Japanska fyrirtækið Nintendo hefur verið í tölvuleikjabransanum í 44 ár, mun lengur en flestir samkeppnisaðilar þeirra. Saga Nintendo er þó mun lengri þar sem fyrirtækið hefur komið víða við og stjórnendur þess ekki verið hræddir við að taka áhættur. Margsinnis hefur fyrirtækið verið á vonarvöl en ávallt komið fíleflt til baka. Saga Nintendo er saga af útsjónarsemi, þrautseigju, nýungagirni og snilligáfu nokkurra manna.
Spiladíler mafíunnar
Árið 1889 er merkilegt fyrir ýmsar sakir. Eiffel turninn var vígður, asperín kom á markað í fyrsta skipti, Jefferson Davis eini forseti Suðurríkjanna lést og Adolf Hitler fæddist sem og Charlie Chaplin. Þetta ár stofnaði Fusajiro Yamauchi lítið verkstæði í japönsku borginni Kyoto sem hann nefndi Nintendo Koppai. Nafnið Nintendo hefur valdið mönnum miklum heilabrotum en almennt er þó talið að það þýði látið himnaríki um heppnina. Koppai þýðir kortaspil og það er það sem fyrirtækið framleiddi fyrstu 74 árin. Á 19. öld var japanska keisaranum og ríkisstjórninni mjög í mun að taka fyrir allt fjárhættuspil í landinu og því voru hefðbundin kortaspil með tölum sem við þekkjum á vesturlöndum bönnuð með lögum. Yamauchi framleiddi aftur á móti svokölluð hanafuda spil, eða blómaspil, sem höfðu litríkar myndir af árstíðum og mánuðum í stað talna. Hanafuda spil höfðu verið til um aldir í Japan en Yamauchi bjó til sín eigin spil með eigin leikreglum, allt handgert af honum einum í upphafi.
Spil Yamauchi urðu vinsæl og fljótlega var farið að nota þau í fjárhættuspil. Japanska mafían, eða yakuza, stýrði umtalsverðu fjárhættuspili í Kyoto og liðsmenn hennar notuðu spilin frá Nintendo. Orðið yakuza kemur einmitt úr hanafuda spilamennsku og þýðir taphönd. Yamauchi nýtti sér þessa starfsemi og framleiddi meira að segja spil sem sérstaklega voru stíluð inn á þennan markað, tengu, sem einungis fjárhættuspilarar notuðu. Vegna aukinna umsvifa og vinsælda (og gæðakrafna frá mafíunni) stækkaði Yamauchi við sig, réði inn starfsfólk og hóf að framleiða spilin í vélum. Hann byggði upp fyrirtækið hægt og bítandi og upp úr aldamótunum voru spilin seld um gervallt landið. Árið 1929 tók Sekiryo Yamuchi, ættleiddur tengdasonur Fusajiro, við fyrirtækinu og efldi dreifikerfi þess til muna. Nú voru Nintendo spilin seld í flestum leikfangaverslunum landsins og fyrirtækið átti eftir að nota þetta dreifikerfi seinna meir. Sekiryo stýrði fyrirtækinu í 20 ár þar sem það gekk undir ýmsum nöfnum en það var Hiroshi Yamauchi, þriðji forseti Nintendo og afabarn Sekiryo, sem umbreytti því eftir að hann tók við árið 1949.
Prófum allt
Hiroshi var metnaðarfullur ungur maður þegar hann tók við stjórn fjölskyldufyrirtækisins. Hann breytti framleiðslu fyrirtækisins m.a. með því að framleiða plastspil og gerði samning við Disney um að fá að nota persónur úr þekktum teiknimyndum á spilin. Nýr markaður hafði opnast fyrir Nintendo, þ.e. börn. Annar markaður opnaðist líka þegar Nintendo hófu að prenta spil með nöktum konum á, þar á meðal Marilyn Monroe. En þetta var ekki nóg, Hiroshi vildi stækka Nintendo enn meir. Hann hélt til Bandaríkjanna árið 1953 og heimsótti stærstu kortaspilaframleiðendur Bandaríkjanna en varð fyrir vonbrigðum þegar hann sá hversu lítil þau fyrirtæki voru í raun og veru. Seinna heimsótti hann hið nýopnaða Disneyland, varð heillaður og sá hveru stór fyrirtæki í skemmtanaiðnaðinum gátu orðið. Þessi ferð opnaði augu Hiroshi. Hann vissi að þó að Nintendo hefðu yfirburða stöðu á japanska kortaspilamarkaðinum þá yrðu umsvif fyrirtæksins ávallt takmörkuð við þennan litla markað, nema hann gripi í taumana og tæki áhættu.
