar Inga Jóhannessonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, af ráðherrum ríkisstjórnarinnar í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 síðan um miðjan mars. Þetta og fleira má lesa í nýrri frétt Sunnu Valgerðardóttur.
17:23 - Útspilið aldrei að verða sáttagrundvöllur
Sé mið tekið af samtölum sem Kjarninn hefur átt í dag, bæði við stjórnarþingmenn og þingmenn stjórnarandstöðu, þá var þetta útspil aldrei mögulegt til þess að verða sáttagrundvöllur á Alþingi eða mæta kröfum um nýtt upphaf, eins og greina mátti með áberandi hætti í fjölmennustu mótmælum á Íslandi í seinni tíð í gær, og stjórnarandstaðan hefur lagt áherslu á. Tillagan kom flestum í stjórnarandstöðunni á óvart. Krafan um nýtt upphaf með kosningum kemur nær einróma frá stjórnarandstöðunni, segir í fréttaskýringu Magnúsar Halldórssonar.
16:49 - Sigmundur Davíð segir forsetann ljúga
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, segir að hann hafi ekki borið fram formlega tillögu um þingrof á fundi sínum með forseta Íslands fyrr í dag, líkt og skilja hefði mátt af ummælum forsetans að fundi loknum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu sem send var út rétt í þessu. Meira hér.
16:37 - Við leysum ekkert með stólaskiptum
Þetta segir Árni Páll Árnason. „Við erum að upplifa dauðateygjur þessarar ríkisstjórnar. Þetta er upphafið að endalokunum.“
16:35 - Krafan var að Sigmundur stigi til hliðar
Bjarni Benediktsson vill halda samstarfinu áfram, það er niðurstaðan í bili. Hann segir að krafan hafi verið að Sigmundur Davíð viki. Nú er að sjá hversu margir mæta á mótmæli sem búið er að boða að hefjist klukkan 17 í dag, rétt eins og í gær.
16:28 - Bjarni ætlar að hugsa málið
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætlar að hugsa málið, segir hann að loknum fundi sínum með forseta Íslands. Hann segir að nú þurfi hann og Sigurður Ingi að ræða saman næstu daga. Hann vill tryggja farsæla lausn í samstarfi við Framsóknarmenn, og mun ekki gera kröfu um að verða forsætisráðherra. Lesið meira um það sem Bjarni segir hér.
16:14 - Ólíklegt að það verði þingfundur í dag
Einar K. Guðfinnsson forseti þingsins talaði við fjölmiðla rétt í þessu og segir að það sé ólíklegt að hægt verði að halda þingfund í dag eins og stjórnarandstaðan hefur óskað eftir. Hann mun funda með forseta Íslands þegar hann hefur fundað með stjórnarandstöðunni.
16:03 - Hvað nú?
Nú er þess beðið að Bjarni Benediktsson komi út af fundi með forseta Íslands og skýri vonandi stöðuna sem upp er komin.
Niðurstaða Framsóknarflokksins er algjör kúvending frá því í morgun, þegar forsætisráðherra hótaði Sjálfstæðisflokknum þingrofi og kosningum ef þingmenn hans styddu ekki ríkisstjórnina áfram. Nú er það allt í einu ekki inni í myndinni hjá framsóknarmönnum. En spurningin er hvað Ólafur Ragnar og Bjarni eru að ræða.
15:47 - Fylgst með forsætisráðherraefni framsóknar
Á þessari mynd má sjá Óttarr Proppé og Birgittu Jónsdóttur fylgjast með Sigurði Inga Jóhannssyni tilkynna að hann sé nýtt forsætisráðherraefni Framsóknarflokksins.
15:41 - Stjórnarandstaðan óskar eftir fundi með forseta þingsins
Stjórnarandstaðan hefur óskað eftir fundi með Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis klukkan 16.15. Þar verður farið fram á að þing verði kallað saman strax til að ráða úr stöðunni. Það er ennþá krafa stjórnarandstöðunnar að boðað verði til kosninga. Sunna Valgerðardóttir, blaðamaður Kjarnans, greinir okkur frá þessu en hún stendur nú vaktina í Alþingishúsinu eftir að hafa verið á Bessastöðum fyrr í dag.
