Þegar útfærsla Leiðréttingarinnar var kynnt í Hörpu í mars 2014 var sagt að aðgerðin myndi leiða til þess að húsnæðislán Íslendinga myndu lækka um 150 milljarða króna. Þar af áttu 80 milljarðar króna að koma í beinar niðurgreiðslu úr ríkissjóði á höfuðstól húsnæðislána þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 og höfðu ekki fullnýtt önnur skuldaúrræði. 70 milljarðar króna áttu hins vegar að koma í formi þess að Íslendingar myndu nota séreignarlífeyrissparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán.
Þetta átti að gerast á þremur árum, frá miðju ári 2014 og fram á mitt næsta ár. Nú þegar ⅔ hluti þess tímabils er liðin hafa leiðréttingapeningarnir úr ríkissjóði sannarlega verið greiddir út. En nýting á séreignarsparnaði til að greiða niður húsnæðislán er langt frá því sem hún átti að vera.
Íslendingar hafa notað 24 milljarða
Íslendingar hafa samtals greitt séreignarsparnað upp á 23,3 milljarða króna inn á húsnæðislán sín frá miðju ári 2014 og fram til júlímánaðar 2016. Til viðbótar hafa 520 milljónir króna af séreignarsparnaði verið notaðar sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Þeir sem notfæra sér þá leið hafa reyndar til 30. júní 2019 til að nýta séreignarsparnað sinn í fyrsta fasteign en miðað við þátttöku í leiðinni hingað til er ljóst að ekki er um mjög stóran hóp að ræða.
Ríkið og sveitarfélög hafa veitt þeim hópi sem þetta hefur gert samtals 9,2 milljarða króna í skattaafslátt. Samkvæmt grófu mati hefur séreignarsparnaði verið ráðstafað inn á um 37 þúsund lán. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Því er verulega ólíklegt er að áætlun stjórnvalda, um að 70 milljarðar króna af séreignarsparnaði fari til niðurgreiðslu húsnæðislána fyrir mitt næsta ár, gangi eftir. Sú tala stendur nú, þegar ⅔ hluti tímabilsins er liðinn, í 23,8 milljörðum króna. Til að áætlun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að heildaráhrif Leiðréttingarinnar verði 150 milljarðar króna um mitt næsta ár gangi eftir þurfa Íslendingar að ráðstafa 46,2 milljörðum króna inn á húsnæðislán sín næsta árið.
Miðað við vilja Íslendinga til að nýta sér úrræðið er mun líklegra að heildarumfang þeirrar upphæðar séreignasparnaðar sem ráðstafað verður inn á húsnæðislán fram á mitt ár 2017 verði um 35 milljarðar króna, eða helmingur þeirrar upphæðar sem ríkisstjórnin bjóst við að myndi verða greidd þangað.
Skattaafsláttur verið 9,2 milljarðar
Kostnaður íslenska ríkisins og sveitarfélaga vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar átti að vera um 20 milljarða króna. Þ.e. hið opinbera ætlaði að gefa eftir skatt sem annars hefði verið lagður á útgreiðslu séreignasparnaðar upp á þá upphæð gegn því að séreignin yrði notuð í að borga niður húsnæðislán. Þannig átti hið opinbera óbeint að greiða 20 milljarða króna inn á húsnæðislánin með því að gefa eftir framtíðarskatttekjur af séreignarsparnaði.
Á fyrstu tveimur árunum sem heimildin var í gildi hefur sú upphæð sem ríkið og sveitafélög hafa gefið eftir hins vegar verið mun lægri. Samtals er reiknaður tekjuskattur af þeim séreignarsparnaði sem greiddur hefur verið inn á húsnæðislán um 5,6 milljarðar króna og reiknað útsvar 3,4 milljarðar króna. Við það bætist að ríkið hefur gefið eftir skatttekjur upp á 124,7 milljónir króna vegna séreignarsparnaðar sem notaður hefur verið sem útborgun á íbúð og sveitarfélög hafa gefið eftir samtals 75,4 milljónir króna af útsvarstekjum sínum. Því hefur hið opinbera samtals veitt um 9,2 milljarða króna í skattafríðindi vegna nýtingar á séreignarsparnaðarleið Leiðréttingarinnar þegar ⅔ hluti af gildistíma hennar er liðinn. Því blasir við að öll líkindi standa til þess að hið opinbera muni ekki greiða jafn mikið og það sagðist ætla að gera vegna þessarar leiðar í formi skattaafsláttar.
Fyrstu fasteignakaupendur fá að nota séreign líka
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra kynntu áætlun ríkisstjórnar sinnar fyrir fyrstu fasteignakaupendur í Hörpu í gær. Hún snýst í grófum dráttum um að leyfa þeim sem eru að kaupa fyrstu fasteign að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður lán, nota sem útborgun eða lækka afborganir í tíu ár. Ríkið ætlar á móti að sleppa því að skattleggja séreign fólksins sem nýtir sér leiðina. Í kynningunni var sagt að heildaráhrif hennar yrðu 50 milljarðar króna. Þar af áttu 15 milljarðar króna að vera vegna skattaafslátts hins opinbera, en þær tölur miða við að 14 þúsund manns nýti sér úrræðið strax á næsta ári og svo bætist við tvö þúsund manns á hverju ári næstu tíu árin.
Miðað við reynsluna sem er af nýtingu séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána gætu þær tölur verið heldur ofáætlaðar.
Samhliða áætlun fyrir fyrstu kaupendur fasteignar var tilkynnt að þeir þegar eigahúsnæði og eru að nota séreignarsparnaðinn sinn í þessum tilgangi, geti gert það tveimur árum lengur en upphaflega var lagt upp með, eða fram á mitt ár 2019.