Mjólkursamsalan (MS) hefur verið sektuð um 480 milljónir króna af Samkeppniseftirlitinu fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum. Fyrirtækið er sagt hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS og aðilar tengdir fyrirtækinu fengu hráefnið undir kostnaðarverði. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS upphaflega fyrir umrædd brot í september 2014. Þá var sektin 370 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember 2014 að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað beðið um skýringar og gögn frá fyrirtækinu.
Áfrýjunarnefndin taldi að henni væri því skylt að vísa málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins. Áfrýjunarnefndin tók enga efnislega afstöðu til málsins heldur taldi að ekki hefðu komið fram fullnægandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni. Þess vegna ætti Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið aftur, með hliðsjón af umræddum samningi, og komast að nýrri niðurstöðu um hvort MS hefði brotið samkeppnislög. Nú liggur niðurstaða Samkeppniseftirlitsins fyrir.
Hafa þegar lækkað verð
MS ákvað í september í fyrra að lækka verð á hrámjólk til annarra framleiðenda á mjólkurvörum. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér þá kom fram að það ætlaði sér að bjóða þeim sem vilja framleiða úr mjólk að fá allt að 300 þúsund lítra á ári á sama verði og MS greiðir bændum, en það var þá tæplega 85 krónur á lítrann. Lækkunin nam rúmlega 11 prósentum frá almennu verði á ógerilsneyddri hrámjólk.
Ljóst er að sektin mun hafa veruleg áhrif á rekstur MS, en fyrirtækið tapaði 330 milljónum króna í fyrra. Það tap var tilkomið vegna þess að framleiðsla umfram markaðsþarfir innanlands var sjö til átta milljón lítrar. Þ.e. framleiðendurnir, bændur, framleiddu meiri mjólk en nauðsynlegt var og MS þurfti að kaupa hana af þeim.