Í lok síðasta árs, nánar tiltekið á gamlársdag, var samþykkt hlutafjáraukning í stærsta einkarekna fjömiðlafyrirtæki landsins, 365 miðlum. Þá skráðu þrír aðilar sig fyrir nýju hlutafé og borguðu samtals 550 milljónir króna fyrir. Allir aðilarnir þrír eru með rík tengsl við Lúxemborg. Og við hjónin Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þetta kemur fram í skjölum sem send hafa verið til fyrirtækjaskráar. Ekki fást upplýsingar hjá 365 miðlum hverjir eru endanlegir eigendur tveggja þeirra félaga sem nú eru hluthafar í fyrirtækinu og Fjölmiðlanefnd hefur ekki verið upplýst um eigendabreytinguna.
Jón Ásgeir var aðaleigandi 365 miðla árum saman. Eftir að honum tókst að halda yfirráðum yfir fjölmiðlaveldinu með tilfærslu á eignum nokkrum vikum eftir bankahrun færðist eignarhaldið í nokkrum skrefum frá honum til eiginkonu hans, Ingibjargar, í gegnum hlutafjáraukningar að mestu. Hún hefur verið langstærsti eigandi 365 undanfarin ár. Breyting varð á eignarhaldinu þegar fjarskiptafyrirtækinu Tali var rennt saman við 365 og fyrrum eigendur þess bættust í hluthafahóp 365. Á meðal þeirra voru íslenskir lífeyrissjóðir og ýmsir fjárfestar sem tengjast sjóðnum Auði 1, sem er stýrt af fjármálafyrirtækinu Virðingu. Þessi hópur átti um fimmtung í 365 eftir samrunann.
Áskildi sér rétt til að vefengja hlutafjáraukninguna
Þann 17. desember 2015 var boðað til hluthafafundar í 365 miðlum. Þar var samþykkt að lækka B-hlutabréf í félaginu um 230 milljónir króna. Eigandi allra B-hluta í 365 er félag á vegum Ingibjargar Pálmadóttur, Apogee ehf., og átti lækkunin að greiðast út til þess. Það skilyrði var sett fyrir lækkuninni að hana mátti ekki greiða út fyrr en að búið væri að ganga frá aukningu á útgáfu A-hlutabréfa í félaginu eða fyrr en lánveiting frá eiganda bréfanna fyrir sömu fjárhæð og greidd væri út.
Á sama fundi var lögð fram tillaga um að hækka A-hlutafé í 365 miðlum um allt að einn milljarð króna. Fyrri hluthafar, utan þeirra sem áttu undir tvö prósent hlut, máttu taka þátt í þessari hlutafjáraukningu samvkæmt tillögunni, en þeir þurfti þá að greiða 1,16 krónur á hlut. Nýir hluthafar myndu hins vegar greiða eina krónu á hlut. Það þýðir að ef til dæmis stærsti hluthafinn, lúxembúrgíska félagið Moon Capital S.a.r.l. í eigu Ingibjargar, ætlaði að kaupa allt nýja hlutaféð þyrfti það að greiða 1.160 milljónir króna fyrir það. Ef nýr hluthafi keypti það myndi sá hins vegar þurfa að greiða einn milljarð króna.
Einn minnsti hluthafinn í 365 er félag sem heitir Volta ehf. Það er í eigu Kjartans Ólafssonar fjárfestis, sem hafði fjárfest í Tali fyrir nokkrum árum ásamt eigendur fjárfestingasjóðsins Auðar 1, og varð eigandi í 365 eftir sameiningu þess fyrirtækis og Tals á árinu 2014. Kjartan samþykkti hlutafjáraukninguna á fundinum en lagði fram bókun vegna hennar. Í henni segir:
„Fulltrúi Volta ehf. felst á fram komna tillögu en óskar jafnframt að bókað verði í fundargerð að hlutafjárhækkun á genginu 1,0 sé samþykkt á grundvelli þeirrar forsendu að um sé að ræða nýjan hluthafa ótengdan núverandi hluthöfum sem komi að félaginu og að þess verði gætt að hluthöfum verði ekki mismunað í fyrirhuguðu ferli[...]Allur réttur sé áskilinn til að vefengja hlutafjáraukninguna verði misbrestur á öðru hvoru“.
