„Nýjar tölur sýna að Íslendingar
erlendis eru aftur farnir að sjá tækifæri á Íslandi og séu að
koma heim. Sjaldgæft er að aðfluttir Íslendingar séu fleiri en
brottfluttir en nú er útlit fyrir að þetta ár verði það
þriðja af síðustu sautján árum þar sem fleiri íslenskir
ríkisborgarar flytja til landsins en frá því.“
Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins í ræðu sinni um stöðu þjóðmála á Alþingi í dag. Í ljósi þess að mikil umræða hefur verið um þróun brottfluttra og aðfluttra Íslendinga ákvað Kjarninn að kanna þessa fullyrðingu Sigurðar Inga frekar. Niðurstaðan er sú að Sigurður Ingi er heldur fljótfær í ályktun sinni um að nú muni þróunin snúast við og fleiri flytja heim en burt.
Sigurður Ingi talar um nýjar tölur, og vissulega er það rétt að samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar fyrir annan ársfjórðung ársins 2016 fluttust 150 fleiri íslenskir ríkisborgarar til Íslands en fluttu burt. Á fyrsta ársfjórðungi voru brottfluttir hins vegar 110 umfram aðflutta, sem gerir að verkum að fyrir fyrri helming ársins 2016 hafa 40 einstaklingar flutt til landsins umfram þá sem flutt hafa burt. Í samhengi við undanfarin ár er það mjög lítið, auk þess sem fólksflutningar frá landinu hafa iðulega verið meiri á seinni hluta árs.
Fólk flytur burt í góðærinu
Það vakti mikla athygli undir lok síðasta árs þegar Morgunblaðið greindi frá því að útlit væri fyrir að árið yrði eitt mesta brottflutningsár íslenskra ríkisborgara á síðari tímum. Þá höfðu 1.130 fleiri flutt frá landinu en til þess, og þessi tala endaði í 1.265. 1.265 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu burt en fluttu heim í fyrra.
Samkvæmt gagnagrunni Hagstofunnar höfðu brottfluttir umfram aðflutta aðeins verið marktækt fleiri í fimm skipti síðan árið 1961, en það var alltaf í kjölfar kreppuára á Íslandi. Sú er ekki raunin núna. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, velti því upp að eitthvað djúpstæðara væri á ferðinni núna en kreppuflutningar, og að vísbendingar væru um að margt háskólafólk flytti úr landi.
Hagstofan spáir áframhaldi næstu 50 árin
Og samkvæmt Hagstofunni, sem heldur utan um öll þessi gögn, er ekki neitt útlit fyrir að þessi þróun muni breytast. Því er þvert á móti spáð í mannfjöldaspá Hagstofunnar fyrir árin 2016 til 2065 að „íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“ Því er spáð að að meðaltali verði um 850 íslenskir ríkisborgarar brottfluttir en aðfluttir á hverju ári.
Fjöldi aðfluttra umfram brottflutta verður hins vegar meiri áfram, en það er fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda.
Þannig að það er heldur snemmt að spá því að fleiri Íslendingar muni flytja til landsins en frá því á árinu 2016.