Fyrir þau tólf þúsund störf sem töpuðust á árunum 2008 til 2010 á Íslandi hafa orðið til 16.300 ný í staðinn. Á árinu 2015 einu saman fjölgaði störfum um sex þúsund. Bróðurpartur allra nýrra starfa sem orðið hafa til á Íslandi eftir bankahrun er tilkominn vegna ferðaþjónustu og þau svör virðast ekki mæta nema að hluta til væntingum Íslendinga um starfsvettvang og starfskjör. Þess vegna virðist fjölgun starfa að miklu leyti hafa verið mætt með erlendu vinnuafli á sama tíma og fleiri Íslendingar flytja af landi brott en til landsins. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Arion banka á vinnumarkaðinum þá og nú, sem birt var í dag.
Atvinnuleysi á Íslandi mælist nú 3,5 prósent samkvæmt könnunum Hagstofunnar og 2,6 prósent samkvæmt skráningum Vinnumálastofnunar. Í þjóðhagslíkani Seðlabanka Íslands er miðað við 4 prósent jafnvægisatvinnuleysi og því ljóst að skortur er á vinnuafli hérlendis í kjölfar hins mikla uppgangs í ferðaþjónustu.
Íslendingar fara, erlent vinnuafl kemur
Í greiningu Arion banka er bent á að þrátt fyrir þennan skort sem myndast hefur á vinnumarkaði þá flytja Íslendingar frekar úr landi, og því velt fyrir sér hvað valdi. Eitt sem spili þar inn í er aukin menntun vinnuafls, en hlutfall háskólamenntaðra á meðal starfandi einstaklinga hefur aukist úr 11 prósentum í tæp 34 prósent frá árinu 1991 til loka síðasta árs.
Í greiningunni segir: „Á síðasta ári voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta 1.265. Fjölgun starfa virðist því að miklu leyti hafa verið mætt með erlendu vinnuafli en á sama tíma voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta 2.716. Auðvitað eru margvíslegar ástæður fyrir því að fólk flytur búferlum til lengri eða skemmri tíma og það er óneitanlega jákvæð þróun að fólk hafi tækifæri til að freista gæfunnar í öðru landi. Þessi þróun gefur til kynna að sú sköpun starfa sem orðið hefur síðustu ár sé enn sem komið er aðeins að hluta til að mæta væntingum Íslendinga um starfsvettvang og starfskjör.“
Niðurstaða greiningardeildar Arion banka er sú að flest bendi til þess að störfum muni halda áfram að fjölga mikið á næstu misserum. Á sama tíma sækja sífellt fleiri Íslendingar sér framhalds- og háskólamenntunar og því sé spurningin sem þjóðin standi frammi fyrir sú hvort menntunin sem Íslendingar eru að sækja sér falli að vinnumarkaðinum og umhverfi atvinnusköpunar „eða hvort texti Spilverksins muni eiga við: „Hér vantar tólin og tækin og réttu vandamálin.“ Spennandi verður að fylgjast með framvindunni á vinnumarkaði, hvort að ferðaþjónustan haldi áfram að vera leiðandi í sköpun nýrra atvinnutækifæra eða hvort aðrar atvinnugreinar taki við keflinu, og hvernig fyllt verður upp í hinar nýju stöður.“
Konur og landsbyggð sækja á
Í greiningunni er einnig sagt frá því að atvinnuþátttaka kvenna hafi verið 79,3 prósent í fyrra og hafi aldrei mælst hærri. Á sama tíma er atvinnuþátttaka karla 85,7 prósent, sem er umtalsvert lægri en hún hefur verið áður.
Þótt flest ný störf hafi orðið til á höfuðborgarsvæðinu þá fjölgar störfum hraðar á landsbyggðinni. Í greiningunni segir: „Utan höfuðborgarsvæðisins ber fræðslustarfsemi höfuð og herðar yfir aðrar atvinnugreinar í atvinnusköpun. Þannig hefur störfum í tengslum við fræðslustarfsemi fjölgað um 40 prósent frá árinu 2011, eða um 2.600 störf sem er mesta fjölgunin í stöðugildum talið, utan sem innan höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur störfum er snúa að rekstri gistiheimila og veitingarekstri fjölgað umtalsvert sem og störfum í flutningum og verslunargeiranum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur ýmis sérhæfð þjónusta verið umsvifamikil sem og upplýsinga- og fjarskiptageirinn sem sópað hefur til sín starfsfólki.“