Opnunaratriði kvikmyndarinnar The Exorcist frá 1973 er tekið upp í hinni fornu borg Hatra í norðurhluta Írak sem byggð var á þriðju öld fyrir Kristsburð. Rústir þessarar vel varðveittu borgar hafa nú að mestu leyti verið eyðilagðar af hryðjuverkasamtökunum ISIS, eða íslamska ríkinu. Eyðilegging Hatra er liður samtakanna í stríðinu sem þau heyja gegn þeim þjóðum sem þau leggja undir sig. ISIS vilja ekki einungis hafa líf og limi fólks í höndunum heldur einnig sögu þess og sjálfsmynd.
ISIS verður til
Hryðjuverkasamtökin ISIS voru stofnuð árið 1999 í Jórdaníu og hafa kallast ýmsum nöfnum í gegnum tíðina. Meðlimirnir aðhyllast svokölluðum wahabisma, sem er mjög íhaldssöm stefna innan súnní islam þar sem Kóraninn er túlkaður á sem þrengstan hátt. Samtökin urðu strax nátengd hinum alræmdu al-Qaeda samtökum Osama bin Ladens og fluttu snemma mest alla starfsemina til Írak. Árið 2003 réðust Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra inn í Írak og steyptu Saddam Hussain af stóli. Isis tóku þá þátt í andspyrnunni gegn Bandaríkjamönnum og leppstjórn þeirra undir nafninu al-Qaeda í Írak. Árið 2006 lýstu þeir svo yfir íslömsku ríki til að skerpa á hugmyndafræðilegum grundvelli samtakanna og laða að róttæka múslima víða að úr heiminum. Styrkur samtakanna var ávallt mestur í vestur og norðurhluta landsins og þegar borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst árið 2011 lá beinast við að stækka við sig í vesturátt. Ennþá undir merkjum al-Qaeda sendu samtökin bardagasveitir yfir landamærin og ekki leið á löngu þar til þær fóru að hasla sér völl í allri ringulreiðinni í Sýrlandi.
Það var núverandi leiðtogi samtakanna, Abu Bakr al-Baghdadi sem færði út kvíarnar til Sýrlands og þar lýsti hann yfir íslömsku ríki árið 2013. Ári seinna lýsti hann yfir stofnun svokallaðs kalífats, nokkurs konar íslamsku konungsríki, og það sama ár slitnuðu tengsl samtakanna við al-Qaeda. Það var einmitt þetta ár, 2014, þegar heimurinn fór að taka eftir ISIS. Þeir unnu hvern hernaðarsigurinn á fætur öðrum og oft gegn mun fjölmennara herliði. Yfirráðasvæði þeirra stækkaði ört báðum megin við landamærin og nú er það á stærð við England. Auk þess fóru aðrir hópar, t.d. í Líbýu, Nígeríu, Jemen, Alsír og víðar að binda sitt trúss við ISIS og þeir stjórna þó nokkru landsvæði, sérstaklega í Líbýu. Langstærstur hluti yfirráðasvæðis samtakanna er þó í Írak og Sýrlandi, á svæði sem áður var hjarta veldis Assýríumanna fyrir árþúsundum síðan. Assýría var eitt fyrsta stórveldi sögunnar og þetta svæði er gjarnan nefnt vagga siðmenningarinnar.
Mosul
Í júní árið 2014 hófu ISIS liðar stórsókn í Norður-Írak og áður en mánuðurinn var liðinn voru þeir búnir að margfalda yfirráðasvæði sitt. Á meðal þeirra borga sem þeir náðu á vald sitt var Mosul, þriðja stærsta borg landsins en um hálf milljón manns flúðu borgina við yfirtökuna. Mosul stendur við hina fornu borg Níneveh sem var höfuðborg Assýríu á seinni hluta veldistíma þess fyrir tæplega 3000 árum síðan. Mosul er einstök menningar borg og ein helsta menntaborg Íraks og allra miðausturlanda. Þar stóðu einstakar minjar, bæði byggingar, styttur og gripir, sem höfðu mikla þýðingu fyrir múslima jafnt sem kristna og aðra. Eða að minnsta kosti þangað til ISIS komu í bæinn. Undir því yfirskini að „eyða líkneskjum fjölgyðistrúar“ hófu samtökin að tortíma menningarverðmætum kerfisbundið. Samtökin birtu myndband þar sem sýnt hvernig liðsmenn þeirra gengu um Minjasafnið í Mosul og skemmdu styttur og aðra muni með sleggjum. Hvort sem þeir vissu það eða ekki þá reyndust margir af þeim gripum vera eftirlíkingar en markmiðinu var samt náð. Heimurinn var í losti.