15:38 - Eðlilegast að boða til kosninga
Þetta segir Birgitta Jónsdóttir Pírati um nýjustu tíðindi.
15:30 - Framsóknarflokkurinn samþykkir að Sigurður Ingi taki við
Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður Framsóknarflokksins tilkynnir nú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi lagt til að Sigurður Ingi taki við forsætisráðuneytinu. Það hafi þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkt. Búið er að greina Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins frá þessari tillögu.
15: 23 - Sigmundur segir margt skemmtilegt og áhugavert að gerast
Framsóknarmenn vildu ekkert segja við blaðamenn um niðurstöðu þingflokksfundar síns, sem var að ljúka í Alþingishúsinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði margt mjög skemmtilegt og áhugavert að gerast, og það væri alveg tilefni fyrir spenningi meðal fjölmiðlamanna sem reyndu að fá hann til að tjá sig. Hann vildi hins vegar ekkert segja meira. Hann sagðist ætla að ræða við blaðamenn fljótlega.
Sigmundur Davíð segir margt áhugavert og skemmtilegt að gerast https://t.co/RGo3UR0HT7 pic.twitter.com/p7MINgpwKy
— Kjarninn (@Kjarninn) April 5, 2016
15:12 - Þingmenn framsóknar koma út af fundi
Þingmenn Framsóknarflokksins vilja ekkert segja um það sem fram fór á þingflokksfundi þeirra. Það er komin niðurstaða í málið en Karl Garðarsson þingmaður segir að það ríki trúnaður.
15:05 - Bjarni er á leið á Bessastaði
Bjarni Benediktsson er á leiðinni á Bessastaði að hitta forseta Íslands. Hann vildi ekki tjá sig við fjölmiðla.
14:56 - Júlíus Vífill efldi traust á borgarstjórn
Júlíus Vífill hefur eflt traustið á borgarstjórn með því að víkja úr borgarstjórn vegna skattaskjólsmála sinna. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann segir þó ljóst að mikið verk sé fyrir höndum. „Traust á pólitík í landinu öllu er því miður í lágmarki, og þar se borgarstjórn því miður engin undantekning. Því þurfum við svo sannarlega að breyta.“ Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir líka að þessi ákvörðun Júlíusar bæti traustið á stjórnmálum. Hann hafi sagt af sér.
14:47 - Framsókn enn að funda og formenn stjórnarandstöðuflokka líka
Framsóknarflokkurinn er enn að funda, þrátt fyrir að einhverjir þingmenn hafi yfirgefið fundinn. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru líka að funda í þinghúsinu um stöðuna sem komin er upp.
14:40 - Þjóðin á rétt á að koma að málum
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra segir að þjóðin eigi rétt á að koma að málum eftir svona dramatíska atburði. Það sé alveg ljóst að ríkisstjórnarsamstarfið sé búið.
14:35 - 45 dagar þýðir 20. maí
Eins og greint hefur verið frá verður að boða til kosninga innan 45 daga frá þingrofi. Ef það gerist í dag þá er sú dagsetning 20. maí. Það vill svo til að það er sami dagur og framboðsfrestur rennur út til forsetakjörs.
14:32 - Hildur Sverrisdóttir verður borgarfulltrúi
Þau tíðindi að Júlíus Vífill Ingvarsson hafi sagt af sér þýða að Hildur Sverrisdóttir er orðin borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, sagði við RÚV nú fyrir skömmu að hún teldi ákvörðun Júlíusar góða.
14:31 - Sveinbjörg Birna ætlar ekki að snúa aftur strax
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina í Reykjavík, ætlar ekki að snúa aftur til starfa fyrr en yfirferð innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, um hagsmunaskráingu borgarfulltrúa, er lokið en forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu um að fela innri endurskoðun og siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, að taka til skoðunar hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. „Ég styð slíka tillögu og mun aðstoða framangreinda aðila við þá vinnu í hvívetna,“ segir Sveinbjörg Birna í yfirlýsingu.
14:22 - Þingmenn Sjálfstæðisflokksins funda
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins funda nú í Valhöll. Jón Gunnarsson sagði atburði dagsins vera óvænta og reyfarakennda atburðarrás.
14:12 - Júlíus Vífill segir af sér
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt af sér embætti. Þetta gerðist á borgarstjórnarfundi rétt í þessu. Innan skamms verður hægt að lesa meira um þetta hér.
