Hillary Clinton hefur átt í vök að verjast að undanförnu, í sinni kosningabaráttu innan Demókrataflokksins um útnefningu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember. Hún er sigurstranglegust en Bernie Sanders neitar að gefast upp, og rekur kröftuga baráttu um öll ríkin. Þó mun meiri líkur séu á því að Hillary vinni, þá er ekki útséð með það.
Hillary hefur verið gagnrýnd fyrir linkind gagnvart Donald J. Trump, sem verður að öllum líkindum frambjóðandi Repúblikanaflokksins, þrátt fyrir vægast sagt umdeildar yfirlýsingar og stefnumál. Sérstaklega er það kristaltær kynþáttahyggja og menningar- og trúaraðskilarstefna sem valdið miklum deilum, og leitt til pólaríserandi viðbragða hjá almenningi. Hann er ýmist hataður eða elskaður, en fylgið hefur farið hækkandi undanfarin misseri.
Vinasamband
Hillary hefur fengið að heyra það nokkuð oft, meðal annars í ritstjórnarskrifum dagblaða hér vestra, að hún geti ekki tekist á við Trump vegna þess að þau séu vinir frá gamalli tíð. Trump hefur verið tíður gestur í samkvæmum þar sem Clinton-hjónin hafa verið, einkum í New York. Hillary hefur þó sagt, að þó þau þekkist, og hafi um tíma verið í góðu sambandi, þá sé hún fjarri Trump í stjórnmálunum.
Fyrsta pólitíska árásin á Trump, eins og það var kallað í endursögn The Economist, kom í ræðu sem Hillary hélt 2. júní síðastliðinn í San Diego. Meginefnið var utanríkisstefna Bandaríkjanna og þjóðaröryggi, og út frá henni sagði hún að Trump væri „einfaldlega ekki hæfur“ til að gegna starfi Bandaríkjaforseta. Hún sagði meðal annars, að Trump hefði vissulega reynslu af utanríkisstefnu, enda hefði hann staðið fyrir fegurðarsamkeppnum í Rússlandi. Vitnaði hún þar til orða sem Trump lét falla í viðtali við Fox News, þar sem hann sagðist þekkja Rússland vel, eftir að hafa haldið þar Ungfrú Heim (Miss Universe) fegurðarsamkeppnina, og sagt það hafa verið „risavaxinn“ viðburð.
Fleiri ættu að búa yfir kjarnorkuvopnum
Hillary hélt áfram, og var ekki skemmt þegar hún þræddi sig í gegnum þau atriði sem Trump hefur talað fyrir. „Þetta er maður sem hefur talað fyrir því að fleiri ættu að búa yfir kjarnorkuvopnum, þar á meðal Sádí-Arabía,“ sagði Hillary. Trump hefur sagt, að ýmsar stórþjóðir heimsins gætu þurft að endurskoða stefnu sína, þegar kemur að kjarnorkuvopnum. Fleiri þyrftu að vígbúast, og vera „tilbúin fyrir átök“. Hillary talaði beint til þeirra sem voru í salnum, og sagði meðal annars: „Mynduð þið vilja hafa fingurinn hans einhvers staðar nærri takkanum?“. Salurinn svaraði á móti með því að kalla hátt og endurtekið nei. Enginn virtist vilja hafa Trump nærri takkanum sem ræsir kjarnorkusprengjuna.
Víglínan skerpist
Hillary eyddi einnig drjúgum hluta í ræðu sinni í að gagnrýna Trump fyrir að styðja við umdeilda þjóðarleiðtoga eins og Vladímir Pútín Rússlandsforseta. Þá sagði hún að stuðningur sem Trump hefði fengið frá stjórnvöldum í Norður-Kóreu væri ekki beint til þess fallinn að vekja traust eða tiltrú á hans málflutningi. Helstu dagblöð í Norður-Kóreu, sem stjórnvöld stýra, hafa hrósað Trump í hástert og sagt hann „vitran“ og „skynsaman“ leiðtoga.
Hillary sendi út skýr skilaboð í ræðu sinni. Hún sagði Trump algjörlega „óhæfan“ um að móta og stýra utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Þar með væri hann ekki hæfur til að verða forseti. Í raun væri þetta nóg til að gera hann óhæfan í starfi, en „miklu, miklu fleira“ mætti þó telja til, eins og Hillary komst sjálf að orði.