Mjótt er á munum milli forsetaframbjóðendanna tveggja, Hillary Clinton og Donald Trump, ef marka má skoðanakannanir. Framboð Hillary og stuðningsmenn hennar hafa safnað tæplega 400 milljónum bandaríkjadala en Trump rétt tæplega 100 milljónum, en í vestanhafs eru fjárhæðir sem safnast taldar vera góð vísbending um hversu líkleg framboð eru til árangurs.
„Skýr framtíðarsýn“ voru skilaboðin frá flokksráðstefnu demókrata; jákvæð hvatning til að bæta samfélagið og samstaða þjóðar, óháð kynþætti, kynhneigð, kyni, trú eða uppruna. Þetta endurspeglaðist í fjölda kvenna og fólks af öðrum kynþáttum en hvítum á ráðstefnunum tveim. Um helmingur fulltrúa á flokksráðstefnu demókrata voru konur og 1.182 fulltrúar af 4.766 voru af öðrum kynþætti en hvítum, en aðeins 18 fulltrúar flokksþings repúblikana voru svartir og þar voru konur mun færri en helmingur fulltrúa.
Flokksráðstefnurnar tvær sýndu tvær ólíkar fylkingar. Svartsýni einkenndi repúblikanaflokkinn þar sem drungalegum raunveruleika var varpað fram; því versta sem hrjáir bandarískt samfélag var dregið fram, ýkt á köflum, og alið var á ótta. Demókratar voru aftur á móti bjartsýnir og vongóðir, þó að þeir viðurkenndu margvíslegan vanda samfélagsins, en horfðu til framtíðar, hvöttu fólk til að taka þátt í að byggja upp og bæta samfélagið og að takast í sameiningu á við þær ógnir sem steðja að.
Dagur 1 : Bernie Sanders út um allt, Booker elskar Trump og Michelle Obama stelur senunni
Það var ríflega 30 stiga hiti og sól þegar ég mætti í miðborg Fíladelfíu eldsnemma á mánudagsmorgun. Ekki fór á milli mála að borgin væri öll undirlögð af viðburðinum, en borgastjórnin hafði staðið í ströngu við að sannfæra Demókrataflokkinn um að borgin væri í stakk búin til að halda ráðstefnu af þessari stærðargráðu. Samkeppnin milli borga um að halda svona viðburði er mikil, en gert er ráð fyrir að aukin innkoma hlaupi á um 300 milljónum bandaríkjadala.
Strax við komuna blöstu fánar ráðstefnunnar við og heimilislaust fólk voru meira að segja sum hver búin að skrifa ný pappaskilti: „Hels að fellow Democrat, please“ stóð til að mynda á einu þeirra. Kaffihúsin buðu upp á kældan „Hillary with cream“ og götusalar seldu nælur merktar Sanders í öllum regnbogans litum. Inni í ráðstefnuhöllinni var að finna nælur sem á stóð „I’m With Her” og „Hipsters for Hillary“.
Töluverð óreiða var á svæðinu fyrsta daginn og kvörtuðu fjölmiðlamenn sáran yfir skipulagsleysinu. Eftir klukkutíma bið fengu fjölmiðlamenn loks að labba að stóru höllinni af bílaplaninu og þar þurftum við að þræða langa krókaleið, sumir með þungar græjur. Þrátt fyrir framkomuna máttu ráðstefnuhaldarar eiga það að ekki var farið í manngreiningarálit í þessu puði því helsta stjarna CNN, Anderson Cooper, mátti þola langa bið í steikjandi sólinni með okkur minni spámönnum.
En það var stemning í höllinni og athygli vakti hversu áberandi stuðningsmenn Bernie Sanders voru þennan daginn. Ef ég hefði ekki vitað betur hefði ég haldið að þessi ráðstefna væri að fara að krýna Sanders sem forsetaframbjóðanda, en ekki Clinton. Síðar kom í ljós að Sanders var að fara að hitta stuðningsmenn sína. Á fundinum bað hann þá um að sýna stillingu og mótmæla ekki þegar hann myndi lýsa yfir stuðningi við Hillary síðar um daginn. En þegar Sanders steig á svið um kvöldið mátti greina mjög háværar óánægjuraddir þegar hann lýsti kostum Clinton. Þó að þau væru ósammála um sum málefni, hafði þeirra barátta mikil áhrif á áherslur hennar og flokksins.
Um er að ræða helst þrjú mál:
Að hækka lágmarklaun á landsvísu í 15 dollara en ekki tólf og svo 15 eins og Hillary hafði lagt til.
