Donald Trump tók formlega við útnefninu Repúblikanaflokksins sem forsetaframbjóðandi á flokksþingi flokksins sem fram fór í síðustu viku. Þingið var haldið í Cleveland, Ohio og spannaði það fjóra heila daga. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum kepptist við að lofa Trump og lasta Hillary Clinton. Það kom engum á óvart en hinn ofsakenndi tónn sem einkenndi þingið kom óþægilega á óvart. Vandræðalegar uppákomur voru ófáar og það var ljóst frá fyrsta degi að kosningamaskína Trumps og fjölskylda hans eru nýgræðingar í heimi stjórnmálanna.
Síðustu mánuði hefur mikið verið rætt um hvernig flokksþing Repúblikana myndi þróast. Lengi hótuðu áhrifamenn að kosið yrði um frambjóðanda á staðnum, með því að gera ráðstefnuna opna, þe. að hundsa yfirburðakjör Donalds Trump í forvölum ríkjanna. Þar myndu kjörmennirnir – fulltrúar kjósenda frá hverju ríki á flokksþinginu – geta kosið á ný. Ekki kom þó til þessa, þó uppi hafi orðið fótur og fit fyrsta daginn þegar reynt var að breyta reglum flokksins.
Þetta var þó í fyrsta sinn sem fyrrverandi forsetar landsins, sem tilheyra flokknum mæta ekki á flokksþingið til að fagna nýju forsetaefni flokksins. Í þetta sinn sátu Bush-feðgar heima eins og margir fyrrverandi forsetaframbjóðendur Repúblikana.
Varaforsetaefni Trump var kynnt í síðustu viku. Það verður hinn fremur óþekkti Mike Pence, ríkisstjóri Indíana. Sá þykir mjög íhaldsamur og er stuðningsmaður Teboðshreyfingarinnar í Repúblikanaflokknum. Hann þykir skynsamlegur kostur fyrir Trump, í það minnsta þegar kemur að víðtækri stjórnmálareynslu hans sem bæði ríkisstjóri og fulltrúadeildarþingmaður. Hann er andvígur því að konur ráði yfir eigin líkama þegar kemur að fóstureyðingum og hann er á móti því að allir þeir sem fæðast í Bandaríkjunum fái ríkisborgararétt. Pence er einnig mjög íhaldsamur í efnahagsmálum og er talsmaður þess að allir borgi sömu skattprósentu á landsvísu. Hann kaus með Íraksstríðinu og hefur sett sig upp á móti því að loka fangelsinu í Guantanamo Bay. Þessu til viðbótar þá trúir hann ekki á hlýnun jarðar og þykir einstaklega harður í innflytjendamálum.
Frambjóðendur sem lutu í lægra haldi fyrir Trump í forsetaforvalinu sátu margir heima, líkt og fyrrum forsetar og leiðtogar flokksins. Nokkrir þeirra létu þó sjá sig. Helst ber að geta Chris Christie, ríkisstjóra New Jersey, sem hefur staðið þétt við bak Trump eftir að hann dró framoð sitt til baka. Hann hélt hálfgerð réttarhöld yfir Hillary Clinton við miklar undirtektir gesta í salnum. Í ræðunni rifjaði hann upp hin ýmsu verk Clinton eða verk sem hann kenndi henni um. Svo spurði hann salinn ítrekað hvort hún væri sek eða ekki. Salurinn svaraði undantekningalaust að hún væri sek (e. „guilty as charged!“) og hrópuðu ákaft „lock her up“. Þær sakir sem Clinton voru gerðar voru allt frá því að hafa undirbúið jarðveginn fyrir uppgang ISIS, valdið óstöðuleika og stjórnleysi í Lýbíu, yfir í að bera ábyrgð á óstöðugleika í Mið-Austurlöndum. Ræða Christie var kraftmikil, fremur óvenjuleg og dálítið ógnvekjandi, eins og um réttarhöld götunnar væri að ræða. Ljóst var að tónninn var sleginn fyrir næstu daga.