Í kjölfarið var aukningin samþykkt og fundinum slitið. Heimildin til að auka hlutaféð var tímabundin í tólf mánuði, eða út árið 2016.
Gamlir vinir og samstarfsmenn í stjórn nýs eigenda
Þann 26. febrúar 2016 barst fyrirtækjaskrá tilkynning frá 365 miðlum um breytingu á hlutafé fyrirtækisins. Það hafði verið hækkað og þrír aðilar hefðu skuldbundið sig til að greiða 550 milljónir króna fyrir nýtt hlutafé sem gefið hafði verið út. Í fundargerð stjórnar 365 sem fylgdi tilkynningunni kemur fram að aðilarnir þrír hafi samþykkt að kaupa hið aukna hlutafé á stjórnarfundi á gamlársdag 2015. Tveir þeirra keyptu á genginu 1,16, sem þýðir að þeir tengjast fyrri eigendum.
Annar kaupandinn, sá sem keypti mest, var Moon Capital S.a.r.l. sem skráði sig fyrir nýju hlutafé upp á 230 milljónir króna. Þar er að öllum líkindum um að ræða nýtingu á því fé sem félagið fékk þegar B-hlutabréf voru lækkuð um sömu upphæð. A-hlutabréfum í 365 fylgja mun meiri réttindi og völd en B-hlutabréfum og því styrkti Moon Capital, sem er skráð í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, stöðu sína í hluthafahópi 365 með þessum breytingum.
Hinn aðilinn sem greiddi 1,16 krónur á hlut í aukningunni, og borgaði alls 120 milljónir króna í reiðufé inn í fyrirtækið, heitir ML 120 ehf. Félagið er skráð til heimilis á Suðurlandsbraut 4, hjá lögmannstofunni Mörkinni. Eigendur þeirra stofu vinna mikið fyrir Jón Ásgeir og Ingibjörgu og einn þeirra, Einar Þór Sverrisson, situr í stjórn 365 miðla fyrir þeirra hönd.
Það má ekki rugla félaginu ML 120 ehf. saman við félagið ML
102 ehf. Það síðarnefnda, sem er í eigu Moon Capital S.a.r.l. Ingibjargar Pálmadóttur,
átti 12,8 prósent hlut í 365 fyrir aukninguna. Hið fyrrnefnda var hins vegar að
koma inn sem nýr eigandi. ML 120 er í eigu félags sem skráð er í Lúxemborg, og
ber heitið Eurice Participations S.A. Sá sem stýrir því félagi, samkvæmt gögnum úr fyrirtækjaskránni í Lúxemborg, er maður sem
heitir Karim Van den Ende, og starfar náið með Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu. Í
Panamaskjölunum svokölluðu, sem lekið var frá panamísku lögfræðistofunni Mossack
Fonseca, kemur m.a. fram að Van den Ende, sem er Belgi, hafi verið með prókúruumboð
fyrir Guru Invest, fjárfestingafélags hjónanna í Panama sem fjármagnað hefur
verkefni þeirra á Íslandi og í Bretlandi á undanförnum árum. Þegar Kjarninn og
Stundin, í samstarfi við Reykjavik Media, fjölluðu um aflandsfélaganet
Ingibjargar og Jóns Ásgeirs, sem opinberað er í Panamaskjölunum, voru þau spurð
um hvaðan fjármunirnir sem væri í Guru Invest hefðu komið, hvort þær hefðu
verið tilgreindar í skuldauppgjörum þeirra við kröfuhafa á Íslandi og hvort fé
úr Guru Invest hefði runnið til félaga eða einstaklinga á Íslandi. Þau svöruðu
spurningunum ekki efnislega.