Að leggja af skólagjöld fyrir alla, en ekki bara þá sem eiga efnaminni foreldra eins og Hillary hafði lagt til fyrst.
Að vera á móti TPP, eða Trans Pacific Partnership , sem eru samningsdrög á milli tólf ríkja um afnám tolla og samræmingu reglna með það að markmiði að auka viðskipti milli ríkjanna og hagsæld. Að sumu leiti svipar samningnum til EES-samningsins. Clinton hafði lýst því yfir að hún styddi samninginn en henni hefur nú snúist hugur. Löndin sem áttu að verða hluti af TPP, auk Bandaríkjanna, eru Japan, Malasía, Víetnam, Singapúr, Brúnei, Ástralía Nýja Sjáland, Kanada, Mexíkó, Chile og Perú.
Margar merkilegar ræður voru haldnar þetta mánudagskvöld. Öldungadeildarþingmaður frá New Jersey, Cory Booker, var einn ræðuhaldara og hreif hann stútfulla höllina með sér. Í ræðu sinni fjallaði Booker meðal annars um mikilvægi samtakamátts þjóðarinnar í að leysa áskoranir, sem og mikilvægi þess að sýna hina margumræddu föðurlandsást í verki gagnvart náunganum, því það væri hin raunverulega ást á landinu.
Look, I respect and value the ideals of individualism and self- reliance. But rugged individualism didn’t defeat the British. It didn’t get us to the moon. It didn’t build our nation’s highways. Rugged individualism didn’t map the human genome. We did that together.
Let me tell you, we cannot devolve into our — to a nation where our highest aspirations are that we just tolerate each other. We are not called to be a nation of tolerance. We are called to be a nation of love.
Eftir að ræðu hans lauk, hjólaði Trump í hann á Twitter:
Booker svaraði Trump með óvenjulegum hætti í viðtali CNN:
„Donald I love you, but I don’t want you to be my president“. Hann undirstrikaði síðan mikilvægi þess að að svara ekki hatri með hatri. Þessi upphafstónn Booker við upphaf ráðstefnunnar átti eftir að heyrast í fleiri ræðum og var töluvert önnur stemming upp á teningnum en sú sem repúblikanar nutu við í Cleveland vikunni áður.
En það var forsetafrúin Michelle Obama sem stal senunni þetta kvöld. Í ræðu sinni talaði hún um hvernig það hefði verið að takast á við nýtt hlutverk fyrir átta árum og hvernig þau hjónin ólu upp börnin sín, sem þurftu að þola stöðugar árásir og níð um foreldra þeirra og þau sjálf.
That is what Barack and I think about every day as we try to guide and protect our girls through the challenges of this unusual life in the spotlight, how we urge them to ignore those who question their father’s citizenship or faith. How we insist that the hateful language they hear from public figures on TV does not represent the true spirit of this country. How we explain that when someone is cruel or acts like a bully, you don’t stoop to their level. No, our motto is, when they go low, we go high.
En forsetafrúin tók líka fyrir mál sem brenna á fólki og hafa sundrað þjóðinni. Hún minnti á að hún vaknaði á hverjum morgni í húsi sem hefði verið byggt af þrælum. Af miklum eldmóði færði hún rök fyrir því að Hillary Clinton yrði góður forseti og minnti á að hún yrði sama fyrirmynd fyrir stelpur og Barack Obama hafi verið fyrir svarta krakka.
And look, there were plenty of moments when Hillary could have decided that this work was too hard, that the price of public service was too high, that she was tired of being picked apart for how she looks or how she talks or even how she laughs. But here’s the thing. What I admire most about Hillary is that she never buckles under pressure. She never takes the easy way out. And Hillary Clinton has never quit on anything in her life.
Forsetafrúin lét líka nokkur vel valin orð falla um Donald Trump án þess þó að nefna hann á nafn. En það fór ekkert á milli mála um hvern hún var að ræða. Hún beindi orðum sínum meðal annars að heiftinni og bráðlætinu sem Trump hefur sýnt á Twitter síðustu mánuði.
I want someone with the proven strength to persevere, someone who knows this job and takes it seriously, someone who understands that the issues a president faces are not black and white and cannot be boiled down to 140 characters. Because when you have the nuclear codes at your fingertips and the military in your command, you can’t make snap decisions. You can’t have a thin skin or a tendency to lash out. You need to be steady and measured and well-informed.