Hillary Clinton er samkvæmt könnunum ákaflega óvinsæl meðal kjósenda repúblikana. Það var margt sem benti til þess í upphafi vikunnar að flokkurinn myndi eiga erfitt með að sameinast strax í kringum Trump sem forsetaefni flokksins, en það var alveg ljóst að óánægjan, og óbeislað hatur sumra, í garð Clinton væri leiðin til að sameina flokkinn og var sú aðferð varð notuð óspart.
Ted Cruz er einn þeirra frambjóðenda sem laut í lægra haldi fyrir Trump en mætti á flokksþingið. Eins og venja er bauðst honum að tala á stóra sviðinu og samkvæmt sömu hefð átti hann að lýsa yfir stuðningi við Trump. En Cruz fjallaði fyrst og fremst um það í ræðu sinni hversu óhæf og ömurleg Hillary Clinton væri og hvað þyrfti að gera margt til að „Ameríka yrði frábær á ný“, í takt við slagorð Trumps. En hann lauk ræðu sinni án þess að lýsa yfir stuðning við Trump; hann sagði fólki einfaldlega að kjósa eftir samvisku sinni. Hann uppskar ákaft baul frá áheyrendum fyrir vikið. En Cruz benti á að í kosningabaráttunni hefði Trump ekki aðeins ráðist harkalega að konu sinni heldur hafi hann sagt faðir hans viðriðinn morðið á John F. Kennedy (sem engin nema slúðurblaðið National Enquirer hefur haldið framm) og útskýrði Cruz að hann myndi aldrei styðja mann sem kæmi svona fram við sína nánustu. Hann lét það svo leka sama dag að hann væri að íhuga að bjóða sig fram til forseta að fjórum árum liðnum.
Margir telja að Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, hafi snúið þróun glæpa við í New York-bor. Hann steig á svið á mánudag og flutti ræðu sem snérist að mestu um ótta Bandaríkjamanna um eigið öryggi. Að mati Giuliani hefur sá ótti aldrei verið meiri „samkvæmt könnunum“. Hann fjallaði svo nokkuð ítarlega um mikilvægi þess að standa með lögreglumönnum sem hefðu aldrei staðið í meiri ógn af því að vera myrtir í starfi sínu. Það kom dálítið á óvart hversu æstur Guiliani var og minnti hann helst á Howard Dean, fyrrum forsetaframbjóðanda í forvali Demókrata árið 2008. Sá gekk heldur langt í að öskra í ræðu einni sem varð til þess að kjósendur afskrifuðu hann sem rauhæfan frambjóðanda. Guiliani, sem hvorki var í framboði né að halda svona stóra ræðu í fyrsta sinn, hélt öskrunum áfram og fór svo líkt og aðrir ræðumenn ítarlega yfir það hversu vanæhæf Hillary Clinton hefði verið í starfi sínu sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvort sem varðaði Lýbíu, kjarnorkusamninginn við Íran, árasina á sendiráðið í Benghazi eða ISIS. „Ekki treysti ég henni til að leiða Ameríku. Mynduð þið treysta henni?“ spurði hann salinn sem svaraði um hæl „Neeeeiiii“. „Þeir ætla að koma og drepa okkur,“ sagði hann þegar hann fjallaði um meðlimi ISIS og „hún ætlar svo að hleypa sýrlenskum flóttamönnum inn í landið“. Guiliani virtist ekki geta gert greinarmun á öfgamönnum og þeim sem flýja þá, líkt og aðrir sem töluðu á þinginu.
