Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti (VSK) jukust um 15,8 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins og námu 90,2 milljörðum króna. Í fyrra námu VSK-tekjur ríkissjóðs á sama tímabili (janúar-júní) 77,8 milljörðum króna, og á sama tímabili árið 2014 ríflega 72 milljörðum. Aukningin nemur því ríflega 20 prósentum á tveimur árum.
Stærsti tekjuliðurinn
Það er óhætt að segja að það muni um minna hjá ríkissjóði, þegar VSK er annars vegar, enda er hann stærsti einstaki tekjuliður ríkissjóðs í skattkerfinu. Tekjuskattur einstaklinga skilaði ríflega 79 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 65 milljarða á sama tímabili í fyrra.
Batnandi staða
Handbært fé frá rekstri batnaði verulega á milli ára og var jákvætt um 37,9 milljörðum króna samanborið við neikvætt handbært fé upp á 30,3 milljarða króna 2015, að því er fram kemur í samantekt um tekjuafkomu ríkissjóðs.
Þetta skýrist að stærstum hluta með tekjum af stöðuleikaframlögum, vegna uppgjöra slitabúa föllnu bankanna, á árinu 2016 sem námu 68 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Handbært fé lækkar um 79,5 ma.kr. samanborið við lækkun um 37,1 milljörðum króna á árinu 2015 sem skýrist að stærstum hluta af afborgunum lána sem námu 124,9 milljörðum króna á tímabilinu.
Skuldastaða ríkissjóðs hefur batnað verulega á skömmum tíma en á fimm árum hafa skuldir ríkisins lækkað um 500 milljarða króna, en þær nema nú ríflega 1.200 milljörðum króna. Til samanburðar er árleg landframleiðsla Íslands metin á meira en 2.000 milljarða króna.
Hvað ef VSK færi að hluta til sveitarfélaga?
Líklegt má telja að mikill uppgangur í ferðaþjónustu muni skila ríkinu töluverði aukningu í VSK-tekjum, enda er sá skattur næmur fyrir veltuaukningu í hagkerfinu, þar sem hann leggst á vöru- og þjónustuviðskipti. Gert er ráð fyrir að 1,7 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins á þessu ári en spár gera ráð fyrir að fjöldinn fari yfir 2,2 milljónir á næsta ári. Til samanburðar má nefna þá komu 454 þúsund ferðamanna til landsins árið 2010 og hefur vöxturinn verið hraður og mikill í ýmsum ferðaþjónustutengdum fyrirtækjum.
Sveitarfélög hafa sum hver kvartað undan því að fá ekki nægilega miklar tekjur af vaxandi umsvifum í ferðaþjónustu, og hefur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, oftar en einu sinni rætt um nauðsyn þess að tryggja sveitarfélögum hlutdeild í vaxandi tekjum af ferðaþjónustunni.
Sé sérstaklega horft til VSK í þessu samhengi, gætu sveitarfélög fengið til sín umtalsvert miklar tekjur, en allt fer það þó eftir því hversu mikil hlutdeildin yrði, ef til þess kæmi, og hvernig útfærslan yrði.
Sé miðað við tölur frá því í fyrra, þá myndi fimm prósent hlutdeild sveitarfélaga í heildartekjum af VSK skila þeim ríflega átta milljörðum króna.
Góðar ytri aðstæður
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur talað fyrir því að allar forsendur séu núna fyrir kröftugu hagvaxtarskeiði og batnandi stöðu efnahagsmála. Atvinnuleysi mældist 2,3 prósent í júní og hagvöxtur í fyrra var fjögur prósent. Þá hefur verðbólga haldist í meira en tvö ár undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði, en hún mælist nú 1,1 prósent. Það eina sem heldur lífi í verðbólgunni er mikil og hröð hækkun fasteignaverðs, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Meginvextir Seðlabanka Íslands eru þó ennþá í hæstu hæðum, í alþjóðlegum samanburði, og eru nú 5,75 prósent. Raunvextir eru því tæplega fimm prósent.
Þessi misserin er helsta hættan í hagkerfinu talin vera ofris krónunnar, og ofþensla. Krónan hefur styrkst umtalsvert gagnvart helstu viðskiptamyntum að undanförnu, eða um tæplega 10 prósent gagnvart evru, 25 prósent gagnvart pundinu og rúmlega 9 prósent gagnvart Bandaríkjadal.