Dramatíkin á fast sæti í enska landsliðinu
Englendingar hafa ekki unnið titil á stórmóti í 50 ár eða þegar Bobby Moore lyfti bikarnum á HM 1966. Ísland leikur gegn Englandi á EM 2016 á mánudag.
Ísland mætir Englandi í Nice í 16 liða úrslitum á EM í Frakklandi á mánudaginn. Spennan er áþreifanleg. Ísland hefur aldrei fyrr komist í úrslitakeppni stórmóts og skráir nýjan og ótrúlegan kafla í sögubækur fótboltans með framgöngu sinni. England á að baki ríka hefð og sögu, en mikil dramatík hefur jafnan fylgt liðinu í útsláttarkeppnum á stórmótum síðustu áratugina. Kjarninn kafaði ofan í örlög Englands á stórmótum, þar sem tárin eru aldrei langt undan, og tók saman fimm eftirminnilega leiki þar sem England féll úr keppni.
HM 1986
„Hönd guðs“ réði úrslitum
Hinn 22. júní 1986 mættust England og Argentína í 16 liða úrslitum á HM í Mexíkó. Rafmagnað andrúmsloft spennu einkenndi leikinn, og öll spjót beindust að snillingnum Diego Maradona. Hvernig ætlaði England að stöðva hann? Í liði Englendinga var Gary Lineker í framlínunni, og var hann ávallt líklegur til að skora. Dramatíkin í leiknum var mikil. Maradona byrjaði á því að skora mark með hendi, og gerði leikmenn enska liðsins gjörsamlega vitstola af reiði. Eftir leik sagði hann að „hönd Guðs“ hefði skorað markið. Seinna markið var síðan til að kóróna ótrúlegan leik Maradona, en frá fyrstu mínútu var hann allt í öllu í leik argentíska liðsins. Maradona einlék í gegnum vörn Englands frá miðju og skoraði eitt glæsilegasta mark sögunnar.
Í 22 manna hóp Argentínu voru aðeins sjö leikmenn sem spiluðu Evrópu, en liðsheildin var ógnarsterk með Maradona sem gimsteininn í sóknarleiknum. Undir lok leiksins minnkaði svo Gary Lineker muninn eftir að John Barnes lék upp vinstri vænginn og sendi fyrir markið, beint á kollinn á Lineker. En lengra komst England ekki. Eftir leikinn fóru breskir fjölmiðlar hamförum, og gagnrýndu dómarann fyrir að leyfa marki Maradona að standa.
HM 1990
Enska þjóðin grét með Gazza
Fjórum árum eftir dramatíkina í Mexíkó var England nú með ferskt lið á Ítalíu, sem var samt ekki talið líklegt til mikilla afreka. En það voru hæfileikaríkir leikmenn í liðinu, þar á meðal hinn magnaði Paul Gascoigne, Gazza, sem var prímusmótorinn á miðjunni. Enska liðið komst alla leið í undanúrslit, og mætti þar Þjóðverjum, með Lothar Matthaus á hápunkti ferilsins. Jafnræði var með liðunum í leiknum, en Gazza – sem var og er mikil tilfinningavera – missti sig eitt augnablik og tæklaði leikmann Þjóðverja illa og fékk gult spjald. Eitthvað sem hann hafði forðast að gera allan leikinn. Þetta þýddi að Gazza gæti ekki leikið úrslitaleikinn. Þetta kallaði fram miklar tilfinningar, og brast Gazza í grát. Hann hélt þó áfram að spila, og reyndi að jafna sig. Gary Lineker kallaði á Bobby Robson, þjálfara, og sagði honum að Gazza væri ekki í jafnvægi.
Leikurinn hélt áfram, og endaði í vítaspyrnukeppni, þar sem Þjóðverjar höfðu betur. Enska þjóðin grét með Gazza, og fjölmiðlarnir bresku veltu sér upp úr atvikinu mánuðum saman. Að lokum fór það svo að Þjóðverjar unnu HM, eftir að hafa lagt Argentínu að velli, 1-0, með marki Andreas Brehme úr vítaspyrnu. Aldrei hefði átt að dæma vítaspyrnuna þar sem Rudi Völler lét sig falla innan teigs og fiskaði vítaspyrnuna þannig.
EM 1996
Andlegi styrkurinn ekki til staðar
Evrópukeppnin var haldin í Englandi 1996, og þar fór framherjinn Alan Sherear fyrir liði heimamanna sem fyrirliði. Liðið var vel skipað með Gazza í góðu formi. Með hann upp á sitt besta var liðið til alls líklegt. En fótbolti er íþrótt þar sem tvö lið keppa og Þjóðverjar vinna að lokum. Eða þannig lýsti Gary Lineker örlögum andstæðinga þeirra, í eitt skiptið. Eftir snilldartilþrif Gazza í keppninni, þar sem hann skoraði meðal annars stórglæsilegt mark gegn Skotum, þar sem miðvörðurinn frábæri Colin Hendry var grátt leikinn, þá mættust Englendingar og Þjóðverjar aftur, líkt og árið 1990. Aftur var það í undanúrslitum, og aftur var það vítaspyrnukeppni að lokum.