Þetta var ekki í eina skiptið sem sannleikanum var hagrætt og jafnvel logið að fólki í ræðum þingsins þessa vikuna. Það tók á að sitja undir hverri ræðunni á fætur annarri þar sem staðreyndir voru hundsaðar og hlutir hreinlega búnir til. Guiliani lauk ekki ræðunni fyrr en hann hafði svo lofaði Trump í bak og fyrir og lýst því yfir að Trump yrði sá sem myndi koma til með að endurheimta Ameríku eins og hún var áður. Það tók fréttaskýrendur ekki langan tíma að benda á að öryggi Bandaríkjamanna hefur aldrei verið meira og glæpir fátíðari. Það er hins vegar rétt að í einstaka borgum hefur ástand mála versnað, en á heildina litið, hefur öryggi Bandaríkjamanna aldrei verið meira.
Áfram héldu linnulausar ræður. Sú ræða sem átti eftir að vekja mesta athygli á þinginu var ræða eiginkonu Trumps, ef ræða frambjóðandans sjálfs er undanskilin. Melania Trump fæddist í Slóveníu og nefnd Melanija Knavs. Hún fluttist ung til Bandaríkjanna til að starfa sem fyrirsæta en starfar nú sem skartgripahönnuður og hefur vakið athygli í kosningabaráttunni fyrir að vera frekar hlédræg og öllu nærgætnari en bóndi hennar. Fram að flokksþinginu hafði Melania ekki gefið mikinn kost á sér í viðtöl eða staðið í miklum ræðuhöldum. Það voru því margir forvitnir að heyra ræðuna hennar. Hún sagði við fréttamann daginn sem ræðan var haldin að hún hefði skrifað ræðuna að mestu leyti sjálf en það kom svo á daginn að ræða hennar innihélt hluta af ræðu núverandi forsetafrúar Bandaríkjanna, Michelle Obama, sem flutt var á flokksþingi demókrata árið 2008.
Fljótlega voru allir fjölmiðlar heims með sömu fyrirsögn: Melania Trump stal hluta úr ræðu Michelle Obama. Vandræðagangurinn í kjölfarið var eins og við mátti búast mjög mikill. Í fyrstu þagði kosningabaráttan þunnu hljóði en svo kom undarleg fréttatilkynning sem enginn botnaði í. Í henni stóð einfaldlega að Melania hefði unnið með teymi af ræðuskrifurum sem tóku niður glósur um líf hennar og stundum hluta af hennar eigin hugleiðingum.
Það var svo daginn eftir sem starfsmaður Trump-samsteypunnar tók á sig ábyrgðina fyrir ritstuldinum. En við það kom upp nýtt vandamál: Samkvæmt ströngum lögum um kosningar í Bandaríkjunum mega starfsmenn fyrirtækja, tengdum eða ótengdum frambjóðendanum, ekki vinna fyrir frambjóðendur og fá greitt fyrir störf sín hjá fyrirtækinu. Hér var um klárt brot á kosningalögum að ræða samkvæmt sérfræðingum og til viðbótar hafði starfsmaðurinn sent fréttatilkynninguna frá sér á bréfsefni Trump-samsteypunnar en ekki Trump-kosningabaráttunnar, sem undirstikaði brotið.
Nú var hátíð hjá spunameisturunum og linnulaust var spáð og spekúlerað, þar til næsta sprengja sprakk stuttu síðar. Kjörinn fulltrúi repúblikana og stjórnamaður flokksins í New Jersey lét hafa eftir sér á fundi að honum þætti að hengja ætti Hillary Clinton upp í tré. Hann baðst fljótlega afsökunar á ummælum sínum seinna í vikunni.
Það voru fleiri óhugnanleg ummæli sem voru látin falla þessa vikuna. Fulltrúadeildarþingmaður repúblikana spurði hvað fólk af öðrum kynþætti en hvítum hefði lagt til siðvæðingar.