Safnið var ekki eina stofnun borgarinnar sem var ráðist gegn. ISIS liðar tæmdu bókasafn borgarinnar og héldu stóra bókabrennu fyrir utan það. Tugþúsundir gripa urðu eldinum að bráð. Á meðal safnkosta voru forn handrit, sum einstök verðmæti, og mikið af bókum og skjölum frá tímum Ottómanaveldisins. Talsmenn Menningarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO) segja að brennan sé ein hrikalegasta eyðilegging á safnkosti bókasafns í gervallri mannkynssögunni. [http://edition.cnn.com/2015/03/09/world/iraq-isis-heritage/] Mosul háskólinn, sem er þekktur fyrir læknadeild sína og er einn af þeim stærstu í miðausturlöndum, hefur að mestu staðið auður síðan borgin féll. Einnig hafa mörg af helstu trúartáknum borgarinnar fallið, bæði íslömsk og kristin. Helst ber að nefna Mosku og grafhýsi heilags Jónasar sem var sprengd í tætlur þann 24. júlí 2014. Jónas (í hvalnum) er bæði spámaður í islam og dýrlingur í kristni og bein hans eru sögð grafin í Mosul. Moskan var eitt af kennileitum borgarinnar og mjög vinsæll pílagrímastaður fyrir bæði múslima og kristna. Þremur dögum síðar sprengdu ISIS liðar Mosku heilags Georgs. Georg er stór persóna í bæði islam og kristni, t.d. verndardýrlingur Englands, en sú moska hafði fyrst og fremst þýðingu fyrir múslima þar sem kristnir telja bein hans hvíla annars staðar. Moska heilags Georgs var einnig vinsæll pílagrímastaður. Fleiri moskur, kirkjur og klaustur hafa verið eyðilöggð í borginni.
Í námunda við Mosul og Níniveh eru rústir fornra borga Assýríumanna og fleiri þjóða sem hafa haldist ótrúlega heillegar í þurru loftslaginu. Þær eru:
Nimrud Sunnan við Mosul. Fyrsta höfuðborg Assýríu og ein auðugasta borg fornaldar. Einstök borg sögulega séð með mikið af sjaldgæfum munum. Stór hluti borgarinnar enn órannsakaður. Á heimsminjaskrá UNESCO.
Khorsabad Norðaustan við Mosul. Höfuðborg Assýríu á 8. öld f.Kr.
Hatra Suðvestan við Mosul. Byggð á 3. öld f.Kr. Mikilvæg verslunarborg. Mikil grísk og rómversk áhrif á byggingum. Á heimsminjaskrá UNESCO.
Þessar borgir lentu allar undir yfirráðum ISIS og meðlimir samtakanna létu áætlanir sínar í ljós. Þeir sögðu að borgirnar væru óguðlegar og þeim yrði að eyða. Um vorið 2015 hófust þeir handa við að leggja borginar í rúst með jarðýtum og sprengjum. Þar sem það getur reynst erfitt að fá upplýsingar frá yfiráðasvæði ISIS hefur umheimurinn þurft að reiða sig á gervihnattarmyndir til að sjá hversu miklar skemmdirnar eru á þessum svæðum. Ljóst er að þau eru mjög illa farin en ekki er víst að allt hafi verið eyðilagt því myndirnar gefa til kynna að mörgu hafi verið stolið. Rústir fornaldaborga á borð við þessar hafa einnig verið notaðar af ISIS meðlimum til að þjálfa nýliða, geyma vopn og taka fólk af lífi.