14:07 - Össur Skarphéðinsson rýfur þögnina
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, hefur rofið þögn sína um málefni dagsins. Hann var eini þingmaður stjórnarandstöðunnar sem talaði ekki um vantrauststillögu stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi í gær. „Tortóla virðist í beinni útsendingu vera orðinn banabiti ríkisstjórnarinnar.“
„Í fyrsta lagi er líklegt að Framsóknarflokkurinn komi mjög illa út úr kosningum við þessar aðstæður og hótun forsætisráðherrans felur í reynd í sér að stærstum hluta þingflokks hans verði rutt af þingi út á hinar eilífu veiðilendur. Flestir flokkar, þ.á.m. Sjálfstæðisflokkurinn er líklegri til að koma betur út úr kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn.
Í öðru lagi er það krafa stjórnarandstöðunnar að þing verði rofið og nýjar kosningar boðaðar. Hótun forsætisráðherra um að beita sér fyrir kosningum færir því stjórnarandstöðunni sigur í núverandi þrætu á silfurbakka. Tillagan um vantraust virðist eiginlega búin að fella ríkisstjórnina áður en hún kemur á dagskrá þingsins. Ég man ekki eftir sérkennilegri vendingum í stjórnmálum.“
13:56 - Þingrofsréttur ekki kúgunarréttur forsætisráðherra
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir að þingrofsréttur sé ekki tæki forsætisráðherra á hverjum tíma til að kúga samstarfsflokk. „Krafa um afsögn SDG og kosningar er á borðinu og SDG getur ekki skotið sér undan henni með klækjabrögðum. Gott að sjá að forsetinn stoppar hann af. Nú blasir bara við samþykkt vantrausts og kosningar innan 45 daga.“
13:47 - Þessi ríkisstjórn er „splundruð, sprungin, horfin, farin“
Splundruð, sprungin, horfin, farin voru orðin sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur notaði um ríkisstjórnina.
13:37 - Þorgerður Katrín vill alla flokka í stjórn
Allir flokkar sýni ábyrgð, í stjórn saman að hausti til að klára brýn mál. Þá kosningar. Forseti þingsins getur leitt stjórnina.
— þorgerður katrín (@thorgkatrin) April 5, 2016
13:33 - Ráðuneytin í hefðbundnum verkefnum
Það er svolítið fyndið að fylgjast með upplýsingafulltrúum ráðuneyta, sem senda frá sér fréttatilkynningar um hin ýmsu mál. Manni finnst einhvern veginn eins og það sé ekki alveg í takti við stemmninguna í þjóðfélaginu í dag, þegar við vitum ekki einu sinni hvort ríkisstjórnin lifi daginn.
13:26 - Þingflokkur Framsóknarflokksins fundar án formannsins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er ekki á fundi þingflokks Framsóknarflokksins. Frá þessu er greint á Vísi, sem segir að forsætisráðherra sé í stjórnarráðinu.
13:22 - Einleikur Sigmundar Davíðs
Sigmundur Davið Gunnlaugsson forsætisráðherra er að leika mikinn einleik um þessar mundir. Fundur hans með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í morgun fór ekki vel, samkvæmt upplýsingum Kjarnans. Hann virðist ekki hafa rætt við neinn um ákvörðun sína um að fara á Bessastaði og óska eftir þingrofi. Lestu fréttaskýringu Kjarnans um einleik forsætisráðherrans.
13:14 - Á að vera úrlausnarefni þingsins
Staðan á að vera úrlausnarefni þingsins, segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Henni hugnast ekki hugmyndin um utanþingstjórn.
13:13 - Orðið á götunni að forsetinn ætli kannski að mynda utanþingstjórn
Það kom fram í fréttum RÚV að „orðið á götunni“ í þinghúsinu sé að mögulega ætli Ólafur Ragnar sér að mynda utanþingstjórn.