Ummælin fóru eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og urðu ekki til þess að bæta ímynd flokksþingsins sem nær eingöngu hvítt fólk sótti. Við þetta bættust fréttir af því að þeir flokksmenn á þinginu sem ekki sáu sér fært að styðja Trump mættu miklum og ofsafengnum mótbárum frá stuðningsmönnum Trumps. Grátandi fulltrúi á þinginu sagði frá því í viðtali að hún hafi verið sökuð um það á kvennaklósettinu að ætla að styðja Clinton þar sem hún var ekki tilbúin að styðja við Trump. Fleiri svona sögur áttu eftir að skjóta upp kollinum eftir því sem leið á vikuna.
Ekki voru allar ræðurnar jafn óvenjulegar þó oft hafi mátt greina tón frá fyrri flokksleiðtogum eins og oft er. Börn Donalds Trump, þau Ivanka og Donald yngri, þóttu flytja áhrifamiklar ræður. Donald Trump yngri flutti nokkuð klassíska ræðu sem minnti frekar á fyrri flokksþing repúblikana. Hann talaði um ameríska drauminn og hvernig vinnueðli föður hans hefði orðið grunnurinn að viðskiptaveldi hans. Hann tók einnig á málum sem virðast nærtækari hinum almenna kjósenda en flestir aðrir ræðumenn gerðu, svo sem um að skólar nútímans væru ekki eins og þeir voru áður og að demókratar vildu endalausa miðstýringu en repúblikanar vildu samkeppni. Hann talaði um reglufargið sem væri íþyngjandi fyrir smáfyrirtæki og stæði í veg fyrir vexti í viðskiptum. Hann tók fyrir mál eins og að gera Bandaríkin sjálfbær í framleiðslu á orku svo þau gætu losnað undan því að vera háð Sádí-Arabíu og öðrum stórum olíuríkjum.
Ivanka Trump hefur fylgt föður sínum hvert fótmál í kosningabaráttunni og var á tímabili jafnvel orðuð sem varaforsetaefni hans. Hún kynnti föður sinn á lokakvöldi flokksþingsins á fimmtudag en áður en Trump steig á svið hélt hún ræðu sem vakti vægast sagt mikla athygli. Hún byrjaði ræðuna á því að segjast hvorki telja sig vera demókrata né repúblikana, en í ár væri hún þó sannfærð um hvern hún ætlaði að kjósa. Hún talaði svo um mikilvægi þess að Bandaríkin kæmu til móts við útivinnandi mæður, hún sjálf móðir þriggja barna og vissi hversu mikil áskorun það væri að vera á atvinnumarkaði og ala upp börn. Öllum að óvörum sagði hún að faðir hennar myndi, ef hann yrði kjörinn forseti, sjá til þess að það yrði í boði barnagæsla á boðlegu verði fyrir almenning, að konur myndu fá borgað fæðingaorlof og að launamunur kynjanna yrði jafnaður.
Að vísu sagði hún að núverandi launamunur kynjanna væri sá að konur fengju borgað 83 sent fyrir hvern dollara sem karlmaður fengi. Það er þó ekki alveg rétt því hvítar konur fá um 75 sent fyrir hvern dollara sem karlmenn fá greitt og lækkar sú tala mikið þegar skoðuð eru laun kvenna af öðrum kynþætti. Hún sagði föður sinn ætla að eyða launamuni kynjanna, og að hann væri lit- og kynjablindur, sæi bara hæfileika fólks óháð öðrum þáttum. Undir lok ræðunnar, sem þótti ein sú allra besta á þinginu, kom út ný launakönnun sem sýndi svart á hvítu að laun kvenna væru um fjórðugi lægri en karla meðal starfsmanna Trump-kosningabaráttunnar. Enginn virtist kannast við þessa jafnréttisstefnu sem Ivanka hafði talað um og gerðu fjölmiðlamenn grín að því að hún hefði mögulega verið að flytja stuðningsræðu fyrir Hillary Clinton.
En þá var komið að sjálfum Donald Trump. Kvöld eftir kvöld höfðu fréttamenn gert grín af því að flokksþingshöllin í Cleveland væri hálftóm en í þetta sinn var ekki eitt einasta sæti autt.
