Samfylkingin fær nýjan formann eftir viku. Landsfundur verður haldinn um næstu helgi en rafræn kosning hefst í dag þar sem flokksmenn geta kosið nýja forystu. Samfylkingin hefur mælst með sögulega lágt fylgi í skoðanakönnunum, nú síðast í könnun 365 þar sem hún var með rúmlega sex prósent. Það dugir til að ná þremur mönnum á þing. Í dag eru þingmennirnir níu.
Fjórir eru í framboði til formanns flokksins; Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi flokksins á Seltjarnarnesi, Helgi Hjörvar þingflokksformaður, Magnús Orri Schram varaþingmaður og Oddný Harðardóttir, þingmaður og fyrrverandi ráðherra. Kjarninn kannaði afstöðu þeirra til stöðunnar sem upp er komin.
Framboðið orðið að fegurðarsamkeppni
Guðmundur Ari Sigurjónsson, 27 ára, er yngstur formannsframbjóðenda og sá eini sem hefur aldrei setið á þingi. Hann er því ekki eins þekkt andlit og keppinautar hans, en segir slaginn engu að síður ganga vel, með ákveðnum fyrirvörum þó.
„Formannsframboðið hefur þróast út í vissa fegurðarsamkeppni þar sem helstu meðmælin sem maður les er að frambjóðandi sé formannslegri en aðrir. Ég óttast að félagsmenn séu að fara kjósa kunnugleg andlit og traust verði gildið sem ræður hvernig kosningarnar fara,” segir Guðmundur Ari. „Mín sýn er að staða flokksins kalli á nýtt andlit og nýjar áherslur og tel ég að eldmóður ætti að vera það gildi sem mundi ráða úrslitum.“
Flokksmenn eigi ekki að velja formann út frá reynslu, heldur út frá því hver sé líklegastur til að færa Samfylkingu jafnaðarmanna inn í nútímann, að mati Guðmundar Ara. Hann vill vinna markvisst inn á við í flokknum, virkja almenna félagsmenn til þátttöku og færa þeim aukin völd. Í dag fái þeir að gera hvorugt. „Þú ert eiginlega bara að skrá þig á póstlista þegar þú gengur í flokkinn,“ segir hann.
Hann segir næstu kosningar munu snúast um peninga og völd, baráttu milli jafnaðarmanna og ójafnaðarmanna. „Það sem næsti formaður Samfylkingarinnar á að gera er að fjarlægja alla froðu og draga fram skýrar línur fyrir kjósendur. Þetta er ekki flókið, við viljum aukið lýðræði og réttlæti fyrir almenning á Íslandi.“
Þú ert eiginlega bara að skrá þig á póstlista þegar þú gengur í flokkinn.
Munu ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum
Helgi Hjörvar þingflokksformaður segist hafa fengið jákvæð viðbrögð við framboði sínu og að góður andi sé í baráttunni.
„Ég leyfi mér að vera bjartsýnn. Þetta er jafnt og spennandi,” segir Helgi. Varðandi erfiða stöðu flokksins segir hann að þegar flokkur hafi glatað meira en helming stuðningsmanna sinna, sé ljóst að það þurfi að grípa til aðgerða.
„Meðal annars með því að taka af öll tvímæli af um með hverjum við ætlum að starfa í næstu kosningum. Efasemdir um slíkt mega ekki fæla fólk frá flokknum,” segir Helgi og undirstrikar að Samfylkingin ætli að vinna með samstarfsflokkum sínum í stjórnarandstöðunni. „Við munum ekki vinna með Sjálfstæðisflokkum, enda er hann ósamstarfshæfur og vill engar kerfisbreytingar. Það er sjálfsagt að við störfum ekki með honum.” Varðandi Framsóknarflokkinn segir Helgi það fara eftir hvaða Framsóknarflokkur það verði, ljóst sé að mikil breyting muni eiga sér stað þar.