Fjölmiðlar í Bretlandi eru frægir fyrir að vera miskunnarlausir, þegar kemur að árangri landsliðsins, og þá sérstaklega einstaklingsmistökum. Krafan var einföld fyrir mótið; nú ætti England að fara alla leið. Í þetta skiptið var það Gareth Southgate sem reyndist örlagavaldur, en hann var sá eini sem misnotaði vítaspyrnu sína. David Seaman átti ekki roð í öruggar spyrnur Þjóðverja. Hann var niðurlægður í breskum fjölmiðlum eftir á, og fékk hverja fyrirsögnina á fætur annarri um sig dagana á eftir. Tapið var gríðarlega svekkjandi, en sýndi að enska liðið virtist einfaldlega ekki búa yfir nægilegum andlegum styrk til að fara alla leið. Góðir leikmenn væri einfaldlega ekki nóg.
HM 1998
David Beckham verður skúrkurinn
Spennandi kynslóð leikmanna var nú farin að setja mark sitt á enska landsliðið, með hinn frábæra Paul Scholes á miðjunni, og gulldrenginn David Beckham á hægri vængnum. Átján ára framherji frá Liverpool, Michael Owen, stal senunni þegar komið var fram í átta liða úrslitin, þegar England og Argentína mættust. Owen átti þá magnaðan sprett, frá miðju vallarins, og kom Englandi yfir, 2-1, í bráðfjörugum fyrri hálfleik.
En dramatíkin, sem alltaf eltir enska liðið þegar í útsláttarkeppni á stórmóti er komið, birtist svo nokkuð óvænt í seinni hálfleik. Þá var David Becham rekinn af velli, fyrir að sparka í Diego Simone, núverandi þjálfara Atletico Madrid. Nánast um leið og atvikið átti sér stað, mátti skynja reiði enskra fjölmiðla út í Beckham.
Seinni hálfleikurinn var mikið til nauðvörn hjá Englandi, þar sem miðverðirnir sterku, Tony Adams og Sol Campbell, skölluðu boltann frá. Þegar kom að vítakeppni, þá tóku sig upp kunnugleg atriði. Leikmenn fóru á taugum, og England féll úr keppni. Fjölmiðlarnir fundu sökudólginn strax í Beckham, og var hann niðurlægður vikum saman í bresku blöðunum, fyrir að láta reka sig útaf.
HM 2010
Væntingarnar stoppa gegn Þýskalandi
Sextán liða úrslitin og Þjóðverjar eru andstæðingurinn, einu sinni sem oftar þegar England er annars vegar. Þar stoppa yfirleitt væntingarnar, og það var engin undantekning á HM í Suður-Afríku 2010. Þá mættust þessar þjóðir í átta liða úrslitum. Steven Gerrard var með fyrirliðabandið og með honum á miðjunni voru Gareth Barry og Frank Lampard. Þetta var hryggjarstykkið í liðinu, sem þótti til alls líklegt fyrir mótið, en í framlínunni var Wayne Rooney.
Öllu var tjaldað til. Fabio Capbello, Ítalinn reynslumikli, var þjálfari liðsins. Eftir fremur hæga byrjun, komst England inn í útsláttarkeppnina. Liðið skíttapaði fyrir Þjóðverjum, 4-1. En þrátt fyrir það, náðu breskir fjölmiðlar að gera sér lengi vel mat úr því að Lampard hefði skorað mark, sem hefði átt að standa. Þegar hann skaut boltanum í slána og inn í markið, en dómarinn lét leikinn halda áfram, þrátt fyrir að boltinn hefði augljóslega farið yfir línuna. Þetta töldu margir greinendur í Englandi, að hefði verið vendipunktur í leiknum. En staðreyndin var sú, að enska liðið stóðst því þýska ekki snúning í leiknum, og átti aldrei möguleika, þrátt fyrir að Matthew Upson hafi minnkað muninn í 1-2 í fyrri hálfleik. Taugarnar voru þandar og pressan um árangur var mikil. Enn einu sinni náði enska liðið ekki að standast þessa stöðu. Í hillunni, hjá þessari heimaþjóð fótboltans, er einn stór titill, frá því á HM 1966 í Bretlandi. Biðin er nú 50 ár.
EM 2016
Meiri pressa á Englendingum gegn Íslandi
Enska liðið núna er um margt ólíkt þeim sem hafa verið á stórmótum undanfarna áratugi. Í liðinu er Wayne Rooney þekktastur leikmanna, en efnilegir ungir leikmenn eru farnir að láta að sér kveða, og virðast óhræddir við hvaða andstæðing sem er. En þegar kemur að leiknum gegn Íslandi, þá er enska liðið sannarlega það lið sem er með meiri pressu á sér og kröfu um sigur. Sagan sýnir að sú staða er oft ekki góð fyrir England þar sem pressan reynist leikmönnum oft erfið. Þeir kikna undan henni og gera mistök, sem leiðir til þess að liðið fellur úr keppni. Samt hefur England oft komist langt í lokakeppni, og því má ekki gleyma. Ísland getur ekki vanmetið neinn andstæðing – eins og gefur auga leið – en það á möguleika gegn enska landsliðinu, sem er nú komið með fram fimmtu kynslóðina af leikmönnum sem aldrei hefur kynnst því að vinna stóran titil með landsliði.