Eftir að hafa hyllt Trump í langa stund á meðan hann gekk um sviðið, veifaði og snéri þumalfingrunum upp í loftið skælbrosandi tók hann loks til máls. Eins og venja er byrjaði hann ræðu sína á því að lýsa því yfir að hann myndi þyggja útnefningu flokksins sem forsetaefni. „14 milljón atkvæði!“ sagði hann. „Við munum leiða þessa þjóð til friðar og velmegunar – við erum þjóð örlætis og hlýju, en umfram allt munum við koma á lögum og reglu.“
Ræða hans er sú lengsta sem forsetaframbjóðandi hefur haldið síðan sjónvarpsútsendingar frá slíkum viðburðum hófust; hún stóð í rúman klukkutíma. Stefið í ræðunni var lög og regla. Hann ræddi um árásirnar sem lögreglumenn hafa þurft að þola síðustu vikurnar sem og árásina á klúbb samkynhneigðra í Flórída fyrir skemmstu. Hann lofaði að þegar hann yrði forseti myndi ofbeldið hætta. Hann nefndi ekki einu orði þann fjölda svartra sem hafa mátt þola gegndarlaust ofbeldi af hálfu lögreglunnar og heldur ekki herferðina #BlacklLivesMatters, sem hefur verið meira og minna í fjölmiðlum allt síðasta ár.
Trump benti réttilega á að í Bandaríkjunum létust margir vegna skotvopna en í stað þess að tala um leiðir til að herða vopnalöggjöfina eins og almenningur hefur ítrekað kallað eftir, kenndi hann ólöglegum innflytjendum um og sagði það upp til hópa vera glæpalýð. Það var eignilega með ólíkindum að hlusta á ræðuna því í henni skautaði Trump reglulega framhjá hlutum sem nær enginn frambjóðandi hefur komist upp með að sleppa hingað til.
Þegar Trump hafði staðið í pontu í dálita stund virtist eitthvað vera að gerast út í sal. Trump hætti að tala og horfði pirraður til hliðar og beið. „Code Pink!“ æptu fréttamenn á Twitter, „Code Pink“. Fljótlega áttaði ég mig á því að frægur mótmælandi hafði komist inn í höllina og truflaði ræðu Trumps með mótmælum. Mótmælandinn Medeja Benjamin, kona á miðjum aldri, hélt á skilti sem á stóð: „Byggjum brýr ekki múra“ og vísaði til múrsins sem Trump hefur í hyggju að byggja á landamærunum við Mexíkó til að halda innflytjendum frá.
Í ræðunni kom fram að ef hann verður kjörinn forseti verður öllum helstu fríverslunarsamningum Bandaríkjanna rift – svo sem NAFTA og samningum við Kína – og samið upp á nýtt. Trump mun fá miklu betri samning, að eigin sögn. Hann ætlar að rifta kjarnorkusamningnum við Íran, hann ætlar að eyða ISIS, stilla til friðar í Mið-Austurlöndum, færa framleiðslustörf sem tapast hafa til annarra landa aftur til Bandaríkjanna, og hann ætlar að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og brottflytja um 11 milljónir ólöglegra innflytjenda sem eru víð og dreif um Bandaríkin. Og þó hann hafi ekki nefnt það í ræðu sinni þetta kvöldið þá er það enn stefnan að banna múslimum að ferðast til Bandaríkjanna. Til viðbótar lofaði hann að laga hið ónýta stjórnmálaástand sem ríkir Washington. Þó hann hafi ekki nefnt það í ræðu sinni kom það upp í viðtali í vikunni sem leið að Trump hefur efasemdir um samstarf Bandaríkjanna innan NATO. Þetta olli miklu uppnámi meðal NATO-þjóðanna og varð til þess að auka áhuga og áhyggjur á alþjóðavísu á hugsanlegu kjöri Donald Trump.
