Samkvæmt áætlun stjórnvalda um fjármál hins opinbera næstu fimm ár, þá verður áfram lagt kapp á að lækka skuldir, en á sama tíma verða innviðir landsins styrktir með auknum fjárfestingum. Þannig verður samtals um sex milljörðum varið í uppbyggingu í ferðaþjónustu, eða sem nemur um 1,2 milljörðum á ári, framhaldsskólar fá 3,2 milljarða króna og hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða hækkaðar um 130 þúsund krónur á mánuði í 500 þúsund, í byrjun næsta árs.
Þetta var kunngjört í dag. Áætlunin byggir á nýjum lögum um fjármál hins opinbera, en þau miða meðal annars að því að styrkja fjármálastjórn hins opinbera til þess að gera hagstjórn skilvirkari og betra. Lögin gera ráð fyrir samræmdri hagstjórn hjá ríki og sveitarfélögum.
Taka skal fram að þó þessi áætlun sé sett fram núna, þá þarf að samþykkja fjárútlát á hverju ári í fjárlögum. Auk þess verður kosið í haust, og þá mun ný ríkisstjórn taka við stjórnartaumunum. Lögin um fjármál hins opinbera gera þó ráð fyrir virkri samhæfingu og eftirfylgni áætlana, fram í tímann.
Staða ríkissjóðs hefur batnað verulega á síðustu misserum, og hefur vaxtakostnaður ríkisins til að mynda dregist saman um 20 milljarða króna á ári, sé miðað við stöðu mála í lok árs í fyrra, og síðan árið 2013.
Helstu atriði áætlunar stjórnvalda til fimm ára, má sjá hér að neðan.
Nokkur helstu verkefni sem gert er ráð fyrir rúmist innan tímabilsins:
- Heilbrigðismál. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum króna hærri árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar króna á ári. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið. Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir sem munu bætast við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Þá nema framlög til kaupa á tækjabúnaði fyrir LSH og FSA 5 milljörðum á árunum 2016-2021 og 2,5 milljörðum verður varið til styttingar á biðlistum á sama tímabili.
- Nýr Landspítali. Byggingaframkvæmdir við fyrsta verkáfanga, einkum meðferðarkjarna og rannsóknarhús, verði boðnar út 2018 og komnar á fullan skrið árin 2019–2021. Þær koma til viðbótar byggingu sjúkrahótels, sem áformað er að ljúki 2017, og fullnaðarhönnun nýs meðferðarkjarna sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum 2016 og síðustu ríkisfjármálaáætlun.
- Fæðingarorlof. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar um 130 þúsund krónur í byrjun næsta árs í 500 þúsund krónur á mánuði, en markmiðið er að færa greiðslurnar í átt að því sem þær voru fyrir 2009. Samtals eykst framlag til sjóðsins um 1 milljarð króna á árunum 2017–2018.
- Framhaldsskólar. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins vaxi um 3,2 milljarða króna að raunvirði frá og með árinu 2016 og til ársins 2021, eða sem svarar til nálægt 12% raunvaxtar yfir tímabilið á sama tíma og rekstrarkostnaður skólanna mun lækka vegna styttingar námsins úr fjórum árum í þrjú.
- Húsnæðismál. Áfram verður gert ráð fyrir 1,5 milljörðum króna í áætluninni vegna stofnframlaga til uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum.
- Þrjú ný hjúkrunarheimili. Heildarkostnaður ríkisins vegna byggingar þriggja nýrra hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu er um 4,7milljarðar króna.
- Hús íslenskra fræða. Lokið verður við framkvæmdina á tímabilinu og renna alls 3,7 milljarðar króna til verkefnisins.
- Ný Vestmannaeyjaferja. Á tímabilinu verður ný ferja að fullu fjármögnuð og smíðuð en áætlaður kostnaður við ferjuna og botndælubúnað nemur nálægt 6 milljörðum króna.
- Ferðamannastaðir. Stóraukin framlög renna til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum en gert er ráð fyrir að þau verði alls um 6 milljarðar króna, eða um 1,2 milljarðar á ári.
- Dýrafjarðargöng. Áætluð útgjöld vegna gerðar ganganna nema ríflega 12 milljörðum króna á tímabilinu.