Fermetraverð miðsvæðis í Reykjavík hefur hækkað um 38 prósent á tæpum fimm árum, og útlit er fyrir verulega hækkun fasteignaverðs á næstu misserum. Seðlabanki Íslands telur mikilvægt að lögum verði breytt á þann veg að skýr heimild verði til staðar, sem takmarki möguleika á skuldsetningu vegna fasteignakaupa. „Mikilvægt er [...] að heimild til að setja þak á veðhlutföll í þjóðhagsvarúðarskyni sé til staðar áður en skuldadrifin hækkun á fasteignaverði hefst en lagafrumvarp með slíkri heimild liggur nú fyrir Alþingi,“ segir í fjármálastöðugleikariti Seðlabankans, sem kom út 20. apríl síðastliðinn. Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika, er ritstjóri þess.
Ekki skuldir í þetta skiptið
Sé horft heil yfir fasteignamarkaðinn, það er meðaltalstölur á öllum markaðnum, þá hækkaði fasteignaverð í fyrra um sjö prósent að raunvirði, að því er segir í ritinu. Íbúð sem var með verðmiða upp á 30 milljónir í byrjun ársins í fyrra kostaði 32,1 milljón í lok ársins. Sé mið tekið af spám þá verður hún komin í tæplega 40 milljónir í byrjun árs 2018.
Í ritinu segir að hækkun fasteignaverðs á undanförnum árum hafi ekki verið drifin áfram með aukinni skuldsetingu heimila, en hætta sé á því að það ferli hefjist fyrr en seinna. Ofþensla sé í kortunum, og mikilvægt að grannt sé fylgst með gangi mála. .
Heildarskuldir heimila hafa lækkað að undanförnu, og er staða þeirra í alþjóðlegum samanburði nokkuð góð um þessar mundir. Skuldir heimila landsins eru áætlaðar 177% af ráðstöfunartekjum um síðustu áramót, eða álíka hlutfall og um síðustu aldamót, að því er fram kom í fréttaskýringu Guðna Einarssonar í Morgunblaðinu á dögunum.
Til samanburðar var þetta hlutfall í árslok 2014 305% í Danmörku, 274% í Hollandi, 174% í Svíþjóð, 225% í Noregi og 127% í Finnlandi, að því er fram kom í fyrrnefndri fréttaskýringu.
Á bremsunni
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að nauðsynlegt væri að vera á hagstjórnarbremsunni, þar sem helsta hættan sem steðjaði að hagkerfinu væri ofþensla. Þingmenn Framsóknarflokksins, einkum Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Þorsteinn Sæmundsson, spurðu Má ítarlega út í vaxtaákvarðanir bankans, og gagnrýndu þær. Sögðu verðbólguspár engan veginn hafa gengið eftir, og stýrivextir væru alltof háir fyrir vikið. Sagði Frosti meðal annars að aðeins skuldarar væru látnir bera hitann og þungann af þessum vaxtahækkunum, og meðan þeir sem ættu peninga í lausu inn á bankareikningum myndu hagnast á þessu háa vaxtatæki.
Már hafnaði því, að vextir væru óeðlilega háir og sagði nauðsynlegt að horfa ekki aðeins til verðbólguspár, heldur einnig til annarra þátta. Margt benti til þess að mikil ofþensla gæti haft neikvæð áhrif, ef hagstjórnartækjum yrði ekki beitt með skynsömum hætti. Á þetta hefði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meðal annars bent.