Flestir voru sammála um að ræða Michelle hefði skyggt á aðrar ræður kvöldsins. Cory Booker lýsti þessu vel þegar hann sagðist hafa hitt móður sína eftir að ræðuhöldum var lokið og hún hafi hlaupið til hans án þess að minnast á ræðuna hans, heldur spurt í öngum sínum hvort hann hefði nokkuð misst af mögnuðu ræðunni hennar Michelle.
Bernie Sanders hélt líka þrumuræðu um kvöldið við mikinn fögnuð viðstaddra. Þegar hann hafði lokið sér af mátti skynja mikla örvæntingu í hópi stuðningsmanna hans og greinilegt að þeir voru ekki allir á því að gefast upp. Það var þó ekki fyrr en daginn eftir sem lætin byrjuðu fyrir alvöru.
Dagur 2: Bernie or BUST, umsátursástand, formleg kosning - og gamlar sögur frá Bill
Morguninn eftir sat ég í ókunnugu húsi í borginni og gerði mig klára fyrir daginn. Allt í einu komu þrjú ungmenni frá Kaliforníu komu inn í eldhúsið, en við höfðum öll leigt herbergi í sama húsi. Þau voru hress og kát og sögðust vera mætt til að mótmæla því að Sanders væri ekki næsti forsetaframbjóðandi demókrata. Þau spurðu mig afhverju ég væri þarna og ég útskýrði að ég væri útlenskur fjölmiðlamaður að fylgjast með. Ég náði ekki lengra, því um leið og ég hafði sleppt orðinu ruku þau öll á fætur og jusu yfir mig svívirðingum. Að þeirra mati var það fjölmiðlamönnum eins og mér um að kenna að Bernie Sanders hafði fengið jafn mikla neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum. Þegar ég reyndi að koma því að, að ég væri bara frá litlu landi sem hefði ekki mikil áhrif á kjósendur í Bandaríkjunum og að Sanders væri þar fremur vinsæll, bættu þau við að við ríka fólkið værum öll við eina fjölina felld, elítuna. Að því búnu veifuðu þau löngutöng framan í mig um leið og þau bökkuðu út úr eldhúsinu og skelltu harkalega á eftir sér. Eftir sat ég í þögninni, dálítið áttavilt, en glaðvöknuð og sannfærð um að þetta yrðu ekki einu Sanders stuðningsmennirnir sem áttu eftir að láta heyra í sér þann daginn.
Ég lagði leið mína í miðborg Fíladelfíu til að vera viðstödd mótmælafund kjósenda sem kenndi sig við slagorðið „Bernie or BUST“. Þar hitti ég fyrir stóran hóp gallharðra stuðningsmanna Sanders, sem voru ákaflega reiðir út í flokkinn fyrir að hafa, að þeirra sögn, haft áhrif á niðurstöðu kosninganna með því að gera kjósendum Sanders erfiðara fyrir að kjósa með margvíslegum hætti. Auk þess þótti algjörlega ótækt að formaður flokksstjórnarinnar, Debbie Wasserman Schultz, sem sagði af sér í upphaf vikunnar, hafi verið gerð að formanni kosningastjórnar Clinton eftir afsögnina. Wikileaks-leki hafði sýnt fram á að Schultz og starfsmenn hennar á flokksskrifstofunni töluðu illa um Sanders og reyndu að hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun til að hjálpa Clinton.
Seinna um daginn var kominn tími til að hitta gamla félaga mína sem ég vann með í kosningabaráttu borgarstjóra New York árið 2013. Sú hefð hefur skapast á flokksráðstefnum að fulltrúar á þinginu, sem mæta sem fyrir hvorn frambjóðanda í réttu hlutfalli við það hvernig atkvæðamagnið féll, séu allir á sama hóteli þar sem er plottað og skemmt sér saman. Á Lowes hótelinu var margt um manninn. Rætt var um hversu lélegum tíma borgarstjóranum í New York hafði verið úthlutað fyrir ræðu sína og hvað myndi gerast um kvöldið með stuðningsmenn Sanders. Eftir stutt kurteisishjal og vangaveltur var kominn tími til að renna upp í höllina. Í þetta skipti hafði ég orðið mér úti um gólfpassa en bara ákveðinn fjöldi blaðamanna mátti vera á gólfinu í einu. Fjöldi blaðamanna hljóp á þúsundum og barist var hart um gólfpassana. Framundan var mikilvægasta kvöldið fyrir fulltrúa beggja frambjóðenda, sjálf atkvæðagreiðslan.