Don, Sigurður og Þorsteinn
Hinn eigandinn sem bættist við hlutahafahóp 365 miðla, og keypti nýtt hlutafé fyrir 200 milljónir króna, er félagið Grandier S.A. í Lúxemborg. Ekki er hægt að nálgast upplýsingar um hver sé endanlegur eigandi þess félags en samkvæmt tilkynningum sem borist hafa til fyrirtækjaskráarinnar í Lúxemborg voru þrír menn skipaðir í stjórn félagsins í fyrrasumar, nánar tiltekið í júlí 2015. Þeir eru Don McCharthy, stjórnarformaður House of Frasier og náinn viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til margra ára, Sigurður Bollason, umsvifamikill íslenskur fjárfestir sem hefur einnig unnið mikið og náið með Jóni Ásgeiri í gegnum tíðina, og Þorsteinn Ólafsson, framkvæmdastjóri lúxembúrgíska eignastýringarfyrirtækisins Arena Wealth Management. Lekar frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sýna að Þorsteinn er umsjónaraðili félaga í eigu Ingibjargar, og sem lotið hafa stjórn Jóns Ásgeirs, sem eiga skráð heimilisfesti í þekktum skattaskjólum. Á meðal þeirra félaga er áðurnefnt Guru Invest.
Don McCharthy stofnaði fjárfestingafélagið JMS Partners með Jóni Ásgeiri og Gunnari Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Baugs, árið 2010. Sigurður Bollason fjárfesti mikið fyrir hrun í verkefnum sem tengdust Baugi. Hann sat meðal annars í stjórn FL Group um tíma og var í fámennum hópi manna sem tók þátt í steggja Jón Ásgeir á ensku sveitasetri árið 2007.
Ekki tilkynnt til Fjölmiðlanefndar
Samkvæmt fjölmiðlalögum ber að tilkynna um allar eigendabreytingar fjölmiðla innan tveggja vikna frá því að þær eiga sér stað. Þrátt fyrir að hlutafjáraukning 365 hafi verið frágengin á stjórnarfundi 31. desember 2015 hefur breytt eignarhald ekki verið tilkynnt til fjölmiðlanefndar.
Forstjórinn neitar að upplýsa um eigendur
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir ástæðu hlutafjáraukningarinnar vera einfalda: Það sé verið að auka hlutafé til að styrkja undirliggjandi starfsemi.
Þegar Kjarninn spurði Sævar hverjir væru eigendur félaganna ML 120 ehf. og Grandier S.A. í Lúxemborg, sem nýverið bættust í eigendahóp 365, vildi Sævar ekki svara því fyrr en hann væri búinn að ráðfæra sig við lögfræðing. Hann sagðist ætla að hafa samband að því loknu, en gerði það ekki og lét ekki ná í sig aftur.
Hagnaður á árinu 2015
365 miðlar sendu frá sér fréttatilkynningu í gær vegna rekstrarafkomu ársins 2015. Þar kom fram að hagnaður af rekstri hafi verið 22 milljónir króna á því ári, sem var mikil viðsnúningur frá árinu 2014 þegar tap fyrirtækisins var 1,4 milljarðar króna. Ársreikningur 365 miðla fyrir árið 2015 hefur ekki verið birtur.
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að sameining 365 og IP-fjarskipta, móðurfélags Tals, á árinu 2014 hefði skilað fyrirtækinu miklu skattahagræði. Skattainneign þess fór úr 31 milljón króna árið 2013 í 725 milljónir króna í lok síðasta árs og yfirfæranlegt skattalegt tap óx úr 2,3 milljörðum króna í 4,3 milljarða króna. Ástæðan er að mestu sú að Tal tapaði iðulega miklu fé og safnaði því upp nýtanlegu skattalegu tapi.
Alls tapaði 365 miðlar 1,6 milljarði króna á árinu 2014 en lækkaði það tap með því að nýta sér skattainneign upp á 279 milljónir króna.