Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það slái sig mjög illa að stærstu lífeyrissjóðir landsins séu að tala sig saman um að kaupa banka, þ.e. Arion banka. „Þá yrði þetta orðið dálítið skrýtið. Lífeyrissjóðirnir eru með um 45 prósent af skráðum hlutabréfum og eru svo farnir að tala sig saman um að kaupa fjármálafyrirtæki sem eru að þjónusta fyrirtækin sem þeir eru aðaleigendur að.“ Þetta kom fram á umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverki lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni sem haldnar voru á Hilton Reykjavik Nordica í morgun. Yfirskrift fundarins var „Samtal um samkeppni“ og Samkeppniseftirlitið stóð fyrir honum.
Viðstaddir voru flestir áhrifamenn íslensks atvinnulífs. Þ.e. forystumenn stærstu lífeyrissjóða landsins, stjórnendur skráðra fyrirtækja, stórir einkafjárfestar, forstjórar eftirlitsstofnana, stjórnendur sjóðsstýringarfyrirtækja, forstjóri Kauphallarinnar og margir fleiri.
Staða samkeppninnar eftir endurskipulagningu
Samkeppniseftirlitið boðaði til fundarins vegna þess að það fannst tilefni til að horfa yfir hvernig staða samkeppninnar væri nú þegar að talsverðar breytingar hefðu orðið á eignarhaldi fyrirtækja frá hruni. Þetta viðfangsefni væri ekki síður aðkallandi vegna þess að til stendur að losa um fjármagnashöft og selja viðskiptabanka sem nú eru í eigu íslenska ríkisins eða kröfuhafa.
Eftirlitið hefur bent á að í kjölfar bankahrunsins hafi stofnanafjárfestar orðið mjög áberandi á meðal stærri eigenda atvinnufyrirtækja. Þar sé einkum um að ræða lífeyrissjóði og þeir eiga í vaxandi mæli eignarhluti í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði. Dæmi um þetta sé eignarhald á vátryggingafélögunum þremur sem skráð eru í kauphöllinni, þar sem sex slíkir fjárfestar eiga í þeim öllum og þrír til viðbótar eigi í tveimur. Svipaða sögu sé að segja af fasteignafélögunum sem skráð eru á markað. Af 15 stærstu eigendum þeirra eru fimm stofnanafjárfestar eigendur í öllum félögunum. Samanlagt eigi þeir 35-44 prósent í hverju félagi. Þá má einnig benda á að lífeyrissjóðir landsins eru eigendur dagvörurisans Haga að mestu. Þeir eiga líka stóra hluti í Festi, sem á og rekur Kaupás, næst stærsta dagvörufyrirtæki landsins.
Starfsmenn eftirlitsins bentu á rannsóknir á mörkuðum í Bandaríkjunum þar sem vísbendingar séu um að eignatengsl milli samkeppnisaðila geti leitt til hærra verðs til viðskiptavina. Í máli Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, kom fram að ekkert benti til annars en að þær rannsóknir hefðu þýðingu hérlendis og líklegt væri að skaðleg áhrif eignarhalds af þessum toga gætu verið enn meiri á mörkuðum þar sem mikil samþjöppun og fákeppni ríki.
Lífeyrissjóðirnir verða farnir að kaupa sjónvörp og þvottavélar bráðum
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, stýrði umræðum á fundinum. Þar var meðal annars rætt um hvort eignarhald á atvinnufyrirtækjum hafi þróast til hins betra eða verra eftir hrun, hvaða áhrif losun fjármagnshafta muni hafa á þróun eignarhalds á atvinnufyrirtækjum, hvort sporna eigi við því að sami fjárfestir eigi í fleiri en einum keppinaut á sama markaði og hvort lífeyrissjóðir landsins, sem, eru langsamlega fyrirferðarmestu fjárfestar á Íslandi í dag, ættu að vera virkir eða óvirkir eigendur?
Guðmundur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, benti í umræðunum á að markaðsvirði íslensks hlutabréfamarkaðar fyrir hrun hafi verið, þegar best lét, um þrjú þúsund milljarðar króna. Virði hans nú sé á bilinu 1.300-1.400 milljarðar króna en á sama tíma hafi eignir lífeyrissjóða vaxið mikið og séu nú um 3.300 milljarðar króna. Svo séu höft sem geri lífeyrissjóðum ekki kleift að fjárfesta utan Íslands og því hafi þeir eignast stóran hluta þeirra hlutabréfa sem í boði eru á Íslandi.
Bjarni Benediktsson tók undir þetta og sagði að hann fyndi nánast til með stjórnendum lífeyrissjóðanna sem þurfi að finna sér fjárfestingamöguleika í því litla og lokaða hagkerfið sem Ísland er. Mjög nauðsynlegt hafi verið að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta hérlendis eftir bankahrun, haftasetningu og þegar kauphöllin hafði nær þurrkast út. Þannig tóku þeir beinan þátt í því risavaxna verkefni sem fjármálakerfið stóð frammi fyrir við að endurreisa sig.