Höllin var þéttsetin og hvert ríki kyrfilega merkt með háum borða. Talsmaður hvers ríkis var oftast nær kjörinn fulltrúi sem stóð við merkið og beið þess að sá sem stýrði atkvæðatalningu kallaði nafn ríkisins. Helst minnti þetta á stigatalningu í Eurovision en hver einasti kynnir reyndi að troða inn örlítilli kynningu á sínu ríki áður viðkomandi gaf upp hvernig atkvæðunum hafði verið ráðstafað. Miklar tilfinningar voru í ráðstefnugestum, enda markaði hún sögulegan viðburð þar sem þetta var í fyrsta sinn sem kona var kjörin sem forsetaframbjóðandi fyrir stjórnmálaflokk af þessari stærðargráðu í Bandaríkjunum. En á sama tíma voru þetta endalok kosningabaráttu Bernie Sanders. Bróðir Sanders, sem búsettur er í Bretlandi, las upp atkvæði greidd af kjósendum búsettum erlendis og það mátti sjá Bernie tárast þar sem hann sat með sínum fulltrúum frá heimaríki sínu Vermont. Sjálfur tók hann til máls þegar atkvæðamagn Vermont ríkis var tilkynnt og lýsti Hillary Clinton sem rétt kjörnum fulltrúa demókrata til forseta. Þegar atkvæðagreiðslunni lauk var klappað, hlegið og grátið - sumir felldu tár af fögnuði aðrir voru tapsárir.
Fljótlega fóru að berast fréttir af látum fyrir utan höllina. Þegar ég kom af gólfinu inn á gang hallarinnar gekk ég í flasið á hóp af lögreglumönnum sem þustu út. Í ljós kom að hópur stuðningsmanna Sanders hafði lagt undir sig vinnutjald þar sem flestir erlendu fjölmiðlamennirnir höfðu vinnuaðstöðu. Stuðningsmennirnir settust á gólfið og lögðust á gluggana, margir með límt fyrir munninn á sér sem tákn um þöggunartilburði sem mótmælendur sökuðu flokksráðið fyrir að hafa sýnt. Hálfgert umsátursástand ríkti um stund þar til lögreglan kom og lokaði tjaldinu. Sumir fjölmiðlamenn kvörtuðu yfir að komast ekki inn í tjaldið til að geta sent frá sér efni um mótmælin en eftir skamma stund færðu mótmælendur sig aftur inn í höllina til að sýna mæðrum fórnalamba lögregluofbeldis stuðning sinn - en þær voru væntanlegar á sviðið.
Svo var komið að varaforsetaefninu, Tim Kaine. Hann er öldungadeildarþingmaður, fyrrverandi ríkisstjóri Virginíuríkis og fyrrverandi borgarstjóri Richmond. Þrátt fyrir að vera mjög þekktur í sínu eigin ríki er Kaine lítið þekktur á landsvísu. Trump átti meira að segja í erfileikum með að staðsetja hann. Hann hélt því fram að Kaine hafi verið ómögulegur ríkisstjóri í New Jersey en líklega átti hann við mann að nafni Tom Kean sem eitt sinn gengdi því hlutverki.
Kaine er fremur íhaldsamur í skoðunum sínum en þykir einlægur og vinnusamur og var hann valinn án efa til að höfða til þess hóps kjósenda sem eru hægra megin við miðju, sérstaklega þá sem búa mið- og suðurríkjum Bandaríkjanna. Ræða Kaine var ágæt, en hann eyddi töluverðum tíma í að kynna sig og sín sjónarmið sem og að dásama Clinton. Hann sló á létta strengi og hjólaði líka í Trump. Einn helsti styrkur Kaine er að hann talar lýtalausa spænsku. Hluti ræðu hans fór fram á spænsku, en stór hópur nýrra kjósenda er af rómönsk-amerískum ættum og það þykir því ákaflega mikilvægt að talað til þeirra á sínu eigin tungumáli.
Fljótlega var svo komið að Bill Clinton og hélt hann afar persónulega og hjartnæma ræðu um konu sína. Ræðan þótti ágæt, en fyrir þá sem hafa lesið ævisögur þeirra hjóna, þá voru sögurnar mjög kunnuglegar og dálítið eins og verið væri að lesa upp úr gömlu handriti. Clinton lagði mikla áherslu á að Hillary væri stöðugt að reyna að bæta hlutina og hennar helsti kostur væri að hún gæti knúið fram breytingar, væri úrræðagóð og gæfist aldrei upp.