Hiroshi setti Nintendo á markað í kauphöllinni í Osaka árið 1962. Mikið nýtt fé rann inn í fyrirtækið og hann ákvað að nýta það til að auka umsvifin. Það fyrsta sem honum datt í hug var að framleiða skyndi-hrísgrjón en þessum tíma voru skyndi-núðlur orðnar vinsælar í Japan. Þetta gekk vægast sagt illa og Hiroshi hóf leitina að næstu gróðavon. Nintendo opnuðu svokölluð ástar-hótel, þar sem viðskiptavinir gátu dvalið í örfáa klukkutíma, og leigubílastöðvar en bæði verkefnin reyndust misheppnuð. Fyrirtækið setti ýmsar vörur á markað svo sem kúlupenna, ljósritunarvélar og plastkubba sem voru í laginu eins og jarðhnetur en flestar reyndust misheppnaðar einnig. Eitt frægasta flopp Nintendo á þessum tíma var hin svokallaða chiritorie sem var ryksuga með fjarstýringu. Ofan á þetta dvínuðu vinsældir hanafuda spilanna til muna. Markaðsvirði Nintendo hlutabréfa hrundu úr 900 yenum niður í 60 og skuldirnar hrönnuðust upp. Eini ljósi punkturinn var leikfangaframleiðsla fyrirtækisins. Nintendo herjuðu inn á markað þar sem risar á borð Bandai og Tomy höfðu yfirburðastöðu. Nýliðarnir höfðu þó tvennt á sínu bandi. Annars vegar öflugt og rótgróið dreifikerfi síðan á tímum Sekiryo og svo ungan snilling sem vann í einni verksmiðjunni. Gunpei Yokoi var rafeindafræðingur sem vann við viðhald véla en hannaði ýmsa hluti í frítíma sínum. Þar á meðal teygjanlega klípuhendi sem Hiroshi sá fyrir slysni. Varan var markaðssett sem Ultra hand og seldist í meira en milljón eintökum. [http://nintendo.wikia.com/wiki/Ultra_Hand] Í kjölfarið var Yokoi gerður að leiðandi leikfangahönnuði innan fyrirtækisins og Hiroshi átti ekki eftir að sjá eftir því. Yokoi hannaði t.d. Ultra machine (vél sem varpaði hafnaboltum) og Love tester (tæki sem mældi ástarbylgur milli fólks) sem urðu gríðarlega vinsæl og festu nafn Nintento kyrfilega inn í leikfangamarkaðinn í Japan. Þetta var þó aðeins byrjunin. Á áttunda áratugnum hófst hin eiginlega bylting innan fyrirtækisins.
Hin stafræna framtíð
Það má segja að tölvuleikir hafi orðið til á áttunda áratug seinustu aldar eða a.m.k. fóru þeir að verða iðnaður sem fólk tók eftir. Fyrst í spilakassasölum en svo inn á heimilum. Stjórnendur Nintendo höfðu snemma mikinn áhuga á að hasla sér völl á þessu sviði og tryggðu sér réttinn á að dreifa fyrstu sjónvarpstengdu leikjatölvunni, Magnavox Odyssey, í Japan árið 1972. Tölvan var mjög frumstæð og seldist ekki vel en fræunum var stráð. Leikjatölvan var komin til að vera og Nintendo ætluðu að vera með. Til að byrja með ákváðu þeir að einbeita sér að spilakössum og árið 1975 kom út þeirra fyrsti tölvuleikur EVR Race. Tveimur árum seinna réð Hiroshi Yamauchi inn ungan hönnuð að nafni Shigeru Miyamoto sem reyndist mikið gæfuspor. Árið 1981 hannaði hann byltingarkenndan spilakassaleik að nafni Donkey Kong sem er almennt talinn fyrsti palla-leikurinn (platformer). Leikurinn átti upprunalega að vera byggður á hinum spínatelskandi sjóara Stjána Bláa en leyfið frá kvikmyndarisanum Paramount, sem átti réttinn á Stjána, fékkst ekki. Miyamoto bjó því til nýjar persónur til að prýða leikinn, apann Donkey Kong og Mario sem var byggður á skapvondum leigusala Nintendo í Bandaríkjunum Mario Segale.