Palmyra
Í maímánuði árið 2015 gerðu ISIS stórsókn í Sýrlandi og náðu m.a. borginni Palmyra, sem er staðsett í miðju landsins, á sitt vald. Palmyra er ævaforn verslunarborg, næstum 4000 ára gömul, þar sem fólk af ýmsum þjóðernum bjó og hún var um tíma ein af fjölmennustu borgum heims. Borgin var suðupottur margra menningarheima. Þar mættist hinn evrópski og hinn asíski heimur og ber arkítektúr og munir sem fundist hafa þar keim af því. Þegar borgin féll í hendur ISIS voru minjarnar strax nýttar á voveiflegan máta þar sem fangar voru teknir af lífi í hinu fræga rómverska leikhúsi. Yfirfornminjavörður Palmyru, sem unnið hafði þar í um hálfa öld, var afhöfðaður og lík hans hengt upp á aðaltorgi rústanna.
ISIS liðar hófu strax handa við eyðileggingu og rán menningarverðmæta á svæðinu. Í júní eyðilögðu þeir hina frægu styttu af Ljóninu í Al-lāt frá fyrstu öld f.Kr. Mánuði seinna voru tvö merk hof frá annarri og þriðju öld f.Kr. sprengd, þ.e. hof Baalshamin og Bel sem tileinkuð voru fornum guðum svæðisins. Í september var það svo staðfest að ISIS liðar hefðu eyðilagt hin merku grafhýsi Palmyru. Grafhýsin voru einstök að því leyti að þau voru byggð sem turnar og glæsilega skreytt að innan. Tortíming minjanna var svo fullkomnuð í október þegar staðfest var að ISIS hefðu sprengt hið mikla rómverska bogahlið borgarinnar, sem byggt var um 200 f.Kr og hefur lengst af verið eitt helsta kennileyti svæðisins og eitt merkasta mannvirki Sýrlands.
Í marsmánuði árið 2016 gerði sýrlenski stjórnarherinn atlögu að Palmyra og flæmdi ISIS burt úr borginni. Kveðjugjöf ISIS var að sprengja hinn fræga Palmyra kastala sem stendur á hæð við borgina og byggður var á 13. öld. Hörfandi ISIS liðum tókst ekki að eyðileggja hann alveg en þessi atburður sýnir best hversu mikla áherslu hryðjuverkasamtökin leggja á það að eyðileggja menningarverðmæti.
Fleiri staðir á heimsminjaskrá UNESCO í Sýrlandi eru í bráðri hættu vegna stríðsátakanna og þá sérstaklega ef þeir skyldu lenda í höndum ISIS. Þar má helst nefna:
Gamla Damascus Elstu hlutar borgarinnar eru allt að 10.000 ára gamlir. Umayyad moskan ein af þeim stærstu í veröldinni.
Gamla Aleppo Kastali frá tímum Alexanders mikla.
Bosra Forn borg. Höfuðstaður Rómverja í Sýrlandi. Stórt rómverskt leikhús.
Krossfarakastalarnir Stórir miðaldakastalar við strönd Miðjarðarhafsins.
Smygl og sala
Þær minjar sem ISIS hafa komist yfir hafa ekki einungis sögulegt og menningarlegt gildi heldur eru þau einnig metin til fjár. Þetta er blessun í dulargervi því að samtökin hafa selt stóran hluta þeirra gripa sem þeir hafa náð, þ.e. smærri hluta. Í tölvugögnum látins ISIS herforingja fundust listar yfir muni og ólöglega sölu þeirra. Þar kom fram að í einu héraði Sýrlands höluðu samtökin inn 36 milljónum bandaríkjadollara á stolnum munum. Sam Hardy, fornleifafræðingur við Lundúnarháskóla, segir að samtök sem þessi selji bæði munina sjálf og aðstoði utanaðkomandi smyglara við það gegn greiðslu. Mohamed Ali Alhakim, sendiherra Íraks hjá Sameinðu Þjóðunum, segir ennfremur að ISIS hagnist um 100 milljónir bandaríkjadollara á ári við sölu stolinna gripa. Þó að vissulega sé betra að gripirnir séu ekki eyðilagðir eða skemmdir þá eru þeir nánast alltaf seldir úr landi og því er verið að arðræna þær þjóðir sem eiga þá. Þessi viðskipti fara fara vitaskuld dult á svarta markaðinum því enginn heiðvirður fornminjasafnari myndi kaupa þessa muni og þar með knýja áfram stríðsvél ISIS.
