Fjöldi þeirra sem nýtir sér nýja leið ríkisstjórnarinnar til að greiða séreignarsparnað inn á fyrstu íbúð, sem kallast „Fyrsta Fasteign“, gæti orðið allt niður í 4.300 manns. Umfang aðgerðanna yrði þá einungis 13 milljarðar króna og veittur afsláttur af skattgreiðslum um fimm milljarðar króna. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.
Í kynningunni sem ríkisstjórnin hélt á úrræðinu í Hörpu á mánudag kom fram að hún vænti þess að 14 þúsund manns myndu taka þátt í úrræðinu, að umfang aðgerðanna yrði um 50 milljarðar króna og að hið opinbera myndi gefa eftir 15 milljarða króna í framtíðarskatttekjur vegna þeirra.
Tekjuhærri miklu líklegri til að eiga séreignarsparnað
Fyrirtækið Analytica gerði greiningu um vænta nýtingu séreignarsparnaðar fyrir stjórnvöld þegar vinna við frumvarpið stóð yfir. Hún byggi á gögnum úr skattframtölum fyrir tekjuárið 2015 og var úrtakið miðað við launþegar sem voru með launatekjur en áttu ekki fasteign. Analytica framreiknaði svo launatekjurnar fram til ársins 2016 miðað við launabreytingar í staðgreiðslugögnum og flokkaði loks eftir hjúskaparstöðu, aldri meðallaunum og meðalfjárhæð sparnaðar í séreign og því hvort að viðkomandi væri að greiða í séreign eða ekki.
Í greinargerð frumvarpsins segir að meðaltekjur þeirra sem spara í séreign er umtalsvert hærri en hjá þeim sem gera það ekki. Námsmenn voru dregnir út úr úrtakinu þar sem þeir voru „almennt ekki taldir hafa sama fjárhagslegt svigrúm til sparnaðar.“
Því liggur fyrir, samkvæmt greiningunni, að þeir sem geta frekar nýtt sér séreignarleiðina sem kynnt var fyrir fyrstu fasteignarkaupendur eru þeir sem hafa hærri tekjur og eru þar með líklegri til að taka þátt í séreignarsparnaði.
Upphafin mynd af úrræði kynnt í Hörpu
Í kynningunni á aðgerðinni í Hörpu á mánudag var sagt að búist væri við að hún myndi skila 50 milljörðum króna í beinar inngreiðslur á íbúðalán af séreignarsparnaði næsta áratuginn. Áætlað tekjutap hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarfélaga, var sagt vera 1,5 milljarður króna á ári, eða 15 milljarðar króna á næsta áratug á meðan að úrræðið á að gilda. Þá var einnig sagt að búist væri við að 14 þúsund manns myndu taka þátt í úrræðinu á fyrstu árum þess og að um tvö þúsund nýir þátttakendur gætu bæst við á ári.
Í greinargerð frumvarps til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð kemur fram að greining Analytica hafi ekki sýnt stöðuna svona klippta og skorna.
Þátttaka gæti orðið mun minni
Þar segir að sé miðað við sviðsmyndir fyrirtækisins, sem byggja á fjölda fólks sem nú er á aldursbilinu 20-49 ára og á ekki fasteign (sá hópur er talinn líklegastur til að nýta sér séreignarsparnaðarúrræðið), megi búast við því að úrræðið gæti náð til 4.300 til 15.200 launþega og að þeir geti sparað árlega í séreign 1,3 til 5,2 milljarða króna. Það þýðir að inngreiðslur á íbúðalán af séreignarsparnaði næstu tíu árin verði á bilinu 13 til 52 milljarðar króna. Árlegt tekjutap ríkissjóðs og sveitarfélaga yrði þá á bilinu 500 milljónir króna til 2.000 milljónir króna, eða fimm til 20 milljarðar króna á tíu ára tímabili.
