1. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, réð Sigríði Björk Guðjónsdóttur í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í júlí 2015. Stefán Eiríksson hafði áður sinnt embættinu, en hann miklar hræringar urðu innan lögreglunnar í kjölfar Lekamálsins, sem endaði með því að Hanna Birna lét af störfum sem ráðherra í nóvember sama ár.
2. Sigríður Björk var líka innvinkluð í Lekamálið og kom það ekki í ljós fyrr en hún var tekin við embættinu í Reykjavík. Hún hafði sent greinargerð lögreglunnar á Suðurnesjum um hælisleitandann Tony Omos til Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu. Sú greinargerð varð meðal annars kveikjan að minnisblaðinu sem Gísli Freyr lak í fjölmiðla og markaði upphaf Lekamálsins.
3. Sigríður Björk hafði náð miklum árangri við upprætingu heimilisofbeldis og kynferðisbrota í gamla umdæmi sínu, en hún var áður lögreglustjóri á Suðurnesjum. Verkefnið „Haldið glugganum opnum“ vakti mikla athygli og sneri að eftirfylgni og árvekni lögreglunnar þegar kemur að heimilisofbeldismálum. Hún lét það strax í ljós að hún mundi halda þessum áherslum áfram innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur skilað góðum árangri.
4. Eitt af fyrstu verkum Sigríðar Bjarkar í embætti var að breyta skipuriti og verklagi innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars voru þeir Jón H. B. Snorrason, saksóknari lögreglu, aðstoðarlögreglustjóri, og staðgengill Stefáns, og Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri fluttir til innan embættisins.
5. Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar, fékk fyrir slysni afrit af tölvupóstum á milli Ara Matthíassonar Þjóðleikhússtjóra og Jóns H.B. Snorrasonar aðstoðarlögreglustjóra í janúar. Um var að ræða einkasamskipti, en Ari og Jón eru vinir. Jón ætlaði að áframsenda póstinn til Aldísar Hilmarsdóttur, en sendi óvart á Öldu Hrönn. Alda kvartaði til menntamálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins vegna póstanna, þar sem henni þóttu þeir niðrandi. Málið endaði á forsíðu DV þar sem því var slegið upp að Ari hefði talað um „kvendi“ í pósti sínum, en það var rangt. Fréttin var leiðrétt. Stundin greinir frá.
6. Ólöf Nordal innanríkisráðherra lét vinnusálfræðing meta samskiptavandann innan lögreglunnar. Skýrsla sálfræðingsins hefur ekki verið gerð opinber, en henni var skilað í nóvember síðastliðnum. Stundin greindi frá því að sálfræðingurinn, Leifur Geir Hafsteinsson, hafi komist að þeirri niðurstöðu að skýrar vísbendingar væru um samstarfs- og samskiptavanda innan lögreglunnar og að brýnt væri að ráðast tafarlaust í aðgerðir með aðstoð utanaðkomandi fagaðila. Tveimur öðrum sálfræðingum far síðan falið að fylgja ráðleggingum Leifs eftir með frekari viðtölum.
7. Sautján lögreglumenn höfðu í janúar síðastliðnum kvartað til Landssambands lögreglumanna vegna samskiptavanda þeirra við Sigríði Björk.
8. Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar, hefur stefnt ríkinu vegna lögreglustjórans. Sigríður Björk færði Aldísi til í starfi fyrr á árinu og í stefnunni segir að tilfærslan hafi verið ólögmæt og saknæm. Þá er Sigríður Björk einnig sökuð um í ítrekað einelti og ófaglega starfshætti. Aldís krefst þess að tilfærsla hennar í starfi verði dæmd ólögmæt og ógild og vill fá 2,3 milljónir króna í skaðabætur. Tilfærsla Aldísar í starfi kom í kjölfar máls innan fíkniefnadeildar lögreglunnar, þar sem starfsmaður þar var sakaður um brot í starfi. Hann var síðar hreinsaður af öllum sökum, sem fólu meðal annars í sér ásakanir um spillinu og óeðlileg samskipti við þekktan brotamann. Héraðssaksóknari komst að þeirri niðurstöðu að skýra mætti málið að einhverju leyti með persónulegum ágreiningi og samskiptaörðugleikum innan embættisins. Sigríður Björk hefur ekki viljað tjá sig um málið.
9. Innanríkisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður Björk hafði brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með því að víkja manninum úr starfi. Ekki hafi legið nægilega sterk rök fyrir því og hún hafi byggt ákvörðun sína á orðrómi frekar en gögnum.
10. Þessi sami starfsmaður fíkniefnadeildar hefur nú lagt fram kæru á hendur öðrum fyrrverandi starfsmanni fíkniefnadeildar, lögfræðingi, fyrir rangar sakargiftir. RÚV greinir frá því að kæran hafi verið send lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrir um mánuði síðan. Þá ætlar hann einnig að stefna Sigríði Björk fyrir að víkja sér úr starfi og krefja hana um miskabætur, er fram kemur á vef RÚV. Þá kemur fram að lögmaðurinn sem hefur verið kærður hefur verið ráðinn sem afleysingamaður hjá lögreglunni á Suðurlandi og starfar þar þrátt fyrir að sæta rannsókn.