Ljóst er að áætlun stjórnvalda um losun hafta er í vanda. Miklum vanda. Í aflandskrónuútboði sem haldið var 16. júní síðastliðinn voru samþykkt tilboð upp á 72 milljarða króna. Aflandskrónuhengjan sem verið er að reyna að bræða er upp á 319 milljarða króna. Stærstu eigendur aflandskrónanna, nokkrir bandarískir vogunarsjóðir, neituðu að taka þátt. Og ætla heldur ekki að sætta sig við aðrar leiðir sem stjórnvöld buðu þeim einhliða.
Í gær greindi RÚV frá því að sjóðirnir hafi farið þess á leit við héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir verði tveir erlendir matsmenn til að leggja mat á ýmsar efnahagslegar forsendur sem tengjast álitaefnum um lögmæti þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa tilkynnt að þau ætli að ráðast í, og byggja á lögum sem samþykkt voru á Alþingi aðfaranótt 23. maí síðastliðinn. Tilgangur matsins er að kanna grundvöll fyrir mögulegri málshöfðun á hendur íslenska ríkinu. Sjóðirnir hafa einnig kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna laganna.
Ástæðan er einföld. Áætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir því að þeir aflandskrónueigendur sem samþykkja ekki sjálfviljugir að gefa eftir hluta eigna sinna í umræddum útboðum, þar sem Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa krónurnar á mun verra gengi en skráð gengi hans sjálfs er, muni sjá eftir eignum sínum inn á sérstaka reikninga í Seðlabankanum sem bera nær enga vexti.
Sjóðirnir telja að báða valmöguleikana íþyngjandi og fela í sér eignaupptöku, sem sé í andstöðu við íslenska stjórnarskrá.
Pólitískt mikilvægt fyrir stjórnarflokkanna
Málið er ekki bara efnahagslega mikilvægt fyrir Ísland. Það er ekki síður pólitískt mikilvægt fyrir sitjandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, enda hefur hún tengt ætlaðan árangur sinn mjög við aðgerðir við losun hafta. Auk þess var það ein af helstu ástæðum sem gefnar voru fyrir því að ekki væri hægt að kjósa í apríl í kjölfar Wintris-hneykslisins, sem varð til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr starfi forsætisráðherra, að klára þyrfti framkvæmd áætlunar um losun hafta. Þau áform eru nú í uppnámi.
Seðlabankinn brást við lélegri þátttöku í útboðinu 16. júní með því að boða framhaldsútboð þar boðist er að kaupa þær aflandskrónueignir sem ekki seldust þar á 190 krónur á hverja evru. Skráð gengi evru í dag er 137,9 krónur og því gengur tilboð Seðlabankans út á að aflandskrónueigendurnir gefi eftir 27,4 prósent eigna sinna. Frestur til að skila inn tilboðum rann út í gærmorgun klukkan 10 og niðurstöður viðskiptanna verða birtar á morgun, miðvikudag.
Einhverjar samningsviðræður hafa átt sér stað milli stjórnvalda og stjórnenda sjóðanna, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þær hafa raunar verið í gangi frá því fyrir útboðið 16. júní og funduðu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands m.a. með aðilum frá þeim bandarísku eignastýringarfyrirtækjum sem stýra vogunarsjóðum sem halda utan um stærstan hluta af aflandskrónueignunum 23. maí síðastliðinn í New York. Þær samningaviðræður virðast hins vegar ekki hafa borið neinn árangur.Óhlýðnir áttu að lenda aftast í röðinni
Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, einnig nefnt aflandskrónufrumvarpið, var samþykkt á Alþingi sunnudaginn 22. maí. Það var lagt fram eftir lokun markaða á föstudag og höfuðáhersla lögð á að frumvarpið yrði að lögum fyrir opnum markaða á mánudag. Þess vegna fékk það mjög hraða meðferð í þinginu og forseti Íslands skrifaði undir þau aðfaranótt mánudagsins 23. maí.
Í einföldu máli snúast lögin um að eigendur „aflandskróna“ myndu fá tvo kosti. Annar fólst í því að eigendurnir samþykki að selja krónurnar sínar á genginu 190-220 krónur á hverja evru í útboði sem fór fram 16. júní síðastliðinn. Þeir sem myndu ekki samþykkja að taka þátt í þessu útboði myndi bjóðast að fjárfesta í sérstökum innstæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands sem bera 0,5 prósent vexti en vextir á þeim eru endurskoðaðir árlega.
Ósamvinnuþýðir aflandskrónueigendur, sem myndu neita að taka þátt í aflandskrónuútboðinu, áttu reyndar fá annað tækifæri til að koma sér út úr íslensku hagkerfi á enn verri kjörum frá 1. september til 1. nóvember 2016. Þar verður viðmiðunargengið 220 krónur. Stjórnvöld sögðu að fari þeir ekki út með peninganna sína þá sé alls óljóst hvenær þeir hafi aftur aðgang að eignum sínum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við Morgunblaðið í lok maí að þeir myndu lenda aftast í röðinni við losun hafta.
Það vakti umtalsverða athygli að þegar niðurstöður útboðsins sem fram fór 16. júní voru kynntar þá kom í ljós að stærstu eigendur aflandskróna höfðu ekki tekið þátt í þeim. Í framhaldinu ákvað Seðlabankinn að leggja í framhaldsútboð þar sem boðist var til að kaupa allta aflandskrónueignir sem seldust ekki á 190 krónur á hverja evru.Ætla að berjast
Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að stærstu aflandskrónueigendurnir myndu ekki taka þessum afarkostum þegjandi og hljóðarlaust.
Nálægt 85 prósent svokallaðra aflandsskróna eru í eigu bandarískra eignastýringafyrirtækja, sem stýra meðal annars vogunarsjóðum. Pétur Örn Sverrisson hæstaréttarlögmaður og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur unnu umsögn um frumvarp stjórnvalda um losun fjármagnshafta fyrir hönd tveggja sjóða, Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP.
Í einföldu máli telja sjóðirnir að aðgerðir stjórnvalda gangi gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti sjóðanna með „bótaskyldum“ hætti.
Sérstaklega var áhersla lögð á það að engar neyðaraðstæður séu uppi í hagkerfinu þessi misserin sem réttlæti eignaupptöku af sjóðunum. Staða efnahagsmála sé góð og óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans hafi fyrir útboð numið um 400 milljörðum króna, eða sem nemur um 20 prósent af landsframleiðslu. Kvik krónueign sé minni en sem þessu nemur og því ógni hröð útganga ekki hagkerfinu.
Aflandskrónueigendurnir telja að eignaskerðingin sem frumvarpið feli í sér geti á engan hátt talist í samræmi við jafnræðis- og eignarréttarákvæði stjórnarskráarinnar. Í 72. grein stjórnarskráar Íslands segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir“. Þá sé augljóslega sé verið að mismuna þeim á grundvelli þjóðernis og búsetu, sem sé líka í andstöðu við skuldbindingar Íslands á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Þrátt fyrir það telja ráðamenn þjóðarinnar, og Seðlabanki Íslands, að þessi ráðagerð standist eignarréttarákvæði stjórnarskráar Íslands. Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor tekur undir það, samkvæmt umsögn hans sem hann skilaði inn vegna frumvarpsins sem varð að lokum seint í maí.