Ljóst er að ríkisstjórnin hefur því valið þær tölur sem sýndar voru í kynningunni á mánudag: 50 milljarða króna niðurgreiðslur á lánum, 14 þúsund manns sem myndu taka þátt og 15 milljarða króna skattaeftirgjöf hins opinbera, úr efri mörkum greiningar Analytica.
Ef neðstu mörk greiningarinnar yrðu að veruleika myndu nefnilega 4.300 manns nýta sér úrræðið, það myndi skila 13 milljörðum króna inngreiðslum á íbúðalán af séreignarsparnaði næsta áratuginn og skattaeftirgjöf hins opinbera yrði fimm milljarðar króna.
Leiðréttingin verður ekki 150 milljarðar
Þegar útfærsla Leiðréttingarinnar var kynnt í Hörpu í mars 2014 var sagt að aðgerðin myndi leiða til þess að húsnæðislán Íslendinga myndu lækka um 150 milljarða króna. Þar af áttu 80 milljarðar króna að koma í beinar niðurgreiðslu úr ríkissjóði á höfuðstól húsnæðislána þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 og höfðu ekki fullnýtt önnur skuldaúrræði. 70 milljarðar króna áttu hins vegar að koma í formi þess að Íslendingar myndu nota séreignarlífeyrissparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán. Þetta átti að gerast á þremur árum, frá miðju ári 2014 og fram á mitt næsta ár. Nú þegar ⅔ hluti þess tímabils er liðin hafa leiðréttingapeningarnir úr ríkissjóði sannarlega verið greiddir út. En nýting á séreignarsparnaði til að greiða niður húsnæðislán er langt frá því sem hún átti að vera.
Íslendingar hafa samtals greitt séreignarsparnað upp á 23,3 milljarða króna inn á húsnæðislán sín frá miðju ári 2014 og fram til júlímánaðar 2016. Til viðbótar hafa 520 milljónir króna af séreignarsparnaði verið notaðar sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Þeir sem notfæra sér þá leið hafa reyndar til 30. júní 2019 til að nýta séreignarsparnað sinn í fyrsta fasteign en miðað við þátttöku í leiðinni hingað til er ljóst að ekki er um mjög stóran hóp að ræða.
Ríkið og sveitarfélög hafa veitt þeim hópi sem þetta hefur gert samtals 9,2 milljarða króna í skattaafslátt. Samkvæmt grófu mati hefur séreignarsparnaði verið ráðstafað inn á um 37 þúsund lán. Því er verulega ólíklegt er að áætlun stjórnvalda, um að 70 milljarðar króna af séreignarsparnaði fari til niðurgreiðslu húsnæðislána fyrir mitt næsta ár, gangi eftir. Sú tala stendur nú, þegar ⅔ hluti tímabilsins er liðinn, í samtals 23,8 milljörðum króna.
Í ljósi þessa má ætla að nýting yngra fólks á úrræðinu sem kynnt var á mánudag geti orðið mun minni en gert var ráð fyrir í kynningu stjórnvalda á því.
Athugasemd frá Sigurði Má Jónssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, birt klukkan 16:53:
„Í frétt Kjarnans í dag er því haldið fram að í kynningu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um séreignarsparnað sl. mánudag hafi ríkisstjórnin valið þær tölur um vænta þátttöku í úrræðinu sem eru í efri mörkum tölfræðigreiningar. Þetta er rangt. Í kynningunni er notast við tölur úrgrunntilviki í töflu 1 í frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Í grunntilviki er vænt nýting þeirra launþega fyrir utan námsmenn sem ekki eiga fasteign 13.830 manns. Þátttökuhlutfallið í grunntilvikinu er 40% af þeim sem spara nú þegar í séreign og 38% af þeim sem spara ekki í séreign eins og fram kemur í frumvarpinu. Tölfræðigreiningin er byggð á skattframtölum og núverandi nýtingu séreignarsparnaðar. Grunntilvikið er metið það líklegasta en síðan eru reiknuð út frávik frá þessu grunntilviki. “