Kvikmyndaverið Universal fór í mál við Nintendo þar sem þeir töldu Donkey Kong vera stælun á hálfnafna hans King Kong en því máli var vísað frá. Donkey Kong sló í gegn og þykir í dag einn besti spilakassaleikur allra tíma og er ennþá spilaður víðs vegar um heim. Persónurnar Donkey Kong og sér í lagi Mario hlutu heimsfrægð og áttu eftir að fylgja Nintendo alla tíð.
Hiroshi Yamauchi var meðvitaður um að framtíð tölvuleikjanna væri ekki á spilakassasölum heldur inni á heimilunum. Strax árið 1977 byrjuðu Nintendo að fikta við að hanna tölvur með innbyggðum leikjum sem hægt var að tengja við sjónvarpstæki. Það sama ár kom Atari 2600 leikjatölvan á markað og seldist í tugum milljóna eintaka. Mörg önnur fyrirtæki framleiddu leikjatölvur en gæði þeirra og leikjanna voru misjöfn. Atari hrundu af stað eiginlegu gullgrafaraæði í geiranum sem lauk árið 1983 með algjöru hruni og gjaldþroti margra leikjafyrirtækja. Það voru hins vegar nýliðarnir í Nintendo sem björguðu leikjatölvunni. Þetta sama ár settu þeir sína fyrstu tölvu, Famicom, á markað í Japan. Hún reyndist meingölluð og Nintendo þurftu að innkalla hana en hugmyndin var góð og Yamauchi gafst ekki upp. Tveimur árum seinna var hún endurbætt og sett á markað um allan heim sem Nintendo Entertainment System, NES. Viðtökurnar voru vægast sagt ótrúlegar. NES seldist í samanlagt 62 milljónum eintaka og fyrsti tölvuleikurinn, Super Mario Bros, seldist í 40 milljónum eintaka (met sem stóð í 21 ár). Árið 1989 kom svo út hugarfóstur Gunpei Yokoi, Game Boy. Það var handleikjatölva sem seldist í tæplega 120 milljón eintökum. Fyrirtækið sem byrjaði með einum myndlistarmanni á verkstæði hundrað árum áður var nú orðið langstærsta tölvuleikjafyrirtæki heimsins.
Leikjastríð
Einokun Nintendo á markaðinum stóð einungis yfir í nokkur ár eða þangað til að annað japanskt leikjafyrirtæki, Sega, fór að láta á sér kræla. Árið 1988 settu Sega leikjatölvuna Mega Drive (seinna Genesis) á markað og vinsældir hennar jukust með hverju árinu í upphafi tíunda áratugarins. Nintendo svöruðu með Super Nintendo Entertainment System (SNES). Á þessum tíma kom fram augljós munur á fyrirtækjunum. Leikir Sega voru stílaðir inn á eldri markhóp, voru hraðir og margir hverjir mjög blóðugir. Nintendo pössuðu aftur á móti upp á að hafa sína leiki sem fjölskylduvænsta. Þá kom fram gagnrýni á fyrirtækið sem hefur loðað við það allar götur síðan, þ.e. að þeir geri tölvuleiki fyrir börn. Sega náðu að toppa Nintendo í sölu eitt árið en heilt yfir unnu Nintendo stríðið við Sega. SNES var einfaldlega betri tölva með betri stýringu. Stýring Nintendo leikjanna hefur ávallt verið helsta aðalsmerki fyrirtækisins og meiri áhersla lögð á hana heldur en aðra þætti eins og grafík eða hljóð.
Á meðan stríðið við Sega stóð sem hæst var annað og stærra stríð í gerjun. Raftækjarisinn Sony var að koma inn á markaðinn og það voru Nintendo sem vöktu hann. Nintendo sömdu við Sony um að búa til leikjatölvu fyrir sig þar sem leikirnir yrðu bæði á hefðbundnum leikjahylkjum og geisladiskum en riftu samningnum vegna deilna um skiptingu gróðans. Sú tölva átti að heita Nintendo Play Station. Þess í stað ákváðu Sony að framleiða tölvuna sjálfir og árið 1994 kom hún á markað sem einfaldlega PlayStation. PlayStation gersigraði markaðinn með meira en 100 milljón seld eintök. Næsta tölva Sony, PlayStation 2, varð mest selda leikjatölva allra tíma með meira en 150 milljón seldra eintaka. Vinsældir Nintendo dvínuðu þrátt fyrir góða dóma þeirra tölva, Nintendo 64 og GameCube. Sega játuðu sig sigraða eftir útgáfu hinnar misheppnuðu Saturn tölvu og ákváðu að einbeita sér eingöngu að gerð tölvuleikja í framtíðinni. Framtíðin leit ekki vel út fyrir Nintendo þegar bandaríski tölvurisinn Microsoft herjaði svo inn á markaðinn árið 2001 með vél sinni XboX. Hvernig gat Nintendo sigrað tvö risastór alþjóðafyrirtæki með breitt vöruúrval? Nintendo höfðu ekkert annað bakland en tölvuleiki.
