Íslenska ríkið mun auka fjárfestingu sína til muna á næstu fimm árum. Alls verður fjárfest fyrir nálægt 170 milljörðum króna á tímabilinu og árleg upphæð sem notuð verður í fjárfestingar mun hækka umtalsvert strax á næsta ári. Á tímabilinu nemur aukin fjárfesting, miðað við núverandi umfang fjárfestinga, tugum milljarða króna. Peninganna á meðal annars að nota í nýtt sjúkrahús, hjúkrunarheimili, Vestmannaeyjaferju, ný jarðgöng og ýmis konar nýjar stjórnsýslubyggingar. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um fjármálaáætlun áranna 2017-2021.
Alls óljóst er reyndar hvort að stuðst verði við þær áherslur sem settar eru fram í áætluninni. Kosningar hafa verið boðaðar 29. október næstkomandi og tilkynnt hefur verið að fjárlagafrumvarp næsta árs verði ekki lagt fram fyrr en að þeim loknum. Komist nýir flokkar, með aðrar áherslur, til valda munu án efa verðar gerðar umtalsverðar breytingar á ráðstöfun fjármuna. Það gerðist eftir síðustu kosningar þegar fjárfestingaáætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir fyrir árin 2013-2015, sem lögð hafi verið fram nokkrum mánuðum fyrir kosningar, var ýtt með öllu til hliðar þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við stjórnartaumunum.
Mörg hundruð milljarðar í fjárfestingu
Samkvæmt fimm ára áætluninni sem nú er unnið með á að ráðast í víðfermar fjárfestingar á vegum hins opinberra á tímabilinu. Hún gerir ráð fyrir því að 1,3 prósent af landsframleiðslu fari í slíkar á næsta ári en að það hlutverk verði hækkað í 1,5 prósent á árunum 2019-2021.
Til að setja þessar tölur í samhengi þá er áætluð verg landsframleiðsla í ár 2.158 milljarðar króna. Á næsta ári er áætlað hún verði 2.233 milljarðar króna. Það hlutfall af henni sem áætlað að fari í opinberar fjárfestingar er því 29 milljarðar króna. Árið 2019 ætti sú upphæð að hækka upp í 34,4 milljarða króna og í lok áætlunarinnar, á árinu 2021, ætti hún að vera 37,4 milljarðar króna ef miðað er við þjóðhagspá Hagstofu Íslands um breytingar á landsframleiðslu næstu árin. Samtals nemur fjárfesting ríkissjóðs á þessu fimm ára tímabili, samkvæmt áætluninni, á bilinu 165-170 milljörðum króna.
Um er að ræða umtalsverða hækkun á fyrri áætlunum, sem gerðu ráð fyrir að fjárfestingastig ríkisins myndi haldast í þeim 1,2 prósentum af landsframleiðslu sem það er í nú.
Í nefndarálitinu segir að markmiðið með því að hækka fjárfestingarstig ríkisins feli í sér „að hægt verður að ráðast í margvíslegar framkvæmdir sem sumar hafa verið í biðstöðu frá bankahruninu. Þar má nefna byggingaframkvæmdir við nýjan Landspítala, smíði nýrrar Vestamannaeyjaferju, framkvæmdir við Dýrafjarðargöng, byggingu þriggja nýrra hjúkrunarheimila, byggingu Húss íslenskra fræða og byggingu skrifstofuhúsnæðis bæði fyrir Alþingi og Stjórnarráðið.