„Stjórnarandstaðan er að sjá svipuð tækifæri og voru fyrir hendi í borginni þegar við bjuggum til Reykjavíkurlistann. Ég tel að sú reynsla mín geti hjálpað í komandi kosningum.“
Nauðsynlegt sé að ná samstöðu um hvernig eigi að ljúka stjórnarskrármálinu og ná bandalagi við samstarfsflokkana um stór mál í næstu kosningum. „Síðan þurfum við að hreinsa út áherslur sem spruttu upp í bólunni og hverfa aftur til sígildrar jafnaðarstefnu, með velferðarmál, húsnæðismál og fjármálakerfi fyrir fólk í öndvegi,” segir hann.
Við munum ekki vinna með Sjálfstæðisflokkum, enda er hann ósamstarfshæfur og vill engar kerfisbreytingar.
Annað nafn ekki grundvallarforsenda
Magnús Orri Schram, varaþingmaður Samfylkingar og ráðgjafi hjá Capacent, segir formannsslaginn ganga vel. Hann telur flokkinn eiga mikla möguleika á að ná fyrri styrk og endurvinna traust og trúnað almennings, þó að það taki tíma. Fólk þurfi að vera óhrætt við þróun.
„Það þarf að endurnýja lykilfólk, heimsækja áherslur uppá nýtt og endurskoða vinnubrögð. Einnig þarf að endurnýja tengslin við verkalýðshreyfinguna og ná aftur stöðu sinni þar sem félagshyggjufólk og frjálslyndir getur starfað undir einu merki,” segir Magnús Orri og bætir við að hann vilji fara á nýjan stað með flokkinn. Breyting á nafni sé þar ekki aðalatriði eða grundvallarforsenda.
„Það getur hins vegar verið hluti af allsherjar endurnýjun og sendir um leið skýr skilaboð til okkar sjálfra og annarra að við erum á nýjum stað,” segir hann. „Ég get ekki lagt næga áherslu á að flokkur jafnaðarmanna hverfur aldrei né verður hann lagður niður. Hann þarf hins vegar að taka breytingum.”
Ég get ekki lagt næga áherslu á að flokkur jafnaðarmanna hverfur aldrei né verður hann lagður niður.
Óþolandi staða
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi fjármálaráðherra, tekur undir með flokksbróður sínum og segir slaginn ganga vel. Henni hafi gengið vel að ræða við flokksfélaga.
„Mínir stuðningsmenn hringja á hverjum degi til að óska eftir stuðningi við mitt framboð,” segir Oddný. Allir frambjóðendurnir hafi ferðast saman um landið á fundi með svæðisfélögum og í svoleiðis keppni segir Oddný að myndist ákveðinn kraftur og hugmyndir í kringum hvern og einn frambjóðanda. „Hvernig sem fer er það mjög mikilvægt fyrir Samfylkinguna sú stemning skili sér inn í flokkinn eftir landsfundinn.“
Oddný segir það hafa verið rétta ákvörðun að blása til formannskjörs og landsfundar.
„Í samtölum mínum við fólk verð ég vör við hversu mjög staða Samfylkingarinnar og jafnaðarstefnunnar brennur á fólki. Staðan er óþolandi en ég er viss um að ákveðin þáttaskil verði við landsfundinn og baráttugleðin taki yfir þegar við höfum tekið ákvörðun um hvert við erum að fara með skýra stefnu í farteskinu,” segir Oddný. Hún vill að velferðarmálin verði í öndvegi í kosningabaráttunni sem framundan er, með skýrum tillögum sem bæta stöðu fólks og almenna velferð. „Auk sanngjarns skattkerfis sem vinnur gegn svikum og að því að felustaðir og blekkingarleikir fyrir fólk sem vill láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum, verði upprættir.“
Staðan er óþolandi en ég er viss um að ákveðin þáttaskil verði við landsfundinn og baráttugleðin taki yfir þegar við höfum tekið ákvörðun um hvert við erum að fara með skýra stefnu í farteskinu.