Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist hafa eytt hverjum degi í nokkrar vikur í það að reyna að afla allra gagna og skila öllum upplýsingum um félagið Wintris og „skýra málið sem að var í rauninni í eðli sínu mjög einfalt. Svo sér maður að það skipti engu máli, það var búið að skrifa eitthvað handrit, undirbúa það í sjö mánuði í mörgum löndum, eins og kom síðar fram og margt sérkennilegt í þeirri sögu allri,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.
Hann sagði að málið hafi haft áhrif á hann og fjölskyldu hans. „Ég tala nú ekki um þegar maður upplifir það að þetta snérist ósköp lítið um staðreyndir mála.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð ýjar að því að Panamaskjölin og umfjöllun um þau hafi verið einhvers konar samsæri gegn honum. Í síðustu viku sakaði hann bandaríska auðmanninn George Soros um að standa að baki því, hann hafi keypt Panamaskjölin og notað þau að vild.
Ítrekað spurt um hugsanlegar eignir erlendis
Wintris-málið komst fyrst í hámæli þegar Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, skrifaði um félagið á Facebook-síðu sinni í mars. Það gerði hún að eigin sögn vegna þess að umræða væri farin af stað um eignir hennar. Þetta var fjórum dögum eftir að Sigmundur Davíð hafði mætt í viðtal til sænska ríkisútvarpsins þar sem hann var spurður um félagið Wintris. Í viðtalinu svaraði hann ekki spurningum um félagið rétt og gekk síðan út úr viðtalinu. Ekki kom hins vegar fram í máli Önnu að þetta væri tilefnið.
Áður en málið komst í fjölmiðla hafði Kjarninn ítrekað beint fyrirspurnum til Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eða fjölskyldur þeirra, eigi eignir erlendis. Hinn 15. mars 2015, rúmu ári fyrir Wintris-málið, voru fyrirspurnir sendar til upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem fyrrnefnd fyrirspurn var borin upp.
Sá sem svaraði fyrir hönd forsætisráðuneytisins, var Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri. Hann neitaði að svara fyrirspurninni, og sagði það ekki í verkahring forsætisráðuneytisins að gera það, og lög krefðust þess ekki.
Fyrirspurnin var ítrekuð í nokkur skipti, eftir að eftirgrennslan ritstjórnar benti til þess að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ættu hugsanlega eignir erlendis, sem hvergi hefði verið greint frá. Fyrirspurnir Kjarnans báru ekki árangur.
Upplýsti ekki um skattamál eða kröfur á banka
Í tilkynningunni var ekki upplýst um það að Wintris væri skráð á Bresku jómfrúareyjunum, nánar tiltekið Tortóla, heldur greindu fjölmiðlar frá því eftir eftirgrennslan. Þá voru það einnig fjölmiðlar sem greindu frá því, en ekki Sigmundur eða Anna, að þau hefðu stigið fram vegna þess að fjölmiðlar, sem höfðu Panamaskjölin undir höndum, höfðu spurt þau spurninga um málið. Fjölmiðlar greindu einnig frá því eftir að upphaflega tilkynningin kom fram.
Ekki var heldur greint frá því að félagið Wintris hafi átt kröfur í slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans upp á rúmlega 500 milljónir króna.
Kjarninn reyndi ítrekað að fá upplýsingar um það hvort hjónin hafi skilað sérstöku CFC framtali vegna félagsins, eins og lög gera ráð fyrir og kveða á um að gert sé þegar fólk á félög á lágskattasvæðum. Í maí kom svo í ljós að svo hafði ekki verið, þegar Sigmundur skrifaði bloggfærslu um málið þar sem hann viðurkenndi að skattskilin hafi ekki verið í samræmi við CFC reglurnar.
Þá óskaði Kjarninn einnig eftir upplýsingum um það hvenær skuldabréf hefðu verið keypt og hvað hefði verið greitt fyrir bréfin. Fyrirspurn þess efnis var send 27. júní síðastliðinn. Svar barst frá Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs tæpum mánuði eftir að fyrirspurnin var send. Svarið var að Sigmundur Davíð myndi ekki upplýsa um það hvenær félagið keypti skuldabréf útgefin af föllnu bönkunum.