Kvikmyndahúsum á landinu hefur fækkað um helming síðan árið 1995. Þá voru 31 kvikmyndahús á landinu en í dag eru þau 16. Ekki hefur fækkað neitt á höfuðborgarsvæðinu síðustu 20 ár, en öllum þeim kvikmyndahúsum sem hefur verðið lokað eru á landsbyggðinni. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 25 kvikmyndahús utan höfuðborgarsvæðisins árið 1995 en nú eru þau einungis níu. Nýjustu tölur Hagstofunnar eru frá árinu 2014, en Alfreð Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, útvegaði nýrri tölur.
Hann segir að breyting á tæknibúnaði, sem varð árið 1995, um textun á kvikmyndum hafi gert landsbyggðinni erfiðara fyrir að fylgja því eftir vegna kostnaðar.
„Árið 2003 kom svo digitalvæðingin, sem var kostaði líka sitt, og gerði smærri kvikmyndahúsum á landinu erfitt fyrir,“ segir Alfreð við Kjarnann. „En bíóhúsin á landsbyggðinni standast ekki samanburð við þau í Reykjavík þar sem mörg þeirra voru líka notuð sem samkomuhús og ekki mikið fyrir kvikmyndasýningar. Þar af leiðandi voru þau ekki uppfærð með sama hætti.“
Fjölgar á landsbyggðinni á ný
Alfreð segist þó hafa heyrt af því að það standi til að fjölga kvikmyndahúsum á landsbyggðinni á ný. Stafrænn tæknibúnaður hafi lækkað í verði undanfarin ár sem geri það auðveldara fyrir smærri kvikmyndahús að uppfæra.
Sambíóin reka fimm kvikmyndahús, þrjú í Reykjavík, eitt á Akureyri og eitt í Keflavík. Sena reka tvö bíó í Reykjavík og eitt á Akureyri. Í Reykjavík eru svo tvö bíó til viðbótar; Laugarásbíó og Bíó Paradís. Utan höfuðborgarsvæðisins eru svo rekin sex kvikmyndahús til viðbótar; á Ísafirði, Akranesi, Selfossi, Sauðárkróki, Patreksfirði og í Vestmannaeyjum.
Í þessum sextán kvikmyndahúsum á landinu öllu eru samtals 40 salir og 6.700 sæti. Alfreð segir að Sambíóin hafi verið að fækka sætum undanfarin ár til þess að bjóða upp á meira bil á milli sæta.
Fólk fór í bíó í hruninu
Þróun í fjölda kvikmyndahúsagesta jókst mikið í efnahagshruninu. Árið 1996 var fjöldi gesta yfir 1,4 milljón. Strax í kjölfar hrunsins, árið 2008, fór fjöldinn yfir 1,7 milljón. Ásókn í kvikmyndahús dróst svo aftur saman eftir hrun og árið 2014 var hann kominn aftur niður í það sama og árið 1996, rúma 1,4 milljón.
Alfreð segir þessa þróun skýrast af því að fólk hafði minna á milli handanna í hruninu.
„Kvikmyndahús eru ódýrasta skemmtun sem völ er á,“ segir hann. „Fáir fóru til útlanda og ferðalög og sóttust því í ódýrari afþreyingu.“
Að meðaltali eru um 15 nýjar kvikmyndir frumsýndar í hverjum mánuði. Samkvæmt Alferð hefur þeim þó fækkað síðan 2011, þegar 181 kvikmynd var frumsýnd. Árið 2014 voru 154 myndir frumsýndar, en þeim fjölgaði árið eftir, en þá voru þær 175.