13:00 - Í meira lagi óvenjulegt hvernig forsetinn bregst við
Björg Thorarensen prófessor í stjórnskipunarrétti þekkir ekki dæmi þess að forseti hafi formlega og með rökstuddri afstöðu hafnað tillögu forsætisráðherra um þingrof, eins og Ólafur Ragnar hafi gert í dag. Hann hafi tekið það upp á sína arma að gæta hagsmuna meirihluta þingsins, sem sé í meira lagi óvenjulegt. Það sé búið að breyta stjórnskipan landsins þannig að þingið sjálft geti tekist á við þessa stöðu sem upp er komin. Forsetinn taki hins vegar að sér að verða gæslumaður ríkisstjórnarinnar og passa upp á að vilji meirihluta þingsins liggi fyrir.
„Hann gengur gegn þeirri venju sem alltaf hefur verið byggt á þegar óskað er þingrofs. Þingið sjálft á að takast á við afleiðingar af því að ákvarðanir séu teknar gegn vilja þess.“ Hún sagði að henni væri ómögulegt að spá fyrir um það hvað gerist næst.
12:58 - Ólafur Ragnar slítur blaðamannafundinum
Þetta eru stórpólitísk tíðindi, það er ljóst.
12:55 - Spurning um hvers konar ríkisstjórn situr
Það gæti komið til greina að rjúfa þingið áður en vantrauststillaga er borin fram. Þetta er ekki bara spurning um að þingið sé rofið heldur líka um það hvers konar ríkisstjórn situr og hvort fólk sé sátt við að ríkisstjórnin sitji í óbreyttri mynd fram að kosningum, segir forsetinn.
12:52 - Svarar ekki hvort hann íhugi að halda áfram sem forseti
Ólafur Ragnar Grímsson svarar ekki spurningu um það hvort hann hyggist endurskoða ákvörðun sína um að hætta sem forseti.
Myndband af forsætisráðherra að yfirgefa Bessastaði
Sigmundur yfirgefur Bessastaði https://t.co/RGo3UR0HT7 pic.twitter.com/yq1721belI
— Kjarninn (@Kjarninn) April 5, 2016
12:49 - Þjóðin sé sæmilega sátt
Mikilvægt að ná samstöðu um farsæla lendingu í málinu segir forsetinn. Mikilvægt fyrir þjóðarhag og heiður bæði út á við og inn á við. Þjóðin eigi að vera sæmilega sátt og þurfi ekki dag eftir dag að halda til mótmæla. Lestu frétt um orð forsetans hér.
12:46 - Ætlar að funda með Bjarna í dag
Fundi lauk á Bessastöðum þannig að Ólafur Ragnar neitaði að veita fyrirheit um það hvenær hann samþykkir beiðni um þingrof. Hann hefur ákveðið að eiga síðar í dag fund með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Hann mun svo mögulega óska eftir fundi með forseta Alþingis í framhaldinu og mögulega annarra flokka.
12:44 - Ólafur Ragnar ekki tilbúinn að samþykkja þingrof strax
Forsetinn ætlar ekki að veita Sigmundi Davíð heimild til að rjúfa þing fyrr en hann ræðir við formann Sjálfstæðisflokksins og aðra. Hann gefur ekkert fyrirheit um það hvort hann samþykkir þá beiðni fyrr en hann hefur átt samtöl við forystumenn annarra flokka um þeirra afstöðu.
12:42 - Sigmundur Davíð bað forsetann um þingrof
Forsetinn leggi sjálfstætt mat á það hvort hann samþykki ósk forsætisráðherra um þingrof. Ólafur Ragnar segir að forseti hljóti að meta hvort stuðningur sé við þá ósk hjá ríkisstjórnarflokkum og hvort líklegt sé að þingrof leiði til farsællar niðurstöðu.
12:40 - Ólafur Ragnar byrjaður að tala
Forsetinn segir að hann hafi nú ekki ætlað að halda blaðamannafund en það væri óhjákvæmilegt eftir ummæli Sigmundar Davíðs í morgun og fund þeirra tveggja að hann geri skýra grein fyrir sínum sjónarmiðum og afstöðu.
Sigmundur Davíð vildi flýta fundi með forsetanum og Ólafur Ragnar varð við því.
12:33 - Ólafur ætlar að ræða við fjölmiðlamenn
Fjölmiðlafólki var hleypt inn á Bessastaði og Ólafur Ragnar hlýtur því að ætla að ræða við það. Það er troðfullt eins og sjá má hér að neðan.