Í ræðu sinni dró hann fram mjög skuggalega mynd af Bandaríkjunum og fullyrti líkt og Guiliani að mikil glæpaalda gengi yfir Bandaríkin. Það er þó langt frá því að vera satt því tölur sýna að landið hefur í raun aldrei verið öruggara. Þá hélt hann því ótrauður fram að eiginlega öll átök í heiminum væru Hillary Clinton að kenna því hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Eftir að ræðunni lauk, ruku fjölmiðlamenn upp til handa og fóta og birtu fjölda leiðréttinga á staðhæfingum Trump. En fyrst og fremst voru fréttamenn hálf orðlausir og bentu á þá staðreynd að Trump hafði ekki útskýrt á nokkurn hátt hvernig hann ætlaði að gera þetta allt saman. Þetta hefur verið meginþema í kosningabaráttu Trump að belgja út loforð án nokkurra útskýringa um hvernig hann ætlar að standa við þau. Hafi fjölmiðlamenn eitthvað við þetta að athuga, eða gerist þeir of ónærgætnir í spurningum, er þeim einfaldlega kastað út. Þannig hefur farið fyrir fjölmörgum fréttamönnum sem fá ekki aðgang að Trump sjálfum, né viðburðum sem hann tekur þátt í, meðal annars flokksþingi repúblikana.
Hið dapurlega er að fæstir fletta upp slíkum greinum og jafnvel þó margar milljónir horfðu á ræðu Trump að hluta til eða að öllu leyti, gera kjósendur ráð fyrir að Trump sé ekki beinlínis að ljúga að þeim. Flestir gera þó ráð fyrir að hann hagræði sannleikanum aðeins. Það er von margra kjósenda að Trump sé sá stjórnmálamaður sem komi til með að hrista upp í gersamlega vonlausu stjórnmálaástandi í Washington þar sem fátt gerist ár eftir ár þar sem menn geta ekki komið sér saman um að klára einföldustu mál. Þreyta kjósenda er mikil og því farvegur fyrir óvenjulega stjórnmálamenn líkt og Trump.
Hann er ítrekað staðinn að því að tala í mótsögn við sjálfan sig; loforð hans um að leysa flókin og erfið mál á borð við ISIS eru sögð út í bláinn og þeim fylgja sjaldnast nokkrar útfærslur. Sá tónn sem sleginn var á flokksþinginu í síðustu viku var harðari og meira ógnvekjandi en áður. Undir flestum kringumstæðum hefðu menn reynt að tóna sig niður og haga sér meira eins og forsetar. En Trump gaf í og nú var Repúblikanaflokkurinn hans. Það er augljóst að ætlunin er að sameina kjósendur repúblikana gegn Clinton en um leið að hræða líftóruna úr fólki og lofa öllu fögru án þess að gefa nokkuð út um það hvernig á að leysa málin. Og það eru engin smá mál á loforðalistanum; það á að koma á friði í heiminum, eyða ofbeldi, læsa alla ófriðarseggi inni, fjölga störfum, rifta samningum við önnur ríki og auðvitað bæta efnahaginn, svo fátt eitt sé nefnt.
Þekktur blaðamaður skrifaði á Twitter þegar ræðu Trump lauk: „Meira að segja ræða George W. Bush var ekki svona dimm, og hún var flutt rétt eftir að hryðjuverkamenn höfðu raunverulega ráðist á Bandaríkin“. Það segir sitt. Ritstjórn Washington Post birti leiðara í blaðinu að flokksþinginu loknu undir fyrirsögninni „Donald Trump er einstaklega mikil ógn við lýðræðið í Ameríku“ og þar er því lýst í löngu máli hvers vegna þau telja að Trump verði hættulegur forseti verði hann kjörinn. Garry Kasparov skákmeistari sagði á Twitter eftir að ræðu Trump lauk að hann hefði heyrt svona ræður í 15 ár og að þær væru ekkert skárri á rússnesku og átti þar við Vladimír Pútin.