Í rússnesku samhengi virðist úrvinnsla gagnanna úr Panama-lekanum fyrst og fremst ætla að einblína á meint tengsl Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta við gríðarlega fjármuni falda í aflandsfélögum í skattaskjólum. Nafn Pútíns kemur reyndar hvergi fram í skjölunum en nánir vinir Rússlandsforseta eru þar nafngreindir og sterklega bendlaðir við vafasama viðskiptahætti, skattalagabrot, falsanir og peningaþvott.
Í kjölfar ásakananna hefur verið fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins síðustu þrjár vikurnar en óhætt er að fullyrða að umfjöllunin um Panama-skjölin hafi raunar aldrei komist á neitt skrið í Rússlandi. Margar ástæður geta mögulega legið þar að baki.
Dræmar undirtektir almennings
Blaðamenn Novaya Gazeta dagblaðsins fóru fyrir rannsókninni á Panama-skjölunum tengdum Rússlandi, fyrir hönd ICIJ-samtakanna. En þann 3. apríl byrjaði rússneska dagblaðið svo að dæla út fréttum um alla spillinguna. Ásamt vinum og vandamönnum Pútíns voru sérstaklega margir rússneskir stjórnmálamenn tengdir við aflandsfélög í Panama í umfjöllun dagblaðsins og spillingin eins og rauður þráður í gegnum meira og minna allt stjórnkerfið í Rússlandi. Rússnesku fjölmiðlarnir RBC og Radio Svoboda birtu einnig ítarlegar umfjallanir um Panama-skjölin og hugsanleg tengsl Pútíns.
Rússneskir fjölmiðlar hliðhollir Rússlandsforseta tóku aftur á móti annan pól í hæðina. Fyrst um sinn var þar lítið sem ekkert fjallað um Panama-skjölin. Síðar snéru Kremlar-miðlar vörn í sókn og fundu skjölunum allt til foráttu. Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, talaði um “Pútín-fóbíu” og “upplýsingaárás” í viðtölum við hina ríkisreknu TASS-fréttastofu. Á meðan RT-fréttastofan gagnrýndi harðlega framsetningu frétta vestrænna fjölmiðla um Panama-skjölin sem höfðu Pútín ávallt í forgrunni. “Göbbels lét birta áróðursgreinar sem voru minna hlutdrægar en þetta,” sagði meðal annars í umfjölluninni.
En í ljósi þess hve sterka stöðu Kremlar-miðlar hafa á fjölmiðlamarkaði í Rússlandi má leiða líkur að því að stór meirihluti Rússa hafi fengið upplýsingar um Panama-skjölin frá þeim en ekki frá minni og óháðari fjölmiðlum á borð við Novaya Gazeta og Radio Svoboda. Enda voru engin fjölmenn mótmæli í Rússlandi, líkt og voru á Íslandi. Radio Svoboda tók einmitt saman myndband þar sem viðbrögð almennings í Moskvu annars vegar og Reykjavík hins vegar eru borin saman í kjölfar uppljóstranna Panama-skjalanna.
Kerfisbundin spilling
Rússar hafa reyndar marga fjöruna sopið þegar kemur að spillingu í gegnum tíðina en andstæðingar Pútíns hafa þó haldið því fram að undir hans stjórn hafi spillingin orðið kerfisbundnari. Fyrrum stjórnarandstæðingurinn Boris Nemtsov, sem myrtur var í febrúar í fyrra, var einn helsti gagnrýnandi Pútíns en hann kom meðal annars að gerð nokkurra skýrslna sem miðuðu að því að uppljóstra um spillingu í stjórnartíð hans.
Í skýrslu Nemtsovs frá árinu 2011, sem ber einfaldlega heitið “Pútín. Spilling”, er því haldið fram að ástandið hvað varðar spillingu Rússlandi sé orðið miklu verra heldur en á árunum eftir fall Sovétríkjanna. “Spilling er hætt að vera vandamál, spillingin er þess í stað orðin að kerfi,” segir meðal annars í skýrslunni.