Hann segist þó velta fyrir sér hvort að eignarhald á atvinnufyrirtækjum hafi þróast til hins betra eða verra eftir hrun. „Ég velti fyrir mér hvort bankarnir hefðu átt að gera meira af því að starfa með eigendum fyrirtækjanna og minna af því að ryðja þeim út og selja síðan hlutaféð heldur en raunin varð. Það hefði skilið eftir minna svigrúm fyrir lífeyrissjóðina til að koma inn.“
Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri sjóðstýringarfyrirtækisins Stefnis sem er í eigu Arion banka, sagði það mjög einfalt að lífeyrissjóðir landsins þyrftu að komast út úr höftum vegna stærðar sinnar. Ef það gerðist ekki bráðum þá verði þeir farnir að kaupa „sjónvörp og þvottavélar“ eftir nokkur misseri. Allir aðrir fjárfestingakostir verði uppurnir.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tók í sama streng og sagði að lífeyrissjóðunum þyrfti að bjóðast fleiri valkostir í fjárfestingu. Hann lagði til að í stað þess að þak yrði sett á fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis yrði sett gólf á fjárfestingar þeirra. Stefna ætti að því að um 50 prósent af fjárfestingum þeirra yrði erlendis í framtíðinni.
Útlendingar hafa ekki áhuga á íslenskum hlutabréfum
Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, sat einnig í pallborði. Hann sagði að losun hafta muni búa til leið fyrir lífeyrissjóði til að komast erlendis. Það myndi hins vegar ekki leysa þau vandamál sem íslenskt fjárfestingaumhverfi stæði frammi fyrir.
Á endanum þyrfti alltaf einhver að eiga hlutabréfin. Eins og staðan væri í dag á Íslandi, sérstaklega þar sem til stendur að hækka iðgjaldagreiðslur almennings inn í lífeyrissjóðakerfið, fari nær allur sparnaður landsmanna inn í það kerfi. Lítið sé eftir til að fjárfesta fyrir. Erlendir aðlar virðast ekki hafa mikinn áhuga á íslenskum hlutabréfum heldur horfi mun frekar á skuldabréf. Því til stuðnings má benda á að erlendir aðilar keyptu alls eignir fyrir 76,1 milljarð króna á Íslandi í fyrra. Þar af keyptu þeir ríkisskuldabréf fyrir 54 milljarða króna en hlutabréf fyrir 5,7 milljarða króna.
Ef útlendingar kaupi ekki íslensku hlutabréfin séu það eiginlega bara lífeyrissjóðirnir sem geti gert það. „Það er annað hvort það eða mynstrið sem við höfðum hérna fyrir hrun sem ég held að enginn vilji sjá aftur. Þegar eigendur voru skuldsett eignarhaldsfélög sem áttu ekkert eigið fé heldur bara lánsfé sem þau notuðu til að kaupa hlutafé.“
Gylfi sagði þó staðan hérlendis væri slæm. „Fagfjárfestarnir eru mjög fáir, mjög stórir og eiga nánast allt. Það er afleit staða, bæði fyrir lífeyrissjóðina og skráðu fyrirtækin, að þau séu nánast í áskrift að fé lífeyrissjóðanna og þurfi eiginlega ekkert að hafa fyrir því að fá það.“
Fundurinn ekki haldinn degi of seint
Greint hefur verið frá því í fréttum að stærstu lífeyrissjóðir landsins hafi hug á því að kaupa Arion banka af kröfuhöfum Kaupþings og að þeir hafi ráðið menn til að halda sérstaklega utan um það ferli. Það gerðist í kjölfar þess að fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance reyndu að setja saman hóp til að kaupa bankann, m.a. með aðkomu lífeyrissjóðanna. Þeir ákváðu frekar að sleppa milliliðnum og ráðast sjálfir beint í það verkefni að reyna að eignast bankann.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður leiða verkefnið. Öllum lífeyrissjóðum landsins var boðið að vera með.
Bjarni gerði þessa stöðu að umtalsefni á fundinum. Hann sagði að staðan hafi verið þannig einn daginn að ólík verðbréfafyrirtæki hefðu verið að koma sér fyrir til að keppa um hlut í banka en svo hafi hann lesið einn daginn frétt um að lífeyrissjóðirnir ætluðu ekki að starfa með þeim heldur að taka sig saman og kaupa banka. Þá yrði þetta orðið dálítið skrýtið. Lífeyrissjóðirnir eru með um 45 prósent af skráðum hlutabréfum og eru svo farnir að tala sig saman um að kaupa fjármálafyrirtæki sem eru að þjónusta fyrirtækin sem þeir eru aðaleigendur að[...]Þetta slær mig mjög illa og auðvitað er ástæða til að staldra við“, sagði Bjarni og bætti við að fundurinn sem fór fram í dag væri því ekki haldinn degi og seint.