Ásmundur Friðriksson og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sátu hjá þegar ný útlendingalög voru samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Þeir voru einu þingmennirnir sem ekki greiddu atkvæði með nýju lögunum, sem annars voru samþykkt í þverpólitískri samstöðu.
Brynjar sagði við atkvæðagreiðslu í þinginu að það væri alveg augljóst að í frumvarpinu væri margt „mjög gott, sérstaklega sem snýr að réttindum útlendinga, stjórnsýslunni og öðrum mikilvægum atriðum.“ Hann sat hjá vegna þess að honum þótti málið hafa fengið litla sem enga umræðu í þinginu, sem væri ekki gott í máli sem væri gjörbylting og risamál. „Við ætlum að afgreiða þetta hér á síðasta degi, það er ekki mikill bragur á því.“ Ekki væri búið að gera neina úttekt á samfélagslegum áhrifum breytinganna, og Ísland væri að fara aðra leið að mörgu leyti en aðrar þjóðir.
„Meint flóttafólk“ fái betri kjör en Íslendingar
Ásmundur sagði einnig að margt gott væri í frumvarpinu en gerði engu að síður mjög margvíslegar athugasemdir við það. Hann sagði mikilvægt að geta leyst úr málum „meints flóttafólks og hælisleitenda“ hratt og örugglega. „Æskilegt væri að það færi aldrei út af þeim stöðum sem það kemur til með flutningstæki til landsins, skipi eða flugvél. Þá er einnig æskilegt að yfirvöld hefðu þann mannafla og réðu yfir þeim úrræðum að geta vísað fólki sem sýnir ekki fram á fullnægjandi heimildir til réttmæti þess að fá að dveljast hér í landi út þegar í stað.“
Þá segir Ásmundur að vel eigi að taka á móti þeim sem komi til Íslands í „réttmætum erindum“. Umsækjendum um hæli standi til boða húsnæði, lágmarksframfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana. „Þetta er auðvitað vel boðið og mun betri kjör en við Íslendingar búum sjálfir við. Hér er húsnæðisskortur, við erum að samþykkja hér lög í þinginu um almennar íbúðir, að byggja 2.300 íbúðir fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Eldri borgarar fá ekki inn á dvalarheimilum og þeir sem þar búa búa við þau kjör að fá dagpeninga, rúmar 60 þúsund krónur á mánuði og þurfa að borga læknisþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Varla eru það þau kjör sem við ætlum að bjóða þeim útlendingum sem hingað vilja koma.“
Þurfum að skoða reynslu annarra þjóða
Ásmundur er einnig á því að reynsla annarra þjóða segi okkur að kostnaður geti aukist langt umfram áætlanir „vegna mikillar fjölgunar útlendinga sem geta komið hingað undir ýmiss konar yfirskini og geta ekki eða vilja ekki framfleyta sér.“
Það hafi lengi tíðkast að útlendingar komi til Íslands að vinna, „hér búa margir Pólverjar og austantjaldsfólk, fyrirmyndarfólk sem hefur búið hér og komið til þessarar þjóðar þegar vantar vinnandi hendur og auðvitað er allt slíkt fólk velkomið til landsins, það segir sig sjálft. Við höfum alltaf verið tilbúin að taka á móti þeim. En við verðum kannski líka að líta til þess og horfa á það sem aðrar þjóðir hafa gert og hvernig reynsla þeirra er af því að opna landamærin óheft.“
Hann tók sem dæmi Svía, sem hann segir að hafi sagst hafa verið barnalegir í málefnum útlendinga. „Danir hafa myndað þjóðarsamstöðu um að móttöku fólks sem er að leita að ókeypis framfærslu verði hætt og þeir efla eftirlit og þrengja reglur þar um. Þurfum við ekki að læra af þessari reynslu?“
Hann sagði breytingarnar á lögunum miða að því að auðvelda fólki aðgang að landinu. „Það er slakað á kröfum til fólks sem hingað kemur og þeim sem geta ekki framvísað pappírum um að þau sýni fram á réttmæti staðhæfinga sinna. Það er slakað á kröfum varðandi möguleika yfirvalda til að ganga úr skugga um hvort ákveðnar staðhæfingar eigi við rök að styðjast, eins og til dæmis varðandi aldur.“ Þá sé hvergi getið um öryggi landsins.
Hér má horfa á ræðu Ásmundar í heild sinni.
Skrifa undir gegn lögunum
Tæplega átta hundruð manns hafa skrifað nafn sitt á undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að skrifa ekki undir nýju lögin. Þau muni „valda róttækum breytingum á íslensku samfélagi og munu þær breytingar leiða til óafturkræfs skaða og tjóns.“ Það sé gjá milli þings og þjóðar í málinu og brýnt að þjóðin fái að kjósa um málið. Undirskriftasöfnunin var sett í gang um helgina.
Í skilaboðum á undirskriftasíðunni má sjá ýmis rasísk ummæli, eins og „Ísland fyrir Íslendinga,“ „Hreint land fagurt land,“ „Dont like muslims“ „Þarf ekki að vernda íslenska kynstofninn?“ og „Evrópa logar nú þegar í átökum úti á götum. Konum er nauðgað. Ég vil ekki sjá þessa skelfilgu ómenningu á okkar friðsæla land.“
Stjórnmálaaflið Íslenska þjóðfylkingin, sem hyggst bjóða fram til þings, hefur hvatt til þess á Facebook að fólk skrifi undir. Þá hefur flokkurinn sent frá sér ályktun þar sem nýju lögunum er mótmælt harðlega. „Það er alveg stórfurðulegt að Alþingi skuli lýsa landið nánast opið fyrir öllum erlendum aðilum sama hvaða erindi þeir eigi hingað. Í lögunum er gert ráð fyrir að það sé ekki frávísunarsök frá landamærum okkar þótt menn komi hingað á fölsuðum skilríkjum og jafnvel ljúgi til um hver þeir séu. Þetta frumvarp gengur þvert á laga þróun á norðurlöndum en þar eru ríki að herða lög um útlendinga af gefinni slæmri reynslu.“