Um þetta leiti bárust fréttir af könnunum sem sýndu að um 90 prósent stuðningsmanna Sanders í forvalinu sögðust ætla að kjósa Clinton í nóvember. Hin tíu prósentin voru líklegt til að kjósa Jill Stein, forsetaframbjóðanda græningja, sem var mætt á flokkráðstefnu demókrata á þriðjudagskvöld eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég náði að taka upp hluta af ræðu sem hún hélt á miðjum ganginum í höllinni, en að henni lokinni sagði Stein mér að hún væri einlægur aðdáandi Íslands í ljósi þess hvernig tekið er á málum þar. En hún var hlaupin áður en ég fékk frekari skýringar á hvaða mál þetta væru.
Leikkonan Meryl Streep ávarpaði hópinn síðar um kvöldið. Að því loknu var táknrænt myndband sýnt þar sem farið var yfir feril Bandaríkjaforseta síðustu 240 ára voru sýndir. Allir voru þeir hvítir karlar á miðjum aldri eða eldri, að undanskildum þeim síðasta sem var bæði ungur og svartur. Í kjölfarið „brotnaði glerþakið“ og Clinton þakkaði fyrir kosninguna. Hún minnti á að hún yrði mögulega fyrsta konan til að verða forseti Bandaríkjanna en úti væru allar þær sem kæmu í kjölfarið. Það var svolítið sérstakt fyrr mig að horfa á myndbandið, sem setti málin í sögulegt samhengi, en var kunnuglegt fyrir mig. Ég hafði sjálf unnið svipað myndband fyrir kvennasamtök sem stóðu þétt við bakið á Clinton og unnu við kosningabaráttu hennar. Ég sótti innblástur í myndbandið mitt í auglýsingu sem Samfylkingin gerði þegar Jóhanna Sigurðardóttir var líkleg til að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands. Útfærslan hjá Hillary kosningabaráttunni á myndbandinu var mjög góð, í það minnsta má segja að Inspired by Iceland herferðin hafi náð nýjum víddum. Dæmi nú hver fyrir sig.
Dagur 3: Grátið með Obama og sungið með Lenny Kravitz
Næsta morgun sat ég með enn öðrum stuðningsmönnum Sanders við morgunverðarborðið. Þegar þau spurðu mig í sakleysi sínu hvað ég væri að vasast í Fíladelfíu velti ég fyrir mér hvort ég ætti að segjast vera selja snákaolíu af ótta við viðbrögðin ef ég segði satt. Þau tóku fremur vel í sannleikann og sögðu mér frá hugmyndum sínum um að hjálpa hópi sem vildi beina öllum kraftinum sem væri í fylgismönnum Sanders í að kjósa sósíalíska þingmenn í fulltrúaráðið og öldungadeildina í nóvember. Þau lýstu fyrir mér hvernig þau hefðu loksins fundið sig í stjórnmálum síðustu mánuði þar sem þau voru meðal fólks sem tryði á algjöra byltingu á kerfinu. Þeim þótti mikilvægt að sjá til þess að þeirra raddir myndu ekki þagna nú þegar Clinton hefði unnið, heldur yrði að sjá til þess að þrýstingnum á breytingar yrði beint í aðrar áttir.
Það mátti skynja sömu breytingu á þeim ráðstefnugestum sem höfðu mætt sem fulltrúar Sanders: Nú skyldi orkunni beint í þann farveg sem mestum breytingum myndi skila. Hörðustu stuðningsmenn Sanders, sem á þessum degi var orðinn mun fámennari en við upphaf ráðstefnunnar, héldu sínu striki, hrópuðu ítrekað og trufluðu ræðumenn það sem eftir lifði ráðstefnunnar.
Þegar þarna var komið voru þó flestir ráðstefnugestir komnir með „Strong Together“- skilti eða „I’m With Her“ og farnir að veifa.