Rússíbani Iwata
Svarið fólst í nýjum forseta Nintendo. Árið 2002 steig Hiroshi Yamauchi loksins til hliðar eftir ótrúlegt 53 ára umbreytingarskeið fyrirtæksins og við tók Satoru Iwata. Iwata hóf feril sinn með því að festa fyrirtækið í sessi í handtölvum með útgáfu Nintendo DS sem sló meira að segja Game Boy við. En Iwata vissi að til að lifa af yrðu Nintendo að ná vopnum sínum á ný í gerð sjónvarpstölva. Sony og Microsoft höfðu öflugt dreifikerfi og framleiddu kraftmiklar tölvur sem erfitt var að keppa við. Nintendo ákváðu því að fara í aðra átt. Árið 2006 gáfu þeir út Wii, sem reyndist alger bylting. Tölvan var ekki nærri eins öflug og tölvur helstu keppinauta þeirra en galdurinn var fólginn í fjarstýringunni og hreyfiskynjara sem nam hana. Skyndilega opnaðist algerlega nýr markaður, þ.e. fólk sem venjulega hefði ekki gaman að tölvuleikjum. Stýringin svo einföld að hver sem er gat spilað leikina, algjör andstaða við sífellt flóknari stýringu hinna leikjatölvanna. Margir Wii leikir kröfðust einnig mikillar hreyfingar og Nintendo notuðu þetta til að draga að fólk sem stundaði líkamsrækt, yoga og fleira. Wii tölvur fóru að sjást í kennslustofum, endurhæfingarstöðvum og öldrunarheimilum. Nintendo sem höfðu verið afskrifaðir einungis nokkrum árum áður voru skyndilega komnir aftur á toppinn. Wii seldist í meira en 100 milljónum eintaka og DS í meira en 150 milljónum. Árið 2007 var Nintendo orðið næst verðmætasta fyrirtæki Japan (á eftir Toyota) og skaraði frammúr aðalkeppinautnum Sony.
En gæfan í tæknigeiranum er fallvölt. Nýjasta afurð Nintendo, Wii U, hefur ekki reynst fyrirtækinu jafn vel þrátt fyrir mun öflugri vél og mikla útsjónarsemi með tilkomu snertiskjás. Ofan á það hefur nýjasta handtölvan, 3DS, valdið töluverðum vonbrigðum. Áhrif snjallsímaleikja eru augljós og Nintendo sem og aðrir þurftu að taka á sig töluvert högg vegna minnkandi eftirspurnar handtölvuleikja. Árið 2011 hrundu hlutabréf í fyrirtækinu og talið er að stærsti hluthafinn, hinn aldni Hiroshi Yamauchi hafi tapað um 300 milljónum dollara á einum degi það árið. Þetta var jafnframt fyrsta tapár fyrirtækisins í 30 ár. Satoru Iwata lést úr krabbameini í júlí síðastliðnum einungis 55 ára að aldri og við tók Tatsumi Kishishima, fyrrverandi forstjóri Pokémon. Nintendo hafa látið lítið fyrir sér fara síðan hann tók við en þó hefur verið tilkynnt um nýja leikjatölvu, titluð NX, sem áætlað er að komi út í mars árið 2017. Mikil leynd er yfir verkefninu en Kishishima hefur lofað að það verði óvænt og byltingarkennt. Nintendo hafa alltaf haldið sér á markaðinum fyrst og fremst vegna útsjónarsemi og nýsköðunar. Hvort að NX verði næsta snilld eða banabiti fyrirtækisins verður að koma í ljós því að Nintendo hafa ekkert annað bakland til að falla á. Ef undan eru skilin hanafuda spilin sem þeir hafa framleitt samfellt í 127 ár.