Íslenskir einstaklingar höfðu samtals 34,8 milljarða króna í tekjur vegna arðgreiðslna í fyrra. Ekki liggur fyrir á hversu marga eintaklinga þessi tala skiptist en hún hækkaði um rúma fimm milljarða, eða 18 prósent, á milli ára. Tekjur einstaklinga af arði hafa aukist mjög hratt á undanförnum árum. Alls námu þær 16,7 milljörðum króna árið 2012 og hafa rúmlega tvöfaldast síðan þá. Nú er svo komið að tekjur einstaklinga vegna arðgreiðslna voru stærsti einstaki liður fjármagnstekna ríkisins vegna ársins 2015. Þetta kemur fram í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna álagningu opinberra gjalda á einstaklinga árið 2016.
Hagnaður af sölu hlutabréfa var 20,8 milljarðar króna í fyrra og lækkar á milli ára. Skýringin á þeirri lækkun er sú að við álagningu 2015 voru nokkrir einstaklingar með „óvenjulega háan söluhagnað“.
Þar segir enn fremur að alls hafi 39 þúsund Íslendingar sem höfðu tekjur af eignum sínum eða fjármagni greitt samtals 17,9 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt á árinu 2015, eða tæplega tólf prósent þjóðarinnar.
Barnabætur og vaxtabætur lækka
Alls greiddu Íslendingar samtals 306,5 milljarða króna í almennan tekjuskatt og útsvar á árinu 2015. Það er 10,8 prósentum meira en þeir gerðu árið árið áður. Álagning tekjuskatts, sem rennur til ríkisins, jókst mun meira en álagning útsvars þar sem persónuafsláttur hækkaði mjög lítið. Þeir sem borguðu almennan tekjuskatt, fólk sem hefur fyrst og síðast tekjur vegna launa sinna, voru tæplega 182 þúsund talsins í fyrra.
Á sama tíma lækka almennar vaxtabætur sem skuldsettir íbúðaeigendur fá greiddar vegna vaxtagjalda íbúðalána sinna, um 25,7 prósent á milli ára og þeim fjölskyldum sem fá þær bætur greiddur fækkar um 21,3 prósent. Ástæða þessa er sögð betri eignarstaða heimila landsins. Þá lækka heildargreiðslur barnabóta úr tíu milljörðum króna í 9,3 milljarða króna. Ástæða þessa eru sagðar að laun hafi hækkað meira en tekjuviðmiðunarfjárhæðir og því skerðast greiðslur barnabóta til fleiri einstaklingar.
Ríkasta prósentið þénaði helming allra fjármagnstekna
Kjarninn greindi frá því í nóvember 2015 að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna, alls 1890 manns, hefði þénað 42,4 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2014. Alls námu fjármagnstekjur sem einstaklingar og samskattaðir greiddu á því ári 90,5 milljörðum króna og því fékk þessi litli hópur samtals 47 prósent þeirra tekna í sinn hlut. Um tvær af hverjum þremur krónum sem ríkasta prósent landsmanna þénaði árið 2014 var vegna fjármagnstekna. Þetta kom fram í staðtölum skatta vegna ársins 2014 sem hægt er að nálgast á vef embættis ríkisskattstjóra.
Ef sama hlutfall á við í árið 2015 má ætla að þessi litli hópur hafi aftr haft um 42 milljarða króna í fjármagnstekjur í fyrra.
Fjármagnstekjur eru tekjur sem einstaklingar hafa af fjármagnseignum sínum. Þ.e. ekki launum. Þær tekjur geta verið ýmis konar. Til dæmis tekjur af vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Ef tekjurnar eru útleystar, þannig að þær standi eiganda þeirra frjálsar til ráðstöfunar, ber að greiða af þeim 20 prósent fjármagnstekjuskatt sem rennur óskiptur til ríkisins. Ljóst er að einungis lítill hluti af fjármagnstekjum var útleystur í fyrra. Alls greiddu íslensk heimili, einstaklingar og samskattaðir, 3,8 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt á árinu 2014. Því til viðbótar greiddu fyrirtæki, sjóðir og ríkissjóður vel á þriðja tug milljarða króna í fjármagnstekjuskatt. Alls skilaði hann 30,6 milljörðum króna á árinu 2014.