Dagskrá dagsins var þétt og nú voru væntalegir bæði Barack Obama og Joe Biden. Í þetta sinn var ég mætt tímalega í höllina því ég vildi ekki eiga á hættu að fá ekki sæti eins og sumir höfðu lent í daginn áður. Á leiðinni inn í salinn mætti ég bæði Donnu Brazil, fyrrverandi kosningastjóra Al Gore, og Fran Luntz, einum helsta ráðgjafa repúblikanaflokksins. Á meðan ég beið eftir forsetanum steig hver stjarnan á fætur annarri á stokk og söng eða hélt innblásna ræðu. Þetta minnti dálítið á sambland af Þjóðhátíð í Eyjum, 17. júní kvölddagskrá og Morfís-keppni á sterum: Gleði, sögur, þjóðleg stef, föðurlandsást, slagorð, mælskir menn og konur og svolítið af sorg og sigrum. Svo steig Lenny Kravitz á sviðið og þá rankaði ég við mér. Þegar ljósin voru myrkvuð og diskóið dunaði, otaði einhver að mér spjaldi sem á stóð „Thank you“. Það var mættur hópur af fólki sem stóð í ströngu að dreifa spjöldum til að veifa þegar nýr merkur ræðumaður mætti voru mætt með þrjár tegundir, JOE stóð á einu fyrir varaforsetann, THANK YOU á öðru og á öðru löngu og mjóu á priki stóð OBAMA. Allt myndi þetta skila sér heim í stofu til landsmanna í gegnum þúsundir sjónvarpsvéla sem mændu á fólkið í salnum.
Joe Biden mætti glaðbeittur. Hann tók sér góðan tíma til að veifa til ráðstefnugesta sem nú stútfylltu höllina. Í ræðu sinni sló hann á létta strengi og gagnrýndi Trump lítillega. Hann fór líka yfir árin í Hvíta húsinu líkt og forsetinn átti eftir að gera með nákvæmari hætti síðar um kvöldið. Hann talaði um fjölskylduna sína og son sinn sem lést nýverið. Biden hefur einstakt lag á því að tala til fólks. Hann ræddi um alla þá sem ganga í gengum hvers konar erfiðleika og hvernig fólk færi fram úr á hverjum morgni og héldi áfram með lífið, þó það væri á stundum óbærilegt. Það væri einmitt í þessum anda sem hið ameríska viðhorf væri, og það væri það sem gerði landið ósigrandi. Ræðan var í heild sinni afar efnismikil og góð. Biden mærði Hillary og lýsti því hvernig þau hefðu borðað saman vikulega þegar hún var utanríkisráðherra og hann hefði kynnst því hversu mikið hörkutól hún væri.
Loks var komið að sjálfum forsetanum. Það mátti heyra saumnál detta þegar salurinn var búinn að hrópa sig hásan af hrifningu þegar Barack Obama steig á svið og hóf upp raust sína. Obama fór vel yfir síðustu ár í embætti með afar einlægum hætti. Hann lýsti stórum sigrum, svo sem því að koma á laggirnar heilbrigðistryggingu sem tryggir nú yfir 20 milljónir sem áður voru án trygginga, sem og því að takast á við efnahagskreppuna sem skall á sama tíma og hann var kosinn í embætti. Hann talaði um hvernig Osama Bin Laden var komið fyrir kattanef og fleira sem tókst vel. Obama talaði líka um erfiðu tímana, og þegar hann talaði um atvik þegar hann þurfti að mæta foreldrum barna sem höfðu verið drepin í skotárás í Sandy Hook barnaskólanum í Newtown í Conneticut grét hann - og þá skældi maður með. Hann sagði að vonleysið hefði verið mest þegar repúblikanar neituðu að hleypa löggjöf í gegnum þingið sem myndi koma í veg fyrir að fólk sem væri veikt á geði eða hefði sakaskrá fengi að kaupa vopn.
Hann minntist líka á Trump og hversu óhæfur hann yrði sem forseti og þegar fólkið fór að púa til að undirstrika óánægju sína með Trump, sagði Obama: „Don’t boo - vote.“ Þessi stutta setning fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Hann bætti við að það væri mikilvægt að fólk tæki þátt í öllum kosningum, ekki bara forsetakosningum, en aðeins um fjórðungur Bandaríkjamanna kýs að jafnaði í kosningum til þings og enn færri í borgar- og bæjarstjórnarkosningum. Þegar mikil spenna er í forsetakosningum kýs um helmingur kosningabærra manna.
Obama lýsti mannkostum Hillary eins og aðrir ræðumenn og sagði að án efa væri hún sú manneskja sem yrði best undirbúin fyrir það að vera forseti og yrði betri en forverar hennar, þar með taldir hann sjálfur og Bill, eiginmaður hennar. Ræðan var ein af þeim betri sem Obama hefur flutt. Hann sótti enn og aftur í smiðju Martin Luther King og fór fimlega á milli þess að vera að tala beint til fólks og þess að flétta inn sterkri og uppörvandi framtíðarsýn sinni fyrir land og þjóð. Þegar ræðunni lauk kom Hillary á sviðið og þau féllust í faðma og veifuðu fólkinu glaðlega.