12:27 - „Við sjáum til með það allt saman“
Sigmundur Davíð sagði ekki mikið við fjölmiðlamenn nú þegar hann fór út af fundi með forsetanum. Hann var spurður hvort það yrði þingrof og sagði „við sjáum til með það allt saman“ áður en hann fór inn í bíl og lokaði á eftir sér.
12:22 - Hugnast ekki tilhugsunin um kosningar
Karl Garðarsson segir að honum hugnist ekki tilhugsunin um kosningar eftir 45 daga.
12:18 - „Það ber okkur enginn til hlýðni“
Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, starfandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, rétt í þessu um það hvort Sigmundur Davíð hafi ekki verið að hóta flokknum. Guðlaugur Þór sagði að sjálfstæðismenn hefðu talað varlega hingað til þess að huga að því sem skipti máli, sem sé þjóðarhagur. Stjórnmálaupplausn sé ekki þjóðinni í hag.
12:14 - Enn fundur á Bessastöðum - enginn Bjarni
Það eru fimmtán mínútur frá því að Sigmundur Davíð fór inn á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. Minnst 20 blaða- og fréttamenn bíða eftir þeim fyrir utan Bessastaði. Ekkert bólar á Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.
12:07 - Viðbrögð Sigmundar komu Karli á óvart
Sigmundur Davíð greindi þingflokki sínum ekki frá þeirri ákvörðun sinni að hann væri reiðubúinn að rjúfa þing og boða til kosninga. Það staðfesti Karl Garðarsson í fréttum RÚV, sem sagði að viðbrögð Sigmundar Davíðs í málinu kæmu honum á óvart. „Hann hefði kannski átt að segja þingflokknum þetta fyrst,“ sagði Karl.
12:04 - Kosningar yrðu innan 45 daga
Ef verið er að ákveða að rjúfa þing á Bessastöðum kemur hann væntanlega á Alþingi á eftir og les upp forsetabréf um þingrof, segir Björg Thorarensen prófessor í fréttum RÚV. Þetta hefði þær afleiðingar að boða verður til kosninga innan 45 daga en þingrofið tekur ekki gildi fyrr en þann dag sem kosningar eru haldnar. Fram að þeim tíma heldur þingið áfram að starfa.
12:00 - Aukafréttatímar á RÚV og Stöð 2
Aukafréttatímar eru bæði á RÚV og Stöð 2 fyrir áhugasama.
11:53 - Kominn á Bessastaði og vildi ekkert segja
Sigmundur Davíð er kominn á Bessastaði, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði frá RÚV. Hann vildi ekkert segja við fréttamenn sem eru á staðnum.
Sigmundur Davíð á leiðinni á Bessastaði
Já það virðist vera að hótun Sigmundar Davíðs hafi ekki virkað til að halda ríkisstjórninni saman. Hann er á leiðinni á Bessastaði núna. Fréttamaður og ljósmyndari Kjarnans eru á leiðinni þangað og við munum segja ykkur frá þessu um leið og fréttir berast. Kannski er þetta bara fundurinn sem búið var að boða að þeir Bjarni myndu eiga með Ólafi Ragnari.
Stjórnarandstaðan bregst við og er tilbúin í kosningar
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar eru tilbúnir í kosningar, eins og kemur fram í þessari frétt.
Er hann að hóta Sjálfstæðisflokknum?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson funduðu í morgun. Nú rétt í þessu sendi Sigmundur Davíð frá sér yfirlýsingu á Facebook þar sem hann talar um öll góðu málin sem ríkisstjórnin hafi unnið að, en að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina áfram þá muni hann rjúfa þing og boða til kosninga.
Hvað þýðir þetta? Í morgun var talað um að mögulega yrði Sigmundi ýtt til hliðar en reynt yrði að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram, en Sigmundur virðist slá þann möguleika út af borðinu. Hann leggur þetta þannig upp að það séu bara tveir möguleikar í stöðunni. Annað hvort sé haldið áfram með óbreytta ríkisstjórn eða boðað til kosninga.
Velkomin í dag númer tvö
Velkomin í beina útsendingu af vettvangi stjórnmálanna í dag. Það hefur mikið gengið á það sem af er degi og viðbúið að það haldi áfram. Við ætlum að safna hér saman öllu því helsta sem fram kemur.