40 til 75 prósent allra lántakenda munu áfram geta tekið 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, svokölluð Íslandslán, þó að frumvarp ríkisstjórnarinnar um verðtrygginguna verði að lögum. Þetta er vegna undantekninga sem settar eru fram í lagafrumvarpinu, sem búið er að leggja fram á Alþingi.
Samkvæmt frumvarpinu verður óheimilt að veita neytendalán til lengri tíma en 25 ára sé það verðtryggt og með jafngreiðslufyrirkomulagi. Þó eru gerðar undantekningar um þessa „almennu reglu“ eins og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra kallaði breytinguna á blaðamannafundi hans og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í gær. Búið var að boða að frumvarp yrði lagt fram í þessari viku þar sem dregið yrði verulega úr vægi verðtryggingar. Í kynningunni í Hörpu var því haldið fram að um væri að ræða fyrsta alvarlega skrefið sem stigið væri í þá átt frá því að verðtrygging hafi verið sett á árið 1979. Það er hins vegar erfitt að halda því fram að þetta frumvarp muni draga verulega úr vægi verðtryggingar, ef allt að 75 prósent munu enn geta tekið sömu lánin.
Meirihlutinn getur fallið undir undantekningu
Undantekningarnar sem settar eru fram í frumvarpinu eru þannig að ef lántakendur eru yngri en 35 ára mega þeir áfram taka allt að 40 ára lán. Ef þeir eru 35-39 ára mega þeir taka allt að 35 ára lán, og ef lántakendur eru 40-44 ára mega þeir taka allt að 30 ára lán. Ef fleiri en einn lántakandi er að láninu þarf allavega einn þeirra að uppfylla þessi skilyrði.
Þá má fólk áfram taka 40 ára jafngreiðslulánin ef skattskyldar tekjur þess nema 3,5 milljónum króna eða minna hjá einstaklingi eða samanlagt sex milljónum króna þegar lántakendur eru fleiri. Og að lokum má fólk sem er með 50% eða lægra veðsetningarhlutfall áfram fá að taka 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að 70 milljarðar af þeim 90 milljörðum króna sem sem Íslendingar tóku í fyrra í verðtryggðum húsnæðislánum eru jafngreiðslulán til 40 ára, lánin sem nú stendur til að banna sumum að taka.
„Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um aldur lántaka við töku íbúðalána, veðsetningarhlutfall og tekjur má gera ráð fyrir að um 30–50% lántakenda falli undir undanþágu frumvarpsins um aldur, 5–10% vegna tekna og 5–15% vegna veðsetningar.“ Sem sagt, allt frá 40 til 75 prósent lántakenda munu ekki falla undir „almennu regluna“ um að lán verði ekki veitt nema til 25 ára.
„Miðað við lánveitingar á árinu 2015 má gera ráð fyrir að um 20–30 milljarðar kr. af nýjum veittum lánum hefðu á því ári fallið undir ákvæði frumvarpsins eða um 1.000 til 1.500 manns,“ segir jafnframt í greinargerðinni.