Þegar Obama hafði lokið máli sínu og fólkið týndist út úr höllinni rakst ég á sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Geir H. Haarde, en hann var, eins og fjöldi annarra erlendra boðsgesta, mættur til að fylgjast með.
Í höllinni dundi nýtt lag kosningabaráttunnar, Our Fight Song, sem skartar fjölda stórstjarna á borð við Jane Fonda og Evu Longoria. Það var erfitt að hrífast ekki með stemningunni sem hafði myndast í höllinni.
Dagur 4: Kona verður forsetaframbjóðandi Demókrata
Á fimmtudagsmorgninum sat ég ein yfir kaffibollanum mínum í borginni, þar sem vinir mínir frá Kaliforníu voru á bak og burt. Leigubílsstjórinn sem keyrði mig í ráðstefnuhöllina sagði mér að hann ætlaði að hlusta vel á ræðu Hillary og ákveða svo hvort hann myndi kjósa hana eða Trump. Þegar ég spurði hvað það væri sem honum líkaði við Trump var hann fljótur að svara: „Maðurinn er kannski asni, en hann segir þó satt. Hinir ljúga allir.“
Áður en ég hélt inn í höllina á fjórða degi fór ég á „pop-up-blaðamannafund“ með helsta ráðgjafa Clinton í utanríkismálum. Fundurinn var haldinn sérstaklega fyrir erlendu pressuna. Greinilegt var að hann var þarna kominn til að sýna hversu hættulegur Trump væri fyrir samstarf Bandaríkjanna við aðrar þjóðir, ekki síst NATO-þjóðirnar. Fjölmargar góðar spurningar brunnu á fjölmiðlamönnum en svörin voru innihaldslítil og ráðgjafinn fór stöðugt aftur í punktana sína. Blaðamaður frá Tyrklandi spurði um viðbrögð kosningabaráttu Hillary við þeim atburðum sem væru að gerast þar eftir misheppnaða valdaránstilraun. Tyrkland þjónar afar mikilvægri stöðu í samstarfi þjóðanna gegn ISIS hryðjuverkasamtökunum og líklegt er að fáar þjóðir fari harkalega fram gegn Erdogan á meðan svo er. Svör ráðgjafans voru loðin og svöruðu litlu sem engu, sem er í takt við viðbrögð Obama-stjórnarinnar. Þetta er gott dæmi um það sem koma skal: Hillary mun spila fram mjög raunsærri utanríkisstefnu þar sem hagsmunir er vegnir og metnir með langtímasjónarmið að markmiði. Fyrir þetta hefur hún verið gagnrýnd harkalega, en líka mærð.
Upptakturinn fyrir forsetaframbjóðandann á fjórða degi var ekki af verri endanum og ræðumennirnir voru hver öðrum mælskari: Kareem Abdul - Jabbar, fyrrverandi körfuboltastjarna, átti án efa fyndustu setningu kvöldsins. Hann sagðist heita Michael Jordan og væri í liði með Clinton, og bætti við að hann væri að kynna sig með þeim hætti þar sem hann vissi að Trump myndi ekki þekkja þá í sundur.
Foreldrar múslimsks hermanns sem lést í Afganistan mættu síðan á sviðið. Faðirinn, Khizr Khan, hélt tilfinningaþrungna ræðu þar sem hann réðst að Trump í ljósi þess að hann sagðist ætla að banna múslimum að ferðast til Bandaríkjanna og halda lista yfir alla múslima í landinu. Khan dásamaði Bandaríkin og minnti á að múslimar væru stór hluti þjóðarinnar, sem margir, þar á meðal sonur hans, væru tilbúnir að láta lífið fyrir. Við lok ræðunnar tók Khan upp stjórnarskrá landsins og talaði beint til Trumps og spurði hvort hann hefði lesið hana. Næstu daga hjólaði Trump í Khan á Twitter og hefur enn önnur alda af hneykslan riðið yfir fjölmiðla í kjölfarið.