Þjóðarmorð
Eftir að hin forna borg Nimrud var eyðilöggð fullyrti Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, að slíkir verknaðir væru stríðsglæpir. [http://www.un.org/press/en/2015/sgsm16570.doc.htm] Mörgum kann að finnast þessi túlkun hans undarleg í ljósi þess að um er að ræða dauða hluti. En til að meðtaka þessi orð hans er nauðsynlegt að skilja ástæðurnar að baki slíkra verknaða.
Dr. Zainab Bahrani, prófessor í fornleifafræði og listfræði miðausturlanda við Columbia háskóla, tekur harðar í árina og kallar verknaði sem þessa þjóðarmorð. Hún segir:
„Þetta er ekki einungis eyðilegging á menningararfleið, þetta er tilraun til að eyða lýsingu af hópum af fólki. Þúsundir ára af sögu hvort sem það er íslömsk, foríslömsk, frumkristin eða Yazidi er þurrkuð út þegar ISIS reynir að endurskrifa hana eftir eigin höfði. Þetta er þjóðarmorð.“
Hún talar einnig um óttann við fortíðina, þ.e. að ISIS stæði beinlínis ógn af fortíðinni og þess vegna vildu þeir eyða henni. Þetta sé allt hluti af áróðursstríði þeirra. Hún nefnir einnig að þessar aðferðir séu ekki nýjar af nálinni. Þeim hafi verið beitt áður í átökum þar sem áttu sér stað þjóðernishreinsanir eins og t.d. seinni heimstyrjöldinni og í Balkansstríðunum á tíunda áratug seinustu aldar.
Fleiri fornleifafræðingar hafa fordæmt verknaðina af hörku. Sturt W. Manning við Cornell háskóla segir skemmdarverkin hræsni og eigi engan trúarlegan grundvöll heldur séu knúin áfram af villimannslegum níhilisma. Á sama tíma og að meðlimirnir tali um að munirnir séu óíslamskir þá séu þeir að selja þá á svörtum markaði í stórum stíl. Þetta er taktísk hernaðarleg aðgerð en ekki hugmyndafræðilegur gjörningur.
Tjónamat
Flestir fræðimenn eru sammála um að erfitt eða ómögulegt sé að meta það hversu mikið af þjóðargersemum hafi glatast í hildarleiknum. Ljóst er þó að skaðinn er gríðarmikill og í flestum tilvikum óafturkallanlegur. Líklegt er að töluvert af smærri munum leynist í læstum hirslum víðsvegar um heiminn en það eru stóru munirnir, stytturnar og byggingarnar, sem fræðimenn hafa mestar áhyggjur af. Gervihnattarmyndir, myndbandsupptökur birtar af ISIS sjálfum og vitnisburðir fólks sýna það glöggt að þessir staðir verða aldrei þeir sömu aftur. Það er aftur á móti lítið sem fræðimenn geta gert meðan átökin standa enn yfir. Það sem þeir geta aftur á móti gert er að vekja athygli á og halda á lofti þeim verðmætum sem hafa glatast. 16. apríl verður opnuð sýning á Trafalgar torgi í Lundúnum þar sem Hringboginn í Palmyra verður afhjúpaður, prentaður í nákvæmum vélknúnum þrívíddarprentara. Í kjölfarið verður hann svo prentaður og sýndur í fleiri borgum víðs vegar um heim.[http://digitalarchaeology.org.uk/] Þetta verður gert til að sýna sýrlensku þjóðinni og öðrum að umheiminum sé ekki sama um hinn glataða þjóðararf þeirra.