Fjölmörg önnur verkefni sem dregið var úr eftir hrun komast á áætlun núna. Nefna má viðamikinn húsnæðisstuðning með stofnframlögum til uppbyggingar á leiguíbúðum og nýju húsnæðisbótakerfi. Auk þess er ætlunin að fjárhæðir og frítekjumörk vaxtabóta verði hækkuð árlega í samræmi við auknar tekjur heimila. Þá er til skoðunar sérstakur stuðningur við þá sem kaupa íbúð í fyrsta sinn.“
Vilja einfalda skattkerfið
Í álitinu er einnig hugað að ýmsu öðru en fjárfestingum hins opinbera. Þar er meðal annars fjallað um sértæka skatta sem lagðir eru á tvo atvinnuvegi á Íslandi: sjávarútveg og fjármálafyrirtæki. Sjávarútvegnum hefur um nokkurt skeið verið gert að greiða veiðigjöld fyrir afnot sín að fiskveiðiauðlindinni. Þau gjöld hafa lækkað mjög á undanförnum árum. Á næsta fiskveiðiári er til að mynda áætlað að þau verði 4,8 milljarðar króna, eða átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013. Á sama tíma hefur sjávarútvegur upplifað sitt mesta góðærðistímabil. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst um 265 milljarða króna frá lokum 2008 og út árið 2014. Hagnaður þeirra var 242 milljarðar króna á tímabilinu og arðgreiðslur til eigenda tæplega 50 milljarðar króna.
Fjármálafyrirtæki hafa þurft að greiða ýmiskonar viðbótarskatta á undanförnum árum. Viðskiptabankar þurfa að greiða bankaskatt og sérstakan fjársýsluskatt. Efnahagssvið Samtaka atvinnulifsins áætlaði að greiðsla þeirra hafi verið ígildi um 15 prósent af þeim vaxtamun sem bankarnir innheimtu árið 2014. Þessum viðbótarkostnaði er velt út á útlán bankanna. Með öðrum orðum er almenningur að borga bankaskattinn með verri vaxtakjörum.
Þessu er nefndin sammála og segir að álögur á bankastofnanir muni „ til lengri tíma litið koma fram í auknum vaxtamun sem viðskiptavinirnir bera og minni samkeppnishæfni miðað við erlenda keppinauta. Meiri hlutinn telur efni standa til að árétta einkenni góðra skattkerfa sem leiðarljóss fyrir stjórnvöld við útfærslu á fjármálaáætlun og fjármálastefnu.“
Vilja einkavæða Keflavíkurflugvöll
Meirihlutinn víkur að mikilvægi þess að forgangsraða upp á nýtt í fjárfestingum ríkisins vegna vaxtar ferðaþjónustunnar, sem er nú orðin 34 prósent af útflutningstekjum þjóðarbúsins, en það hlutfall hefur hækkað úr 18 prósentum árið 2010. Nú má rekja eitt af hverjum þremur störfum sem skapast hafa í hagkerfinu frá því ári beint til ferðaþjónustu og eru þá ótalin öll afleidd störf, svo sem í afþreyingu, smásölu og annarri þjónustu. Um þessar mundir er áætlað að einn af hverjum tíu starfandi einstaklingum vinni í ferðaþjónustu eða tengdum greinum.
Meirihluti fjárlaganefndar vill því auka fjármagn til samgöngumála og innviðauppbyggingar, en hægja á byggingu á skrifstofuhúsnæði fyrir Stjórnarráð Íslands og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu á móti.
Á meðal þeirra fjárfestinga í innviðum ferðaþjónustu sem fjallað er sérstaklega um í nefndarálitinu er uppbygging flugvallarmannvirkja í Keflavík. Meirihluti fjárlaganefndar telur að huga eigi að því að fá einkaaðila til að taka þátt í fjármögnun hennar.
Á næstu árum er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll muni kosta á bilinu 70 til 90 milljarða króna og að flugvöllurinn geti tekið við um 14 milljónum farþega eftir þær ef álag dreifist á sama hátt og það gerist nú. Meirihlutinn telur það „umhugsunarefni að á síðustu sex árum hefur þeim flugvöllum í Evrópu sem eru í blandaðri eigu ríkis og einkaaðila eða alfarið í eigu einkaðila fjölgað hlutfallslega úr 23% í 55%. Nú fara 80% flugfarþega til og frá Evrópu og innan Evrópu um slíka flugvelli. Á sama tíma ætlar íslenska ríkið að fjármagna og taka áhættuna alfarið af þessum stóru framkvæmdum. Meiri hlutinn telur að huga beri að nýjum fjármögnunarleiðum við fyrirhugaða uppbyggingu flugvallarmannvirkja í Keflavík.“