Einkadóttir þeirra Clinton-hjóna, Chelsea Clinton, hélt ræðu um móður sína og kynnti hana síðan á svið. Ræðan var einlæg og falleg, hún var líka lýsandi fyrir þann karakter sem Hillary hefur að geyma ef marka má alla þá ræðumenn sem undan komu. Svo var komið að forsetaframbjóðandanum sjálfum: Hillary Rodham Clinton. Hún var klædd í hvíta buxnadragt, sem þótti táknrænt þar sem suffragetturnar í Bandaríkjunum klæddust hvítu í sinni baráttu. Óstaðfestar fréttir herma að það sé engin önnur en Vogue-drottningin Anna Wintour sem á heiðurinn af því að velja klæðnað fyrir Hillary.
Ræða Hillary var lík þeim ræðum sem hún hefur flutt á kosningafundum síðastliðið ár. Hún var þó dýpri og að mörgu leiti vinstrisinnaðari. En það sem var ólíkt með þessari ræðu og ræðum annarra forsetaframbjóðenda hingað til í stóru flokkunum, var að hún var um konu sem hefur upplifað lífið á ólíkan hátt en forverar hennar. Clinton talaði um líf móður sinnar sem barn en hún var vanrækt af foreldrum sínum frá unga aldri, og hvernig það mótaði móður hennar og hvernig hún hafi stappað í hana stálinu. Móðir Clinton hvatti hana til að gefast ekki upp fyrir þeim sem leggja aðra í einelti heldur standa upp gegn þeim. Clinton vísaði þar óbeint í næstu mánuði kosningabaráttu hennar þar sem hún mun fást við Donald Trump, sem demókratar hafa óhikað kallað eineltissegg.
Hillary ræddi líka hvernig það hefði mótað sig að vera í Hvíta Húsinu við hlið eiginmanns síns og hvað það væri sem drifi hana á fætur á morgnana. Engar stórar pólitískar sprengjur mátti finna í ræðu hennar, en ef ræðan er borin saman við upphafsræður hennar í kosningabaráttunni má finna töluverðar breytingar. Þær breytingar má rekja til þrýstings frá samkeppninni sem hún hlaut frá Bernie Sanders og þeim samningaviðræðum sem hans fólk hefur átt við Clinton síðustu vikur um að breyta stefnunni. En það mátti líka skynja sterka og ákveðna stefnu í öryggis og varnarmálum. Clinton talaði um mikilvægi þess að herða vopnalöggjöfina en sagðist þó ekki ætla að taka vopnin af þjóðinni heldur aðeins koma í veg fyrir að þeir sem ekki ættu að hafa vopn -sem gætu skaðað aðra - fengi þau ekki. Í ræðunni voru líka hin klassísku trúarstef eins er mikilvægt að hafa með í ræðum sem þessum til að höfða til þess stóra hóps kjósenda sem er mjög trúaður í Bandaríkjunum. Hún sagðist lifa eftir þeim gildum sem Meþódistatrúin hefði kennt henni: „Do all the good you can, for all the people you can, in all the ways you can, as long as you ever can.“
Ræðan var öllu jákvæðari en þær sem fluttar voru hjá repúblikönum í vikunni áður. New York Times bar ræðurnar saman og hægt er að sjá svart á hvítu hversu ólík stefin í ræðunum voru.
Þegar Clinton þakkaði fulltrúum á þinginu fyrir útnefninguna og sagðist þiggja hana með þökkum, var tilfinningahitinn í höllinni mikill og eins og Bandaríkjamönnum einum er lagið. Enginn var feiminn við að sýna tilfinningar sínar. Það var svo við lok ræðunnar sem allt ætlaði um koll að keyra þegar, flugeldar sprungu við sviðið, konfettí rigndi niður í tonnatali og hundrað þúsund blöðrum var sleppt yfir ráðstefnugesti. Undir þetta dundi svo kosningalagið í botni. Nýr kafli í kvennasögu Bandaríkjanna var skrifaður - fyrsti kvenkyns forsetaframbjóðandinn í stórum flokki var kominn fram og það er sannarlega tilefni til að sleppa nokkrum blöðrum.
Eftir stendur stóra spurningin: Mun Hillary sigra Trump? Verða frekari lekar af hálfu Wikileaks, sem þeir hafa boðað og sem FBI hefur rakið til rússneskra hakkara, til þess fallnir að eyðileggja kosningabaráttu hennar? Mun hún þrátt fyrir þá halda velli? Eða verður Bandaríkjunum stjórnað af Donald Trump næstu fjögur árin? Hvað í ósköpunum mun þá gerast?
Tíminn einn mun leiða það í ljós. Eftir rússíbanareið síðustu tveggja vikna þótti mér skynsamlegast að skella mér í Frank Underwood stuttermabolinn minn og leggjast til hvílu.