Í árlegri skýrslu Transparency International samtakanna fyrir árið 2015 vermir Rússland 119. sæti af 167 á lista þar sem lönd eru mæld eftir stöðu spillingar. Á botninum á listanum eru Norður-Kórea og Sómalía en aðeins Aserbaídsjan, Kasakstan og Úkraína eru þar talin spilltari en Rússland af löndum Evrópu samkvæmt skýrslunni.
Pútín stendur keikur
Röskum fjórum dögum eftir fyrstu uppljóstranir Panama-skjalanna tjáði Rússlandsforseti sig loks opinberlega um innihald skjalanna og framsetningu frétta um þau. Pútín svaraði þá spurningum blaðamanna á ráðstefnu í Pétursborg og sagði augljóst að stjórnvöld vestanhafs stæðu á bakvið Panama-lekann. Pútín harmaði fréttaflutning byggðan á skjölunum og talaði um árás á Rússland frekar en árás á hann sjálfan. “Andstæðingar okkar eru umfram allt með áhyggjur af samstöðu og styrk rússnesku þjóðarinnar. Þess vegna reyna þeir að ráðast á okkur innan frá, til að gera okkur hlýðnari,” sagði Pútín meðal annars á ráðstefnunni.
Enn fremur í hinum árlega sjónvarpsviðburði, “Bein lína með Vladimír Pútín”, sem haldinn var 14. apríl svaraði Rússlandsforseti spurningu um Panama-skjölin. Pútín var spurður af hverju hann svaraði ekki rógburði vestrænna fjölmiðla varðandi aflandsfélög í Panama af meiri hörku? Pútín sagði upplýsingar Panama-skjalanna um aflandsfélög ekki vera rangar sem slíkar. Hann ítrekaði hins vegar að þessar “ögranir snúist ekki um einstaklinga nefnda í skjölunum heldur varði þetta þjóðina í heild sinni og hún muni ekki láta kúga sig.” Pútín svaraði alls 80 spurningum, af um þremur milljónum spurninga sem bárust þættinum, á tæpum fjórum klukkutímum en viðburðurinn nýtur mikilla vinsælda í Rússlandi.
Samkvæmt skoðanakönnun Levada-Center, sem er sjálfstæð og óháð stofnun sem framkvæmir reglulegar skoðanakannanir og rannsóknir á rússnesku samfélagi, voru 82% aðspurðra ánægðir með störf Pútíns í mars síðastliðnum. Ef mið er tekið að umræðunni um Panama-skjölin í Rússlandi verður að teljast ólíklegt að mikil breyting verði á vinsældum Rússlandsforseta þegar samskonar könnun verður gerð fyrir apríl, þrátt fyrir uppljóstranir síðustu vikna.
Vont en það venst
Spillingin í Rússlandi hvorki hófst né hætti með tilkomu Vladimírs Pútíns fram á sjónarsvið rússneskra stjórnmála. Hvort spillingin hafi hins vegar aukist í stjórnartíð Pútíns er erfitt að fullyrða um. Hvernig sem því líður þá virðast Rússar nú til dags í það minnsta vera komnir með aukið ónæmi fyrir spillingu, í víðum skilningi þess orðs. Það er engu líkara en að Rússar telji eðlilegt að viðskipti teygi sig oft inn á grá svæði og að pólitík sé í eðli sínu óheiðarleg. Spillinguna er að finna víða í samfélaginu og Rússar eru meðvitaðir um hana.
Veik og óskipulögð stjórnarandstaða og bág staða óháðra fjölmiðlafyrirtækja á fjölmiðlamarkaði gera það að verkum að frjáls og gagnrýnin umræða á opinberum vettvangi er vart til staðar í Rússlandi. Í slíku pólitísku landslagi hafa utanaðkomandi “ógnir” eins og Panama-skjölin því lítinn höggþunga gegn nánast ósnertanlegum Rússlandsforseta. Eins undarlega og það kann að hljóma. Í núverandi árferði, þar sem gjáin á milli austursins og vestursins virðist ekki ætla að verða brúuð í bráð og viðskiptaþvinganir alsráðandi, er raunar enn líklegra að rússneska þjóðin þjappi sér að baki Pútín gegn slíkum ásökunum. Frekar en að fjölmenna á torgum og kalla eftir því að hann skuli víkja úr embætti.